Önnur úrræði en grímur, takmarkanir og bóluefni

Ný reglugerð í sóttvörnum tekur bráðum gildi á Íslandi þar sem slakað er aðeins á kverkatakinu. Betra en ekkert en eftir alla þessa mánuði af veirutímum má þá ekki byrja að skoða fleiri úrræði en takmarkanir, grímur og bóluefni?

Eða römbuðu menn fyrir 10 mánuðum á hina einu sönnu sóttvarnarformúlu í fyrstu tilraun og engin ástæða til að endurskoða neitt?

Eitt er til dæmis heimapróf. Þá getur einstaklingur á korteri prófað sjálfan sig til að sjá hvort veira leynist í honum. Og ef ekki: Hegðað sér eins og venjuleg manneskja, knúsað ömmu og faðmað vin sinn.

Kvikmyndahús, flugfélög, líkamsræktarstöðvar, hárgreiðslustofur, veitingahús, skemmtistaðir og fleiri gætu einnig aukið svigrúm sitt töluvert ef það fæst staðfest við komu að viðskiptavinur er veirulaus. Þetta gæti hleypt miklu lífi í bæði atvinnulíf og félagslíf. 

Annað úrræði er að gefa eins og kostur er einstaklingum færi á að fara í mótefnapróf ef það hefur jafnað sig á veiru. Sumir segja að bóluefnið sé betra en hið náttúrulega mótefni en eitthvað hlýtur nú samt að vera varið í hið náttúrulega mótefni. Ég þekki íslenska fjölskyldu í Danmörku sem er með vottorð um mótefni í vasanum og getur skoppað á milli Íslands og Danmerkur eins og venjulegt fólk í venjulegu árferði. 

Ég gæti kannski fengið einhvern COVID-19 sjúklinginn til að hósta framan í mig, legið í 2 vikur og geta þá á ný skroppið til Íslands án 5 daga stofufangelsis við komuna.

Enn eitt úrræði sem lítið fer fyrir er að reyna frekar að dreifa úr fólki en þjappa því saman. Hvernig? Jú, með því að opna allt en hafa í staðinn fjöldatakmarkanir eða álíka (kannski einhver hafi skoðað það að í stað fjöldatakmarkana að hafa tímatakmarkanir því einhvers staðar sá ég að smit berast helst við langvarandi nærveru innandyra við smitaðan einstakling, frekar en í ysi og þysi verslunarinnar).

Smitrakning hefur ekki, að því ég hef séð, rakið mörg smit til Krónunnar og ÁTVR, jafnvel þótt fátt annað hafi verið opið, og fólk því þjappast þar saman. Með því að opna meira og meira má dreifa fólki betur. Og segir sig kannski svolítið sjálft.

Kannski nú sé líka ráð að heimila áfengi í matvöruverslanir í hvínandi hvelli til að dreifa úr álaginu á ríkisbúðirnar.

Ég sé með áberandi hætti hvernig lokanir á öllu nema matvöru- og lyfjaverslunum í Danmörku þjappa fólki saman. Þegar fatabúðin er lokuð en Hagkaup er opið þá leita auðvitað fleiri í Hagkaup til að kaupa stígvél og jakka en ef allt væri opið.

Í stuttu máli finnst mér menn lítið ætla að nýta sér gögnin sem safnað hefur verið upp í 10 mánuði um hvar smitin koma upp, á hvaða aldurshópa þau leita helst á þeim stöðum og hvaða heilsufarlegu afleiðingar það hefur haft. Yfirvöld eru a.m.k. ekki mjög upptekin af því að rökstyðja mál sitt.

Til dæmis mætti spyrja sig að því hve mörg smit á líkamsræktarstöðvum hafa leitt til sjúkrahúsvistar? Ef svarið er núll þá hafa þau smit - ef einhver - lagst á heilbrigða einstaklinga sem jafna sig átakalaust. Og engin ástæða til að hafa lokað. Eða hvað?

Allur er varinn góður, nema þegar kemur að óbeinum afleiðingum sóttvarnaraðgerða - þar er aldrei of langt gengið, eða hvað?


mbl.is „Við verðum að fara mjög varlega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband