Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Nóg að gera hjá lögreglunni

Ég velti því fyrir mér hvaða hugsanir leika um höfuð lögreglumanns sem sendir fullorðið fólk heim til sín fyrir "ólöglega" en friðsæla, afslappaða og félagslega nærandi tónleika. 

Ætli hann hugsi með sér að þetta sé nú bara vinnan hans og að hann þurfi að fylgja fyrirmælum yfirmanna sinna?

Eða er hann reiður út í fólkið fyrir að dæla banvænni drepsótt yfir samfélagið?

Eða hlýðir hann yfirmönnum sínum með beiskt bragð í munni og hefði frekar viljað stöðva heimilisofbeldi eða innbrot á öðrum stað í bænum?

Annars er frekar auðvelt fyrir lögregluna að eltast við fólk sem brýtur þessi blessuðu sóttvarnarlög á almannafæri. Öll stórhættulegu heimapartýin í stofum fólks eru öllu erfiðari viðfangs. Hér þarf lögreglan að treysta á nágranna sem klaga hvern annan til yfirvalda, og virðist vera nóg af þess slags fólki víða.

Hérna í Danmörku eru að myndast stórir brestir í samstöðu fólks eins og sést á Google Mobility línuritinu fyrir Kaupmannahöfn:

mob

Þegar allir veitingastaðir og skemmtistaðir eru lokaðir, sem og flestar verslanir í verslunarmiðstöðvum (og auðvitað klippistofur og annað eins) þá hittist fólk og ferðast um utandyra, í miklu frosti, og engu minna en á venjulegri tímum. Ég hef oft gengið framhjá illa upplýstu svæði í nágrenninu þar sem unglingar sitja á bekkjum og skemmta sér saman, "ólöglega". Og ég skálaði fyrir nýja árinu með nágranna mínum inni á heimili hans, grímulaus.

Vonandi vorar snemma. Útfjólublátt sólarljósið veikir veiruna og styrkir líkama okkar með meinhollu D-vítamíni. Þá er hægt að deila út fálkaorðum á ný og leyfa lögreglunni að sinna öðrum verkefnum en að segja fullorðnu fólki að fara heim og sofa.


mbl.is Sóttvarnalög brotin í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leið til að létta álag á fangelsum

Nú eru fangelsi landsins nánast fullnýtt og að auki er stór hópur einstaklinga að afplána refsingu með samfélagsþjónustu. Öllu þessu fylgir talsvert umstang og auðvitað kostnaður. Fyrir fanga er lífið líka orðið erfiðara með blettótta sakaskrá sem útilokar þá frá mörgum störfum.

Er engin leið að leysa þetta vandamál?

Jú auðvitað, og leiðin er auðveld í framkvæmd og virkar strax: Fækka því sem er ólöglegt að gera.

Af handahófi (úr hegningarlögum) mætti t.d. afnema eftirfarandi ákvæði:

"Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að [12 árum]." (úr 173. gr.)

"Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum … eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru." (úr 183. gr.)

"Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári." (úr 206. gr.)

Hvað ætli losni um mörg fangelsispláss við að afnema þessi lög? Hvað ætli lögreglan fái mikið meiri tíma til að eltast við raunverulega glæpi, svo sem innbrot, ofbeldi og skemmdarverk? Hvað ætli álagið á dómskerfið myndi minnka mikið? Hvað ætli margir einstaklingar geti endurheimt líf sitt með hreina sakaskrá?

Glæpir eru auðvitað alvarlegt og raunverulegt vandamál en annað vandamál er hvað margt er talið vera glæpsamlegt, og það er heimatilbúið vandamál.


mbl.is Fangelsin nánast fullnýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samhengi?

Berum saman línurit og svokallaðar sóttvarnaraðgerðir:

nygengi

adgerdir

Smit nánast engin. Þeir 11 sem eru sagðir vera á sjúkrahúsi undir fyrirsögninni "COVID-19 á Íslandi" eru það alls ekki vegna veiru.

11

"Ell­efu eru inniliggj­andi á spít­al­an­um vegna Covid-19 sýk­ing­ar en um er að ræða ein­stak­linga sem smituðust á öldrun­ar­lækn­inga­deild Land­spít­ala á Landa­koti í haust og eru enn inniliggj­andi. Smit þeirra eru því ekki leng­ur virk."

Þessi 11-tala er því blekkingarleikur, eða leið til að ýkja ástandið og kannski laða að sér stuðning við að veitingahús eru takmörkuð við 20 manns og fólk getur ekki haldið almennilega fermingarveislu eða brúðkaup.

En senn kemur vorið og þá fer veiran í frí, óháð sóttvarnaraðgerðum.


Hugsað í malbiki

Af hverju halda menn að almenningssamgöngur séu ekki vinsælli en raun ber vitni?

Af því fólk elskar að sitja í þéttri umferð því síðdegisútvarpið er svo skemmtilegt?

Af því fólk elskar að reka bíl með tilheyrandi kostnaði, verkstæðaheimsóknum, ástandsskoðunum og óvæntum vélabilunum, fyrir utan dekkjaskiptin, snjómoksturinn og þrifin?

Af því fólk borgar há iðgjöld til tryggingafélaga með bros á vör og nánast vegna ánægjunnar einnar?

Af því bílastæðaleitin er svo spennandi - tilfinningin að finna ódýrt bílastæði jafnast á við tilfinninguna að vinna í happdrætti?

Eða af því bíllinn er einfaldlega eina leiðin fyrir flesta til að sinna því sem sinna þarf - versla inn (áfengið fæst t.d. bara í örfáum stórum verslunarkjörnum umkringdum bílastæðum, fyrir utan Austurstræti), sækja og skutla, útréttast og hvaðeina. 

Hvað er þá til ráða? Menn hugsa hérna ekki beinlínis í lausnum. Einu úrræðin eru að fjölga akreinum, stækka vagnana og fjölga ferðum með tilheyrandi svimandi kostnaðarauka. Um leið skal þrengt að öðrum valkostum - það er svo gott sem yfirlýst markmið. 

Hérna vantar alla lausnamiðaða hugsun. Kannski eru stórir vagnar á sérakreinum sem keyra oft hin eina sanna lausn en önnur nálgun er sú að hugleiða betri nýtingu á núverandi innviðum. Malbikið er til staðar og það tekur alveg nógu mikið pláss. Það þarf bara að nýta plássið betur. Koma fleirum í hvern bíl og keyra svo þann bíl þangað sem fólk vill fara en ekki að vindblásnu strætóskýli umkringdu slabbi og drullu í láréttu roki.

Hver getur boðið upp á slíka nálgun? Svarið er: Fullt af fyrirtækjum!

Hleypið Uber, Lyft og hugbúnaðarfyrirtækjum inn á þennan blessaða markað: Að ferja fólk frá A til B. 

Það þarf ekki að eyða miklum tíma á leitarvélum til að finna hrúgur af tilraunaverkefnum þar sem sveitarfélög fara í samstarf við sérhæfð fyrirtæki til að reyna koma fólki á milli staða hratt og örugglega og á viðráðanlegu verði.

Engar vegaframkvæmdir að ráði og engir skriðdrekar úr stáli sem fylla sérakreinar gegn svimandi kostnaði.

Persónulega finnst mér miklu notalegra að sitja þægilega í ökutæki sem einhver annar sér um að keyra. Ég get þá lesið bók á meðan eða hlustað á hlaðvarp á meðan ég líka við færslur á samfélagsmiðlum. Þess vegna óska ég almenningssamgöngum, eða hópsamgöngum réttara sagt, sem mestrar velgengni, en einnig skattgreiðendum, og í bili fer velgengni þessa tvenns í sitthvora áttina.


mbl.is Vonast eftir sjálfkeyrandi strætó árið 2023
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokanir og veira

Ég átti smávegis spjall (stafrænt, auðvitað) við vinnufélaga hérna í Danmörku um opnun á skrifstofunni og takmarkanir vegna veiru almennt og setti saman svolítið graf. Minn punktur var sá að óháð "aðgerðum" þá muni veiran halda áfram að tikka og loks fjara út í vor. Fjöldi þeirra sem eru taldir sem látnir vegna veiru (með réttu eða röngu) á 2. ársfjórðungi 2020 er að bráðna ágætlega saman við kúrvuna í þessum töluðu orðum.

dkdeath

Menn geta því opnað og lokað hinu og þessu, hleypt fólki í vinnu eða skóla eða ekki, skyldað grímunotkun eða ekki, en veiran fer ekki í frí fyrr en í vor. Og þá ætla ég og vinnufélaginn að hittast á föstudagsbarnum og ræða ástand heimsins.


Á meðan ísinn þiðnar

Íslenskur sjávarútvegur borgar um 2 milljarða í svokölluð kolefnisgjöld til ríkisins - á ári! Markmið slíkrar gjaldtöku er "að reyna að breyta hegð­un, til að reyna að fá fólk til að fara úr því að nota elds­neyti sem hefur í för með sér að menga og valda lofts­lags­breyt­ing­um", segir umhverfisráðherra, og vill auðvitað hækka skatta. Olíunotkun í sjávarútvegi á Íslandi hefur minnkað úr 246 þúsund tonnum árið 1990 í 133 þúsund tonn árið 2017, skv. SFS. Raunar hófst sú þróun ekki með notkun skattkerfisins heldur með innleiðingu framseljanlegra veiðiheimilda sem gerðu útgerðum kleift að skipuleggja sig til lengri tíma, en það er önnur saga.

Sjávarútvegurinn er sem sagt að breyta hegðun sinni á alveg leiftrandi hraða, en samt skal hann skattlagður í rjáfur. Og núna bíða fiskiskip eftir því að stærðarinnar ísspöng víki svo hægt sé að landa fiski. Kannski hlýnun Jarðar hafi verið afsökun til aukinnar skattheimtu frekar en eitthvað sem raunverulega á sér stað?

Ég birti hér í heild sinni alveg frábæran pistil Vefþjóðviljans (frá nóv. 2015) um tungutak stjórnmálamanna í samhengi loftslags og breyttrar hegðunar:

Í gær kynntu þrír ráðherrar Framsóknaflokksins svonefnda „Sóknaráætlun í loftslagsmálum“ á blaðamannafundi. Menn vilja ekki fara ónestaðir á loftslagsráðstefnuna í París.

Annað af tveimur tölusettum markmiðum í sóknaráætluninni er að losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi minnki um 40% til ársins 2030.

Það er ekkert smáræði, hafa sjálfsagt ýmsir hugsað með sér. Mjög metnaðarfullt. Náttúrverndarsamtök Íslands fögnuðu þessu 40% markmiði fyrir sjávarútveginn sem „frábæru“ í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi.

Þegar betur er að gáð er markmiðið hins vegar ekki að draga úr losun um 40% frá sjávarútvegi frá því í dag til ár[s]ins 2030 heldur verður miðað við árið 1990 sem upphafsár.

Árið 1990 er stundum sagt að kvótakerfið hafi loks verið fullskapað á Íslandi, kvótinn hafi orðið sæmilega traust eign sem gat gengið kaupum og sölum.  Vafalítið á kvótakerfið sinn þátt í því að dregið hefur úr olíunotkun í sjávarútvegi því það gefur miklu betri færi til skipulagningar veiða en önnur og fyrri kerfi. Skipum hefur því fækkað og dregið úr orkuþörf.

Frá 1990 til 2012 minnkaði losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi nefnilega um 38%.

Þetta er í raun frábært dæmi um hvernig ná má árangri í orku- og umhverfismálum án skatta, boða og banna. Orkusparnaður er innifalinn í góðum kerfum á borð við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Það er heldur ekki ónýtt fyrir ráðherrana að hafa nánast náð öðru tölusetta markmiðinu sínu um leið og sóknaráætlun þeirra var kynnt.

Fer ekki að koma tími til að taka upp heiðarlega skattheimtu aftur, frekar en skattheimtu byggða á vitleysu ætlaðrar til að framfylgja trúarskoðunum vinstrimanna?


mbl.is Ís lokar innsiglingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flórídaríki

Í Flórída-ríki Bandaríkjanna eru engar takmarkanir af hálfu ríkisins þegar kemur að sóttvörnum ("no state-imposed restrictions due to the virus" eins og einn orðaði það). Sýslurnar (counties) eru svo með einhverjar takmarkanir - sumar krefjast grímunotkunar og aðrar ekki. Disney World er opin, fólk fer á uppistand, tónleika og leiksýningar, skemmtistaðir eru opnir og fólk treðst grímulaust fram hjá fólki til að kaupa sér áfengi á barnum.

Þeir sem heimsækja Flórída tala um að ferðast inn í heiminn eins og hann var - hið gamla norm - venjulegt samfélag.

En er ríkið með einhverja elstu íbúa Bandaríkjanna (lífeyrisþegaparadísin) ekki að kafna úr veiru? Öðru nær. Ríkinu gengur mun betur en t.d. hinni ungu Kaliforníu þar sem allt var á bak við lás og slá þar til um það bil korteri eftir að Biden hafði svarið forsetaeiðinn, og nágrannaríkin. 

Innan ríkisins eru sýslur ýmist með grímuskyldu eða ekki og enginn munur er á frammistöðu þeirra. Kannski er lélegri eftirfylgni með grímunotkun um að kenna, kannski eru grímur einfaldlega ekki að hjálpa.

Flórída er galopið og fólk ferðast þar inn og út.

Ég bíð núna eftir því að einhver blaðamaðurinn skrifi níðgrein um Flórída sem "greiði fyrir gestrisnina" og því að halda ekki samfélaginu í kverkataki. Og skoði þá auðvitað ekki dauðsföll og hvað þá aldursdreifingu og heilsufarsástand þeirra látnu. Bara smit, smit og ekkert nema smit.


mbl.is Greiða fyrir opnun landsins með smitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuforði starfsmanna

„For­eldr­ar sem eru ör­ugg­ari í hlut­verki sínu verja meiri tíma með börn­um sín­um og sinna þörf­um þeirra bet­ur. Vel nærð börn ganga minna á orku­forða starfs­manna leik­skól­anna, sem er tak­mörkuð auðlind,“ seg­ir Ólaf­ur Grét­ar Gunn­ars­son, fjöl­skyldu- og hjónaráðgjafi. 

Já, það þarf að passa upp á að starfsfólk sem sinnir ákveðnum verkum hafi nægan orkuforða.

Einu sinni dugði ein fyrirvinna mörgum til að sjá fyrir maka, börnum og heimili. Sennilega voru skattar þá lægri og velferðarkerfið umsvifaminna. Eitt foreldrið gat verið heimavinnandi, hjálpað krökkunum með heimanámið og stutt þau í lífinu.

Síðan veit ég ekki alveg hvað gerðist því í dag þarf að vera nokkuð tekjuhár til að geta haldið uppi heimili á einum launum. Skatturinn hirðir auðvitað helling og auðvitað er samfélagið annað í dag með mun hærri atvinnuþátttöku kvenna en áður var. Þó má benda á að kannski hefði konan við færibandið eða búðarkassann valið að vera heimavinnandi frekar en útivinnandi ef bara ein laun dygðu til þess. Ekki eru öll störf sem konur vinna glæsilegar stjórnunarstöður og fyrirlestrahald, frekar en öll störf karlmanna.

Skattheimtan hækkar verðmiðann á venjulegu lífi. Langir vinnudagar halda foreldrum að heiman. Langir skóladagar halda krökkunum að heiman. Einn maður orðaði þetta ágætlega (feitletrun mín):

Education of the young, care for the elderly and the sick, assistance in times of emergencies—all of these services are today effectively “outsourced” to the state. The families have been degraded into small production units that share utility bills, cars, refrigerators, and of course the tax bill. The tax-financed welfare state then provides them with education and care. (The Ethics of Money Production, bls. 189)

En aftur að orkuforða leikskólastarfsmanna. Kannski hann mætti varðveita með því að lækka álögur á fjölskyldur og gera fleirum þeirra kleift að láta eina launaávísun duga. Mín ágiskun er sú að margir karlmenn kysu frekar að vera heimavinnandi en sópa byggingalóðir og moka skurði, og miklu fleiri karlmenn ættu kost á því á tímum þar sem konur eru meirihluti háskólanema. 

Eru róttækar skattalækkanir jafnréttismál? Jafnvel!


mbl.is Fækka mætti leikskólastarfsfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagfærð mynd

Við svolitla frétt um svokallaða borgarlína er viðhengd mynd af fólki við strætóskýli. Himininn blár, fólk léttklætt, auðar götur.

Þetta gengur auðvitað ekki svo ég leyfði mér að bæta á myndina svolítilli rigningu úr gráum himni, og auðvitað breiðu af svelli og slabbi.

svell

Lítur þetta ekki aðeins raunhæfar út?

Það er svolítið erfitt að teikna rok inn á mynd og konu að berjast við að koma barnavagni fullum af innkaupapokum inn í strætó. Í raun þyrfti líka að draga töluvert úr birtustiginu til að lýsa betur haustinu, vetrinum og vorinu. Kannski seinna.


mbl.is „Þrjú atriði sem við verðum dæmd af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður en næsta bylgja skellur á

Loftborin veira er á ferð og það er miður vetur. Með því að stía fólki í sundur og fleira gott hefur tekist að hægja aðeins á ferðalagi hennar en það er bara tímabundið.

Þegar næstu tilslakanir ganga í gildi er því um að gera og drífa allt af sem til stóð að gera: Drífa af að ferma, skíra, gifta sig og halda upp á stórafmælið. Nokkrum vikum seinna verður svo aftur skellt í lás en þá er a.m.k. búið að sinna því sem þurfti að sinna.

Svo kemur vorið með sól á lofti og hlýrra veðurfari. Fólk fer meira út og loftar betur um. Veiran fer í sumarfrí og þríeykjum er veitt fálkaorða.


mbl.is Útlit ágætt og tilslakanir á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband