Frétt: Ekkert eldgos í Grindavík

Það er helst í fréttum þessa dagana að það er ekkert eldgos í Grindavík. Atvinnumenn á stórum flutningabílum geta því auðveldlega keyrt skipulega í gegnum bæinn og tæmt hvert einasta hús og hverja einustu íbúð af öllum munum og verðmætum og komið í geymslu þar sem eigendur geta sótt þá (verk sem ætti að taka um viku ef þrír menn tæma eitt húsnæði á 6 klst og ein búslóð tekur einn flutningabíl og alls 10 teymi eru að störfum 12 klst á dag á hressilegum álagsgreiðslum). Á meðan bíða íbúar rólegir í hótelherbergjum sem áður voru keypt undir fólk í sóttkví eða eru í dag keypt fyrir hælisleitendur og þurfa ekki að vera á flakki með ruslapoka fulla af munum.

Á sama tíma fer fram verðmat á öllu húsnæði í Grindavík sem verður nýtt til að tryggja íbúana að fullu, enda er bærinn ónýtur og þarf að afskrifa. Rétt eins og megnið af Súðavík á sínum tíma.

Góðar fréttir ekki satt? 

Þetta er að vísu alls ekki lýsing á stöðunni í dag. Það er að vísu rétt að það er ekkert eldgos í Grindavík en allt annað er einhvern veginn öðruvísi. Íbúar eru á flakki með nokkra ruslapoka af munum sínum og fá hvorki að sækja afganginn af eigum sínum né er verið að gera það fyrir þá af atvinnumönnum. Þess í stað er mannskapurinn upptekinn við að reisa vegg í kringum eitt orkuver, sem er engu síður á hættusvæði en Grindavík sjálf. 

Engar áætlanir eru um að greiða fólki út tryggingar vegna yfirvofandi altjóns á Grindavík sem situr ofan á sprungusvæði sem er vaknað til lífs eftir langan dvala. Þess í stað er rifist í bönkunum fyrir að vilja ekki frysta lán á ónýtum húsum sem enginn mun nokkurn tímann vilja kaupa og hvað þá flytja í.

Kannski mun eldgos koma einhverju í réttan farveg. Í millitíðinni er það helst í fréttum að það er ekkert eldgos í Grindavík en þeim mun meiri órói í hjörtum Grindvíkinga sem hafa verið gerðir að flækingum - af yfirvöldum.


mbl.is Lilja ósátt við viðbrögð fjármálastofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband