Gerviheimur loftslagstrúarkirkjunnar

Í gegnum hækkandi skatta og fjölgun þeirra erum við á Vesturlöndum að finna á eigin skinni fyrir tilraunum stjórnmálamanna til að breyta veðrinu. Það stefnir hratt í að venjulegt launafólk hafi ekki lengur efni á að kaupa og reka bíl og þarf að vaða slabbið í strætó, með krakkana í eftirdragi, til að komast inn og út úr hverfinu. Meira að segja það að vilja komast út úr hverfinu er talið vera eitthvað ósjálfbært og skaðlegt veðrinu. 

Ein af stærri ráðgjafastofum heims gaf nýlega út skýrslu um hvernig heimurinn geti náð markmiðum loftslagstrúarkirkjunnar um minnkun á losun koltvísýrings í andrúmsloftið. Þar leynist setning sem ég er farinn að sjá oftar og oftar (bls. 8):

Önnur sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna eru í mótsögn við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, t.d. náttúruvernd í því að heimila ekki notkun á landi fyrir framleiðslu á sjálfbærri orku.

**********

Other [SDG] goals are in conflict with climate action, e.g. ... protecting nature ... by not allowing acreage for new renewable energy build-out.

vind_vs_vatnValið stendur nefnilega á milli tveggja valkosta: Að verja náttúruna eða verja loftslagið.

Viltu skóg eða sólarrafhlöðu?

Á Íslandi stendur valið kannski frekar á milli þess að þekja svæði (oft auðar sandsléttur) með vatni og svolitlum mannvirkjum eða risavöxnum stálturnum (að ógleymdum aðgangsvegunum og rafmagnsleiðslunum neðanjarðar). Kannski ætti að leyfa þjóðinni að kjósa um slíkt samhliða næstu þingkosningum.

Viltu vatn eða stálturn?

Ég tók mig til og útbjó hugmynd að atkvæðaseðli (smellið á mynd) og bíð spenntur eftir niðurstöðum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Ég er alltaf að verða kátari með þig.

Vit þitt afneitar ekki loftslagsbreytingum af mannavöldum, enda ertu frjáls, sjálfstæður og óháður.

Þarft hvorki að bulla með eða á móti.

Það er staðreynd að koltvísýringur hefur áhrif á loftslag fylgihnatta sólar, og jafnvægi hans er forsenda lífs.  Aðeins fífl rífast um þessa staðreynd, hvort sem þau eru fáfróð eða í djúpri afneitun.

Það verður hvorki rifist við vísindin eða spálíkön þeirra sem hafa gengið eftir í meginatriðum, frávikið er að varnarviðbrögð jarðarinnar voru lítt þekkt þegar fyrstu líkönin voru gerð, þess vegna áttu meintar loftslagshamfarir að ganga hraðar yfir.

En viðbrögðin Geir, sem þú kennir við Loftslagstrúarkirkju, hafa nákvæmlega ekkert að gera með varnir gegn loftslagsbreytingum.  Fyrst og síðast var hugmyndafræði meintra varnar mannsins gegn ofbrennslu jarðeldsneytis sótt í hugmyndafræðin sem þú hefur blótað frá unga aldri, kenningar frjálshyggjunnar um hinn frjálsa markað, hann átti að redda þessu með einhverju sem kennt er við viðskipti um loftslagskvóta, með klassísku ráði frjálshyggjunnar, að skattleggja notkun, og þar með ryðja tekjulægri hópum út úr nútímasamfélagi (Það stefnir hratt í að venjulegt launafólk hafi ekki lengur efni á að kaupa og reka bíl og þarf að vaða slabbið í strætó, með krakkana í eftirdragi, til að komast inn og út úr hverfinu), og ekki hvað síst að útfæra draum hinna ofurríku, að skattleggja einstaklinginn og fyrirtæki hans út úr vestrænu atvinnulífi, en í krafti stærðar og auðs, gátu hinir ofurríku flutt starfsemi sína til Kína, og síðan annarra ennþá vanþróaðri ríkja.

Þú hefur séð í gegnum þetta loftslagstrúboð Geir, en ert ennþá í afneitun um hver rót hugmyndafræði þess.

Samt ekki á pari við afneitun loftslagstrúaðra, sem trúa því statt og stöðugt að skattlagning hins venjulega borgara, og fyrirtækja hans, sé leið til frelsunar.  Þrátt fyrir að sú leið hafi margfaldað útblástur koltvísýrings, þar sem Kína og Indland eru í forystu þess aukningar.

Eiginlega er afneitun þín á kennisetningum frjálshyggjunnar svona sirka hálft til eitt prósent af afneitun loftslagstrúaðra, eða réttara sagt loftslagstrúða.

Í gagnrýni þinni felst hins vegar von, því hún byggist á viti og heilbrigðri hugsun.

Ég veit Geir að þú ert ekki sammála orði af því sem ég er að segja hér að ofan, en það er samt gaman að vera sammála þó forsendurnar blandist illa í tilraunaglasi.

En mig minnir samt að við höfum verið fyrst sammála í ICEsave, þar hjó ég snemma eftir einarðri andstöðu ykkar í Frjálshyggjufélaginu, en sá ekki einu sinni glitta í hana hjá því fólki sem ég taldi mig þá eiga samleið með.

Kannski einn daginn gengur ekki hnífurinn á milli okkar gagnvart loftslagstrúboðinu.

En á meðan eins og svo oft áður; þá er það Kveðjan að austan.

Ómar Geirsson, 16.11.2023 kl. 16:50

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Ómar,

Takk fyrir innlitið og hugleiðinguna.

Þú getur komið orði að hlutunum þannig að ég veit ekki hvort þú ert að gefa mér kinnhest eða strjúka mér um vangann því viðbrögð mín þau sömu. Gott mál.

Ef þú vilt sjá nálgun frjálshyggjumanns á loftslagsmálin þá held ég að ég sé ansi nálægt því að geta fallist á það sem þessi maður (og bók) segir.

Fossil Future: Why Global Human Flourishing... by Epstein, Alex (amazon.com)

Þó með fyrirvara á því að menn hreinsi útblásturinn í skorsteininum fyrir allskyns ögnum og skilji þar eftir vatnsgufu og koltvísýring fyrst og fremst. Í vor heimsótti ég iðnaðar- og orkuframleiðslusvæði í Hollandi þar sem tvö kolaorkuver og eitt gasver spúðu út úr sér útblæstri. Ég fann aðallega lyktina af skærgrænu grasinu á svæðinu sem þreifst vel í öllum koltvísýringnum.

Hvað um það. Eins og þú bendir á þá spýja Kína og Indland nú sívaxandi magni koltvísýrings í andrúmsloftið, í slíkum mæli að aukning þeirra á ári samsvarar heildarlosun stærri iðnvæddra ríkja í heild sinni (las t.d. einhvers staðar að aukning Kína á hverju ári svari til heildarlosunar Bretlands á ári). Það að taka bílinn af venjulegu fólki er því ekki að fara skila loftslaginu neinu, nema kannski aukni svifryki vegna þungu rafmagnsbílanna og Dísel-knúnu strætisvagnanna (sem færu úr Dísel-ögnum í fleiri marbiksslitagnir ef þeir færu á rafmagn).

Glóran í þessu er engin, enda kalla ég meðlimi loftslagskirkjunnar gjarnan glópa.

Geir Ágústsson, 16.11.2023 kl. 18:49

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Geir.

Miðjan er sniðmengi skoðana minna og fer því létt með hvorutveggja þó það hefði reyndar ekki verið tilgangurinn, aðeins undirliggjandi ánægja að vera öruggur með að fá viðbrögð sem ég hefði gaman af að lesa.

En til að fyrirbyggja allan misskilning þá hvarflar ekki að mér sú hugsun að bera uppá ómengaða frjálshyggjumenn að þeir gangi í takt við vitleysuna sem einhver háðungur kallað Baráttuna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum, og vill svo gera mér og mínum ókleyft að ferðast milli tveggja punkta nema á jafnfljótum.

Ég var aðeins að benda á rótina, í hvaða hugmyndabrunn Ofurauðurinn sótti aðferðafræði sína, og nýtti sem tæki til að auka heljartök sín á mannkyninu.

Ein af afleiðingum fjármálahrunsins 2008 var að ég áttaði mig á að þið hreinræktuðu væru sjálfir ykkur samkvæmir, og engir þjónar, hvorki Ofurauðsins eða þeirra stjórnmálamanna sem hann gerir út, og vilja nýta hugsjónir ykkar á tyllidögum til að blekkja fólk til að kjósa sig undir einhverju meintu frelsi einstaklingsins.

Svona bresta víglínurnar og svona riðlast bandalögin.

Það er gott að grasið grær vel í Hollandi, það ætti því auðveldara með að aðlaga sig að sjónum þegar flóðvarnir bresta, að verða svona sægras.

Nei, Súbbinn minn hefur engin áhrif til eða frá, en það nærir sjálfsblekkinguna að veitast að þeirri eðalkerru sem kemur mér hratt og örugglega á milli staða.

Á meðan er hin manngerða steinöld handan hornsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.11.2023 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband