Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023
Sunnudagur, 19. nóvember 2023
Hljómur frelsisins og blaðamenn
Kvikmyndin Sound of Freedom hefur áður verið nefnd á þessum stað. Mæli ég með góðri greinaröð um þessa kvikmynd á Krossgötum [1|2|3] eftir höfund með leiftrandi réttlætiskennd í brjósti.
Örlítill inngangur: Kvikmyndin fjallar um kerfisbundin barnarán og sölu á börnum, og sannsögulega lýsingu á því hvernig reynt er að bjarga þessum börnum. Donald Trump hefur sagst vera á móti kynlífsþrælkun barna og bauð höfundi myndarinnar í spjall á meðan sá fyrrnefndi var forseti. Fyrir vikið hefur boðskapur myndarinnar verið afskrifaður eins og einhvers konar Trump-boðskapur og samsæriskenning (maður óskar þess nú ekkert heitar en að barnarán og sala á börnum í kynlífsþrælkun sé hreinn hugarburður). Blaðamenn hafa í kjölfarið talið það vera skyldu sína að rægja þessa mynd og fjalla um hana á neikvæðum nótum.
Ég var eiginlega búinn að gleyma þessu máli öllu þar til ég rakst á sýningartíma myndarinnar í Danmörku og sá þar ýmsa dóma. Dómar kvikmyndagesta eru góðir, og meðaleinkunn 5,2 af 6 gefin. Dómar fjölmiðlanna, og svokallaðra fagmanna í kvikmyndarýni, eru vondir:
- 2 stjörnur af 6 (borgaralega sinnað dagblað, en vísar í Trump)
- 2 stjörnur af 6 (kristilegt dagblað, og kallar myndina óáhugaverða)
- 3 stjörnur af 6 (kvikmyndarýni sem sér að því að bent sé á siðferðisbrest)
- 1 stjarna af 6 (kvikmyndarýni, sem telur myndina ósmekklega)
- 2 stjörnur af 6 (vinstrisinnað blað, sem kallar myndina tilfinningaklám)
- 4 stjörnur af 6 (æsifréttablað sem þorir)
- 4 stjörnur af 6 (borgaralega sinnað dagblað)
Á IMDB fær myndin 7,7 af 10 sem er mjög góð einkunn og byggð á yfir 84 þúsund einkunnagjöfum. Á IMDB eru það áhorfendur, en ekki svokallaðir sérfræðingar, sem gefa einkunnirnar.
Auðvitað er ekki fáheyrt að kvikmynd sé elskuð af fólkinu á meðan spekingarnir eru ósáttir, og öfugt. En rökstuðningur þeirra sem gefa lélega einkunn eða veita neikvæða umfjöllun er oft einhver tilvísun í Trump og álíka fyrirbæri, og hér og hér má sjá stæk dæmi um þetta viðhorf.
Þetta fær mig til að hugleiða aðeins víðar hvernig blaðamenn nálgast vinnuna sína. Þeir hljóta jú að hafa sótt í blaðamennsku til að greina, aðgreina og gera grein fyrir einhverju. Þeir hljóta að hafa alist upp við að telja sig sjá kjarna málsins, hafa hæfileika til að greina hismið frá kjarnanum og geta boðið upp á einhverja fréttnæma eða áhugaverða nálgun á viðfangsefni samtímans.
Ef blaðamenn geta ekki horft á kvikmynd sem áhorfendur almennt virðast elska, byggða á raunverulegum atburðum, um björgun á börnum úr kynlífsþrælkun, og dæmt hana út frá öðru en því að Trump sagði eitthvað jákvætt um hana, eiga þeir sér þá einhverja von?
Ég held ekki, og er sífellt að styrkjast í þeirri afstöðu.
Blaðamenn geta auðvitað sagt okkur frá markatölu í íþróttaleik og hvað veðurfræðingur heldur að komi úr himnunum eftir einn eða í mesta lagi tvo daga, en mikið lengra nær það ekki.
Fyrir vikið þurfum við hin að sækja í efni óháðra blaðamanna, hlaðvörp, rökræður, skýrslur og jafnvel setja okkur inn í vísindagreinar sem fjölmiðlar hunsa af því það er ekki á handritinu sem þeir fengu til að skrifa.
En auðvitað bara gefið að við nennum að vita eitthvað meira en markatölur íþróttaleikja, og hvort við eigum að fara út í flíspeysu eða regnjakka næsta dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 19. nóvember 2023
Stækkum tengslanetið
Um daginn barst mér vinabeiðni á fjésinu frá ungum manni sem hafði lesið ýmis skrif mín og taldi sig vera nokkuð sammála mér í mörgum atriðum. Hann sendi mér síðan skeyti sem endaði á þessum orðum:
Er að tengjast ýmsum skoðana systkinum okkar.
Þetta fannst mér vera gott framtak sem ég hef hugleitt svolítið í kjölfar beiðninnar.
Á veirutímum var nánast óhjákvæmilegt fyrir mig að tengjast nýju fólki þvert á ýmsa hópa, og eðli málsins samkvæmt fór slíkt aðallega fram á samfélagsmiðlum. Þannig var hægt að halda geðheilsunni í geðveikinni og bólstra huga sinn af þekkingu og upplýsingum sem fjölmiðlar héldu rækilega frá okkur og gera jafnvel enn þann dag í dag.
En geðveikin nær lengra en til veirunnar. Pólitískur rétttrúnaður er orðinn að frekar umfangsmiklu trúarbragði sem nær til allra þátta lífsins, heldur úti sínum prestum sem sjá um að boða nýjasta sannleikann sem breytist frá degi til dags, og þenur sig út á kostnað venjulegs fólks. Trúarbrögðin skiptast í nokkra kafla, eða eins konar guðlaus guðspjöll, þar sem hefur allt í einu, á einhvern undraverðan hátt, sennilega í fyrsta skipti í sögunni, tekist að ná vísindalegri og pólitískri samstöðu sem ekki má gagnrýna. Má þar nefna:
- Maðurinn er að hita upp jörðina með losun á koltvísýringi í andrúmsloftið
- Einstaklingurinn er ekki af einhverju einu líffræðilegu kyni
- Lyfjagjöf er betri en ónæmi
- Sum stríð á að styðja með öllum ráðum - vopnum, fé, skrokkum
- Óleiðrétt heildarlaun allra karlmanna eiga að vera jöfn eða lægri óleiðréttum heildarlaunum allra kvenna (og gleymum ekki kvárunum sem hafa troðið sér inn í kvenréttindahreyfinguna án boðskorts)
Listinn er auðvitað lengri og menn eru sífellt að hrasa um einhvern rétttrúnaðinn sem er nýbúið að blása í. Þetta bitnar að vísu verst á þeim sem vilja vera rétttrúaðir því aðrir af því sauðahúsi eru vel vakandi fyrir minnstu frávikum og æða í eigin safnaðarmeðlimi með heykvíslarnar á lofti þegar þau uppgötvast.
Við hin, sem gerum grín að þessu eða andmælum, leikum okkur að því að misstíga okkur og fáum stundum í staðinn klaganir og kvartanir og tilraunir til þöggunar, nema meðalið sé að ráðast á pósthólf fólks. Það verður bara að hafa það.
En það er í þessu umhverfi að tengslanetið er mikilvægt. Ég tek gjarnan þátt í að stækka þitt, gefið að við séum samherjar (ekki endilega sammála um allt, en viljum opin og raunveruleikatengd skoðanaskipti, og svartur húmor skemmir ekki fyrir), og hvet fleiri til að hugsa á sömu nótum. Aldrei aftur á þeim að takast að loka okkur inni, ógna okkur með sprautunálum og drepa okkur úr einveru og þunglyndi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 19. nóvember 2023
Verðlaun fyrir að slíta vegunum
Yfirvöld vinna núna mjög að því að auka slit á vegum og framleiða svifryk í þéttbýli. Vefþjóðviljinn tekur þetta ágætlega fyrir:
Vinsæll rafbíll vegur um 1,8 tonn. Hann mun frá áramótum greiða 6 krónur fyrir kílómetrann skv. áætlun fjármálaráðherra.
Vinsæll bensínbíll vegur um 1 tonn. Miðað er við að skattur (vörugjöld og vsk.) af bensínlítranum sé um 150 krónur og bíllinn eyði um 6 lítrum á hundraðið. Þá er kílómetragjald hans um 9 krónur.
Létti bensínbíllinn greiðir því 50% hærra kílómetragjald en þungi rafbíllinn mun gera. Er það sanngjarnt? Vegslit er háð þyngd bíla. Hvers vegna verður hærri skattur á bílinn sem slítur vegunum minna?
Hér er spurt hvers vegna en engin góð svör í boði:
- Notkun Íslendinga á bensín- og Dísel-bílum hefur áhrif á loftslag Jarðar, hvorki meira né minna
- Innflutt eldsneyti kostar of mikinn gjaldeyri, ólíkt kaupum á rándýrum rafmagnsbílum
- Stjórnmálamenn hafa bundið Íslendinga í flókið kerfi alþjóðlegrar skattheimtu sem verðlaunar orkuskort
- Menn vita hreinlega ekkert hvað þeir eru að gera og hvaða afleiðingar gjörðir þeirra hafa
En sama hvað þá stefnir allt hér að einu marki: Að taka bílinn af venjulegu fólki, þennan þarfasta þjón mannsins sem gefur honum ferðafrelsi, svigrúm og möguleika á að komast á milli staða.
En ekki fyrr en er búið að kæfa hann í niðurgreiddu svifryki rafmagnsbílanna.
Frumvarp um kílómetragjald á hreinorkubíla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 18. nóvember 2023
Dauðasprauturnar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 18. nóvember 2023
Frétt: Ekkert eldgos í Grindavík
Það er helst í fréttum þessa dagana að það er ekkert eldgos í Grindavík. Atvinnumenn á stórum flutningabílum geta því auðveldlega keyrt skipulega í gegnum bæinn og tæmt hvert einasta hús og hverja einustu íbúð af öllum munum og verðmætum og komið í geymslu þar sem eigendur geta sótt þá (verk sem ætti að taka um viku ef þrír menn tæma eitt húsnæði á 6 klst og ein búslóð tekur einn flutningabíl og alls 10 teymi eru að störfum 12 klst á dag á hressilegum álagsgreiðslum). Á meðan bíða íbúar rólegir í hótelherbergjum sem áður voru keypt undir fólk í sóttkví eða eru í dag keypt fyrir hælisleitendur og þurfa ekki að vera á flakki með ruslapoka fulla af munum.
Á sama tíma fer fram verðmat á öllu húsnæði í Grindavík sem verður nýtt til að tryggja íbúana að fullu, enda er bærinn ónýtur og þarf að afskrifa. Rétt eins og megnið af Súðavík á sínum tíma.
Góðar fréttir ekki satt?
Þetta er að vísu alls ekki lýsing á stöðunni í dag. Það er að vísu rétt að það er ekkert eldgos í Grindavík en allt annað er einhvern veginn öðruvísi. Íbúar eru á flakki með nokkra ruslapoka af munum sínum og fá hvorki að sækja afganginn af eigum sínum né er verið að gera það fyrir þá af atvinnumönnum. Þess í stað er mannskapurinn upptekinn við að reisa vegg í kringum eitt orkuver, sem er engu síður á hættusvæði en Grindavík sjálf.
Engar áætlanir eru um að greiða fólki út tryggingar vegna yfirvofandi altjóns á Grindavík sem situr ofan á sprungusvæði sem er vaknað til lífs eftir langan dvala. Þess í stað er rifist í bönkunum fyrir að vilja ekki frysta lán á ónýtum húsum sem enginn mun nokkurn tímann vilja kaupa og hvað þá flytja í.
Kannski mun eldgos koma einhverju í réttan farveg. Í millitíðinni er það helst í fréttum að það er ekkert eldgos í Grindavík en þeim mun meiri órói í hjörtum Grindvíkinga sem hafa verið gerðir að flækingum - af yfirvöldum.
Lilja ósátt við viðbrögð fjármálastofnana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 17. nóvember 2023
Afleiðingar vanrækslu: Uppsögn eða launahækkun
Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að Matvælaeftirlitsstofnun (MAST) sé í raun að mistakast í hlutverki sínu. Vegna tíma- og fjárfrekra tafa og pappírsvinnu sitji eftir dýr sem þjást í langan tíma, sem er í raun lögbrot í boði MAST.
MAST bregst við með fyrirsjáanlegum hætti: Vantar peninga.
Von MAST er væntanlega sú að fá verðlaun í formi peninga fyrir vanrækslu sína. Sennilega mun sú aðferðafræði virka, en engu breyta.
Þegar fyrirtækjum á frjálsum markaði mistekst þá hlaupa viðskiptavinirnir frá þeim. Fyrirtækin minnka eða hverfa. Samkeppnisaðilar bólgna út.
Í tilviki opinberra stofnana þá eru í skiptum fyrir mistök og vanrækslu verðlaun. Fleiri starfsmenn. Meiri peningar.
Ósvífinn aðili gæti jafnvel sagt að opinberar stofnanir hafi af því fjárhagslegan hvata að valda sem mestum skaða, sem lengstum töfum og sem mestum kvölum. Stjórnmálamenn verðlauna slíkt með peningum og heimildum til að kvelja fólk og fyrirtæki enn meira en áður.
Ég viðurkenni auðvitað að MAST hefur margt á sinni könnu. MAST þarf allt í einu að fylgjast með iðnaðarframleiðslu á laxalús í sjókvíum og virðist hvorki hafa til þess mannafla né þekkingu. Lausnin er auðvitað ekki sú að fjarlægja ræktunarstaði laxalúsar, en það er önnur saga.
MAST ataðist lengi í kunningja mínum um hvar hann ætti að setja ræsi í fiskbúð, og lagði vitaskuld til aðrar staðsetningar en önnur eftirlitsbákn sem ekki var haft samráð við. MAST er mest, þannig er það.
Mögulega mætti leggja niður MAST í stað þess að þenja það út. Í staðinn mætti koma á fyrirkomulagi svokallaðs þriðja aðila, þ.e. óháðra eftirlitsstofnana í samkeppni hver við aðra sem sjá um að fylgjast með bæði lögum og stöðlum. Slíkt gefst víða vel.
Sjáum hvað setur.
Eftir stendur að stofnun sem virkar ekki segir við stjórnmálamenn að skattgreiðendur þurfi að borga meira fyrir minna. Líklega verður brugðist við því með auknu fé, enda er núna búið að kalla eftir stöðu upplýsingafulltrúa sem sér um af afvegaleiða okkur, og slíkt þarf að fjármagna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. nóvember 2023
Gerviheimur loftslagstrúarkirkjunnar
Í gegnum hækkandi skatta og fjölgun þeirra erum við á Vesturlöndum að finna á eigin skinni fyrir tilraunum stjórnmálamanna til að breyta veðrinu. Það stefnir hratt í að venjulegt launafólk hafi ekki lengur efni á að kaupa og reka bíl og þarf að vaða slabbið í strætó, með krakkana í eftirdragi, til að komast inn og út úr hverfinu. Meira að segja það að vilja komast út úr hverfinu er talið vera eitthvað ósjálfbært og skaðlegt veðrinu.
Ein af stærri ráðgjafastofum heims gaf nýlega út skýrslu um hvernig heimurinn geti náð markmiðum loftslagstrúarkirkjunnar um minnkun á losun koltvísýrings í andrúmsloftið. Þar leynist setning sem ég er farinn að sjá oftar og oftar (bls. 8):
Önnur sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eru í mótsögn við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, t.d. náttúruvernd í því að heimila ekki notkun á landi fyrir framleiðslu á sjálfbærri orku.
**********
Other [SDG] goals are in conflict with climate action, e.g. ... protecting nature ... by not allowing acreage for new renewable energy build-out.
Valið stendur nefnilega á milli tveggja valkosta: Að verja náttúruna eða verja loftslagið.
Viltu skóg eða sólarrafhlöðu?
Á Íslandi stendur valið kannski frekar á milli þess að þekja svæði (oft auðar sandsléttur) með vatni og svolitlum mannvirkjum eða risavöxnum stálturnum (að ógleymdum aðgangsvegunum og rafmagnsleiðslunum neðanjarðar). Kannski ætti að leyfa þjóðinni að kjósa um slíkt samhliða næstu þingkosningum.
Viltu vatn eða stálturn?
Ég tók mig til og útbjó hugmynd að atkvæðaseðli (smellið á mynd) og bíð spenntur eftir niðurstöðum!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 15. nóvember 2023
Ekkert til vara á eldfjallaeyju
Á Íslandi gjósa eldstöðvar, snjóflóð falla og snjóskaflar stífla innviði, fjallshlíðar losna og renna yfir hús og bæi, sterkir vindar feykja af húsþökum og háspennulínum, miklar rigningar fylla holræsin, nístandi kuldinn gerir götur hálar, öldur hamast á bátum við bryggju og svona mætti lengi telja.
Það má alltaf eiga von á einhverju og vissara að búa sig undir að þurfa taka á því, hvað það sem nú er.
Auðvitað er ekki hægt að tryggja sig gegn öllu en það er hægt að minnka höggið þegar þörfin er sem mest.
Þess vegna hafa íslensk yfirvöld auðvitað safnað í digra sjóði sem nema tugum milljarða. Sé þörf á að reisa vegg fyrir tvo milljarða þá er það lítill vandi, ekki satt?
Nei, það kemur í ljós að milljarðatugirnir eru ekki til staðar. Þeir eru bara tölur á pappír. Lítill miði á botni tóms peningakassa þar sem stendur:
Skulda þér 30 milljarða.
Ríkissjóður.
Ríkið er búið að eyða neyðarsjóðunum í veislur fyrir fína fólkið, hælisleitendur og allskonar annað en viðbrögð vegna náttúruhamfara.
Og er þá komin ástæðan fyrir því að nú eigi að skella enn einum skattinum á Íslendinga til að fjármagna vegg.
Menn eru sem sagt algjörlega búnir að gleyma eldgosinu í Vestmannaeyjum, mannskæðum snjóflóðum á minni lífstíð og skriðunum við Seyðisfjörð fyrir örfáum misserum, svo eitthvað sé nefnt. Gleymt og grafið. Fjarlæg fortíð. Ekkert að læra af slíkum viðburðum!
Er farið að vera við hæfi að efast í vaxandi mæli um getu yfirvalda til að leiða land og þjóð? Búa í haginn fyrir framtíðina? Lágmarka eignatjón og týnd mannslíf vegna hins vel þekkta óútreiknanleika náttúruaflanna á Íslandi?
Það var góð hugmynd að stofna neyðarsjóð. Það var vond hugmynd að eyða honum í kampavín fyrir útlenska stjórnmálamenn og ókeypis tannviðgerðir fyrir efnahagslega flóttamenn.
Og það er góð hugmynd að blása til kosninga vegna þessa hneykslis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þriðjudagur, 14. nóvember 2023
Þetta er bara túlkun. Og túlkun getur verið röng
Vísindin eru leitin að þekkingunni. Þau eru skoðanaskipti. Þau eru átök. Það er þetta ferli sem skilar okkur því besta sem vísindalegar rannsóknir hafa upp á að bjóða.
En svona eru vísindin ekki kynnt í dag. Þau eru miklu frekar kynnt sem eins konar sannleikur. Níutíu og eitthvað prósent vísindamanna eru sammála um eitthvað, og það er þá sannleikurinn. Allskyns embætti og stofnanir eru sammála um eitthvað, og það er þá sannleikurinn. Þeir sem eru ósammála eða gagnrýna eru álhattar og vitleysingar.
Það var því hressandi að lesa eftirfarandi ummæli eftir íslenskan vísindamann, og að því er virðist raunverulegan vísindamann:
Þetta er bara túlkun. Og túlkun getur verið röng,
Þetta segir hann við blaðamann sem slengir engu að síður í fyrirsögn einni mögulegri túlkun af mörgum. Blaðamaður hafði þó vit á að birta fyrirvara vísindamannsins.
Það er ákveðið vandamál við að hin nýju vísindi og þau raunverulegu beri sama titil því þá er hætta á að fólk missi trú á hvoru tveggja. Ein sniðug leið sem ég hef séð til að forðast þennan rugling er að kalla hin raunverulegu vísindi vísindi, og hin nýju Vísindin® (með litla tákninu fyrir skráð vörumerki, og stórum upphafsstaf).
Ég ætla að samþykkja þessa aðgreiningu. Þannig má segja að Vísindin® séu að selja okkur hamfarahlýnun af mannavöldum, að karlmenn geti fætt börn og allt um ágæti mRNA-lyfjatækninnar til að forðast kvefpest og allt þetta með nálægt því 100% nákvæmni án fyrirvara, og að vísindin séu að segja okkur frá jarðhræringum neðanjarðar en þar sem túlkun er bara túlkun, og gæti verið röng, en líka (og vonandi) rétt.
Kvikan gæti verið komin á 400 metra dýpi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 13. nóvember 2023
Allt er tímabundið en sumt dugar í daga og annað í áratugi
Tómur ríkissjóður, sem forgangsraðar erlendum fátæklingum í leit að velferðarfé og vopnaskaki spilltra erlendra stjórnmálamanna, hefur ekki efni á því að sinna eigin þegnum.
En þegar neyðin bankar á dyrnar, með sleggju, þá þarf að gera eitthvað.
Sem þarf auðvitað að fjármagna með skattahækkunum, enda rekur hið opinbera sig á lántökum og á ekki krónu afgangs.
Eldfjallaeyja í miðri lægðahraðlest Norður-Atlantshafsins á ekki krónu afgangs til að mæta minnstu frávikum þrátt fyrir svimandi skattheimtu.
Engar af tryggingum yfirvalda hennar duga til. Engir sjóðir eru nógu stórir, þótt þeir hafi safnast upp í mörg ár. Kannski fóru þeir í að niðurgreiða rafmagnsbíla til að fjarlægja koldíoxíðfótspor bensínbíla, en sem eldfjall fyllir upp í á augabragði.
Auðævi Íslendinga liggja að mörgu leyti í nálægð við náttúruna og náttúruöflin: Jarðhitinn, vatnsöflin, fiskimiðin. Allir eru ánægðir þegar þessar auðlindir moka inn fé. Þessu fé er sólundað í hallir og gæluverkefni. Þegar náttúran ræskir sig aðeins er ekkert afgangs til að bregðast við því.
Ég fer kannski að verða hlynntari því að Ísland gangi í Evrópusambandið því þá er hægt að senda veruleikafirrtu stjórnmálamennina á útlendar skrifstofur og þeir sem eftir eru skilja raunveruleikann. Fórnarkostnaðurinn er samt sennilega of stór. Þorskinum verður sagt að koma upp með vottorð í farteskinu og gúrkunni sagt að hún sé ekki nógu bein.
Eftir stendur að reyna kjósa betur næst, ef það tæki dugi þá til nokkurs lengur.
Eftir stendur líka að tímabundinn skattur verður lagður á og endist að eilífu. Ekkert er eins varanlegt og tímabundin skattheimta, sagði vitur maður.
Vonum að þeir sem halda um buddu ríkisvaldsins reki ekki eigin heimili og hagræði eigin heimilistryggingum á sama hátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)