Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020

Veit hægri höndin ekki hvað sú til vinstri er að gera?

Bretar undirbúa nú innheimtu tolla af vöruflutningum frá meginlandi Evrópu, þ.e. Evrópusambandinu.

Um leið leggja þeir línurnar fyrir fríverslunarsamninga við Bandaríkin, Ástralíu og fleiri ríki.

Svona hagar Evrópusambandið sér líka: Tolla allt utan þess en rembist samhliða við að gera fríverslunarsamninga.

Ísland hagar sér líka svona: Leggur á tolla en semur um fríverslun.

Þetta er, með öðrum orðum, hin hefðbundna nálgun.

En hvers vegna? 

Að setja á tolla er einhliða ákvörðun sérhvers ríkis. Það þarf enginn að tolla eitt né neitt. Hefðin virðist snúast um að ef ríki A leggur tolla á varning frá ríki B, þá svarar ríki B því með því að tolla vörur frá ríki A.

Með öðrum orðum: Ef nágranni minn pissar á ganginn í fjölbýlishúsinu þá þarf ég líka að gera það. Ef einhver grýtir höfnina sína þá ætla ég að grýta mína höfn.

Ég hélt kannski að Bretar vissu betur og létu það einfaldlega eiga sig að reisa tollamúra. Það væri mikið stílbrot en Bretar hafa áður fetað ótroðnar slóðir. En svo virðist ekki vera. Evrópusambandið tollar breskar vörur og því skulu Bretar tolla vörur Evrópusambandsins. Svona rúllar boltinn.


mbl.is Fyrsta tollafgreiðslan í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringamyndun

"Mælikvarðar á samþjöppun á markaði eru einkum notaðir af samkeppnisyfirvöldum til að leggja mat á áhrif fyrirhugaðra samruna á samkeppnisvirkni á markaði." (samkeppni.is)

Íslendingar hafa oft miklar áhyggjur af skorti á samkeppni. Kannski skiljanlega. Fámennið heldur skiljanlega ekki úti mjög mörgum fyrirtækjum á tilteknum markaði. Þó má furða sig á úrvalinu víða, t.d. á matvörumarkaði og farsímamarkaði. Engu að síður eru neytendur með varann á. Samkeppni er jú mikilvæg og val neytandans þarf að skipta máli.

Til að bregðast við áhyggjum af skorti á samkeppni heldur ríkisvaldið úti mjög umfangsmikilli starfsemi svokallaðs Samkeppniseftirlits. Þetta eftirlit flækist fyrir sérhverjum samrunahugleiðingum fyrirtækja og grandskoðar slík áform með tilliti til samkeppni. Stundum er samruna hafnað en stundum er honum bara settur ákveðin skilyrði. Þannig er það.

En hvað gerist svo þegar menn líta frá einkafyrirtækjum í blússandi samkeppni og í átt að hinu opinbera?

Þá gufa allar áhyggjur af samkeppni og einokun upp, eins og dögg fyrir sólu.

Ríkiseinokun er þá talin hagkvæm og samkeppni almennt til ama. Af hverju að hafa val þegar það er hægt að safna öllu á fáar hendur? 

Sveitarfélögin eiga að vera sem stærst. Í því felst jú stærðarhagkvæmni. Að flytja úr sveitarfélagi krefst þess stundum að yfirgefa heilu landsfjórðungana, eða allt að því. 

Þetta er veruleikinn: Fyrirtæki eiga að vera mörg, lítil og veikburða. Opinberar rekstrareiningar eiga að vera sem stærstar og þekja sem mest flatarmál. 

Ég vil leggja til málamiðlun:

Að ríkið hætti að skipta sér af því hvaða fyrirtæki vinna saman og hvernig, hvort þau séu í sitthvoru lagi eða sameinist, og þar fram eftir götunum. Um leið þarf að tryggja að aðgangshindranir að markaði séu sem minnstar. Það er t.d. nánast ómögulegt að stofna banka á Íslandi og því skiljanlega skortur á samkeppni á þeim markaði.

Að ríkið breyti um leið lögum sem gerir íbúum tiltekins svæðis auðveldar að kljúfa sig út úr sveitarfélagi sínu og stofna nýtt. Samhliða því þarf auðvitað að fækka lögbundnum verkefnum sveitarfélaga og afnema ákvæði um lágmarks- og hámarksútsvar. Sveitarfélögin eru orðin hálfgerð ruslatunna fyrir ríkisvaldið, sem framleiðir verkefni eftir verkefni fyrir sveitarfélögin án þess að þurfa hafa áhyggjur af kostnaðinum við þau. Þetta þarf að stöðva.

Sameining sveitarfélaga er stundum skynsamleg, rétt eins og sameining fyrirtækja. En stundum þarf að huga að samkeppni, og þá er hvorki gagn að risavöxnum sveitarfélögum né fyrirtækjum á markaði aðgangshindrana.


mbl.is 70% vilja skoða sameiningu á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður á eplum og appelsínum

Ég ætla að benda á svolítinn samanburð á eplum á appelsínum. Á einum stað stendur:

COVID-19: There have been approximately 648,966 deaths reported worldwide. In the U.S, 146,935 people have died of COVID-19, as of July 27, 2020.*

Flu: The World Health Organization estimates that 290,000 to 650,000 people die of flu-related causes every year worldwide.

Við þennan samanburð má bæta:

COVID-19: Hagkerfum lokað. Fólk einangrað. Tölfræði milli ríkja ósamanburðarhæf og jafnvel villandi í sumum, þá yfirleitt ýkt frekar en hitt (af ýmsum ástæðum). Atvinnuleysi. Örvænting. Fjölgun dauðsfalla vegna sjálfsmorða og örvæntingar. Grímur. Spritt. Samkomubann. Heilbrigðiskerfið eflt til að takast á við veiru. 

Flu: Engin einangrun. Smit berast greitt. Eingöngu veikt fólk sem leggst í rúmið. Ekkert víst að öll tilvik séu skráð sérstaklega sem dauðsföll vegna veiru og því frekar í lægri kantinu frekar en hitt. Engar grímur eða spritt. Samkomur fara fram. Heilbrigðiskerfið keyrir eins og venjulega.

Samanburður á eplum og appelsínum á ekki alltaf rétt á sér, en getur engu að síður vakið til umhugsunar.


Samhengi óskast

Þegar fréttir af útbreiðslu kórónuveirunnar eru sagðar þá hljóma þær svo sannarlega hræðilegar. 644 þúsund dauðsföll! 16 milljón smit! 

Lokum öllu strax! Grímur! Spritt! Samkomubann! 644 þúsund dauðsföll!

En hvað gerist á venjulegu ári þegar venjuleg inflúensa fer á stjá? Nú eða á óvenjulegu ári þegar mjög skæð inflúensa er á flakki? 

Ég veit að inflúensa er önnur veirutegund og e.t.v. fyrirsjáanlegri en eitthvað hljóta menn að hafa lært undanfarna mánuði um kórónaveiruna: Hvaða lyf virka best á hverja tegund sjúklings og allt það.

Og svo er það hitt: Hvaða áhrif er allt heimatilbúna atvinnuleysið og efnahagshremmingarnar að hafa? Ég hef séð fregnir af auknu kynferðisofbeldi, fjölgun dauðsfalla vegna annarra sjúkdóma og fjölgun sjálfsmorða.

Blaðamenn hafa verið mjög uppteknir af tölum vegna eins sjúkdóms seinustu mánuði en nú er kominn tíma á hið stóra samhengi.


mbl.is Óttast að önnur bylgja sé að hefjast í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég myndi aldrei vinna með ...

Breski þjálfarinn Samantha Yardley hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir ummæli sín um að vilja ekki vinna með feitu fólki.

Sennilega tjá margir gagnrýni sína með þeim hætti að þeir myndu aldrei vilja vinna með manneskjum sem vilja ekki vinna með feitu fólki.

Og þá erum við líka komin í hring.

En hvað er að því að hafa skoðanir á því hvað maður gerir, með hverjum og hvenær?

Fordómar eru ekki eitthvað sem er bundið við lítinn hóp snoðaðra unglinga. Við erum öll með fordóma í merkingunni: Þegar við sjáum ókunnuga manneskju myndast strax í huga okkar hugmynd um hvernig sú manneskja er. Ef þú sérð krúnurakaðan kvenmann með húðflúr í andlitinu þá vekur það upp ákveðnar hugmyndir í hausnum á þér. Viltu bjóða þeirri manneskju í kaffi? Viltu skiptast á skoðunum við hana? Viltu forðast hana? Viltu herma eftir henni? Þessar hugsanir mótast af fyrri reynslu og hugmyndum, sem aftur byggjast á fyrri kynnum eða reynslu. Þetta eru fordómar í raun. Og það er bara allt í lagi.

Þar sem mörkin liggja eru auðvitað hvenær við gefum einstakling tækifæri og í hvaða mæli. Ætlar þú að hafna starfsumsækjanda af því hann er með húðflúr í andlitinu? Af hverju? Kannski ertu að ráða í starf sölumanns á hjálpartækjum fyrir aldraða og veist að húðflúr í andlitinu dregur úr sölu. En kannski ertu að ráða í móttöku á húðflúrstofu og grunar að húðflúr í andliti veki upp áhuga á þjónustu þinni.

Það er gott að breski þjálfarinn Samantha Yardley tjáir sig og tekur þátt í opinskárri umræðu. Hún er sennilega að tala fyrir hönd fjölda manns með svipaðar hugmyndir en þora ekki að tjá sig. Og þeir sem svara henni eru líka að tala fyrir hönd fjölda manns sem er ævareiður. Þetta heitir opinber umræða og aðskilur frjálslynd samfélög frá þeim sem kúga fólk til hlýðni með beinum og óbeinum hótunum um refsingu ef testamenti pólitísku rétttrúnaðarkirkjunnar eru brotin.

Sem "gleraugnaglámur" og "nörd" þá fagna ég þessari umræðu. Hún afhjúpar raunverulegar hugsanir, dregur þær úr bakherbergjunum og vekur til umhugsunar. Það er gott.


mbl.is Myndi aldrei vinna með feitu fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar matinn vantar þarf fitan að fjúka

Ríkissjóði vantar fé. Það er skiljanlegt. Hann hefur þanist svo mikið út í fjárþorsta að það má varla missa einn skattgreiðenda til að halda sér réttu meginn við núllið. Því er heimatilbúin veiru-krísa auðvitað erfið fyrir hann.

En hvað gerir fólk þegar tekjur lækka?

Hvað gera fyrirtæki í einkaeigu?

Jú, fólk og fyrirtæki minnka útgjöld. Þau leita að fitu og skera hana í burtu. Þau endurskoða þarfir sínar. Ertu með bæði Viaplay og Netflix? Annað eða bæði þarf að fara. Ertu að kaupa leðurjakka í nýjustu tísku tvisvar á ári? Hættu því alveg. Ertu að borga af svimandi stórum bíl á blússandi bílalánum? Seldu hann og keyptu þér minni bíl. Ertu í stærra húsnæði en þú þarft? Seldu það og keyptu minna.

Þetta vita nákvæmlega allir. Allir! 

Fyrir ríkið ætti þetta jafnvel að vera enn auðveldara. Það á miklar eignir sem má selja - eignir í formi lands, húsnæðis og fyrirtækja sem hvergi er mælt fyrir um í stjórnarskrá að eigi að vera á könnu ríkisins. Stjórnmálamenn gætu um leið gert líf sitt léttara með því að hafa minna á sinni könnu, t.d. stjórnarsetu í bönkum og allskyns sjóðum.

Með eignasölu mætti moka miklu fé í ríkissjóð. Um leið er fyrirtækjum, sem er sleppt úr ríkiskrumlunni, veitt svigrúm til að endurskipuleggja sig og jafnvel verða að fyrirtækjum sem skapa hagnað og fjölga verðmætaskapandi störfum (á kostnað óverðmætaskapandi staða).

Með eignasölu eykst líka svigrúm til að lækka skatta, duglega! Það er eins og vítamínsprauta fyrir hagkerfi og heimili. Eða með orðum Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, þegar hann ræddi ákveðna tímabundna skattalækkun: "Þessi skattaívilnun skilar líklega meiru í ríkissjóð en ella."

Já, ótrúlegt en satt! Þegar sjúklingurinn fær súrefni verður hann líflegri.

En sjáum hvað setur. Kannski menn haldi áfram að ríghalda í allar ríkiseigur, halda sköttum í svíðandi hæðum og safni skuldum. Það kæmi mér ekkert á óvart.


mbl.is Ekki svigrúm til nýrra útgjalda ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um ranga útreikninga

Það er erfitt að spá fyrir um framtíðina. Menn reyna samt alltaf. Fyrirtæki prófa þetta á hverjum degi. Þeim sem tekst vel skila hagnaði. Önnur skila tapi.

Í tilfelli hins opinbera reyna menn þetta auðvitað líka. Stundum tekst vel upp, en stundum er rangt reiknað. Fyrir því geta verið margar ástæður. 

Til dæmis geta menn vanmetið eða ofmetið hvata. Segjum að maður þéni milljón á mánuði og fái greitt 600 þús. eftir skatt. Nú hækkar tekjuskatturinn og yfirvöld reyna að krækja í 50 þús. í viðbót frá þessum manni. Hann er eftir sem áður með milljón á mánuði fyrir skatt en sér nú fram á að fá bara 550 þús. útborgað. Hvað gerir hann? Skiptir á vinnu og auknum frítíma - lækkar í launum en fær eftir sem áður 550 þús. útborgað, en borgar ekki meira í skatt? Eða fer hann að vinna meira til að bæta upp fyrir aukna skattheimtu? Eða er honum alveg sama? Þetta þurfa menn að reyna giska á þegar áætlunin er að krækja í meira af fé skattgreiðandans.

Einnig geta komið upp áföll. Þá hleypir ríkisvaldið oft af stað með fé skattgreiðenda. Til dæmis þarf reglulega að bjarga Íbúðalánasjóði. Í gamla daga þurfti reglulega að bjarga ríkisbönkum, og svo verður aftur þegar næsti hiksti kemur í fjármálakerfi heimsins. Ríki með mörg járn í eldinum þarf alltaf að búast við áfalli sem kallar á fé.

Það þarf auðvitað alveg sérstaka tegund af fólki til að reikna rangt um 64 milljarða og koma undan góðæri með um 2000 milljónir í skuldum og skuldbindingum, og nú á leið inn í niðursveiflu eftir veirugang. En menn halda áfram. Það eru stjórnmál.


mbl.is 68 milljörðum verri niðurstaða ríkisins 2019
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttir tímar í flugrekstri

Það sem blasir við mörgum en mætti blasa við fleirum er að flugrekstur er undirorpinn stanslausum breytingum. Þegar ég var krakki var bara í boði að fljúga sjaldan og það kostaði mikið. Á móti kom að flugfreyjur voru með góð laun og um borð var í boði að drekka og borða eins og á hlaðborði. Einnig fylgdi alltaf með farangursheimild.

Þá datt einhverjum í hug að minnka þjónustuna, rukka fyrir máltíðina um borð og bjóða upp á lægra verð gegn því að sleppa farangursheimildinni. Og hvað gerðist? Jú, neytendur flykktust í þessar flugvélar. Þeir töluðu hátt og skýrt. Önnur flugfélög þurftu einfaldlega að aðlagast.

Samhliða þessu gerðist það að flugfreyjur sem stétt breyttist í samsetningu. Í stað langtímaráðninga komu skammtímaráðningar, flestar yfir hásumarið þegar flestir eru að fljúga á milli. Erlent vinnuafl fór líka að blasa oftar við Íslendingum og öðrum, og tungumál flugrýmisins varð enska. Þetta olli engum sérstökum vandræðum. Ég man eftir unga fólkinu í flugvélum Wow sem var bara í tímabundnu starfi samhliða námi eða yfir sumarið. Samt fengu farþegar sínar öryggisleiðbeiningar og bjór eftir pöntun.

Þetta er þróun sem heldur áfram að kvelja gömlu flugfélögin og mörg hafa raunar farið oft á hausinn en fengið nýtt líf í boði skattgreiðenda. Á meðan halda ný flugfélög áfram að spretta upp - flugfélög sem hlusta á neytendur sem eru fyrir löngu hættir að búast við máltíð um borð og vilja frekar komast ódýrt á áfangastaðinn og eyða peningunum þar en láta þjóna sér í svolítilli flugferð.

Það er í þessum veruleika að Icelandair er nú að reyna skipuleggja framtíð sína. Kannski þýðir það sársaukafullar breytingar fyrir þá sem litu á flugrýmið sem ævilangan vinnustað. En það ganga margar stéttir yfir margar breytingar, og menn annaðhvort aðlagast eða tapa áhuga neytenda og hrökklast í eitthvað annað.

Ég legg til að flugfreyjur á Íslandi hætti að reyna ríghalda í fjarlægja fortíð og byrji í staðinn að líta á starf sitt sem búbót samhliða einhverju öðru, eða árstíðarbundna vinnu. Að þær leggi ekki öll eggin í eina körfu sem getur dottið og rústað öllum framtíðaráformum. Að þær hætti að vera í vörn og leggi þess í stað til sína sýn á framtíð flugrýmisins og hlutverk sitt í því. 


mbl.is „Skein í gegn að fólk er í sárum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmál á mannamáli

Það er alltaf hressandi að heyra ekki-stjórnmálamenn tjá sig um stjórnmál. Þá komast stjórnmálin nær því að vera á mannamáli.

Erpur Eyvindarson er vel lesinn áhugamaður um stjórnmál, og vinstrimaður.

Hann segir í viðtali að það að vera lengst til vinstri sé fyrirkomulag þar sem einstaklingurinn má gera það sem hann vill svo lengi hann skaði ekki aðra, og að allt sé fyrir alla, en um leið að ákveðin ábyrgð hvíli á öllum. Þetta kemur svo fram í hugmyndum um samyrkjubú, þar sem allir vinna saman og deila svo uppskerunni. Enginn einn á eitthvað. Allir eiga allt. Allt fyrir alla.

Þetta hafa sumir kallað fallega hugsun sem gengur svo bara því miður ekki í raunveruleikanum. Aðrir tala um að þetta gæti alveg gengið - menn þurfi bara að fá að prófa. 

Ég segi að þetta sé mannfjandsamleg stefna. Um leið og maður hefur týnt epli af tré er það tekið af honum og skipt upp á milli ræningjanna, sem gefa honum svolitla sneið. Menn hafa prófað þetta, sjáðu til. Og hætt við þegar allur voru orðnir hungurmorða. Menn hafa líka prófað þrælahald sem gengur nokkurn veginn út á sama hlutinn: Að allir vinni en eignist ekkert. Allt fyrir alla, ekkert fyrir neinn.

En ég hef gaman af því að hlusta á Erp Eyvindarson. Hann er greindur maður sem tjáir sig með frískandi hætti. Vonandi selur hann samt ekki hugmyndina um þrælahald til mjög margra. 


mbl.is Erpur: „Banka-aparnir skilja þetta ekki einu sinni sjálfir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkostir við vestræn gildi

Afstæðishyggja virðist vera vinsæl. Samkvæmt henni er þannig séð ekkert betra en annað: Vestræn menning engu skárri en austræn eða sú í Miðausturlöndum, kynjamunur er ímynduð sköpun ráðandi afla, uppeldi á helst ekki að fela í sér nein mörk eða reglur, og svona má lengi telja.

En er vestræn menning þá engu skárri en önnur? Eigum við að leyfa vestrænni menningu að þynnast út? Já, segja sumir. Innflytjendur frá öðrum menningarsvæðum mega vera eins margir og hægt er og þeir mega alveg vera út af fyrir sig innan samfélagsins, og fylgja eigin lögum, og jafnvel fá borgað fyrir það. Moskvur eru bara kirkjur og eins og hver önnur trúarhús. Vestræn menning er engu betri en önnur og ef menning Vesturlanda breytist í eitthvað allt annað þá er það bara í fínu lagi. Vestræn menning er jafnvel álitin verri en önnur - kúgandi afl nýlenduherra sem knésetur varnarlausar þjóðir.

Við þetta er auðvitað margt að athuga. Til dæmis má benda á að ef vestræn menning er bara enn ein menningin, af hverju laðar hún þá til sín fjölda manns frá öðrum menningarsvæðum? Af hverju eru vestrænir íbúar ekki að flykkast inn í veðursældina í Dubai og reisa þar kirkjur og strípibúllur? Jú, því vestræn menning er umburðarlynd. Það verður jafnvel hennar banabiti. Á meðan halda önnur menningarsvæði áfram að sparka í allt framandi. 

Það á auðvitað ekki að þvinga einn né neinn til eins né neins, en ef vestræn menning fjarar út þá kemur eitthvað annað í staðinn, og hvað er það? Og er það eitthvað betra? Eða er það jafnvel verra?


mbl.is Undið ofan af ofríki íslamista í Súdan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband