Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Þegar Íslendingar hrökkva í gírinn

Náttúruhamfarir eru skelfilegar og geta haft mjög neikvæð áhrif á líf fjölda fólks. En það er kannski þegar þær skella á að Íslendingar hrökkva í gírinn. Vandamál eru leyst. Fólki er komið í skjól. Frjáls framlög eru sótt. Yfirvöld skera á alla hnútana sem þau leggja að öllu jöfnu á þá sem vilja svo mikið sem grafa holu í jörðina og gera það kleift að hleypa verktökum af stað. 

Engin kynjuð fjárlagagerð á meðan menn eru að finna fé til að framkvæma lausnir enda enginn tími fyrir svoleiðis kjaftæði þegar eldfjall er að fæðast.

Ekkert umhverfismat á svartri eyðimörk við orkuver. Nei, það þarf að reisa vegg og þá verður veggur reistur.

Enginn kynjafræðingur að telja hvað margar konur og kvár eru að vinna á gröfum eða við smíði eða aðstoða við rýmingu og koma fólki í skjól. Kynjahlutföll skipta ekki máli þegar er verk að vinna.

Ég legg til að þegar rykið er sest og orðið nokkuð ljóst hvaða hamfarir eru nákvæmlega í gangi að menn setjist niður og reyni að draga einhvern lærdóm af viðbrögðunum. Hvaða reglum var fleygt í ruslið þegar á reyndi? Hvaða óþarfa stöðugildi voru ekki höfð með í ráðum þegar mikið lá á? Hvaða pappírsvinnu var fórnað þegar líf og verðmæti voru í húfi?

Í kjölfarið er svo hægt að fara með eldspýtustokk að regluverkinu og grynnka aðeins á því, og auðvitað minnka fjölda opinberra starfsmanna til að endurspegla fækkun opinberra hindrana í ýmsum umsóknarferlum.


Vindorkuplágan

Mikið hefur verið sagt og skrifað um uppbyggingu á vindorkuverum á Íslandi. Sem betur fer hefur samt ekki borið mikið á framkvæmdum sem sjúga fé úr arðbærum aðferðum til orkuöflunar. En Íslendingar eru oft duglegir að lepja upp vitleysuna í útlöndum og það er því ekki útilokað að þeir hefji stórfellda endurtekningu á mistökum annarra ríkja (eins og er að eiga sér stað í innflytjendamálum þessi misserin, meðal annars).

Í Evrópu og Bandaríkjunum er vindorkan núna á fallandi fæti. Ókeypis peningar hanga ekki lengur á trjánum. Neytendur muna vel eftir því hvernig orkureikningarnir fóru eins og sinueldur í gegnum heimilisbókhaldið í fyrra. Mikil áhersla hefur verið að fylla allar olíu- og gasgeymslur. Milt haust hefur líka minnkað álagið á orkuinnviðina.

En hvað ætla yfirvöld að gera nú þegar enginn hefur lengur efni á að byggja nýja vindorkugarða og framleiðendur þeirra sjá hlutabréf sín hrynja?

Jú, auðvitað að moka undir vitleysuna með neytendum (áhersla upphafleg):

Þó að hærri niðurgreiðslur í næstu uppboðslotu ... kunni að endurvekja þróun vinds á hafi úti, mun það líklega skila sér í auknum raforkukostnaði fyrir neytendur sem enn eru hlaðnir himinháum reikningum í kjölfar orkukreppunnar í fyrra.

**********

While higher subsidies in the next auction round ... may well reinvigorate offshore wind development, it will likely feed through to increased electricity costs for consumers still burdened with sky-high bills in the wake of last year’s energy crisis.

Það er sem sagt ekki nóg að sjá spilaborgina hrynja til að gefa hana upp á bátinn. Nei, almenningur skal áfram mjólkaður í hítina svo stór fyrirtæki, full af heitu lofti, geti haldið áfram að greiða arð og troða stálturnum í hafsbotninn. 

Nú hef ég ekkert á móti vindorku í sjálfu sér. Hún hentar sennilega ágætlega fyrir sum svæði þegar aðrir valkostir eru verri, svo sem í Danmörku sem hefur hvorki fallvötn né jarðhita, engar kolanámur og frekar takmarkaðar olíu- og gaslindir. Danmörk er rík og lætur neytendur svo sannarlega gjalda fyrir það með háu rafmagnsverði sem bera marga og mikla skatta til að halda uppi vindmyllunum. En fyrir Íslendinga er vindorkan í besta falli táknrænn gjörningur sem mun engu skila nema kostnaði og umhverfisspjöllum. Er þá ótalinn kostnaðurinn sem felst í að binda stóra hópa fólks í viðhaldsverkefnum tengdum vindmyllum og við að hreinsa upp fuglahræin í kringum þær. 

Hættum þessu áður en örlög íslenskra neytenda verða þau sömu og evrópskra: Að vera mjólkaðir í vitleysuna þar til hún verður orðin of stór til að menn geti leyft henni að hrynja.


Eitt egg í einni körfu

Stundum er sagt þar sem unnið er með áhættu, svo sem í fjárfestingum, að leggja ekki öll eggin í eina körfu. Ef karfan dettur þá brotna þau öll.

En hvað er til ráða þegar menn eiga eitt egg í einni körfu og sú karfa er við það að detta?

Eins og í tilviki hitaveitu á Suðurnesjum og að einhverju leyti rafmagnsframleiðslu?

Jú, reyna að bólstra þessa körfu svo hún þoli höggið þegar hún dettur, úr 10 kílómetra hæð.

Hugmyndir eins og þær að byggja vegg á nokkrum dögum til að stöðva hraunflóð byrja allt í einu að hljóma raunhæfar. 

Í mörg ár hefur verið kallað á eftir því að framleiða meira rafmagn og efla dreifikerfi þess, sérstaklega á svæðum eins og Suðurnesjum. 

Það hefur ekki verið auðsótt. Einhver mosi gæti jú farið undir vatn. Einhver öfgafull túlkun á fyrirmælum erlendra embættismanna gæti verið svikin. Einhver þrýstihópur gæti farið í fýlu.

Eftir stendur eitt egg í einni körfu og tilraunir til að verja þetta egg frá fallinu óumflýjanlega.

Ég hef auðvitað samúð fyrir því að hitaveita geti ekki þjónað mjög stóru svæði. En rafmagnsdreifing á ekki að vera bundin við eina litla línu sem ítrekað hefur svikið og stefnir í að slitni.

Hamfarir hrista stundum upp í hlutunum. Fá menn til að hugsa í áætlun A, B, C og svo framvegis. Kannski það verði raunin ef hraun í rólegheitum brýtur niður mannanna verk og gerir að engu á meðan varaaflstöðvar enn og aftur, á landi eða fljótandi, bjarga málunum.


mbl.is Gríðarlega mikilvægt að verja virkjunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel soðnir danskir froskar

Ein besta álitsgrein veirutímanna var án efa Hvernig skal sjóða íslenskan frosk. Hér er lítil tilvitnun í hana til að leggja áherslu á snilldina:

Til að sjóða frosk lifandi þarf að hita vatnið hægt. Annars hoppar hann uppúr. Það verður smátt og smátt eðlilegt að mega ekki mæta í vinnu, fara í sund, fara í ferðalög eða bjóða fólki heim til sín í mat. Hægt og hægt verður hugmyndin um eðlilegt líf fjarlægari. Það gleymist að fortíðin er ekki eðlileg. Það er nútíminn sem er eðlilegur. Þetta er nú líf okkar.

Ég er búinn að lesa þessa grein oft og mæli með því að þú gerir það sama því hún er í raun tímalaus. Það eru nefnilega til fleiri leiðir til að sjóða froska.

Ég les núna í dönskum fréttum að til stendur að leggja á enn einn skattinn á flugmiða. Blaðamaður gekk á nokkra farþega og spurði þá um álit þeirra á þessum nýja skatti sem að nafninu til á að renna til grænna orkuskipta og hærri ellilífeyris (já þú last rétt) en rennur auðvitað bara í hítina og verður notaður í hvað það nú er sem aflar atkvæða.

Farþegarnir höfðu ekkert á móti hinum nýja skatti. Sumir furðuðu sig að vísu á þessu með hærri ellilífeyri í skiptum fyrir hærra flugmiðaverð en ef nú bara skattarnir fara í að minnka losun á koltvísýringi og framleiða umhverfisvænt eldsneyti að þá eru þeir ásættanlegir.

Sem sagt, vel soðnir froskar hérna, tilbúnir að blæða enn meira í hítina í gegnum hærra flugmiðaverð af því annars stiknar jörðin - vegna flugvéla.

Ég á satt að segja svolítið erfitt með að skilja fólk sem trúir bæði á hamfarahlýnun vegna losunar manna á koltvísýringi í andrúmsloftið og velur að kaupa sér flugmiða. Auðvitað geta verið góðar ástæður til að fljúga engu að síður, svo sem til að sinna vinnu eða rækta fjölskyldu- og vinatengsl, en margir þessara flugmiða fara einfaldlega í að sækja í hita og sól. Svo þér finnst hamfarahlýnun slæm og kennir mannkyninu um, en velur samt að fljúgja í meiri hita og sól? Aðstoð óskast til að ég skilji þessa hrópandi mótsögn.

En þannig er það nú. Flugmiðar fá á sig enn einn skattinn. Fátækt fólk situr heima. Efnað fólk borgar meira í hítina, ríkissjóður bólgnar og loftslagið finnur ekki fyrir neinu.

Allt eins og það á að vera. 


Ríkisstyrkir sem vopn

Íslenska ríkið dælir hundruðum milljóna á ári af fé skattgreiðenda í einkarekna fjölmiðla og milljörðum í þann ríkisrekna. 

Hvað fær ríkið í staðinn?

Þægilega fjölmiðla sem tipla á tánum þegar hið opinbera vill tæta í sig einhverja starfsgreinina? 

Blaðamenn sem víkja í engum aðalatriðum frá efnistökum fréttatilkynninga hins opinbera?

Mátulega gott aðgengi þeirra sem hafa óþægilegar skoðanir að hljóðnemunum?

Vonandi ekki!

En styrkir hið opinbera málefnalega andstæðinga sína? Þá sem hamast og hjakkast í bákninu? 

Núna hefur borgarfulltrúi tekið til máls og kallar eftir opinberri ritskoðun og beitingu fjölmiðlastyrkja til að þagga niður í óþægindunum.

Væntanlega er borgarfulltrúinn ekki einn um þá skoðun. Mögulega fór hann í ræðustól eftir að hafa rætt við vini og kunningja og samflokksfólk og fengið hvatningu um að benda á þetta mikla vandamál. 

Hið opinbera notar víða styrki til að móta, múta og meiða. Þeir óþægu fá ekkert, þeir þægu fá mikið. Þetta getur hið opinbera auðveldlega gert þegar það er búið að gera rekstrarumhverfið óbærilegt og ráðstöfunarfé fólks að engu og styrkina og skattféð að einu líflínunni. Landbúnaður, nýsköpun, fjölmiðlastarfsemi, listir og menning, íþróttastarf, rekstur skóla og svona mætti lengi telja. Mjög lengi! 

Í gamla daga sáu prestar um að þagga niður í gagnrýni og óþægilegum skoðunum með allskyns hótunum og jafnvel handtökum. Í dag þykir meira við hæfi að gera einhvern gjaldþrota. En markmiðið er það sama.


mbl.is „Geti beinlínis grafið undan fjölmiðlafrelsi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina ráðið gegn ofríki stjórnvalda

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur lagt áform um sameiningu átta framhaldsskóla til hliðar. Þetta gerir hann auðvitað vegna mótmæla, andmæla og gagnrýni. Alveg svakalegrar gagnrýni sem fékk mikla athygli.

Nú er þetta kannski lítið og ómerkilegt mál í stærra samhenginu (tilfinningaveran ég myndi samt öskra af reiði ef séreinkenni MR yrðu sett í tætarann umfram það sem nú er) en sýnir samt fram á nokkuð mikilvægt: Við borgararnir getum spyrnt við fótum þegar yfirvöld senda jarðýturnar af stað. Með svolitlum samtakamætti getum við hrint aftur af áætlunum yfirvalda. Við getum það ef við nennum og viljum.

Á veirutímum nenntum við ekki né vildum. Við leyfðum yfirvöldum að rústa hagkerfinu, lífum fólks, heilsu fólks, kaupmætti gjaldmiðilsins, andlegri heilsu barna og svona mætti lengi telja. Við mótmæltum lítið sem ekkert og fjölmiðlar klöppuðu í takt við trommuslátt yfirvalda.

Ég verð að viðurkenna að þetta fyllir mig af svolítilli bjartsýni. Ekki mikilli en svolítilli. Þegar yfirvöld lýsa næst yfir þvælu og nota til að rústa lífi þínu þá getur þú rifjað upp þegar menntamálaráðherra hætti við að þurrka út nokkra framhaldsskóla til að fegra Excel-skjöl.

Er það ekki alveg frábært?


mbl.is Hættur við sameiningu framhaldsskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líffræðin og árásin á pósthólfið

Um daginn vaknaði ég upp við að mín biðu mörg hundruð tölvupóstar á netfang sem allir geta auðveldlega rakið til mín. Mér fannst þetta athyglisvert og skrifaði um það litla færslu. Í kjölfarið fékk ég nokkur skilaboð frá aðilum sem höfðu lent í því sama eða gátu sagt frá einhverju svipuðu hjá öðrum. Allar frásagnir höfðu það sameiginlegt að fjalla um einstaklinga sem hafa gagnrýnt fullyrðingar um að með yfirlýsingunni einni geti einstaklingar skipt um kyn og einnig gagnrýnt að börn, sem mega hvorki drekka né reykja né stofna til skulda né horfa á bíómyndir með Sylvester Stallone, megi velja að fara á óafturkræfa lyfjakúra til að handtaka kynþroska sinn.

Það myndaðist með öðrum orðum ákveðið munstur: Þeir sem gagnrýna þessi nýju trúarbrögð mega eiga von á árásum á tölvupóstfang sitt.

Núna hefur flóð tölvupósta fjarað út í mínu tilviki. Öflug og nútímaleg póstkerfi gera slíkt auðvelt. Það er því upplagt að telja upp nokkur atriði, sem blasa við en er samt afneitað af sumum:

  • Kona er einstaklingur með leg og önnur líffæri sem karlmenn eru ekki með. Frjór kvenmaður getur fætt börn, en ekki aðrir.
  • Börn og unglingar upplifa oft óöryggi og óvissu um hvað er í gangi með hneigðir þeirra og líkama en eiga að fá að klára sinn kynþroska áður en lyfjasalar og skurðlæknar eru boðaðir á vettvang.
  • „Trans kona“ er einstaklingur sem er líffræðilega karlmaður en kallar sig eitthvað annað, og „trans maður“ er einstaklingur sem er líffræðilega kvenmaður en kallar sig eitthvað annað.
  • Búningsklefar viðkomandi eiga að miðast við líffræðina, ekki hugsanir. Til vara eru sérklefar víða til staðar sem eiga að forða litlum börnum frá því að þurfa að góna á kynfæri hins kynsins á ókunnugu fólki. 
  • Það hafa fáir einhverja sérstaka fordóma gegn fólki sem kallar sig hitt og þetta (mögulega reynir á þolinmæði vinahópsins, en það er önnur saga), og ég held að öllum sé alveg nákvæmlega sama hvaða bólfélaga fólk velur sér, á meðan þeir eru ekki börn. En þegar lyfjasölunum og skurðlæknunum er otað að börnum og unglingum þá spyrna sífellt fleiri við fótum, verðskuldað.

Nú er að sjá hvort mér bjóðist fleiri tilboð vegna svarts föstudags eða hvað það nú er sem á að fá mig til að yfirgefa líffræðina og gangast kynjafræðinni á hönd.

Það er að segja ef upptalning úr líffræðinni er ástæða þess að mér buðust svona margir ágætir tölvupóstar á sínum tíma. Við sjáum hvað setur.


Norrænir jafnaðarmenn

Í Danmörku hefur hægri-miðju-vinstristjórnin nú tilkynnt að hún ætli að lækka launaskatta um að meðaltali um 40 þús. íslenskar krónur á ári á hvern einasta íbúa. Samkvæmt einni reiknivélinni sýnist mér þetta ætla að verða alveg ágæt lækkun fyrir sjálfan mig. 

Um leið ætlar ríkisstjórnin að auka ýmis útgjöld, að þannig er pólitíkin auðvitað. 

Hvernig stendur á þessari skattalækkun? Vissulega var hún á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar en er ekki verðbólga og verið að senda peninga og vopn inn í átakasvæði til að viðhalda þeim? Þarf ekki að fjármagna rándýr orkuskipti? Sveitarfélögin gráta sig hás af peningaskorti - þurfa þau ekki meira? 

Það er ástæða: Tilraun til að fjölga fólki á vinnumarkaði. 5000 störf eiga að fæðast við að lækka skattana. Launafólk greiðir þá meira í skatta og ríkið verður mögulega ekki af neinu. 

Á Íslandi kallast svona lagað Allir vinna, en ólíkt danska fyrirkomulagi þá lækka skattar á Íslandi bara tímabundið og ná yfirleitt einvörðungu til virðisaukaskattsins. Hugmyndin er sú sama - allir vinna - en Danir virðast að þessu sinni vilja að allir vinni varanlega, frekar en bara tímabundið.

Norrænir jafnaðarmenn muna gjarnan að til að fóðra ríkisvélina þarf framleiðslu verðmæta sem má síðar hirða að því marki að þau halda áfram að vera framleidd. Þeir breyta kerfinu hægt og rólega og hafa ákveðið óþol gagnvart skuldasöfnun. Skattarnir eru háir, vissulega, en þeir greiða líka fyrir það sem þarf að greiða fyrir (frekar en að vera bara fyrsta lag skattheimtu, og síðan bætast þjónustugjöldin við), og víða hægt að krækja í skattafrádrætti (svo sem vegna vaxtagreiðslna, aksturs til og frá vinnu og með kaupum á ákveðinni þjónustu).

Og þetta með innflytjendur? Norrænir jafnaðarmenn hafa núna lært að tilvist velferðakerfis og mikið innstreymi innflytjenda eru mótsagnir.

Margt er svipað í Íslandi og Danmörku: Biðlistar eru langir (tekur um 4-6 vikur að fá tíma hjá heimilislækni), velferðarkerfið aðlaðandi valkostur við vinnu og enginn skortur á fjáraustri í gæluverkefni. 

En maður má þakka fyrir það góða. Og það er hér með gert.


Vinstrisinnaðir blaðamenn að blása í segl Trump

Við heyrum og lesum mikið um pólitískar ákærur gegn Donald Trump, frávarandi Bandaríkjaforseta, enda telja hér ýmsir að nú sé aldeilis verið að þjóna réttlætinu. En ég sé ekki mikið fjallað um afleiðingar þessara ákæra.

Nú er ég enginn stuðningsmaður Trump, hvorki sem persónu né forseta. Hann gerði sumt rétt, eins og fleygja hinu svokallaða Parísarsamkomulagi í ruslið og koma á samskiptum milli Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hann kann að taka upp símann og forðast loðið tungutak atvinnustjórnmálamannanna, og í fyrsta skipti í áratugi hófu Bandaríkin ekki nýtt stríð. En hann gerði margt rangt, er alveg gjörsamlega ósamkvæmur sjálfum sér og er auðvitað alveg gríðarlega óvinsæll víða um heim, sérstaklega í Evrópu (en það eru svo sem allir Bandaríkjaforsetar úr Repúblikanaflokknum, sama hvað).

Það kemur mér því á óvart hvað fjölmiðlar eru duglegir að blása í segl Trump. Ný könnun New York Times í ríkjum þar sem er oft mjótt á munum sýnir vaxandi bil á milli hins hruma Biden og hins kjaftfora Trump, Trump í hag. Pólitísku ofsóknirnar virðast ætla að hafa öfug tilætluð áhrif, og auðvitað hjálpar galin innflytjendastefna og versnandi fjárhagur hins vinnandi manns ekki til.

Um þetta er sem sagt lítið fjallað í evrópskum fjölmiðlum en mun víðar í Bandaríkjunum. Kannski neita Evrópumenn að trúa þessum áhrifum endalausra auglýsinga sinna á því hvað Trump er að gera hverju sinni, og ítrekuðum fréttum um hvaða upplogna þvæla er núna í gangi. 

Það væri óskandi að bandarísku stjórnmálaflokkarnir gætu bryddað upp á einhverju betra en Biden og Trump og öðrum slíkum númerum. En svo virðist ekki vera, og stefnir í endurkomu Trump, í boði vinstrisinnaðra blaðamanna.


mbl.is Trump ber vitni í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemd um Almannavarnir

Rakst á þessa litlu athugasemd í lengri færslu eftir mikinn meistara (lítillega lagfærð):

Almannavarnir loka allri auðveldri aðkomu að saklausu túristagosi og þvinga fólk í 20 km göngu bara til að sjá það. En þegar möguleg stórskaðagos verða undir byggð og raunveruleg hætta stafar að lífi fólks vegna goss, þá er bara gengið út frá því að allt reddist.

Magnað, ef rétt er. Kæmi raunar heldur ekkert á óvart. Það er eins og hin og þessi yfirvöld gleymi sér alltaf í aukaatriðum. Á veirutímum sáum við þetta óteljandi sinnum. Í dag eru þau ennþá að boða sprautur og hunsa umframdauðsföll. 

Annars má kannski sýna sérfræðingunum svolitla samúð í þetta skipti. Það ríkir alltaf mikil óvissa í aðdraganda eldgosa og kannski óþarfi að steypa hinu opinbera í enn meiri skuldir til að borga skaðabætur til ríkra einkafyrirtækja. En það er alveg sjálfsagt að vara gesti baðvatnsins í eldfjallasprungunni við ástandinu. 


mbl.is Landris heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband