Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

Hvenær verður vettvangur skoðanaskipta að fjölmiðli með ábyrga ritstjórn?

Mig vantar hjálp til að skilja svolitla lagatækni sem ég botna ekki í.

Þegar fjölmiðill flytur frétt eða endurómar orð einhvers þá fylgir því ábyrgð ritstjórnar býst ég við. Fjölmiðill segir t.d. frá því að einhver aðhyllist kennisetningar Marx eða Hitlers. Fyrir því eru færð einhver rök. Ritstjórn skrifar undir fréttina. 

Reynist viðkomandi aðili sem fjallað er um vera ósammála getur hann krafist leiðréttingar eða jafnvel farið fyrir dómstóla og fengið ummælum hnekkt sem dauðum bókstaf. 

En hvað með samfélagsmiðla? Ef ég skrifa á samfélagsmiðla að einhver aðhyllist kennisetningar Hitlers eða Marx er þá samfélagsmiðillinn ábyrgur fyrir ummælum mínum? Reynist viðkomandi aðili ósammála er hann þá að fara draga mig, sem höfund efnisins, eða samfélagsmiðilinn fyrir dómstóla?

Því segjum sem svo að ég skrifi eitthvað á samfélagsmiðla sem reynist rangt eða er það augljóslega, eins og að einhyrningar finnist eða hvað sem er, og samfélagsmiðillinn sannreynir það ekki - leyfir því að standa - er samfélagsmiðillinn þá búinn að skrifa undir, eins og ritstjórn undir ranga frétt?

Með öðrum orðum: Með því að fjarlægja meintar rangfærslur af veggjum samfélagsmiðla eru samfélagsmiðlar þá ekki um leið búnir að kvitta undir allt hitt? Og taka á sig ritstjórnarlega ábyrgð? Og þar með orðnir fjölmiðlar frekar en vettvangur notenda?

Sjálfur er ég í auknum mæli hættur að treysta á samfélagsmiðla til að veita upplýsingar því ég veit að það er búið að fikta við straum efnis og að hluta til loka á hann. Mér er alveg sama hvort hið fjarlægða efni eru samsæriskenningar, bullvísindi eða hræðsluáróður. Ég veit bara að á milli mín og annarra notenda samfélagsmiðla er fyrirbæri sem segist vera að miðla efni annarra en er í raun að velja efni til og frá, eins og hver annar fjölmiðill (Mogginn, DV. BBC, Breitbart).

Og ef það er viðskiptalíkan stóru samfélagsmiðlanna þá bara þeir um það. Fleiri finnast.


mbl.is Amazon úthýsir vettvangi öfgamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

20. febrúar 2020

Hér var ég, nokkuð framarlega, þann 20. febrúar 2020:

sn

Megi svona upplifanir verða sem fyrst hluti af lífinu, því lífið snýst ekki bara um að halda lífi.


Önnur úrræði en grímur, takmarkanir og bóluefni

Ný reglugerð í sóttvörnum tekur bráðum gildi á Íslandi þar sem slakað er aðeins á kverkatakinu. Betra en ekkert en eftir alla þessa mánuði af veirutímum má þá ekki byrja að skoða fleiri úrræði en takmarkanir, grímur og bóluefni?

Eða römbuðu menn fyrir 10 mánuðum á hina einu sönnu sóttvarnarformúlu í fyrstu tilraun og engin ástæða til að endurskoða neitt?

Eitt er til dæmis heimapróf. Þá getur einstaklingur á korteri prófað sjálfan sig til að sjá hvort veira leynist í honum. Og ef ekki: Hegðað sér eins og venjuleg manneskja, knúsað ömmu og faðmað vin sinn.

Kvikmyndahús, flugfélög, líkamsræktarstöðvar, hárgreiðslustofur, veitingahús, skemmtistaðir og fleiri gætu einnig aukið svigrúm sitt töluvert ef það fæst staðfest við komu að viðskiptavinur er veirulaus. Þetta gæti hleypt miklu lífi í bæði atvinnulíf og félagslíf. 

Annað úrræði er að gefa eins og kostur er einstaklingum færi á að fara í mótefnapróf ef það hefur jafnað sig á veiru. Sumir segja að bóluefnið sé betra en hið náttúrulega mótefni en eitthvað hlýtur nú samt að vera varið í hið náttúrulega mótefni. Ég þekki íslenska fjölskyldu í Danmörku sem er með vottorð um mótefni í vasanum og getur skoppað á milli Íslands og Danmerkur eins og venjulegt fólk í venjulegu árferði. 

Ég gæti kannski fengið einhvern COVID-19 sjúklinginn til að hósta framan í mig, legið í 2 vikur og geta þá á ný skroppið til Íslands án 5 daga stofufangelsis við komuna.

Enn eitt úrræði sem lítið fer fyrir er að reyna frekar að dreifa úr fólki en þjappa því saman. Hvernig? Jú, með því að opna allt en hafa í staðinn fjöldatakmarkanir eða álíka (kannski einhver hafi skoðað það að í stað fjöldatakmarkana að hafa tímatakmarkanir því einhvers staðar sá ég að smit berast helst við langvarandi nærveru innandyra við smitaðan einstakling, frekar en í ysi og þysi verslunarinnar).

Smitrakning hefur ekki, að því ég hef séð, rakið mörg smit til Krónunnar og ÁTVR, jafnvel þótt fátt annað hafi verið opið, og fólk því þjappast þar saman. Með því að opna meira og meira má dreifa fólki betur. Og segir sig kannski svolítið sjálft.

Kannski nú sé líka ráð að heimila áfengi í matvöruverslanir í hvínandi hvelli til að dreifa úr álaginu á ríkisbúðirnar.

Ég sé með áberandi hætti hvernig lokanir á öllu nema matvöru- og lyfjaverslunum í Danmörku þjappa fólki saman. Þegar fatabúðin er lokuð en Hagkaup er opið þá leita auðvitað fleiri í Hagkaup til að kaupa stígvél og jakka en ef allt væri opið.

Í stuttu máli finnst mér menn lítið ætla að nýta sér gögnin sem safnað hefur verið upp í 10 mánuði um hvar smitin koma upp, á hvaða aldurshópa þau leita helst á þeim stöðum og hvaða heilsufarlegu afleiðingar það hefur haft. Yfirvöld eru a.m.k. ekki mjög upptekin af því að rökstyðja mál sitt.

Til dæmis mætti spyrja sig að því hve mörg smit á líkamsræktarstöðvum hafa leitt til sjúkrahúsvistar? Ef svarið er núll þá hafa þau smit - ef einhver - lagst á heilbrigða einstaklinga sem jafna sig átakalaust. Og engin ástæða til að hafa lokað. Eða hvað?

Allur er varinn góður, nema þegar kemur að óbeinum afleiðingum sóttvarnaraðgerða - þar er aldrei of langt gengið, eða hvað?


mbl.is „Við verðum að fara mjög varlega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál í hnotskurn

„Við þurf­um að vera nægi­lega stór til að geta viður­kennt mis­tök­in, sem ann­ars verða bara stærri ef ekk­ert er að gert,“ sagði einræðisherra N-Kóreu, Kim Jong Un, þegar hann ávarpaði eigin flokk, Verkalýðsflokkinn, og bætti við að setja þyrfti upp viðskipta­áætl­un til næstu fimm ára. 

Með öðrum orðum:

Stór mistök voru gerð. Nú þarf að gera 5 ára áætlun.

Er þetta ekki bara yndislegt sýnidæmi um stjórnmál í hnotskurn?

Fyrst er gerð áætlun. Hún mistekst. Þá er gerð ný áætlun.

Þessa dagana er ég að lesa bók sem fjallar meðal annars um áætlanir (Black Swan e. N. N. Taleb). Í bókinni er mælt með því að dreifa áhættu og læra eins hratt og hægt er af mistökum. 5 ára áætlanir eru allt nema þetta. Þar er ákvarðanatakan á einni hendi og tekur langan tíma að uppgötva mistök og hvað þá bregðast við þeim.

Það er af þessum sökum að frjáls markaður er svo góður að finna lausnir. Þar vinna þúsundir heila að lausn (í von um ágóða, auðvitað). Sumum tekst vel og öðrum ekki. Ef eitthvað heppnast geta aðrir nýtt sér það. Og þeir allra heppnustu ramba á eitthvað óvænt - svokallaða svarta svani. Þeir voru ekki í áætlununum frekar en hrun bankakerfisins, kínverskar veirur, pensillínið og Viagra sem stinningarlyf. 

En svona geta stjórnmálamenn ekki leyft sér að hugsa. Þá hefðu þeir enga afsökun til að umkringja sig með ráðgjöfum, stofnunum og sérfræðingum og skrifa stórar skýrslur með 5 ára áætlunum í viðauka. Nú eða sóttvarnaraðgerðum.

Ekki frekar en Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.


mbl.is Viðurkennir afglöp stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingagjöf til neytandans

Nú er neytendum sagt frá því að bjórtegundir verði á afslætti í janúar. Þetta er gott mál og nothæfar upplýsingar.

Hvort lögin heimili svona upplýsingagjöf til neytenda veit ég ekki en það er önnur saga. Íslendingar sjá auglýsingar í erlendum miðlum og á netinu hvort sem íslensk löggjöf bannar þær eða ekki.

Takmarkanir á auglýsingum eru furðulegt fyrirbæri. Á Íslandi má til dæmis ekki auglýsa neitt í með notkun efstastigs lýsingarorða. Enginn má vera ódýrastur, bestur, fljótastur eða sterkastur. Þá mætir nefnilega samkeppnisaðili viðkomandi á staðinn og ræsir dýrt og tímafrekt klögumál innan hins opinbera. Það þarf jú að sanna, svo ekki verði um villst, að efstastig sé bókstaflega rétt orðaval.

Ekki eru danskir neytendur meðhöndlaðir svona eins og vitgrannir krakkar. Það er á hreinu. 

Ekki batnar auglýsingaumhverfið hjá tannlæknum og læknum. Þeim eru settar þröngar skorður þegar þeir vilja kynna starfsemi sína fyrir almenningi. Til að útskýra ástæður slíkrar löggjafar þarf langa grein á Vísindavefinn, þar sem er þó ekkert fjallað um að með því að banna nýliðum að kynna sig þá er verið að verja þá sem hafa nú þegar krækt í sína skjólstæðinga gegn samkeppni.

Ekki eru danskir notendur tannlæknaþjónustu og einkarekinnar læknaþjónustu meðhöndlaðir svona eins og vitgrannir krakkar. Það er á hreinu.

Hvað um það. Einstök-bjór er á 25% afslætti í janúar. Gott að vita.


mbl.is 25% afsláttur á Einstök í janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Möguleg leið úr kófinu: Heimapróf

Ein möguleg leið út úr kófinu er stóraukin - jafnvel dagleg - prófun sem skilar niðurstöðu á um 15 mínútum og fólk getur framkvæmt heima hjá sér eða á vinnustað sínum.

Varan er til [1|2] og er vottuð til heimanota af bandarískum yfirvöldum!

Er eftir einhverju að bíða?

Slík nálgun gæti gert sóttvarnaraðgerðir ónauðsynlegar með öllu nema fyrir þá sem eru smitaðir af veirunni.

Og þá meina ég raunverulega smitaðir en ekki bara grunaðir um smit, útsettir fyrir smiti eða í hættu á að verða smitaður.

Allir geta þá á ný heimsótt ömmu og afa.

Allir komast í vinnuna og út í búð.

Allir geta haldið partý, farið á sölusýningar og sótt messu.

Eingöngu fólk með COVID-19, flensu og kvef er heima hjá sér að horfa á Netflix og spila tölvuleiki.

Lífið sleppur úr heljartaki sóttvarnaraðgerða.

Það er sennilega fullreynt að fá yfirvöld til að hætta miða allt við smit, möguleg smit, ætluð smit og grun um smit. Hraðvirk heimapróf sem fólk getur keypt í apótekinu gætu því verið málið. Slíkt gæti jafnvel notið niðurgreiðslu og samt orðið ríkinu ódýrara en allt þetta hringl í samfélaginu og atvinnuleysið sem það hefur leitt af sér (þannig að skatttekjur í ríkissjóð breytast í bótagreiðslur úr ríkissjóði).

Er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Danir herða reglur á landamærum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímalína

Hér má sjá tímalínu smita og helstu sóttvarnaraðgerða (heimild):

timalina

Ég ætla í sjálfu sér ekki að reyna lesa mikið út úr þessu en það má spyrja sig spurninga:

  • Breyttu grímurnar í sumar einhverju?
  • Breyttu hertar aðgerðir á ferðalöngum einhverju?
  • Breytti opnun hárgreiðslustofa og íþróttaæfinga barna í byrjun vetrar einhverju?

Auðvitað breyta samkomutakmarkanir einhverju sé farið eftir þeim. En lokanir? Eru þær ekki bara til þess fallnar að þjappa fólki meira saman? Allir í Hagkaup að kaupa föt í stað þess að dreifa sér í kvenfatabúðirnar, og þar fram eftir götunum.

En auðvitað erum við að læra. Og margir að bíða eftir sprautunni.


COVID-rökræða dagsins

Ef þú ætlar að hlusta á eitthvað í dag þá mæli ég með þessum rökræðum um sóttvarnaraðgerðir:

COVID Debate: Martin Kulldorff and Eric Topol (um 50 mín.)

Þarna takast á - ef svo má segja - tveir sprenglærðir sérfræðingar, og báðir leggja mjög þung lóð á vogarskálarnar. Þeir eru sammála um sumt en alls ekki allt. Það má að hluta skrifa á mismunandi áhyggjur sem leiða til mismunandi hugmynda að aðgerðum.

En það er margt gott þarna, frá báðum.


Geðheilsa 2020

Sóttvarnaraðgerðir hafa haft hræðilegar afleiðingar á geðheilsu bæði ungra og eldri, bæði á Íslandi og um allan heim. Í sumum ríkjum hefur öldruðu fólki verið haldið alveg frá fjölskyldum sínum og slíkt beinlínis leitt til andlegrar hrörnunar eða hraðað henni. Um þetta vitna fjölmargar rannsóknir, sjá t.d. hér.

Unga fólkið situr í auknum mæli heima hjá sér í heimatilbúna atvinnuleysinu eða skólabrottfallinu og hugleiðir sjálfsvíg. Landlæknir hefur haldið a.m.k. einn fund um þetta en uppgjör yfir árið 2020 liggur ekki fyrir nema í því sem er auðmælanlegt, svo sem símtölum í hjálparlínur ýmis konar. Það er raunveruleg ástæða til að óttast yfirgnæfandi metár í fjölda sjálfsvíga á árinu 2020 - svo langt aftur í tímann sem gögn finnast (þar á meðal bankahrunsárin).

En sumum líður auðvitað bara vel. Fólk á miðjum aldri í þægilegum innivinnum sem elskar næðið og fjarfundarbúnaðinn sinn blómstrar. Opinberir starfsmenn með öruggar tekjur eru sáttir. Innhverfir forritarar og Netflix-fíklar sjá hreinlega engan mun á lífi sínu. En þeir elstu, sem er búið að hræða geðheilsuna úr, og þeir yngstu, sem eru ýmist að klepra úr einmanaleika eða kvíða fyrir lífi eftir brottfall úr skóla í viðvarandi atvinnuleysi - þetta eru fórnarlömbin.


mbl.is Geðgreining algeng á hjúkrunarheimilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiran bíður átekta

Með því að loka, hægja á, aðskilja, siga lögreglunni á nágranna sína, framleiða atvinnuleysi, safna skuldum og skerða ferðafrelsi hefur yfirvöldum tekist að hægja á útbreiðslu veiru, tímabundið.

Um leið og einhver fær að ná andanum að nýju (mæta í skólann, fara í vinnuna, umgangast vini) er veiran tilbúin að stökkva af stað.

Henni verður ekki haldið niðri eða hún svæfð. Hún er á sveimi í samfélaginu og bíður bara átekta. Eftir alla þessa mánuði er hún nægjanlega útbreidd í samfélaginu til að verða landlæg (e. endemic) og bætast í flóru annarra kórónuveira sem hringsóla á milli fólks, ár eftir ár, og veikja suma en ekki aðra.

Veirunni verður kannski frestað með því að fletja út samfélagið en hún er ekkert á förum.

Sem betur fer hafa læknar fundið margar leiðir til að lækna þá sem veikjast af veirunni, meðal annars ódýr og vel þekkt lyf

Einhver bóluefni munu kannski líka sanna sig, sérstaklega fyrir þá sem eru veikastir fyrir veirum, en þau munu ekki útrýma veirunni.

Áherslan á að halda niðri smitum er fyrir löngu dauðadæmd. Veiran stekkur af stað um leið og hið opinbera neyðist til að slaka á kverkatakinu. Ráðstafanir ættu ekki að snúast um smit.


mbl.is „Þetta lítur alveg ótrúlega vel út“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband