Bloggfærslur mánaðarins, september 2023

Hvernig veiðir þú apa?

Frægt er eitt ráð til að veiða apa. Holaðu kókoshnetu að innan og settu eitthvað eftirlæti apans inn í hana. Apinn setur opinn lófann inn, grípur um góðgætið og getur svo ekki náð krepptum hnefanum út. Veiðimaðurinn getur gengið að því vísu að apinn hafi þannig fest sjálfan sig í hnetunni og svolítið kylfuhögg í höfuð apans lýkur veiðinni. Fyrir lifandi lýsingu á þessari veiðiaðferð, með heimspekilegu ívafi, er hægt að horfa á þennan unga mann segja frá.

Í samhengi Parísarhjóls á hafnarbakka gjaldþrota borgar er blaðamaðurinn orðinn að apa og borgarstjóri orðinn að manninum með kylfuna sem dauðrotar. Blaðamaðurinn grípur um alveg ævintýralega vitlausa hugmynd og gleymir öllu um skuldir, ávöxtunarkröfu og uppgjör, og borgarstjóri getur tekið sinn tíma og jafnvel tekið því rólega á meðan blaðamaðurinn neitar að sleppa góðgætinu sem hann mun aldrei fá.

Hvað getum við lært af þessu?

Ekki vera apinn.


mbl.is Borgarstjóri vill Parísarhjól á hafnarbakkann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um fasisma og hinn nýja

Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu Krossgötum þar sem ég gæli við skilgreiningu á ríkjandi stjórnarfari í lýðræðislegum ríkjum þessi misserin og raunar mörg undanfarin ár. Sögulegar rætur þessa stjórnarfars eru teknar fyrir og koma kannski einhverjum á óvart. 

Sumir telja að fasismi sé einhvers konar Hiterlismi og snúist um að hertaka önnur ríki og senda minnihlutahópa í útrýmingarbúðir. Svo er alls ekki. Fasismi í upprunalegri skilgreiningu Benito Mussolini fjallaði einfaldlega um sterkt ríkisvald sem var ofar einstaklingnum og hans sjálfselsku einstaklingshyggju. Einstaklingurinn var til fyrir ríkið, ekki öfugt.

Hann má vissulega eiga hluti og fyrirtæki en þegar ríkisvaldið bankar á dyrnar þá þarf viðkomandi að hlýða.

Menn skrifuðu stjórnarskrár vestrænna ríkja með algjörlega öfugu hugarfari eins og ég fjalla um í grein minni en í framkvæmd er í raun um ákveðna gerð af fasisma að ræða - nýfasisma.

Þannig getur ríkisvaldið til dæmis tekið af okkur réttinn til að gera allskonar friðsamlegt, eins og að eiga viðskipti og samskipti, að því er virðist. 

Þrátt fyrir stjórnarskrár, ekki vegna þeirra.

Af því þegar ríkisvaldið skilgreinir einhverja hagsmuni rétthærri okkar sjálfselska einstaklingafrelsi þá er það orðið stjórnarfarið. Fasismi í raun, en af því hann er stundaður í stjórnarskrárbundnum lýðveldum: Nýfasismi.

Ég mun mögulega halda áfram að gæla við þessa hugleiðingu og þetta hugtak í skrifum, en er ekki alveg viss. Þetta er jú svo augljóst í raun að það væri eins og að benda á hið augljósa ítrekað. Kannski ætti ég frekar að fjalla um leiðir til að vinda ofan af nýfasismanum og mögulega koma góð tækifæri til þess í vetur þegar menn blása í nýja veirutíma.

Sjáum hvað setur.


Mælingar og manneskjur

Ef þú getur ekki mælt það þá skiptir það ekki máli.

Eða svo segja sumir.

Við getum mælt aldur og þyngd, talið hausa eftir hár- og húðlit, borið saman laun á milli einhverra hópa sem við búum til og svona mætti lengi telja.

En ég sá alveg ljómandi ábendingu um daginn sem mér finnst athyglisverð: Við getum ekki mælt hversu mikið traust við berum til manneskju. 

Við getum vissulega mælt frammistöðu á ýmsa vegu (vinnustundir, hagnaður af hverri vinnustund, endurgjöf og þess háttar) en ég hef ekki séð tilraun til að mæla hversu traustverðug manneskja er.

Sem er kannski með því mikilvægara þegar kemur að því að búa til góðan hóp á vinnustað eða hvar sem er.

Ég vinn í tæplega 20 manna deild sem hefur á að telja nálægt 10 móðurmál. Við erum þar af báðum kynjum, flestum húðlitum, á öllum aldri og frá fjölda ríkja. Þessi deild vinnur vel saman, og andrúmsloftið er gott sem væri mögulega hægt að taka eftir með því að telja fjölda óviðeigandi brandara í hádegishléinu. Auðvitað treysta sumir sumum betur en öðrum en yfir það heila er þetta samheldinn hópur sem skilar af sér góðri vinnu sem viðskiptavinirnir eru ánægðir með.

Hvernig tókst að búa til svona hóp? Það er erfitt að segja. Yfirmenn hafa komið og farið eins og árstíðirnar og þeir hafa séð um að velja og hafna umsækjendum. Stundum er auglýst eftir ungu fólki og fáir sækja um, og stundum eftir reyndu fólki og margir sækja um. Og allt þarna á milli, auðvitað.

Er til smáforrit til að útskýra það?

Eða er eitthvað á ferðinni hérna sem verður ekki mælt í öðru en að enginn er að spá í tegund kynfæra, húðlits, kynhneigðar og uppruna? Að slíkt sé hreinlega aldrei rætt nema í fyrirlestrum sem enginn spáir í? Að við séum öll fagmenn og manneskjur, fyrst og fremst?

Það er mín tilgáta.


mbl.is Ætlað að útrýma eitraðri vinnustaðamenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsæknar borgir

Nokkrir borgarfulltrúar Reykjavíkur, þar á meðal Sjálfstæðismenn, fóru nýlega í hópeflisferð til Bandaríkjanna og heimsóttu þar tvær svokallaðar framsæknar borgir, sem einkennast mögulega helst af fjölda atvinnu- og heimilislausra, fíkniefnavanda og öðrum afleiðingum þess að vera framsækinn.

Einn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins lét blekkja sig svo um munar, og skrifar um reynslu sína af ferðalaginu sem þú borgaðir þar sem brjálað heimilislaust fólk blasti við á hverju götuhorni:

Aðspurð um ástæðurnar nefndu öll fentanýlfaraldurinn í Bandaríkjunum og að Portland væri ákjósanlega staðsett á helstu verslunarleið mexíkóskra glæpasamtaka í gegnum Bandaríkin. ... Borgarfulltrúanum og borgarstjóra Portland þótti dapurlegt að viðurkenna að fólk saknaði heróíntímans, því það sljóvgaði fólk og skemmdi hægar en fentanýlið, sem gerir fólk árásargjarnara og illilega geðveikt.

Einmitt það já? 

Nú hefur Portland lengi verið á vegferð sem endar í hruni hagkerfis, flótta fyrirtækja og afleiðingum þess að venjulegt fólk geti ekki fundið sér vinnu.

Fíkniefnavandinn er afleiðing slíks ástands, ekki upphaf.

Sú vegferð heitir á tungutaki vinstrimanna að vera framsækinn. 

Í þessu felst vel á minnst að bjóða atvinnulausum upp á allskyns gegn engu og skipta sér af launastefnu fyrirtækja. Portland er búin að vera á langri vegferð að núverandi ástandi, og öllu er svo klínt á eiturlyf.

Gaslýsing, ef eitthvað er það.

Þessi skemmtiferð mun engu skila nema reikningum sem enda á skattgreiðendum. Hún kenndi engum neitt og það sem verra er: Lét jafnvel niðurrif líta út eins og uppbyggingu.

Vonandi gleymist þessi ferð sem fyrst, og allt sem hún skildi eftir í haus borgarfulltrúa.

Skammarverðlaunin fá svo borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem tóku þátt í ruglinu. Trúverðugleiki þeirra sem málsvarar bætts reksturs Reykjavíkurborgar er að eilífu horfinn.


mbl.is „Hópeflisferð borgarráðs til Bandaríkjanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algengur hausverkur endurnýjanlegu orkugjafanna

Ókeypis rafmagn til skiptis við ógnardýrt rafmagn er algengur veruleiki víða í Evrópu. Þegar sólin skín í köldu veðri og vindur blæs þá er rafmagn gjarnan ókeypis á Suður-Jótlandi í Danmörku, svo dæmi sé tekið. Þegar er skýjað og logn er rafmagnið ógnardýrt og keyrt út úr þýskum kolaorkuverum, meðal annars. Þjóðverjar kalla slíkt ástand Dunkelflaute, sem er skemmtilegt að segja upphátt.

Þetta er hausverkur fyrir þá sem framleiða rafmagn enda er slit alveg jafnmikið í vindmyllu sem framleiðir ókeypis rafmagn og þeirri sem framleiðir dýrt rafmagn. En það er lítið hægt að gera í veðrinu og menn því með allskyns hugmyndir á sveimi, svo sem að nota ódýrara rafmagnið til að framleiða gas eða eldsneyti sem má geyma og nýta þegar orkuverð er hærra. Í þessu felst mikið tap, en það mætti kannski bara segja að töpuðu fé sé skipt út fyrir tapaða orku.

Suður-Jótland er nágranni Þýskalands. Í Þýskalandi er bannað að slökkva á vindmyllum, eða því fylgir a.m.k. háar sektir. Vindmyllueigendur í Norður-Þýskalandi hafa því stundum brugðið á það ráð að borga dönsku vindmyllueigendum til að slökkva á þeirra vindmyllum til að ofkeyra ekki rafmagnsnetið. Finnst þá mörgum nóg um.

Stöðugt og áreiðanlegt rafmagn er alls ekki sjálfsagður hlutur. Nú þegar Evrópumenn þykjast vera að skipta úr olíu, gasi og kolum yfir í vind- og sólarorku fer stöðugleikinn líka minnkandi - bæði í framboði og verðlagi. 

En þetta á jú að vera svo gott fyrir plánetuna, segja sumir (en ekki aðrir).


mbl.is Ókeypis rafmagn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formenn og fylgi flokka

Línuritið hér að neðan sýnir fylgi flokka eins langt aftur í tímann og hægt er að skoða á heimasíðu Gallup. Ég veit ekki hvort það er athyglisvert en tel þó hægt að draga af því ákveðinn lærdóm.

fylgiflokka23

Augljóslega sést áfallið í hinu alþjóðlega fjármálakerfi skýrt þarna í hruni á fylgi Sjálfstæðisflokksins niður í rétt rúmlega 20%. Í kjölfarið tók við vinstristjórn sem gekk svo illa að fylgi Sjálfstæðisflokksins var fljótlega komið vel yfir 30% nokkrum misserum síðar. Flokkurinn missir svo 10% á augabragði vorið 2013 en á sama tíma bætir Framsóknarflokkurinn við sig svipuðu fylgi sem hverfur samt hratt og á meðan eru Píratar allt í einu komnir fram á sjónarsviðið. Eftir það tekur við ákveðin flatneskja (með skammvinnu skoti upp og niður hjá Pírötum sem undantekning, og án þess að spá í kraðakið í undir 10% línunni) þar til nýlega, að Samfylkingin er komin á flug.

Nú er kannski ekki við hæfi að tengja þessar miklu sveiflur við það hver er formaður hvaða flokks og hvað þessir formenn segja, en kannski samt. Skipta þeir meira máli en allt það flokkastarf og grasrótarstarf og hugmyndavinnustarf og hvað það nú heitir allt saman sem flokkarnir þykjast vera að stunda? Skiptir stefnuskrá flokks minna máli en það hver er formaður flokks?

Skítt er það ef svo er. Það þýðir að allir landsfundir, flokkráðsfundir og félagsfundir soðna niður í að vera klúbbastarf, eins og að hittast til að spila borðspil í Skeifunni. Allar samþykktir, ályktanir funda og stefnuskrár fá sama vægi og stjórnarskrá Íslands: Fínn pappír, og þá aðallega ef klósettpappírinn klárast.

Einu sinni bjó Sjálfstæðisflokkurinn að óformlegu fyrirbæri sem kallaðist iðulega samviska flokksins: Ungliðahreyfingarnar sem veittu flokksstjórninni beitt og bítandi aðhald í gegnum virka starfsemi, skrif og háværa þátttöku á landsþingum. Sú samviska er vægast sagt þögnuð og ekkert komið í staðinn.

Hvað með aðra flokka? Er ennþá til eitthvað sem heitir Ung Vinstri-græn og annað slíkt, sem hamast í flokksforystunni fyrir að hafa svikið öll stefnumál flokks síns? 

En gott og vel. Ef það eina sem skiptir máli er hver er formaður og hvað sá formaður segir þá hljóta allir flokkar að vera hugsa sinn gang. Sumir eru betur settir en aðrir í dag. 


Tilbúinn, viðbúinn, af stað!

Smit. Nýtt afbrigði. Uppfærð bóluefni. Fréttir um veirur eru komnar á stjá í auknum mæli. Engir heimsendaspádómar ennþá en þannig var það líka í upphafi ársins 2020 þar til Kínverjar fóru að dæla út fölsuðum myndböndum af fólki að detta dautt niður úti á götu. 

Eitt af gjallarhornum hræðslunnar, The Guardian, stígur í bili rólega til jarðar í glænýrri frétt:

Á heimsvísu er myndin af útbreiðslu Covid mjög misvísandi. Í þróuðum ríkjum er sjúkdómurinn að breiðast út meðal þeirra sem hafa ekki fengið bóluefni. Á hinn bóginn, í ríkjum eins og Bandaríkjunum, hefur mikið verið gefið af bóluefnum og mikill þrýstingur er á alla aldurshópa að láta bólusetja sig, þar á meðal börn sem veikjast sjaldnast alvarlega frá Covid-smiti. Ungt fólk hefur hins vegar ekki farið mikið í bólusetningar.

**********

The global picture of Covid’s spread is extremely mixed. In developing nations, the disease spread through populations who were not provided with vaccines. By contrast, in countries such as the US, the vaccine take-up rate has been striking and there continues to be strong pressure for all ages to be immunised, including children who rarely suffer ill effects from Covid infections. Uptake rates remain low among young people, however.

Takið eftir tvennu þarna: Þeirri bláköldu lygi að það séu óbólusettir sem eru að dreifa veirunni, og létt skot á Bandaríkjamenn fyrir að þrýsta á börn að fara í sprautur (nokkuð sem The Guardian var mjög hlynntur á sínum tíma). 

Nú vonar maður auðvitað að yfirvöld séu ekki að hita sig upp fyrir nýja veirutíma sem margir sáu svo góð og mikil tækifæri í. En svona til öryggis þá er vissara að hafa einhverja áætlun.

Veirutímar vöktu marga til meðvitundar um þann stanslausa straum af bulli og þvælu sem yfirvöld og alþjóðlegar stofnanir reyna í sífellu að selja okkur. Í upphafi veirutíma leið eflaust mörgum eins og aleinum í heiminum og mörg fórnarlömb sprautnanna upplifa sig ennþá þannig. En smátt og smátt fór fólk sem trúði ekki á ágæti þess að loka börn inni og drepa gamalt fólk úr einveru að taka höndum saman. Það fór að mynda hópa og jafnvel formleg samtök og meira að segja þegar hræðsluáróðurinn var sem mestur var þetta fólk að hittast og veita faðmlög á drungalegum tímum.

Vísindamenn hafa líka margir hverjir hætt sér út fyrir þægindarammann og bent á hræðilegar afleiðingar aðgerða gegn veiru. Hið sama má segja um suma blaða- og stjórnmálamenn, ótrúlegt en satt. 

Ég er því að vona að ef menn reyna aftur að blása í veirutíma að þá verði slíku mætt með öflugri andspyrnu og gjarnan háði og spotti. Svona eins og þegar við áttum öll að óttast einhverja apabólu fyrir ekki löngu síðan. Sú bóla hvarf í hafsjó af háðsglósum.

Auðvitað geta yfirvöld lokað skólum og vinnustöðum þrátt fyrir ónýtan pappír eins og stjórnarskrár og lög. Þau geta lokað búðum og sett á grímuskyldu. En nema þau bókstaflega vilji byrja að handtaka fólk úti á götu í stórum stíl þá er ennþá mikið svigrúm til að óhlýðnast, hæðast að áróðrinum og eiga sér jafnvel félagslíf. 

Ég vona að það sé hægt að kæfa þessa litlu vísa að nýjum veirutímum í fæðingu en til vara má undirbúa sig andlega: Undir að vera skammaður eða uppnefndur samsæriskenningasmiður eða ömmumorðingi. Undir að vera útilokaður frá helstu umræðusvæðum. Undir að sjá mannréttindi skert vegna ónægrar inntöku á gagnslausum lyfjum.

Ég er tilbúinn, ef svo fer.


Hjartaáföll, krabbamein og vísindalæsi

Í einhverju hádegishléinu í vinnunni kom til tals að sólskin væri mikið og að einn í hópnum væri stanslaust að bera á sig sólarvörn til að brenna ekki. Ég spurði, í mesta sakleysi, hvort hann reyndi að velja sólarvörn sem væri ekki krabbameinsvaldandi. Maðurinn, sem er almennt ágætlega upplýstur og góður í sinni vinnu, kom af fjöllum, og hópurinn allur í raun. Eflaust hugsuðu einhverjir í hópnum að hér væri ég að bera á borð enn eina samsæriskenninguna. Einn benti á að við værum innilokuð allan daginn og því viðkvæmari fyrir því að brenna en fyrri kynslóðir sem unnu úti. Umræðan fjaraði að öðru leyti hratt út og yfir í eitthvað annað.

Ég er mjög varfærinn þegar kemur að sólarvörn. Ég nota hana helst ekki og ber hana helst ekki á mín börn. Miklu betra er að vera mikið úti þegar sólin fer að láta sjá sig á vörn og byggja upp brúnku, sem er okkar náttúrulega sólarvörn. Þegar ég þarf að kaupa og nota sólarvörn þá vel ég hana frá Derma, sem hefur komið vel út í rannsóknum á neikvæðum áhrifum á líkamann (en þetta gæti breyst). 

En að stærra málinu.

Svo virðist sem almenningur sé almennt mjög vel upplýstur um að sprautur með mRNA-efnum séu áhrifaríkar og hættulausar. Þetta er jafnvel enn trú margra þótt óteljandi rannsóknir - aðallega framkvæmdar utan Bandaríkjanna - hafi sýnt fram á annað. Jafnvel óyggjandi, segja sumir, og benda á að ungt íþróttafólk er að stráfalla vegna hjartaáfalla.

Við erum líka meira og minna sannfærð um að koltvísýringslosun mannkyns sé að gjörbylta loftslagi plánetunnar. Að þessi sameind, sem hefur aukist úr um 300 hlutum á hverja milljón í 400 hluti á hverja milljón, sé ástæða þess að það sé of þurrt, of blautt, of hlýtt, of kalt, of hvasst eða of rakt (þetta breytist eftir því hvaða landsvæði er talað um og hvaða árstíð).

Margir eru að reyna minnka kjötneyslu, og þá sérstaklega feitt kjöt, og borða þess í stað meira kolvetni. 

Tilraunir hafa verið gerðar til að gera lítið úr ágæti lýsisneyslu og að lyfjanotkun sé þess í stað betri leið til að styrkja ónæmiskerfið.

Almennt fæ ég það á tilfinninguna að tvennt sé í gangi:

  1. Vísindalæsi er lélegt og byggist aðallega á matreiðslu blaðamanna á því sem þeir hafa áhuga á eða telja sig knúna til að segja.
  2. Oftrú á ákveðin vísindi er að setja okkur í faðminn á stórum fyrirtækjum með góðan aðgang að yfirvöldum og blaðamannafulltrúum þeirra.

Ég ætla að reyna tilheyra hvorugum hópnum, og halda áfram að forðast notkun á sólarvörn eins mikið og ég get, jafnvel þótt hádegisverðarhópurinn minn hafi komið af fjöllum.


mbl.is Skaðleg efni í sólaráburði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband