En þú býrð ekki í réttu póstnúmeri ...

Í frétt frá árinu 2008 er svo sagt frá:

Björk Guðmundsdóttir hvatti til sjálfstæðis Tíbets á tónleikum sem hún hélt í Sjanghæ í Kína á sunnudaginn.

Hvernig dirfist hún! Hún býr ekki einu sinni í Tíbet! Af hverju fer hún ekki til Tíbet og beitir þar kylfum á kínverska kúgara svæðisins! Kannski er Tíbet bara miklu betur statt en Björk Guðmundsdóttir gerir sér grein fyrir! Ef Tíbet er svona frábært svæði sem verðskuldar sjálfstæði af hverju flytur hún ekki bara þangað! Hvaða annarlegu ástæður liggja á bak við áhuga hennar á málefnum Tíbet! 

Í annarri frétt er svo sagt frá:

Bæði Björk og Andri gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir stóriðjustefnu hennar. Þá sögðu þau sæstrenginn vera fugl í hendi sem ástæðulaust væri að fórna fyrir fugl í skógi.

Fáheyrt! Býr hún ekki í London? Er hún ekki meira erlendis en á Íslandi? Ef hún vogar sér að segja eitthvað um upprunaland sitt, þar sem megnið af vinum hennar og fjölskyldu býr, þá skal hún gjöra svo vel að flytja til Íslands áður en hún tjáir sig! Skítt með að atvinnutækifærin og leitin að lífsreynslu hafi togað hana til London, til lengri eða skemmri tíma - hún á ekki að tjá sig um íslenska náttúruvernd úr húsi í London!

Ég segi svona.

Auðvitað má Björk Guðmundsdóttir hafa skoðanir á ástandinu í Tíbet og Íslandi og hverju sem er, og er sennilega búin að lesa sér til um það sem hún tjáir sig um og hefur ágætlega upplýsta afstöðu þótt fólki greini á um allt og ekkert.

En það er athyglisvert að sjá þá tegund gagnrýni á málflutning að viðkomandi sé með lögheimili og atvinnu á öðru svæði en það sem fjallað er um. Svona eins og það skipti máli. En það gerir það ekki. Íslendingar tjá sig um Donald Trump, ég tjái mig um íslensk stjórnmál, Íslendingar á Íslandi tjá sig um ESB og Björk tjáir sig um Tíbet. Gott mál, og vonandi lætur enginn segja sér annað.


Hugleiðingar hægrimanns

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. 

Þessi orð standa í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og svipuð orð má finna í flestum stjórnarskrám frjálslyndra lýðræðisríkja. Þegar orðin eru lesin ein og sér þá eru þau ávísun á frjálst samfélag óhefts tjáningarfrelsis (nema einhver nenni að draga þig fyrir dómstóla). Leigubílaakstur er frjáls. Matvöruverslanir selja áfengi. Auglýsendur lofa varning sinn og nota efstastig lýsingarorða til að lýsa honum. Áfengisauglýsingar finnast víðar en undir rós eða í erlendum tímaritum og útsendingum frá fótboltaleikjum í ensku deildinni. 

En stjórnarskráin er með varnagla. Tjáningar- og atvinnufrelsi má „setja skorður með lögum“ enda „krefjist almannahagsmunir þess“. Leigubílaakstur er því á höndum einokunarhrings, ríkið eitt selur áfengi og fer ekki leynt með það, auglýsingafé innlendra áfengisframleiðenda rennur úr landi og öllum er gert að nota í mesta lagi miðstig lýsingarorða í auglýsingum.

Þar fauk frelsið út um gluggann. Almannahagsmunir enda kröfðust þess.

En hvað með skatta? Má ríkið féfletta þig af handahófi? Nei. Stjórnarskráin er skýr: Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

Á þessu eru nú samt nokkrir brestir. Hvað gerist þegar þú hækkar í tekjum? Jú, skattheimtan eykst og hafir þú þegið einhverja aura í vaxtabætur, húsaleigubætur, barnabætur eða ellilífeyri þá er slíkt umsvifalaust skert. Tvöföld skattheimta! Ef húsnæði þitt hækkar í verði þá er hlutfallsútreikningur fasteignagjaldanna fljótur að breytast í aukna skattheimtu. Svona mætti lengi telja. Stjórnarskráin dugir hér jafnvel sem vörn gegn yfirgengilegri skattheimtu og fiskinet á lúsmý.

Ekki er svo að sjá að stjórnmálamenn séu að halda aftur af sér þegar ýmsar glufur stjórnarskrár og annarrar löggjafar eru misnotaðar til að auka völd hins opinbera. Götum er lokað með tilskipunum, fjölmiðlum er mútað með skattfé til að hlífa stjórnmálamönnum við óþægilegri gagnrýni, og þeir ritskoðaðir í nafni upplýsingaóreiðu þegar þeir reyna að bera á borða annað en hina einu sönnu skoðun. Bílar og bensín er skattlagt í himinhæðir til að fjármagna eitthvað allt annað en greiðfæra og holulausa vegi. Gæluverkefnin rúlla af færibandi þinghúss og ráðhúsa á meðan foreldrum með ungabörn er haldið í gíslingu svo mánuðum skiptur, aldraðir sitja fastir á göngum sjúkrahúsa og ónýtir liðir bíða hálfu og heilu árin eftir aðgerð sem tekur enga stund, eða eru sendir á einkasjúkrahús í Svíþjóð með tilheyrandi umstangi og óþægindum, og auðvitað kostnaði.

Tálmanir á atvinnu- og tjáningarfrelsi og yfirgengileg skattheimta í skiptum fyrir hvað? Velferðarkerfið? Heilbrigðisþjónustu? Menntakerfi? Vegi? Aldeilis ekki. Miklu frekar virðist öll hringekjan snúast um að blása í segl stjórnmálamanna sem gera góðverk sín á kostnað almennings og hljóta fyrir það endurkjör. 

Stjórnarskráin var ekki skrifuð til að gefa hinu opinbera óendanleg völd, jafnvel ekki í þágu allsherjarreglu. Hún var skrifuð til að halda aftur af ríkisvaldinu, á tímabili í sögu okkar þar sem menn mundu vel eftir einveldiskonungum miðalda og óttuðust völd ríkisvaldsins. 

En hvað er til ráða? Ekki dugir að kjósa. Það virðist engu máli skipta hvað nýkjörinn stjórnmálamaður fer ákveðinn inn í þinghús Alþingis eða ráðhús sveitarfélaganna: Þegar þangað er komið mætir honum einfaldlega embættismannakerfið, andspyrna, íhaldssemi kerfis sem ver sjálft sig og í mörgum tilvikum persónuárásir. 

Kannski fyrsta ráðið sé að hætta að hlusta á stjórnmálamenn sem einoka umræðu- og fréttatíma og krefja stjórnmálamennina þess í stað um að halda kjafti og byrja að hlusta. Um leið má láta fréttir eiga sig. Þar bjóða stjórnlyndir blaðamenn stjórnlyndum einstaklingum í viðtal eftir viðtal og boða þannig heimsmynd sína undir fána fagmennsku og fréttaflutnings. 

Í kjölfarið má svo biðja stjórnmálamenn um raunverulega réttlætingu á öllum þessum ríkisafskiptum: Hvað eru menn að fá fyrir skattheimtu á öllu sem hreyfist, eða er kyrrstætt? Þarf virkilega að halda úti skattheimtu þar sem jaðarskatturinn er miklu nær 100% en 40% til að styðja við fátæka, reka svolítið heilbrigðiskerfi og bjóða ungu fólki upp á einhverja menntun? Þarf í raun að takmarka atvinnu- og tjáningarfrelsi okkar í miðaldastíl til að tryggja allsherjarreglu? Þarf fullfrískt fólk á öllum þessum bótum – og sköttum – að halda til að samfélagið grotni ekki niður í hreysabyggðir og glæpaöldu? Er stjórnmálamaður svona miklu hæfari til að ráðskast með líf þitt en þú að stjórna því nokkurn veginn á eigin spýtur?

Fyrsta skrefið er hjá okkur sjálfum. Ríkið er ekki mamma okkar. Það á að þjóna okkur ef það á að geta réttlæt tilvist sína. Það gerir það ekki í meiri mæli en svo að á eftir klappi kemur krepptur hnefi. Nú er mál að linni.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu í dag. Hún er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Líkön og samfélag

fort-dennison-sea-levelsTilhneiging fólks til að treysta líkönum fyrir lífi sínu og samfélagi virðist vera að aukast. Tölvulíkön eru notuð til að spá fyrir um veðrið í nokkra daga, þróun á hitastigi loftslagsins í nokkra áratugi, hæð sjávarmáls og útbreiðslu sjúkdóma. Margir trúa þessum líkönum, e.t.v. með fyrirvara (hver trúir 3ja daga veðurspánni?). En eiga líkön að hafa svona mikil völd?

Líkön voru notuð til að réttlæta stórkostleg ríkisinngrip í samfélagið þegar veira fór á stjá. Þau reyndust röng. Þau hafa lengi verið notuð til að spá fyrir um hitastigið á loftslagi Jarðar, en ekki spáð neinu rétt. Sjávarmál hækkar í sífellu í líkönunum en reynist óbreytt í raunveruleikanum. Ísbjörnum fjölgar og ísbreiður heimskautanna vaxa, en líkönin segja hið gagnstæða. 

Auðvitað er gott og gilt að búa til allskyns líkön. Þau eiga hins vegar ekki að koma í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi. Tölfræðingar og forritarar tala kannski með sannfærandi hætti, en þeir eru ekki kóngar og drottningar.


mbl.is Spálíkanið gæti reynst áhrifamikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur og tortryggni

Tortryggnir neytendur eru verðmætir neytendur. Þeir þrýsta á gegnsæi, betra verð, bætta þjónustu, meira úrval, snyrtimennsku, hagkvæmni og skilvirkni. Þeir spyrja spurninga, færa viðskipti sín annað eða hóta því og gefa fyrirtækjum vísbendingar um hvar þarf að bæta sig. 

En þurfum við nokkuð á tortryggnum neytendum að halda? Við búum jú við lagaramma þar sem fyrirtæki þurfa að sækja um leyfi fyrir allskyns hlutum, fá ekki að sundrast og sameinast nema veita yfirvöldum rækilegan rökstuðning fyrir slíku, búa við stíft opinbert eftirlit og þurfa að innleiða allskyns ferla og fyrirkomulag svo allir fái sanngjörn laun, þrífi hjá sér klósettin og mismuni ekki fólki á grundvelli einstaklingsbundinna eiginleika.

Við getum til dæmis treyst bönkunum, ekki satt? Þeir eru jú undir stífu eftirliti og þurfa að fylgja mörg hundruð blaðsíðum af regluverki í starfsemi sinni. 

Við getum líka treyst öllum sérvöruverslunum með kjöt og fisk ekki satt? Þær eru jú undir stífu eftirliti allskyns stofnana sem fylgjast með hreinlæti, meðhöndlun á hrávöru og hafa skoðun á því hvar niðurföllin eigi að vera.

Og svo eru það blessuðu samfélagsmiðlarnir. Er ekki löggjöf í Evrópusambandinu um meðferð persónuupplýsinga? Slakið á, regluverkið passar gögnin!

Maður í sáttahug gæti sagt: Við þurfum bæði hið stífa opinbera eftirlit og hina tortryggnu neytendur. En staðreyndin er sú að mikið opinbert regluverk sem er fylgt eftir með miklu opinberu eftirliti slævir neytendur, og ætti reynsla Íslendinga af bönkum að duga sem ágætt dæmi um slíkt. Neytendur slaka á verðinum og treysta því að regluverkið passi upp á allt. Fyrirtæki geta um leið slakað á verðinum og sparað sér ómakið að innleiða staðla og gæðakerfi sem duga oft betur en lagatextar hins opinbera, og tryggja um leið sveigjanleika í rekstri til að innleiða nýjungar og umbætur.

Og um leið blasir við að mikið regluverk er dýrt og þungt í vöfum og virkar beinlínis eins og samkeppnishamlandi múr sem dregur úr innkomu nýrra aðila með ferskar hugmyndir.

Tortryggnir neytendur eru hollasta hráefnið í vel heppnuðu markaðshagkerfi. Þeim ber að hrósa, og fyrir þá ber að þakka.


mbl.is Ungt fólk hættir á samfélagsmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veit hægri höndin ekki hvað sú til vinstri er að gera?

Bretar undirbúa nú innheimtu tolla af vöruflutningum frá meginlandi Evrópu, þ.e. Evrópusambandinu.

Um leið leggja þeir línurnar fyrir fríverslunarsamninga við Bandaríkin, Ástralíu og fleiri ríki.

Svona hagar Evrópusambandið sér líka: Tolla allt utan þess en rembist samhliða við að gera fríverslunarsamninga.

Ísland hagar sér líka svona: Leggur á tolla en semur um fríverslun.

Þetta er, með öðrum orðum, hin hefðbundna nálgun.

En hvers vegna? 

Að setja á tolla er einhliða ákvörðun sérhvers ríkis. Það þarf enginn að tolla eitt né neitt. Hefðin virðist snúast um að ef ríki A leggur tolla á varning frá ríki B, þá svarar ríki B því með því að tolla vörur frá ríki A.

Með öðrum orðum: Ef nágranni minn pissar á ganginn í fjölbýlishúsinu þá þarf ég líka að gera það. Ef einhver grýtir höfnina sína þá ætla ég að grýta mína höfn.

Ég hélt kannski að Bretar vissu betur og létu það einfaldlega eiga sig að reisa tollamúra. Það væri mikið stílbrot en Bretar hafa áður fetað ótroðnar slóðir. En svo virðist ekki vera. Evrópusambandið tollar breskar vörur og því skulu Bretar tolla vörur Evrópusambandsins. Svona rúllar boltinn.


mbl.is Fyrsta tollafgreiðslan í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringamyndun

"Mælikvarðar á samþjöppun á markaði eru einkum notaðir af samkeppnisyfirvöldum til að leggja mat á áhrif fyrirhugaðra samruna á samkeppnisvirkni á markaði." (samkeppni.is)

Íslendingar hafa oft miklar áhyggjur af skorti á samkeppni. Kannski skiljanlega. Fámennið heldur skiljanlega ekki úti mjög mörgum fyrirtækjum á tilteknum markaði. Þó má furða sig á úrvalinu víða, t.d. á matvörumarkaði og farsímamarkaði. Engu að síður eru neytendur með varann á. Samkeppni er jú mikilvæg og val neytandans þarf að skipta máli.

Til að bregðast við áhyggjum af skorti á samkeppni heldur ríkisvaldið úti mjög umfangsmikilli starfsemi svokallaðs Samkeppniseftirlits. Þetta eftirlit flækist fyrir sérhverjum samrunahugleiðingum fyrirtækja og grandskoðar slík áform með tilliti til samkeppni. Stundum er samruna hafnað en stundum er honum bara settur ákveðin skilyrði. Þannig er það.

En hvað gerist svo þegar menn líta frá einkafyrirtækjum í blússandi samkeppni og í átt að hinu opinbera?

Þá gufa allar áhyggjur af samkeppni og einokun upp, eins og dögg fyrir sólu.

Ríkiseinokun er þá talin hagkvæm og samkeppni almennt til ama. Af hverju að hafa val þegar það er hægt að safna öllu á fáar hendur? 

Sveitarfélögin eiga að vera sem stærst. Í því felst jú stærðarhagkvæmni. Að flytja úr sveitarfélagi krefst þess stundum að yfirgefa heilu landsfjórðungana, eða allt að því. 

Þetta er veruleikinn: Fyrirtæki eiga að vera mörg, lítil og veikburða. Opinberar rekstrareiningar eiga að vera sem stærstar og þekja sem mest flatarmál. 

Ég vil leggja til málamiðlun:

Að ríkið hætti að skipta sér af því hvaða fyrirtæki vinna saman og hvernig, hvort þau séu í sitthvoru lagi eða sameinist, og þar fram eftir götunum. Um leið þarf að tryggja að aðgangshindranir að markaði séu sem minnstar. Það er t.d. nánast ómögulegt að stofna banka á Íslandi og því skiljanlega skortur á samkeppni á þeim markaði.

Að ríkið breyti um leið lögum sem gerir íbúum tiltekins svæðis auðveldar að kljúfa sig út úr sveitarfélagi sínu og stofna nýtt. Samhliða því þarf auðvitað að fækka lögbundnum verkefnum sveitarfélaga og afnema ákvæði um lágmarks- og hámarksútsvar. Sveitarfélögin eru orðin hálfgerð ruslatunna fyrir ríkisvaldið, sem framleiðir verkefni eftir verkefni fyrir sveitarfélögin án þess að þurfa hafa áhyggjur af kostnaðinum við þau. Þetta þarf að stöðva.

Sameining sveitarfélaga er stundum skynsamleg, rétt eins og sameining fyrirtækja. En stundum þarf að huga að samkeppni, og þá er hvorki gagn að risavöxnum sveitarfélögum né fyrirtækjum á markaði aðgangshindrana.


mbl.is 70% vilja skoða sameiningu á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður á eplum og appelsínum

Ég ætla að benda á svolítinn samanburð á eplum á appelsínum. Á einum stað stendur:

COVID-19: There have been approximately 648,966 deaths reported worldwide. In the U.S, 146,935 people have died of COVID-19, as of July 27, 2020.*

Flu: The World Health Organization estimates that 290,000 to 650,000 people die of flu-related causes every year worldwide.

Við þennan samanburð má bæta:

COVID-19: Hagkerfum lokað. Fólk einangrað. Tölfræði milli ríkja ósamanburðarhæf og jafnvel villandi í sumum, þá yfirleitt ýkt frekar en hitt (af ýmsum ástæðum). Atvinnuleysi. Örvænting. Fjölgun dauðsfalla vegna sjálfsmorða og örvæntingar. Grímur. Spritt. Samkomubann. Heilbrigðiskerfið eflt til að takast á við veiru. 

Flu: Engin einangrun. Smit berast greitt. Eingöngu veikt fólk sem leggst í rúmið. Ekkert víst að öll tilvik séu skráð sérstaklega sem dauðsföll vegna veiru og því frekar í lægri kantinu frekar en hitt. Engar grímur eða spritt. Samkomur fara fram. Heilbrigðiskerfið keyrir eins og venjulega.

Samanburður á eplum og appelsínum á ekki alltaf rétt á sér, en getur engu að síður vakið til umhugsunar.


Samhengi óskast

Þegar fréttir af útbreiðslu kórónuveirunnar eru sagðar þá hljóma þær svo sannarlega hræðilegar. 644 þúsund dauðsföll! 16 milljón smit! 

Lokum öllu strax! Grímur! Spritt! Samkomubann! 644 þúsund dauðsföll!

En hvað gerist á venjulegu ári þegar venjuleg inflúensa fer á stjá? Nú eða á óvenjulegu ári þegar mjög skæð inflúensa er á flakki? 

Ég veit að inflúensa er önnur veirutegund og e.t.v. fyrirsjáanlegri en eitthvað hljóta menn að hafa lært undanfarna mánuði um kórónaveiruna: Hvaða lyf virka best á hverja tegund sjúklings og allt það.

Og svo er það hitt: Hvaða áhrif er allt heimatilbúna atvinnuleysið og efnahagshremmingarnar að hafa? Ég hef séð fregnir af auknu kynferðisofbeldi, fjölgun dauðsfalla vegna annarra sjúkdóma og fjölgun sjálfsmorða.

Blaðamenn hafa verið mjög uppteknir af tölum vegna eins sjúkdóms seinustu mánuði en nú er kominn tíma á hið stóra samhengi.


mbl.is Óttast að önnur bylgja sé að hefjast í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég myndi aldrei vinna með ...

Breski þjálfarinn Samantha Yardley hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir ummæli sín um að vilja ekki vinna með feitu fólki.

Sennilega tjá margir gagnrýni sína með þeim hætti að þeir myndu aldrei vilja vinna með manneskjum sem vilja ekki vinna með feitu fólki.

Og þá erum við líka komin í hring.

En hvað er að því að hafa skoðanir á því hvað maður gerir, með hverjum og hvenær?

Fordómar eru ekki eitthvað sem er bundið við lítinn hóp snoðaðra unglinga. Við erum öll með fordóma í merkingunni: Þegar við sjáum ókunnuga manneskju myndast strax í huga okkar hugmynd um hvernig sú manneskja er. Ef þú sérð krúnurakaðan kvenmann með húðflúr í andlitinu þá vekur það upp ákveðnar hugmyndir í hausnum á þér. Viltu bjóða þeirri manneskju í kaffi? Viltu skiptast á skoðunum við hana? Viltu forðast hana? Viltu herma eftir henni? Þessar hugsanir mótast af fyrri reynslu og hugmyndum, sem aftur byggjast á fyrri kynnum eða reynslu. Þetta eru fordómar í raun. Og það er bara allt í lagi.

Þar sem mörkin liggja eru auðvitað hvenær við gefum einstakling tækifæri og í hvaða mæli. Ætlar þú að hafna starfsumsækjanda af því hann er með húðflúr í andlitinu? Af hverju? Kannski ertu að ráða í starf sölumanns á hjálpartækjum fyrir aldraða og veist að húðflúr í andlitinu dregur úr sölu. En kannski ertu að ráða í móttöku á húðflúrstofu og grunar að húðflúr í andliti veki upp áhuga á þjónustu þinni.

Það er gott að breski þjálfarinn Samantha Yardley tjáir sig og tekur þátt í opinskárri umræðu. Hún er sennilega að tala fyrir hönd fjölda manns með svipaðar hugmyndir en þora ekki að tjá sig. Og þeir sem svara henni eru líka að tala fyrir hönd fjölda manns sem er ævareiður. Þetta heitir opinber umræða og aðskilur frjálslynd samfélög frá þeim sem kúga fólk til hlýðni með beinum og óbeinum hótunum um refsingu ef testamenti pólitísku rétttrúnaðarkirkjunnar eru brotin.

Sem "gleraugnaglámur" og "nörd" þá fagna ég þessari umræðu. Hún afhjúpar raunverulegar hugsanir, dregur þær úr bakherbergjunum og vekur til umhugsunar. Það er gott.


mbl.is Myndi aldrei vinna með feitu fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar matinn vantar þarf fitan að fjúka

Ríkissjóði vantar fé. Það er skiljanlegt. Hann hefur þanist svo mikið út í fjárþorsta að það má varla missa einn skattgreiðenda til að halda sér réttu meginn við núllið. Því er heimatilbúin veiru-krísa auðvitað erfið fyrir hann.

En hvað gerir fólk þegar tekjur lækka?

Hvað gera fyrirtæki í einkaeigu?

Jú, fólk og fyrirtæki minnka útgjöld. Þau leita að fitu og skera hana í burtu. Þau endurskoða þarfir sínar. Ertu með bæði Viaplay og Netflix? Annað eða bæði þarf að fara. Ertu að kaupa leðurjakka í nýjustu tísku tvisvar á ári? Hættu því alveg. Ertu að borga af svimandi stórum bíl á blússandi bílalánum? Seldu hann og keyptu þér minni bíl. Ertu í stærra húsnæði en þú þarft? Seldu það og keyptu minna.

Þetta vita nákvæmlega allir. Allir! 

Fyrir ríkið ætti þetta jafnvel að vera enn auðveldara. Það á miklar eignir sem má selja - eignir í formi lands, húsnæðis og fyrirtækja sem hvergi er mælt fyrir um í stjórnarskrá að eigi að vera á könnu ríkisins. Stjórnmálamenn gætu um leið gert líf sitt léttara með því að hafa minna á sinni könnu, t.d. stjórnarsetu í bönkum og allskyns sjóðum.

Með eignasölu mætti moka miklu fé í ríkissjóð. Um leið er fyrirtækjum, sem er sleppt úr ríkiskrumlunni, veitt svigrúm til að endurskipuleggja sig og jafnvel verða að fyrirtækjum sem skapa hagnað og fjölga verðmætaskapandi störfum (á kostnað óverðmætaskapandi staða).

Með eignasölu eykst líka svigrúm til að lækka skatta, duglega! Það er eins og vítamínsprauta fyrir hagkerfi og heimili. Eða með orðum Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, þegar hann ræddi ákveðna tímabundna skattalækkun: "Þessi skattaívilnun skilar líklega meiru í ríkissjóð en ella."

Já, ótrúlegt en satt! Þegar sjúklingurinn fær súrefni verður hann líflegri.

En sjáum hvað setur. Kannski menn haldi áfram að ríghalda í allar ríkiseigur, halda sköttum í svíðandi hæðum og safni skuldum. Það kæmi mér ekkert á óvart.


mbl.is Ekki svigrúm til nýrra útgjalda ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband