Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Frosnar vindmyllur

Kuldakast reið yfir Texas-ríki Bandaríkjanna. Vindmyllurnar frusu. Þær frusu fastar! Skiljanlega kom lítið rafmagn frá frosnum vindmyllum.

Endurnýjanlegu orkugjafarnir eru flestir háðir veðri: Sól og vindur, úrkoma, straumar og öldur. Þeir krefjast mikils landflæmis.

Menn hafa auðvitað áttað sig á þessu. Þess vegna hugsa menn núna í auknum mæli um svokallaða "power-to-X" tækni þar sem endurnýjanlega orkan er notuð til að framleiða orku sem má geyma (vatnsfallsorkan er hérna í sérflokki auðvitað). Þetta getur verið vetni (með rafgreiningu vatns) eða metangas (með því að binda vetnið við koltvísýring), ammoníak, metanól eða eitthvað annað. 

En þetta er dýr æfing og því eru allskyns aðilar núna með hendurnar í vösum skattgreiðenda til að niðurgreiða þróunarkostnað.

En frosin vindmylla er gagnslaus, sama hvað.


mbl.is Áfellisdómur yfir skipulagi, ekki vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus barátta

Úr frétt Fréttablaðsins og viðtali við Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjón hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu:

Nú hefur verið talað um að um sé að ræða uppgjör í undirheimum og að einn taki við af öðrum. En er ekki alltaf einhver sem tekur við?

„Jú, það hefur verið þannig. Þetta er það sem gengur og gerist í þessu. Það þarf alltaf einhver að vera efstur. Þetta er endalaus barátta,“ segir Margeir að lokum.

Endalaus barátta, já. Þetta var hressandi einlægni. Nóg hefur verið af yfirlýsingum um fíkniefnalaust land, eða veirufrítt land undir það seinasta. Endalaus barátta.

En hvað er svarið? Að gefast upp? Leyfa fíkniefnum og veirum að dreifa sér mótspyrnulaust yfir allt og alla? Nei, en þegar fljótið verður ekki stöðvað er kannski hægt að beina farvegi þess í uppbyggilegri áttir. Í Portúgal hættu menn að reyna stífla fljótið og uppskáru vel, svo dæmi sé tekið. Endalaus barátta skilar engu nema átökum og gremju. 

Takk, kæri yfirlögregluþjónn, fyrir hreinskilnina. Vonandi smitar hún út frá sér!


Eru sígarettur kannski bara bestar?

Ég man vel eftir því þegar sígarettureykingar voru Stóra Vandamálið. Margir reyktu, sérstaklega á djamminu, og reyktu hvar sem er: Á heimilum, skemmtistöðum, veitingastöðum. Þetta þótti ekki nógu gott. Valkostirnir voru hræðilegir: Plástrar og bragðvont tyggjó. Þeir voru líka rándýrir.

Svo fór að draga úr þessu af ýmsum ástæðum og menn fögnuðu í augnablik, en nei bíddu nú við - nú er unga fólkið bara að troða í vörina í staðinn! Eins og Svíarnir! Og rafsígarettur senda röng skilaboð! 

Þá komu nikótínpúðarnir fram. Enn dró úr reykingum. Þessir púðar eru æði: Bragðgóðir, litlir og nettir. Ég nota þá reglulega - kannski 3-4 poka á dag, og rafsígarettuna þess á milli. Ég þekki þónokkra kvenmenn sem reyktu áður en nota púða núna, og auðvitað enn fleiri karlmenn. Ég sakna þess alls ekki að reykja sígarettur af mörgum ástæðum: Fjárhagslegum, heilsufarslegum og svo er auðvitað gott að vera laus við lyktina af fötunum og á puttunum.

Auðvitað er ég háður nikótíni en hvað með það? Er það verra en að sækjast í beikon og smjör, eða kók og sælgæti? Kannski miklu betra, t.d. fyrir gigtarsjúklinga. Ef nikótín væri ekki ávanabindandi væri búið að framleiða fjölda lyfja úr efninu því það hefur víst mörg heilsubætandi áhrif, ef einhverjum finnst það vera huggun í harmi.

Blaðamaður er á öðru máli. Honum tókst á einhvern undraverðan hátt að finna fullorðinn karlmann sem kvartar eins og ungabarn yfir gríðarlegri notkun sinni á nikótínpúðum. Sennilega á það að vekja upp einhver hughrif. Púðarnir verða samt að vera aðgengilegir á hógværi verði. Annars leitar fólk bara í aðrar leiðir til að fá sitt nikótín, t.d. sígarettur. Er það betra? Eða eru menn búnir að gleyma sigurvímunni þegar þeir sem reyktu daglega urðu færri en 20% þjóðarinnar? Var það ekki sigurinn - tjörueitrun á lungum fólks? Á að tapa honum niður?

Eða er ætlunin að færa glæpamönnum þennan markað?

Látið rafretturnar og púðana í friði, kæru stjórnmálamenn.


mbl.is Rosaleg fráhvörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfaldað dagatal

timalina

Skýring:

Nú er mjög virkt veirutímabil á norðurhveli Jarðar. Venjulega væri talað um flensutímabil en ekki lengur. Af ýmsum eða einhverjum ástæðum eru loftbornar veirur í kjöraðstæðum og breiðast hratt út. Fólk stendur í röðum og bíður eftir bóluefni.

Vorið kemur og útfjólublá geislun sólar færir með sér tvær gjafir: Veikir loftbornar veirur og hjálpar húð mannfólks að framleiða D-vítamín sem styrkir ónæmiskerfið og hrindir af sér alvarlegustu afleiðingum veirusmita. Öllum er skítsama um bóluefni.

Í haust hefur veira gengið laus í um 1,5 ár og búin að missa máttinn. Öllum verður skítsama þá.

Til að koma öllu bóluefninu út er því mikilvægt að nýta vertíðina fram að vori til að koma bóluefninu í fólk. Annars nennir það ekki að þiggja það. Af hverju að bólusetja sig gegn löngu liðinni árstíð?

Fréttamenn: Þið hafið verk að vinna áður en vorsólin brýst fram!


mbl.is Bólusetningardagatal stjórnvalda birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biluð klukka er rétt tvisvar á sólarhring

Meira að segja biluð klukka er rétt tvisvar á sólarhring (sé hún stafræn og sýnir tímann á bilinu 00:00-23:59 þó bara einu sinni á sólarhring).

Blaðamenn, sem allajafna eru lengra til vinstri en almenningur, elska að fjalla um háværa einstaklinga sem deila ekki stjórnmálaskoðunum með vinstrihreyfingunni. Þá er allt leyft. Menn eins og Rush Limbaugh, sem var alls enginn skoðanabróðir minn í 90% málaflokka, fá enga miskunn þegar blaðamaður skrifar níðgrein fyrir útför hans. Trump er líka skotskífa sem má skjóta hverju sem er á. Og svona á þetta kannski að vera: Vinstrisinnaðir blaðamenn hrækja á lík pólitískra andstæðinga sinna og hægrisinnaðir blaðamenn - að því marki að þeir finnist - draga úr mannkostum sinna andstæðinga.

En úr því Rush Limbaugh er nefndur þá segir blaðamaður nokkur eftirfarandi:

"Limbaugh var ávallt um­deild­ur en í um­fjöll­un BBC kem­ur fram að hann hafi verið ras­isti, homma­hat­ari og af­neitað lofts­lags­breyt­ing­um."

Takið eftir stílbragðinu þarna: Hann var rasisti, "hommahatari" (alveg einstaklega léleg þýðing á orðinu "homophobic", sem BBC notaði) og - "wait for it" - afneitaði loftslagsbreytingum!

BBC orðaði þetta nú aðeins betur:

"... denying the existence of man-made climate change ..."

Og þá vil ég spyrja: Hvað bendir til að mannkynið sé að breyta loftslaginu?

Já, ég veit: "The science is settled", segja þeir, og eru loftslagsvísindin þar með eina vísindagreinin í sögu vestræns samfélags sem hefur hlotið slíka nafnbót, og það þrátt fyrir að vera meðal nýrri vísindagreina.

En ég spyr samt.

Því núna er frostavetur á Íslandi, í Texas-ríki Bandaríkjanna og Grikklandi, og kuldamet að víða falla (umræða um mögulegar ástæður þess hér). 

Svo hvar eru allar þessar loftslagsbreytingar af mannavöldum?

Var Rush Limbaugh bilaða klukkan sem hafði þó rétt fyrir sér hér?


mbl.is Rush Limbaugh látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornaveiðarnar

"Búningur annars kennarans varð til þess að nokkrum kennaranemum blöskraði en kennarinn klæddi sig upp sem araba." (frétt DV en sjá einnig athugasemd SÁS við frétt Fréttablaðsins)

"Útvarpskona sökuð um að fitusmána ..." (frétt DV)

Er það bara ég eða fer þeim fjölgandi fréttunum þar sem venjulegt fólk úti í bæ - heiðarlegt, góðhjartað, venjulegt fólk - er einfaldlega tekið fyrir í fjölmiðlum og sett í gapastokkinn þar sem virkir í athugasemdum geta barið á því þar til þeir fá leið á því og færa sig að næsta máli?

Eða heldur einhver að kennari nokkur á Ísafirði hafi hugsað með sér: "Þessir fjárans arabar, nú skal ég sko sýna heiminum hvað ég fyrirlít þá mikið með því að klæða mig eins og þeir, á skemmtidegi fyrir börn!"

Nú eða að útvarpskona nokkur, sem velti af mikilli einlægni fyrir sér hvort hún væri fordómafull þegar hún vildi alls ekki vera það, hafi hugsað með sér, innst inni: "Þessar fitubollur eiga sko ekki skilið að ná sér í maka og lifa hamingjusömu lífi! Nú ræðst ég á þær í opnu útvarpi og smána þær fyrir framan alþjóð!"

Nei, auðvitað ekki! 

Þvert á móti! Þvert á móti var kennarinn einfaldlega að skemmta krökkum með auðþekkjanlegum klæðnaði sem gæti jafnvel vakið uppbyggilega forvitni um að kynnast ólíkum menningarheimum, og útvarpskonan var að reyna vekja til umhugsunar á uppbyggilegan og opinskáan hátt, með opinni umræðu.

Hvað í ósköpunum vakir fyrir fjölmiðlum að lepja upp þessa óstöðvandi og óendanlegu hneykslun örfárra hræða sem eru sjálfar einfaldlega í mörgum tilvikum að reyna upphefja sjálfar sig með því að bauna á aðra?

Hvað er takmarkið? Að enginn þori lengur að segja neitt? Gera neitt? Hafa skoðun? Velta fyrir sér skoðun? Opna á umræðu? Tjá tilfinningar sínar?

Er það takmarkið? Jæja, til hamingju. Ég held að því sé nokkurn veginn náð.


Er spilaborgin orðin of stór?

"A nation, therefore, has no right to say to a province: You belong to me, I want to take you. A province consists of its inhabitants. If anybody has a right to be heard in this case it is these inhabitants. Boundary disputes should be settled by plebiscite." 
Ludwig von Mises, Omnipotent Government, p. 90

Sjálfstæðissinnar, eða aðskilnaðarsinnar, eru víða að fá meiri vind í seglin. Í Katalóníu á Spáni er hreyfing sem fer síst af öllu minnkandi. Undir Trump töluðu sífellt fleiri um aðskilnað hinna og þessara sambandsríkja frá alríkinu. Meðal annars kallaði ríkisstjóri Kaliforníu ríki sitt "þjóðríki" og vildi með því leggja áherslu á að ríkið gæti gripið til aðgerða í óþökk alríkisins (nokkuð sem stjórnarskrá Bandaríkjanna heimilar tvímælalaust enda hafi alríkið ekki önnur völd en þau sem sambandsríkin framselja til þess).

Víða í Evrópu eru mislanglífar hreyfingar aðskilnaðarsinna sem virðast sumar hverjar stundum ætla að brjótast í gegn og fá a.m.k. kosningar um baráttumál sitt. Brexit er auðvitað angi aðskilnaðarhreyfingar. 

Hvernig stendur á þessu í heimi sem efnahagslega er sífellt að bráðna meira saman?

Kannski má skrifa þetta á sífellt valdaþyrstari og miðstýrðari ríkjasambönd. Alríki Bandaríkjanna er t.d. alltaf að sópa til sín fleiri völdum, nú seinast með nýju Bandaríkjameti í útgáfu svokallaðra "presidential execetive orders" (síðan Roosevelt). Evrópusambandið er auðvitað frægt fyrir sívaxandi umsvif sín. Kannski þungi miðstjórnarvaldsins leiði til þess að spilaborgin undir því hrynur og spilin þjóta hvert í sína áttina.

Kannski er einfaldlega um hefðbundinn hjónaskilnað að ræða. Tveir aðilar semja þá um að slíta samvistum og deila eingöngu með sér sameiginlegum verkefnum, svo sem uppeldi barna, og reyna í kjölfarið að eiga í vingjarnlegum samskiptum og uppbyggilegu samstarfi þegar þess gerist þörf (eða gerast svarnir óvinir og fylla líf sitt af heimatilbúnum vandamálum). Aðskilnaður er oft friðsælasta leiðin til að vinna saman. Þá getur annar aðilinn keypt og borðað beinar og lífrænt ræktaðar gúrkur en hinn kaupir og borðar bognar áburðargúrkur. 

Þetta er þróun sem hefur bara fengið byr undir báða vængi seinustu ár og ég held að eigi enn nóg inni og muni jafnvel leiða til róttækra breytinga á landamærum víða um heim. Sjáum hvað setur.


mbl.is Sjálfstæðissinnar með meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave, CO2, þrælahald og COVID-19

Ég veit að það fer í taugarnar á mörgum að sífjölgandi gagnrýnisraddir á sóttvarnaryfirvöld fái yfirleitt að heyrast.

"Á bara að drepa gamla fólkið?"

"Ertu ekki að taka heimsfaraldurinn alvarlega?"

"Er ekki betra að vera varkár en kærulaus?"

"Grímur eru nauðsynlegar!"

"Hlustaðu á vísindin!"

Það fór líka í taugarnar á mörgum þegar gagnrýnisraddir á Icesave-samningana fóru á kreik.

Og óþolið fyrir þeim sem trúa ekki á heimsendaáhrif svolítillar losunar á CO2 er algjört.

Og fyrir margt löngu voru líka einhverjir síkvabbandi nöldrarar að gagnrýna þrælahald og vildu banna það án þess að hafa reiknað út efnahagsleg áhrif á plantekrur og námur þess tíma.

Það sem ég á við er að oft halda yfirvöld og klappstýrur þeirra úti einhverri línu - einhverju stefi - sem við eigum einfaldlega að taka undir.

Þeir sem gera það ekki eru hávær, grenjandi minnihluti. Afneitarar! Draumórafólk! 

En sem betur fer heyrast raddir sem gagnrýna meginstefið. Sem betur fer! Þær eru samfélagi okkar alveg bráðnauðsynlegar. Mörg meginstef hafa reynst vera bull og vitleysa. Málefnalegri gagnrýni á að svara með málefnalegum mótrökum, ekki taugatitringi og útilokun frá opinberri umræðu. 

Áfram gakk, gagnrýnendur meginstefsins!


Þessi blessuðu smit

Smit, smit, smit! 

Er þetta í alvörunni það eina sem kemst að eftir 11-12 mánuði af veiru sem er búið að kortleggja að innan og utan í smáatriðum?

Menn hafa rökstutt ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir sem draga úr alvarleika sýkingar vegna smits.

Menn hafa prófað óteljandi tegundir þekktra lyfja og blöndu þeirra á allskonar aldurshópum og fólki í mismunandi líkamlegu ástandi og fundið skilvirkar leiðir til að slá á veirumagnið.

Menn hafa komist að því að börn þola veiruna mjög vel og vita jafnvel ekki alltaf af henni í eigin líkama.

Það er held ég á hreinu að almenn grímunotkun gerir ekkert nema búa til falska öryggistilfinningu og getur jafnvel leitt til vandamála í sjálfu sér.

fl

Lokanir eru að rústa geðheilsu fólks - sérstaklega barna - og auðvitað hagkerfinu. 

En samt kemst ekkert annað að en smit! 12. mánuðinn í röð!

Eru einhver hagsmunaöfl hérna að ríghalda í ástandið? Stjórnmálamenn sem neita að viðurkenna mistök? Lyfjafyrirtæki sem sjá fram á mikinn hagnað? Blaðamenn sem stunda engar rannsóknir aðrar en viðveru á upplýsingafundum hins opinbera?

Ég er alveg gáttaður á hinni hrópandi þögn almennings. Hafa foreldrar fermingarbarna engar áhyggjur af páskavikunum? Vill ástfangið fólk ekki fara að henda í brúðkaup? Vill fólk ekki losna úr atvinnuleysi? Vilja unglingar ekki fara í fjölmenn partý og á dansleiki? Vill íþróttaáhugafólk ekki komast á völlinn og hvetja sitt lið áfram? Vill sá sem er að detta í stórafmæli ekki blása til stórrar veislu? Vill ferðalangurinn ekki komast til útlanda og heim aftur án þess að sjá á eftir heilli viku í stofufangelsi?

Eða trúa svona margir því enn að um óþekkta og stórhættulega drepsótt sé að ræða sem slær flensuna margfalt út, og að seinustu 12 mánuðir hafi ekki fært okkur neitt nothæft?

Í alvöru?


mbl.is Reyndust vera með bráðsmitandi afbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjólkurverzlunin

mjolk

(Mynd: Alþýðublaðið - 263. Tölublað (18.12.1968))

Vínbúðinni í Borgartúni verður lokað frá og með mánudeginum 22. febrúar og rekstri hætt í núverandi húsnæði. 

„ÁTVR harm­ar þessa niður­stöðu en því miður eru ekki aðrir val­kost­ir að svo stöddu. Við biðjum viðskipta­vini okk­ar af­sök­un­ar á þeim óþæg­ind­um sem lok­un­in hef­ur í för með sér en bend­um á að næstu Vín­búðir eru í Kringl­unni, Skeif­unni og Skútu­vogi,“ seg­ir í tilkynningu ÁTVR (og blaðamaður bætir við að einnig sé verslun við Austurstræti).

Og þá er það mál úr sögunni, ekki satt?

Ég dvaldi um hríð í íbúð í Túnunum seinasta sumar og fannst frábært að geta skottast á fæti í áfengisverslunina í Borgartúni. Núna dugir sennilega ekkert minna en bifreið til að krækja í sopann. Það mætti segja að núverandi fyrirkomulag áfengisverslunar stuðli að aukinni umferð og þrýsting a stóru verslunarkjarnana að leggja land undir bílastæði.

Um leið dregur núverandi fyrirkomulag áfengisverslunar þróttinn úr minni kaupmönnum sem gætu annars starfrækt hverfisverslanir sem fólk getur skotist í á fæti eða hjóli.

Heilli verslun er lokað með einni tilkynningu og fólki bara bent á bílinn sinn.

Kannski sagan sé gleymd - tímar þegar sunnudagssala á mjólk var mál á borði sveitarstjórnar en ekki samkomulagsatriði milli neytenda og kaupmanna.

Því miður.


mbl.is Rekstri Vínbúðarinnar í Borgartúni hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband