Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Appelsínugult ástand

Samkvæmt COVID-19 viðvörunarkerfinu ríkir nú appelsínugult ástand um allt land. Berum aðeins lýsingu á slíku ástandi við raunverulegt ástand.

Lýsingin í heild sinni:

Appelsínugult ástand - mikil fjöldatakmörkun. Miðlungs eða miklar líkur á að faraldurinn hafi veruleg áhrif á samfélagið og daglegar athafnir fólks. Skerðing á þjónustu og samkomum er töluverð, sýkingarhætta hefur aukist og fólk beðið að halda sig innan síns nána tengslahóps og fara sérstaklega varlega í kringum einstaklinga í viðkvæmum hópum. Hætta er á að heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi.

Tökum þetta aðeins í sundur:

"sýkingarhætta hefur aukist"

Nei, hún hefur minnkað niður í nánast ekki neitt.

"Hætta er á að heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi."

Nei, læknir nokkur segir að álagið sé "ekki upp í nös á ketti", og að það hafi gengið "mjög vel" að eiga við seinustu bylgjur. Af hverju var þá skellt í neyðarástand á sínum tíma og talað eins og plágan mikla lægi yfir landinu?

Það er búið að svipta fólk starfi, fyrirtækjum, framfærslu, námi og tíma með fjölskyldu og vinum í meira og minna heilt ár núna. Læknir segir að það hafi gengið "mjög vel" að eiga við ástand á sjúkrahúsi en um leið er talað um neyðarástand. Það eru strangar takmarkanir á ýmsu sem eru réttlætar með "aukinni" sýkingarhættu á meðan hið gagnstæða er raunveruleikinn.

Hversu lengi á að hafa fólk að fíflum?


mbl.is Fara hægt í tilslakanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðisaukaskatturinn er lamandi, letjandi og til leiðinda

Einu sinni sagði fjármálaráðherra nokkur að „átakið Allir vinna, sem veitir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna byggingaframkvæmda, hafi tekist einstaklega vel. Þessi skattaívilnun skilar líklega meiru í ríkissjóð en ella.“

Þetta var Steingrímur J. Sigfússon, og árið var 2011.

Hvernig stendur á þessu? Er ekki hlutverk virðisaukaskatts að afla ríkissjóði tekna?

Hvernig getur þá tímabundið afnám hans skilað „meiru í ríkissjóð en ella“?

Fyrir því eru margar mögulegar ástæður.

Virðisaukaskattur er lamandi: Hann gerir kaup á vörum og þjónustu dýrari en ella, og því selst minna. Iðnaðarmenn fá minni tekjur því fólk tekur að sér vinnu þess - málar veggina sjálft og reynir að tengja uppþvottavélina sjálft. Til að hafa tíma til að sinna störfum iðnaðarmanna tekur fólk sér frí frá eigin vinnu. Lamandi áhrif á verðmætaskapandi vinnu, með öðrum orðum. Læknirinn smíðar verönd á meðan iðnaðarmaðurinn bíður á biðstofu hans eftir viðtali.

Virðisaukaskattur er letjandi: Þegar vinna iðnaðarmannsins er skattlögð upp í rjáfur freistast fólk auðvitað til að spara sér kaup á vinnu hans. Framkvæmdum er frestað eða þær minnkaðar í umfangi. Nema menn hætti einfaldlega alveg við vegna kostnaðar.

Virðisaukaskattur er til leiðinda: Virðisaukaskatti fylgir gjarnan mikil pappírsvinna og ég hef heyrt að yfirvöld fylgist mjög náið með innheimtu hans - jafnvel betur en ýmsu öðru. Iðnaðarmenn finna fyrir þessu. Fyrir utan kostnaðaraukann fylgja skattinum þar með mikil leiðindi og freistingin til að á einhvern hátt losna við þau er stór. Fyrir kaupendur vinnu þýðir endurgreiðsla virðisaukaskatts líka pappírsvinnu. 

Væri ekki ráð að afnema þennan skatt og auka þannig tekjur ríkissjóðs með meiri verðmætaskapandi veltu í samfélaginu, ef marka má orð fyrrverandi fjármálaráðherra?


mbl.is Endurgreiðslur upp á 19,7 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál - leyst!

Nýleg frétt Hringbrautar fjallar um alvarlegt vandamál: Börn eru send svöng í skólann og geta ekki tekið þátt í skólastarfinu vegna hungurs.

Ég dreg ekkert úr því að þetta er vandamál, og jafnvel mjög alvarlegt vandamál. En hver er lausnin? Að foreldrar barna sinna næri börn sín með góðum morgunverði og þungu nestisboxi, troðfullu af orku og næringu? Og auðvitað að bjóða upp á máltíðir heima fyrir?

Nei!

"... tel ég mikilvægt að hafa saðsama máltíð á föstudögum og mánudögum"

"Auðvitað ætti að vera í boði ávextir, skyr, brauð á mornana fyrir börn í skólum og ókeipis skólamatur í hádeginu" (stafsetningavillur frá höfundi texta)

Lausnin er auðvitað sú að börnin fái góðan mötuneytismat í skólatíma. Ókeypis, hvað sem það nú þýðir í þessu samhengi.

Auðvitað er hungur skólabarna vandamál en kannski er enn stærra vandamál það að það er hrópað á skólakerfið að leysa vandamálið. Gefum börnunum saðsama máltíð á föstudögum og mánudögum, málið leyst! Gefið þeim skyr og ávexti á skólatíma!

Hvernig á foreldri að túlka svona kröfugerðir? Að hvítt brauð með sultu sé bara ágæt máltíð alla daga og yfir helgina því á mánudaginn býður saðsöm máltíð?

Persónulega skil ég ekki foreldra sem heyra barn sitt kvarta yfir magaverkjum í lok skóladags því það var ekkert að borða, og gera ekkert í því. Mötuneytið bauð kannski upp á slepjulegan hafragraut og skólamáltíðin er jú "ókeypis" svo engin ástæða til að senda barnið með nesti í skólann.

Kannski er hér búið að aftengja algjörlega ábyrgð foreldra og væntingar til hins opinbera. Nú er hið opinbera orðið að foreldri og foreldrið einfaldlega orðið veski sem borgar skatta og gíróseðla og þarf ekki að spá í barninu meira.

Kannski eru skólamáltíðir í boði skattgreiðenda slæm hugmynd, og nestisboxið betri hugmynd.

Kannski.


Styttist í vorið

Leikritið heldur áfram.

Takmarkanir, aflétting þeirra, innleiðing þeirra. Mátt fara í sund, mátt það ekki. Mátt æfa fótbolta, mátt það ekki. Smitin! Takmarkanir! Grímur! Fólk að hrópa á hvert annað í búðum fyrir að virða ekki fjarlægðamörk og grímuskyldu. Nágranninn klagaður fyrir að bjóða vinum í heimsókn. 

Og svo hækkar sólin á lofti og allt lagast. Aðgerðir sóttvarnaryfirvalda virkuðu! Fálkaorðan!

Þetta gildir á fleiru stöðum en Íslandi. Óháð sóttvarnaraðgerðum - þær voru mjög mismunandi í mismunandi ríkjum - þá færði vorið með sér skilvirkni sóttvarnaraðgerða!

Það hefði mátt draga allskyns sóttvarnaraðgerðir af handahófi úr hatti - og þær virkuðu allar rosalega vel, á sama tíma!

Því það voraði, vel á minnst. Fólk fór að fá D-vítamín úr sólinni, fór meira út og loftaði betur um heimili sín.

Nokkur dæmi (heimild):

dk

ir

is

neth

no

Kannski forseti Íslands ætti að senda orður á fleiri en íslensk þríeyki? Fleiri en íslensk þríeyki virðast geta stuðlað að veðurblíðu vorsins.


mbl.is Ræddu um „varfærnar afléttingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um áhrif hópamyndana í heitum pottum á útbreiðslu SARS-CoV-2

Þar til fyrir tæpu ári síðan voru sóttvarnaraðgerðir byggðar á umfangsmiklum rannsóknum þar sem harka aðgerðanna var vegin upp á móti ávinning og óbeinum afleiðingum.

Þetta breyttist í fyrra. 

Síðan í fyrra hafa sóttvarnaraðgerðir flestra ríkja verið byggðar á ágiskunum, tilraunastarfsemi og jafnvel því að gera þær auðskiljanlegar frekar en gagnlegar. Þannig eru takmarkanir um ákveðinn lágmarksfjölda fermetra á hvern viðskiptavin í verslun ekki byggðar á neinu öðru en að "gera eitthvað".

Auðvitað eru til sóttvarnaraðgerðir sem eru hvort tveggja í senn áhrifaríkar og einfaldar, t.d. að mæta ekki lasinn eða með sjúkdómseinkenni til vinnu eða á tónleika. Einnig er hægt að færa rök fyrir því að glænýrri veiru þurfi að mæta tímabundið með óvenjulega harkalegum aðgerðum á meðan menn kortleggja áhættuhópa og athuga virkni þekktra lyfja og forvarnaraðgerða. En síðan ekki sögunni meir.

Það sést best hversu handahófskenndar sóttvarnargerðirnar eru að bera saman mismunandi aðgerðir mismunandi ríkja. Af hverju eru ekki öll ríki að beita sömu aðgerðum? Af hverju má fara í skóla í ríki A en ekki B þótt smit, dauðsföll og annað séu keimlíkar stærðir? Af hverju er eins metra regla hér og tveggja metra þar? Af hverju má kaupa áfengi en ekki skó, fara til læknis en ekki klippingu? 

Hin fjölbreytta flóra aðgerða í mismunandi ríkjum virðist svo samt skila árangri - á sama tíma! Ég hef bent á það áður hvernig seinasta vor var allt í einu tíminn þegar fjölbreyttar sóttvarnaraðgerðir fjölmargra evrópskra ríkja fóru að "virka". Var hægt að þakka aðgerðunum, eða veðrinu?

Og nú tæpu ári eftir að menn fóru fyrir alvöru að skoða nýja veiru þá er búið að kortleggja áhættuhópana, þróa forvarnaraðgerðir gegn bæði alvarlegum veikindum og skaðlegum langtímaafleiðingum, finna margar skilvirkar lyfjameðferðir og meira að segja bólusetja elsta fólkið.

Má þá ekki fara að slaka á og hætta að henda fílhraustu fólki út úr heita pottinum? Fjöldatakmarkanir í sund eru hvort eð er bara handahófskenndar "gera eitthvað" aðgerðir.


mbl.is Óþarfa leiðindi við starfsfólk sundlauga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband