Bloggfærslur mánaðarins, september 2023

Rafeldsneyti án rafmagns

Orkusjóður styrkir verkefni Samherja sem felst í því að hanna lausn og breyta ísfisktogara félagsins þannig að skipið geti nýtt grænt rafeldsneyti um 100 milljónir króna. 

Gott og vel. Rafeldsneyti er ekki endilega galin hugmynd. Hugmyndin er góð ef:

  • Meira rafmagn er framleitt en þörf er á, þ.e. verðið sem fæst fyrir rafmagnið er orðið lægra en borgar sig til að framleiða það
  • Rafmagnið er framleitt þegar eftirspurnin er lítil, svo sem á nóttunni
  • Valkosturinn við rafeldsneytið er dýrari en rafeldsneytið

Ekkert af þessu á við um Ísland. Kannski Norður-Noreg eða Norður-Svíþjóð (þar sem dreifikerfin geta ekki komið rafmagni frá framleiðslustað til neytenda), en ekki Ísland. Á Íslandi hefur stærsti raforkuframleiðandinn sagt að nú þegar sé skortur á rafmagni á Íslandi og talað um að allar mögulegar hindranir séu lagðir í vegi fyrir því að framleiða meira.

Ríkt fyrirtæki getur auðvitað farið út í einhvers konar rándýra markaðsherferð með því að henda tveimur milljörðum (mínus framlag skattgreiðenda, sem fá ekkert í staðinn) í að breyta einu skipi svo það geti notað rafeldsneyti sem er ekki til, verður ekki til og ef það verður til: Verður svo dýrt að engin leið er að kaupa það. Nema auðvitað með því að vera ríkur.

Þessi orkuskipti eru dásamleg. Nema fyrir þá sem þurfa orku.


mbl.is Samherji hlaut 100 milljónir til orkuskipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ber kennurum að sýna virðingu fyrir fjölbreytileika?

Í gegnum minn námsferil upplifði ég kennslustundir hjá mörgum mismunandi kennurum. Umsjónarkennari minn flest mín grunnskólaár var vingjarnleg kona komin yfir miðjan aldur sem fékk nánast stöðu ömmu í huga margra okkar í bekknum. Í menntaskóla voru margir kennarar með viðurnefni í daglegu tali nemenda sem lýstu svolítið nálgun kennaranna í kennslustofu. Var eitt viðurnefnið eftirnafn frægs fjöldamorðingja og einræðisherra. Annar - karlmaður - var kallaður frænka, enda var hann með eindæmum mjúkur í máli þegar hann benti á það sem betur mætti fara. Á mínu fyrsta menntaskólaári var þáverandi rektor á sínu seinasta starfsári. Hann var frægur fyrir margt, svo sem að þéra nemendur á meðan hann kallaði þá vitlausa.

Hvað um það.

Fjölbreytileikinn var alltaf mikill í nemendahópnum, sama hvort það var í grunnskóla, menntaskóla eða háskóla. Það spáðu svo sem fáir í það. Sumir nemendur voru augljóslega á leið út úr skápnum og það blasti við áður en það gerðist. Sumir hófu farsælan feril sem afbrotamenn. Flestir fundu sína fjöl, á einn eða annan hátt, eftir stundum brokkgenga æsku þar sem fólk lærir á líkama sinn og tilfinningar með tilraunastarfsemi og árekstrum á fyrirstöður lífsins en einnig opnanir á tækifærum.

Ekki varð ég var við að kennarar hafi tæklað þessar flækjur í líkama og sál nemenda sinna að öðru leyti en að reyna kenna, og sumir kennarar voru betri en aðrir til að ná til þeirra sem vildu ekki láta ná til sín. Eins og gengur og gerist auðvitað, líkt og í tilviki yfirmanna eða samstarfsfélaga í kringum mig í dag.

Hvað þýðir það þá að sýna virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Jú, það að vera fagmaður. Sinna starfi sínu. Stærðfræðikennarinn kennir stærðfræði. Íslenskukennarinn kennir íslensku. Nemendur eru hans skjólstæðingar, rétt eins og viðskiptavinur í fiskbúð. Um leið er hægt að segja að slökkviliðsmaðurinn eigi að vera góður að slökkva eld, og að lögreglan eigi að vera góð í að upplýsa glæpi, og skipti þá skoðun þeirra á leðurgrímum og fjólubláu hári minna máli, a.m.k. á meðan þeir eru í vinnunni.

Kennari getur haft sínar skoðanir á einstaklingsbundnum einkennum einstaklings án þess að það bitni á frammistöðu hans í starfi. Að sjálfsögðu. Varla er ætlast til þess að allir hafi sömu skoðanir á öllu. Eiga slökkviliðsmenn að sýna virðingu fyrir fjölbreytileikanum? Á að rukka þá um skoðanir þeirra á fjölbreytileikanum? Eða eiga þeir að fá að einbeita sér að því að slökkva elda?

Hér að ofan eru mörg spurningamerki því ég er ekki alveg viss um það hvað það þýði að einhver starfsstétt þurfi að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum, sem er vel á minnst ekki opin yfirlýsing um kærleika heldur nákvæm tilvísun í ákveðna hugmyndafræði sem keyrð er áfram af slíku offorsi núna að hætt er við að fæstir viti í raun hvað er rétt skoðun í dag. Er það sú skoðun að kynlífsfræðsla eigi að fara fram á 7-10 ára börnum? Að hún eigi að fjalla um örvun á endaþarmi? Að börn megi setja á lyf til að stöðva kynþroska þeirra og þéttingu á beinvexti? Að ungar stelpur í búningsklefa sundlauga eigi að hætta á að vera viðstaddar fullvaxinn reður líkama með loðna bringu á einstakling sem skilgreinir sig sem konu, einhyrning eða eitthvað annað? Að rými kvenna séu skyndilega orðin að almannaeign? 

Ég er ekki viss um að nokkur kennari hafi spáð í því hvað hrærðist um í hausnum á mér eða samnemendum mínum fyrir utan námsefnið og leiðir til að koma því til skila. Var það ekki bara fínt á meðan þeir ræktu starf sitt eftir bestu getu, sem kennarar?


mbl.is Kennurum beri að sýna virðingu fyrir fjölbreytileika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umframdauðföll: Óvæntur hvalreki ríkisins

Við getum nú lesið í fréttum að milljarðarnir streyma óvænt inn í ríkissjóð í gegnum dauðaskattinn, þegar lík eru rænd á meðan þau eru að kólna án þess að erfingjar geti nokkuð að gert, stundum kallaður erfðafjárskattur. Við erum ekki að tala um einhverjar smáupphæðir:

Gert er ráð fyrir miklu meiri tekjum ríkisins af erfðafjárskatti á næsta ári en var áætlað í fjárlögum þessa árs. Upphæðin fer úr 8,8 milljörðum í 14,5 milljarða króna. Það segir þó ekki alla söguna því erfðafjárskatturinn sem hefur skilað sér í ríkissjóð í ár er langt umfram væntingar, hann verður líklega orðinn um 13,5 milljarðar áður en gamlársdagur rennur upp.

Menn hafa í sjálfu sér ekki aðrar skýringar en þær að fólk sé í auknum mæli að tæma sjóði sína í vasa erfingja með fyrirframgreiddum erfðagreiðslum, og þar lætur blaðamaður staðar numið, að sjálfsögðu.

En þeir eru fleiri sem upplifa ávinning af því að líkin hrannist upp - sannkallaðir hvalrekar sem næra þá sem að þeim koma. Útfararstofur og líkkistusmiðir hljóta að vera upplifa svipað góðæri enda deyr fólk nú meira en venjulega, svo nemur tugum prósenta, og þá gjarnan nokkrum mánuðum í kjölfar umfangsmikilla sprautuherferða ríkisvaldsins. 

Nú grisja menn oft skóga og ýmsar ríkisstjórnir grisja gjarnan í ákveðnum (og fjölgandi) þjóðfélagshópum. Grisjun leiðir til aukins svigrúm fyrir þá sem lifa hana af. Núna baðar ríkisvaldið sig í dauðasköttum og virðist alsælt. Mögulega eru biðlistar á hjúkrunarheimili fyrir aldraða líka að styttast samhliða vaxandi álagi á hjartadeildir spítalanna vegna ungmenna. Erfitt að segja, enda gegnsæið lítið, og það af ásetningi.

Ríkisvaldið á Íslandi telur að ástandið muni vara lengur og áætlar að enn meira muni skila sér af dauðasköttum á næsta ári en árinu sem er að líða, jafnvel þótt stofnanir sem fylgjast með umframdauðsföllum telji að þau séu nú komin í eðlilegt horf á ný. Það er auðvitað vitað að skattar á þá lifandi hafa ekki dugað hinu opinbera í langan tíma og að þeir dauðu þurfi því að leggja sitt af mörkum, svo sjáum hvað setur nú þegar fólk er hætt að láta plata sig í fleiri sprautur.


Þegar skólastjóri gerist ritstjóri

Skólastjóri nokkur á Íslandi hefur ákveðið að stíga skref í átt að stöðu ritstjóra þar sem sérstakar reglur eru látnar gilda um kennara skólans eftir því hvaða persónulegu skoðanir þeir viðra í frítíma sínum (ekki hefur komið fram að kennarar séu að endurtaka þær skoðanir í skólastofu, enda sé þá íslenskukennarinn ekki að fjalla um loftslagsvá eða stærðfræðikennari að tala um kynhneigð og örvun á endaþarmi).

Þetta er athyglisverð þróun. 

Þessi skólastjóri fylgist væntanlega vel með opinberri tjáningu starfsfólks síns og fer svo á skrifstofu sína og ákveður hvar nemendur þurfi að mæta til kennslu og hvar slíkt sé valfrjálst (almenn mætingaskylda í framhaldsskóla er að ég tel þvæla, en það er önnur saga).

Það er jafnvel líklegt að skólastjóri sé búinn að kortleggja hvar fólk stendur í stjórnmálum, hversu hrætt það er við svokallaða loftslagsvá, hvort það aki um á bensínbíl eða sé komið á einhvers konar rafmagnsbíl og svona mætti lengi telja.

Kennararnir auðvitað alsælir með þetta á meðan þeir eru með réttar skoðanir.

Og nemendur eru í kjölfarið upplýstir um það og þeim sagt hvar þeir þurfi að mæta og hvar þeir megi ráða því.

Ráðherra menntamála hlýtur að vera vakandi fyrir þessari þróun.

Kannski verður hið góða að mætingaskylda í framhaldsskólum verði afnumin með öllu svo hún sé ekki nothæf sem tæki skólastjóra til að þjarma að starfsfólki sínu í fjölmiðlum og drottningaviðtölum. Kannski heimta nemendur að fá að skrópa hjá öðrum kennurum en þeim sem heita Páll eða Helga. 

Spennandi tímar, vægast sagt.


mbl.is Þurfa ekki að mæta í tíma til Páls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Peningaprentunin hafði fyrirsjáanleg áhrif

Árið er 2020. Ríkissjóður er að sökkva sér í skuldir til að borga fyrirtækjum fyrir að hafa lokað, fólki fyrir að mæta ekki í vinnuna og lyfjafyrirtækjum fyrir að framleiða gagnslaust glundur. Ekki er innistæða fyrir þessari vegferð og ríkissjóðir þarf að taka lán. Stór og mikil lán.

Seðlabanki Íslands ákveður að hlaupa undir bagga:

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningaprentun af hálfu Seðlabanka Íslands muni hefjast að ráði á næsta ári. Ásgeir sagði að „það liggur fyrir að peningaprentunin hjá okkur [Seðlabanka Íslands] verður í að kaupa ríkisskuldabréf“. Þetta kom fram í ávarpi Ásgeirs á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fór fram áðan með stafrænum hætti.

Þetta var vinsælt. Núna höfðu yfirvöld úr nægu að moða og þau eyddu eins og fullur unglingur með greiðslukort foreldra sinna. Það var hægt að borga fyrir allar skerðingarnar og halda úti stjórnarfari sem ég vil kalla nýfasisma, þar sem einstaklingurinn er til fyrir ríkið en ekki öfugt.

En hvað kemur þetta verðbólgu við? Jú, þegar magn peninga í umferð er aukið þá rýrnar kaupmáttur hverrar og einnar krónu því magn varnings og þjónustu er ekki að aukast í sama mæli. Þetta er auðvelt að skilja í smærra samhengi: Segjum að 100 manns búi á eyju og eigi samanlagt eina milljón krónur sem færist í sífellu á milli handa í viðskiptum og lántökum. Dag einn ákveður höfðinginn að auka magnið í milljarð króna. Eru þá allir orðnir ríkir? Nei, því þeir sem fái hið nýja fé fyrst í hendurnar byrja að bjóða hærra og hærra í það sem er til sölu og smátt og smátt hækkar verðlag á öllu. Ójafnt mögulega í byrjun, en að lokum á öllu.

Seðlabankastjóri skilur þetta auðvitað en hann ætlaði að fara fínt í þetta og stilla af peningaprentunina eftir þróun verðbólgunnar. Það mistókst auðvitað, bæði hjá honum og öðrum erlendum seðlabankastjórum sem gerðu það sama. Núna þarf að taka á afleiðingunum. Það er allt svo auðvelt þegar peningamagnið er að aukast, en það er um leið allt svo erfitt þegar því er neitað að halda áfram að aukast jafnhratt.

Ég veit ekki hvenær sá dagur kemur að skattgreiðendur uppgötva að þeir eru ekki bara rúnir inni að skinni með sköttum heldur líka í gegnum verðbólguna. Kannski fyrr en ég þorði að vona.


mbl.is Verðbólgan hafi verið vanmetin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um kennslu 7-10 ára barna á því hvernig eigi að örva endaþarm sinn kynferðislega

rassÍ nýlega þýddri kennslubók fyrir 7-10 ára börn, sem inniheldur orðin kyn og kynlíf í titli, aðgengileg hér (og tel líklegt að verði fjarlægð í náinni framtíð, svo vonandi er einhver búinn að sækja afrit), er fjallað um það, á blaðsíðu 65, hvernig börn á aldrinum 7-10 ára geti örvað sig kynferðislega með því að snerta á sér endaþarminn (bara ekki of harkalega, og muna að þvo á sér hendurnar eftir á). Ágæta umfjöllun um þessa blaðsíðu, auk annarra, má finna í frétt DV, sem kom mér á óvart í varfærinni en raunsærri umfjöllun um þetta kennsluefni (undantekningin sannar regluna því DV flýtti sér að birta aðra frétt sem kallar gagnrýni á kennslu í endaþarmsörvun 7-10 ára barna, meðal annarra kynlífsleiðbeininga, meiðandi og særandi og hvaðeina).

Nú bý ég í litlu sveitarfélagi í Danmörku og á 12 ára og 5 ára börn sem starfsmenn sama sveitarfélags umgangast í marga klukkutíma á dag á virkum dögum. Ég hef ekki séð nein ummerki um að þessum börnum sé sagt að þeim hafi verið úthlutað kyni, hvernig þau geti stundað sjálfsfróun og að fólk sé af öðru kyni en blasir við með berum augum.

Mér finnst það vera alveg ljómandi gott (og man þó vel þá tíma þegar sonur minn var ungur og með frekar sítt hár og oft ávarpaður eins og stúlka). Kannski kynlífsfræðsla eigi heima meðal þeirra sem eru orðnir kynþroska eða alveg að detta í slíkt. 

Hvað um það. Lítil umræða er um kennslu 7-10 ára barna í kynferðislegri örvun á endaþarmi sínum á Íslandi og kennurum finnst að sér vegið þegar það er svo mikið sem rætt um ágæti þess.

Þetta finnst mér skrýtið, því kennsla í kynferðislegri örvun á endaþarmi er svolítið skref og frávik frá annars ágætu fyrirkomulagi kynlífsfræðslu í íslenskum skólum.

Það bætir aðeins úr skák að þeim er bent á góðan handþvott í kjölfar þess að hafa strokið endaþarm sinn, en mér finnst það ekki nóg.

Það ætti mögulega að hætta svona kennslu, og líka kennslu í því að efast um eigið kyn.

En það er bara mín skoðun, sem foreldris sem hef áhyggjur af hugarástandi íslenskra kennara, námsefninu sem er borið á borð lítilla barna og áhugaleysi stjórnvalda og foreldra á þessari innrás í líf krakka.

Og með innrás vil ég helst bera saman við sprengjuárás, sem skilur eftir sig rústir.

Góða endaþarmsörvun, gott fólk, og kæru börn. Muna að þvo hendur!


Hvað ætla hægrimenn að gera?

Ef ég væri flokksbundinn Sjálfstæðismaður og hefði taugar til flokksins og óskaði honum meiri áhrifa þá væri ég að hugsa minn gang.

Ég hef að vísu taugar til flokksins. Ég man með hlýju í hjarta eftir því litla ungmennastarfi sem ég tók þátt í hjá flokknum. Þegar ég gat kosið gallharðan frjálshyggjumenn í embætti formanns Heimdallar þar sem hann atti kappi við einhvers konar hægri-krata með ESB-blæti. Sú var tíðin.

Síðan eru liðnir áratugir.

Á sínum tíma töluðum við frjálshyggjumenn um að stofna stjórnmálaflokk og bjóða fram. Hið óheppilega gerðist svo í kjölfarið: Menn höfðu ekki tíma því þeir voru að rækja nám af metnaði eða vinna að starfsframa og framleiða verðmæti. Nú fyrir utan að Sjálfstæðisflokkurinn var á þessum tíma fyrsta val 30-40% kjósenda og þótt auðvitað mætti gagnrýna hann - frá hægri - þá var hann með hjartað nokkurn veginn á réttum stað. Skattar voru að lækka, viðskiptahindranir að dofna og skuldir ríkisins að hverfa, svo dæmi séu tekin. 

Síðan eru liðnir áratugir.

Innflytjendamál voru þannig séð ekki á dagskrá. Innflytjendur voru jú aðallega harðduglegt fólk sem fann strax vinnu og kom sér fyrir eða snéri heim að lokinni vertíð. Af einhverjum ástæðum gat flóttamaður frá Serbíu lært íslensku á nokkrum misserum en í dag geta allir bara talað ensku, og læra ekki orð í íslensku. 

Síðan eru liðnir áratugir.

Núna eru allir skattar í botni. Skuldir eru svimandi. Velferðarkerfið fyrir marga orðið að helfararkerfi þar sem fólk deyr á biðlistum í versta falli. Alþingi er orðið að leku gatasigti fyrir tilskipanir að utan. Ferðaskrifstofur auglýsa Ísland sem áfangastað fyrir flóttafólk þar sem í boði er húsnæði, þjónusta og framfærsla. 

Síðan eru liðnir áratugir.

Valkostir við gömlu og steinrunnu hægriflokkana eru að skjóta upp kollinum víða. Ekki eru þeir allir til fyrirmyndar í öllum málaflokkum en eitt eiga þeir sammerkt: Þeir eru að veiða upp óánægjufylgi þeirra sem efast um samruna opinbers valds í hendur útlendra embættismanna, svimandi óráðsíuna og í breiðum skilningi þá aðför að samfélagsgerð okkar sem á sér stað víða, frá skólastofum til löggjafarþinga.

Er rétta leiðin sú að stofna nýja stjórnmálaflokka? Ég get ekki svarað því. En að gera ekkert er ekki í boði.


mbl.is Óli Björn hættur sem þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðir til að eyða mannkyninu

Ég veit að sífellt fleiri eru komnir á þá skoðun að mannkynið sé vandamál heimsins, og þar með mannkynsins. Til að leysa þetta hvimleiða vandamál - mannkynið - er því sífellt að bætast á listann yfir leiðir til að útrýma mannkyninu. 

Hér kemur stuttur listi yfir það sem mér dettur í hug í fljótu bragði, en mögulega gæti hann orðið lengri:

  • Losun lofttegunda: Mannkynið losar mikið magn af lofttegundum í andrúmsloftið. Í sumum tilvikum jafnvel á pari við eldfjöll og aðrar glufur í jarðskorpunni, þótt mér finnist það ólíklegt. Með því að takmarka eða banna slíka losun er um leið verið að svipta mannkyninu orku og hráefnum og dæma það í orku- og hráefnaskort og þar með fátækt sem felur meðal annars í sér dauða eða hindrun gegn fjölgun. 
  • Fjölgun: Mannkynið fjölgar sér eins og kanínur. Ein leið til að koma í veg fyrir slíkt er að gelda fólk. Þetta er gömul hugmynd en nýjasta birtingarmyndin er sú að sannfæra börn um að þau séu í röngum líkama og að gelding sé ljómandi afleiðing þess að gera eitthvað í því.
  • Hungur: Aðförin að bændum sem framleiða mikið magn matvæla er hafin fyrir löngu. Lönd þeirra eru tekin af þeim eða rekstur á landbúnaði gerður óyfirstíganlega dýr með allskyns gjöldum og reglum. Svangt fólk fjölgar sér mögulega hægar en annað, og sé ræktarsvæðið notað til að framleiða pöddur og svínafóður (oft kallar sojafæði í dag) í stað mannamatar þá hægir vonandi og væntanlega á fjölgun fólks.

Það er frekar auðvelt að spyrna við fótum í svona ástandi, en tekur stundum á sálina. 

Viltu borða svínafóður og vera endastöð í ættartré þínu? Gott og vel. Viltu það ekki? Gerðu eitthvað í því.


Hundar í sóttkví en laxarnir ekki

Ég les af miklum áhuga alveg stórkostlega vel unnar fréttir Eggerts Skúlasonar um göngu norskra eldislaxa í íslenskar ár. Þessar fréttir bera vott um mikla þekkingu blaðamanns á viðfangsefninu og sérstaklega finnst mér áhugavert þegar blaðamaður dregur ályktanir byggðar á þekkingu sinni á viðfangsefninu og auðvitað skoðunum sínum.

Dekksta sviðsmynd­in sem sam­tök sem berj­ast gegn sjókvía­eldi hafa teiknað upp er nú að raun­ger­ast. Frjór norsk­ur lax er mætt­ur í nokkr­ar af helstu laxveiðiám Íslands og mun þar taka þátt í hrygn­ingu með villt­um ís­lensk­um löx­um á næstu vik­um.

En það er fleira áhugavert hérna en sjálft umhverfisslysið. Á Íslandi eru einhverjar ströngustu reglur í heimi um sóttkví hunda og katta sem koma til landsins. Sumir segja yfirgengilegar. Margir hafa sennilega þurft að verða viðskila við gæludýr sín vegna hindrana yfirvalda.

Rökin fyrir þessum hindrunum eru auðvitað þau að menn vilji verja eyjuna Ísland fyrir hættulegum sjúkdómum og velja að allt að því dauðrota frekar en rota til að tryggja það. En nú ganga hundar og kettir ekki í tonnatali upp í laxveiðiár og keppa við staðbundnar tegundir um pláss og fæðu. Ættu ekki að gilda sama nálgun um erlenda laxa og erlenda hunda? Eða hvar er um grundvallarmun að ræða? Framlög í kosningasjóði, kannski?

Sumir hafa líkt sjókvíaeldi á laxi við sótsvartan og skítugan iðnað sem mengar umhverfið og veldur óafturkræfum skaða. En rétt eins og gildir um iðnað þá skapar sjókvíaeldið störf. Lítil pláss úti á landi eru að upplifa endurnýjun lífdaga og í sumum er verið að byggja nýtt íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti í áratugi. Vegur eitt uppi á móti öðru? Er þess virði að fórna laxveiðinni fyrir laxeldið? Á sjávarplássið að fá að menga hafið og árnar á kostnað bóndans sem hrökklast frá starfi sínu?

Það finnst mér ekki, persónulega. Úr því mönnum tekst ekki að hafa hemil á eyðileggingu íslenska laxastofnsins þá ættu þeir að þurfa loka verksmiðjunni eða koma henni upp á land.


mbl.is Strokulaxinn er frá Arctic Sea Farm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar leiðir til að trufla verðmætaskapandi atvinnu

Veirutímar voru gott sýnidæmi í því sem ég vil kalla nýfasisma: Stjórnarskráin er tímabundið eða varanlega sett í ruslatunnuna til að færa aukin völd í hendur ríkisins án stjórnarskrárheimilda og rýmka fyrir truflunum á friðsælum samskiptum og viðskiptum fólks og fyrirtækja.

Veirutímar voru kallaðir fordæmalausir tímar en eru núna orðnir að fordæmi.

Á Íslandi stundar fyrirtæki löglegar veiðar á hvölum. Engu að síður kemst lítill og hávær hópur, með mikið aðgengi að fjölmiðlum og greinilega fjármunum líka, upp með að raska starfsemi þess, að því er virðist án afleiðinga.

Fyrirtækið reynir að varðveita starfsfrið starfsmanna sinna en þá birtir fjölmiðill pistil um að þær varnir séu mögulega ólöglegar.

Ég veit ekki hvar þetta endar en stjórnmálamenn þurfa að ákveða sig: Gilda lög í landinu, eða ekki? Er hægt að stunda löglega starfsemi í friði, eða ekki?

Verði sú starfsemi bönnuð með lögum þá er það mögulega hreinlegri niðurstaða. Þá getur fyrirtæki í þeirri starfsemi selt eða sett í kyrrstöðu dýrar eignir sem krefjast viðhalds og mannafla. En gráa svæðið er algjörlega óásættanlegt og er í raun lögleysa. Fyrirtækið gæti þá allt eins verið staðsett í Kína eða Norður-Kóreu - ríki sem íslensk stjórnvöld eru vonandi ekki að taka sér til fyrirmyndar.

Eða hvað?


mbl.is Segir Hval hafa reist ólöglega rafmagnsgirðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband