Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019
Laugardagur, 9. mars 2019
Hver er hinn valkosturinn?
Blaðamenn Morgunblaðsins eyða oft (en ekki alltaf) furðulega miklum tíma í augljóslega glataðan fréttaflutning.
Nú er því slegið upp, í löngu máli, að hönnuðir hanni til að viðhalda athygli.
Hefur einhver hönnuður einhvern tímann hannað á annan hátt?
(Að vísu reyndu hönnuðir merkimiðanna á íslenska brennivíninu á sínum tíma að hanna eitthvað fráhrindandi með svörtum litum og hvítum stöfum, en það virkaði þveröfugt.)
Höfum eitt á hreinu:
Í frjálsu markaðshagkerfi eru neytendur við stjórnvölinn, ekki fyrirtæki. Neytendur tala saman, mæla með, mæla gegn og kaupa hér en ekki þar.
Þessu er þveröfugt farið í umhverfi opinberra afskipta. Þar eru völdin tekin af neytendum og sett í hendur stjórnmálamanna sem allir elska að hata en allir hlýða engu að síður því afleiðingin við óhlýðni er fangelsisvist.
Ef litasamsetning á forritum og heimasíðum getur lokkað fólk ofan í svarthol eyðslu á tíma og fé þá er það frekar saklaust fyrirbæri sem má standast með svolitlum viljastyrk og fræðslu.
Að skera af limi útblásins ríkisvalds er öllu erfiðari aðgerð.
Hönnuð til að tæla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 8. mars 2019
Sjálfhverfar frekjur í leit að þægilegri innivinnu
Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna virðist flestum ekki detta neitt betra í hug en að benda á að þeir sem vinna mikið þéna meira en þeir sem vinna lítið.
(Karlmenn brenna sér út með löngum vinnudögum í kapphlaupi um titla og laun á meðan konur lifa lengur og betur því þær passa upp á tengslanet sitt, vini og geðheilsu.)
Vestrænir femínistar telja sig vera niðurtroðin fórnarlömb kúgandi og þrúgandi kerfis, en svo er ekki.
(Það eru strákarnir sem skolast út úr skólakerfinu og karlmennirnir fremja miklu fleiri sjálfsmorð, fylla fangelsin og eru hrópaðir út í horn eða atvinnuleysi ef þeir misstíga sig gagnvart hinu kyninu.)
Konur í Miðausturlöndum og Afríku eru hin raunverulegu niðurtroðnu fórnarlömb kúgandi og þrúgandi kerfa. Það má hins vegar ekki gagnrýna hjónabönd ungra stúlkna, smölun þeirra í kvennabúr múslímskra karlmanna og skipulagðar nauðganir þeim. Þetta er jú bara önnur menning, og öll menning á skilið virðingu og umburðarlyndi, ekki satt?
En í stað þess að mótmæla raunverulegum, alþjóðlegum vandamálum kvenna setja vestrænir femínistar á sig heimatilbúnar grímur fórnarlambanna og heimta hærri laun fyrir minni vinnu.
Alþjóðlegur baráttudagur? Það væri óskandi, en svo er ekki.
Tekjur kvenna 72% af tekjum karla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 6. mars 2019
Foreldrar og miðstýring
Miðstýring er það sem hið opinbera kann. Í umhverfi miðstýringar eru Excel-skjöl og önnur gögn notuð til að taka rekstrarákvarðanir í einstaka rekstrareiningum. Menn skoða kostnað á nemanda, fjölda nemenda á kennara og kostnað við aðföng og húsnæði og rýna í skýrslur um ástand húsnæðis og annarrar aðstöðu. Kannski taka menn einhver viðtöl. Svo er tekin ákvörðun og henni rúllað út í skólana.
Foreldrar eru raddlaus peð í þessum leik. Þeir hafa í blindni borgað sína skatta og vona að fyrir það fé fáist einhver þjónusta sem gagn er að. Svo er þó ekki. Strákum er núna skolað út úr skólakerfinu og þeir koma ólæsir út úr grunnskólum. Krakkarnir fá skjá til að halda sér uppteknum í kennslustofunni svo kennarinn fái meiri tíma til að drekka kaffi. Nemendum er hrúgað saman óháð getu og áhuga og menn vonast svo til að þeir bestu dragi þá lélegustu upp, sem gerist auðvitað ekki. Námsefnið kemur frá skrifstofum stjórnsýslunnar og miðast fyrst og fremst við þarfir yfirvalda.
Foreldrar eiga erfitt með að bregðast við þessu ástandi. Þeir eru ekki borgandi kaupendur þjónustu. Nei, þeir eru skattgreiðendur sem borga ofan í miðstýrða hít. Þeir geta ekki fært viðskipti sín frá einum veitanda til annars svo gagn sé að, ekki frekar en það er gagn í að hætta að versla í einni Bónus-verslun og byrja að versla í annarri Bónus-verslun. Samkeppni í kennslu er lítil sem engin og það er vandamál.
Sætta foreldrar sig við þessa einsleitni og miðstýringu? Af hverju? Halda menn að fundir hafi áhrif? Það eina sem rekstraraðilar af öllu tagi skilja er minnkandi tekjustreymi. Það er aðhaldið sem við veitum einkafyrirtækjum - við sviptum þau tekjum sínum. Svo er ekki í tilfelli skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Þau geta alltaf hent í eina krassandi fyrirsögn korteri í fjárlög og fengið verðlaun fyrir lélega frammistöðu.
Það getur vel verið að kennsla barna sé svo flókin og erfið að það þurfi risavaxið opinbert batterí til að halda henni úti. Ég er samt efins.
Kennari minn í gegnum flest mín grunnskólaár var vingjarnleg, ströng en sanngjörn eldri kona. Hún fór yfir stílabækurnar, hlýddi manni yfir, útskýrði af þolinmæði og setti tossana aftast í kennslustofuna svo þeir trufluðu ekki aðra (þessir tossar fundu sig svo í annars konar námi seinna og gengur ágætlega í dag).
Einkavæðum grunnskólana, lækkum skatta, fækkum reglum, afnemum opinberar námskrár og leyfum einkaaðilum að keppa um ánægju fullorðinna (kennara og foreldra) og barna. Það virkar svo vel þar sem slíkt er umborið.
Lýsa megnri óánægju með breytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. mars 2019
Trump mætti hlusta oftar á sjálfan sig
Forsetinn Donald Trump mætti hlusta aðeins oftar á ræðumanninn Donald Trump. Það mætti kannski kalla misræmi stjórnmálamannsins og ræðumannsins stjórnmálamannaheilkennið? Úr ræðustól koma allskyns áskoranir og ástríðufull hvatningarorð en úr stól stjórnmálamannsins kemur varðveislan á núverandi fyrirkomulagi þar sem breytingar eru annaðhvort engar eða í átt að stærra ríkisvaldi.
Það er rétt hjá Trump að vara við sósíalisma. Hann er baneitraður fyrir alla nema efstu lög samfélagsins. Verkalýðurinn hefur aldrei grætt neitt á sósíalisma. Hann er fyrir kampavíns-kommúnista, jólasveina-jafnaðarmenn og seðlabúnta-sósíalista.
Um leið hefur Trump ekki að fullu leyti skilið hvað hans eigið alríki er orðið sósíalískt. Vissulega hefur hann óbeit á reglugerðum og vill lækka launaskatta, en um leið safnar hann skuldum, leggur á viðskiptahindranir og vanrækir mikilvægi þess að minnka báknið.
Það er ekki nóg að tala gegn auknum ríkisafskiptum til að tækla sósíalismann. Það þarf að minnka ríkisvaldið - fækka verkefnum þess, draga úr stærð þess og hleypa einkaaðilum í samkeppnisrekstri að jötu ríkiseinokunar og opinberrar fyrirgreiðslustarfsemi.
Bandaríkin byrjuðu sem samansafn fátækustu og verst menntuðu innflytjenda Evrópu sem í skjóli eins frjálsasta markaðshagkerfis heims á sínum tíma tókst að verða efnahagslegt stórveldi - það stærsta í heimi.
Núna ætlar efnahagslegt stórveldi að hlaða á sig skuldum og skuldbindingum sem óumflýjanlega munu fá stoðirnar til að bresta.
Þetta veit ræðumaðurinn Trump, en forsetinn Trump er öllu fávísari.
Varar við martröð sósíalismans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 2. mars 2019
Aðdráttarafl kapítalismans
Um allan fólk er fólk á ferð og flugi, sumir að leita að vinnu og aðrir að öryggi. Í grófum dráttum má segja að frjáls, kapítalísk samfélög dragi að sér fólk. Flóttamannastraumar liggja frá þrúgandi yfirvaldi og miðstýrðum hagkerfum yfir í frjálsari samfélög sem vernda eignarréttindin og leyfa frjálsum viðskiptum að eiga sér stað.
Sumir tala um að flóttamenn séu mikið vandamál. Það er sjálfsagt rétt. En hvernig á að draga úr því vandamáli? Margir stinga upp á hertri landamæragæslu og jafnvel múrum. Einfaldast væri samt að allur heimurinn tæki upp frjálsan markaðsbúskap og veitti almenningi kost á að veita yfirvöldum aðhald. Það myndi um leið útrýma fátækt, stuðla að friði og bæta lífsgæði mannkyns.
Alþjóðlegar ráðstefnur og alþjóðleg samtök berjast samt ekki fyrir frjálsum markaði. Þess í stað er verið að leggja á viðskiptahindranir, neyða skattgreiðendur til að fjármagna tilgangslausa umhverfisvernd (sem er andstæða raunverulegrar umhverfisverndar) og niðurgreiða fátækt og sósíalisma. Þessi nálgun ýtir undir togstreitu (t.d. um það hver eigi að borga hvað) og jafnvel hernaðarspennu.
Frjálsan markað, takk! Mannkynið getur þá leyst öll sín vandamál án aðkomu stjórnmálamanna.
Raddir sem þurfa að heyrast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 1. mars 2019
Á eftir verkfalli kemur vélmenni
Mér var að detta í hug nýtt máltæki:
Á eftir verkfalli kemur vélmenni.
Mér finnst það lýsa aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði ágætlega.
Að vísu geta ekki öll fyrirtæki leyst af starfsfólk með vélmennum en þegar launakröfurnar eru orðnar nægjanlega háar þá fara nánast hvaða vélmenni sem er farið að borga sig. Þau kosta mikið í upphafi en vinna svo launalaust eftir það, gegn svolitlu viðhaldi. Einn sérfræðingur getur haldið tugum vélmenna í gangi og má kosta nokkuð mikið í launum áður en hann verður óhagkvæmur.
Í Bandaríkjunum hefur sjálfvirknivæðing af ýmsu tagi farið í fluggírinn eftir að mörg ríkja Bandaríkjanna hækkuðu lögbundin lágmarkslaun í ósjálfbærar hæðir.
Á Íslandi gæti þetta birst með öðrum hætti, t.d. með aukinni notkun verktakafyrirtækja og minni notkun fastráðinna starfsmanna. Þannig er hægt að bjarga rekstri í vanda undan verkfallshótunum og kjarasamningum sem endurspegla ekki raunveruleikann.
Íslensk verkalýðsfélög stefndu frá upphafi í átök. Því var nánast lofað. Núna bresta þau átök á. Þar með hafa verkalýðsleiðtogar staðið við loforð sín. Afleiðingin gæti hins vegar verið sú að mörg störf hverfa varanlega. Var þá til lítils barist.
Það getur vel verið að ræstitæknir hótelsins verði ekki leystur af með vélmenni strax, en þrýstingurinn á að það gerist eykst töluvert. Þær hröðu breytingar sem tækniframþróunin knýr áfram gætu skollið á enn hraðar og komið mörgu fólki að óvörum. Störf eru lögð niður hraðar en nauðsyn krefur. Fólk er gert óþarft hraðar en fyrirtæki hafa í raun og veru áhuga á en neyðast einfaldlega til að gera.
Það er eitt að semja. Það er annað að knésetja og eyðileggja, varanlega.
Efling boðar frekari verkföll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)