Afleiðingar vanrækslu: Uppsögn eða launahækkun

Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar segir að Matvælaeftirlitsstofnun (MAST) sé í raun að mistakast í hlutverki sínu. Vegna tíma- og fjárfrekra tafa og pappírsvinnu sitji eftir dýr sem þjást í langan tíma, sem er í raun lögbrot í boði MAST.

MAST bregst við með fyrirsjáanlegum hætti: Vantar peninga.

Von MAST er væntanlega sú að fá verðlaun í formi peninga fyrir vanrækslu sína. Sennilega mun sú aðferðafræði virka, en engu breyta.

Þegar fyrirtækjum á frjálsum markaði mistekst þá hlaupa viðskiptavinirnir frá þeim. Fyrirtækin minnka eða hverfa. Samkeppnisaðilar bólgna út. 

Í tilviki opinberra stofnana þá eru í skiptum fyrir mistök og vanrækslu verðlaun. Fleiri starfsmenn. Meiri peningar.

Ósvífinn aðili gæti jafnvel sagt að opinberar stofnanir hafi af því fjárhagslegan hvata að valda sem mestum skaða, sem lengstum töfum og sem mestum kvölum. Stjórnmálamenn verðlauna slíkt með peningum og heimildum til að kvelja fólk og fyrirtæki enn meira en áður.

Ég viðurkenni auðvitað að MAST hefur margt á sinni könnu. MAST þarf allt í einu að fylgjast með iðnaðarframleiðslu á laxalús í sjókvíum og virðist hvorki hafa til þess mannafla né þekkingu. Lausnin er auðvitað ekki sú að fjarlægja ræktunarstaði laxalúsar, en það er önnur saga.

MAST ataðist lengi í kunningja mínum um hvar hann ætti að setja ræsi í fiskbúð, og lagði vitaskuld til aðrar staðsetningar en önnur eftirlitsbákn sem ekki var haft samráð við. MAST er mest, þannig er það.

Mögulega mætti leggja niður MAST í stað þess að þenja það út. Í staðinn mætti koma á fyrirkomulagi svokallaðs þriðja aðila, þ.e. óháðra eftirlitsstofnana í samkeppni hver við aðra sem sjá um að fylgjast með bæði lögum og stöðlum. Slíkt gefst víða vel.

Sjáum hvað setur.

Eftir stendur að stofnun sem virkar ekki segir við stjórnmálamenn að skattgreiðendur þurfi að borga meira fyrir minna. Líklega verður brugðist við því með auknu fé, enda er núna búið að kalla eftir stöðu upplýsingafulltrúa sem sér um af afvegaleiða okkur, og slíkt þarf að fjármagna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband