Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018
Fimmtudagur, 19. apríl 2018
Viðskiptafréttirnar sem vantar
Það vantar ekki fréttir af bólförum Bandaríkjaforseta eða flökti á hlutabréfamörkuðum. Hins vegar er til fullt af fréttum sem íslenskir fjölmiðlar (og raunar fæstir fjölmiðlar hvar sem er) segja ekki frá.
Fyrir þær fréttir sem vantar er best að heimsækja ZeroHedge.com reglulega.
Þar er t.d. frétt og samantekt um að það sé byrjað að hægjast á evrópska hagkerfinu, og að sá hægagangur sé leiddur áfram af Þýskalandi. Hvað gerir evrópski seðlabankinn þá? Prentar peninga, kaupir skuldabréf og reynir að þrýsta vöxtum niður? Hvað verður þá um evruna? Hún er í harðri samkeppni við bandaríska dollarann og japanska jenið um að verða verðlaus sem fyrst en það vill enginn vinna slíka samkeppni.
Ekki er ástandið betra í Bandaríkjunum. Meira að segja opinberar stofnanir hafa lýst yfir áhyggjum af efnahagsástandinu og horfum þess og þá er mikið sagt. Hvað gera menn þá? Láta seðlabankann prenta peninga, kaupa skuldabréf og reyna þrýsta vöxtum niður? Hvað verður þá um dollarann? Hann er í harðri samkeppni við evruna og japanska jenið um að verða verðlaus sem fyrst en það vill enginn vinna slíka samkeppni.
Heimshagkerfið stendur á næfurþunnum ís. Viðskiptahöft eru byrjuð að aukast. Tortryggni fer vaxandi í stjórnmálunum. Menn stunda lítið æfingarstríð í Sýrlandi sem gæti alveg brotist út í stærri átök. Kjósendur kjósa aðila sem lofa öllu fögru fyrir alla en er um leið byggt á hagfræði sem stenst enga skoðun.
Það er meiriháttar hrun í vændum. Peningabólan árið 2008 mun blikna í samanburðinum.
Ekki safna skuldum nema til að koma þaki yfir höfuðið á þér og kannski til að eignast bíl. Ekki eyða öllum launum þínum. Ekki spara í íslenskri krónu. Ekki kjósa stjórnmálamenn sem vilja eyða meira af peningunum þínum. Ekki treysta á að fá mikið úr lífeyrissjóði þínum. Ekki vera án varaáætlunar.
Og ekki láta þögn fjölmiðla um óveðursskýin sem hrannast upp blekkja þig.
Viðskiptaafgangur mun ekki nægja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 17. apríl 2018
En ruslatunnan er full!
Kannski hefur einhver hugsað eftirfarandi hugsun:
Ruslatunnur hafa minnkað, þeim hefur fjölgað, þær eru sóttar sjaldnar og kostnaður við þær hefur aukist. Krafan um fleiri ferðir á endurvinnslustöðina hefur undið upp á sig. Það má ekki henda rusli í ruslið - það þarf að henda ákveðnu rusli á ákveðna staði. Það þarf jafnvel að þrífa ruslið.
En það kostar alltaf jafnmikið að sturta niður. Og er alltaf jafnauðvelt.
Niðurstaða: Fólk sturtar niður því sem það getur til að spara sér kostnaðinn við að henda rusli í ruslið.
Ekki nei?
200% aukning á skólpsorpi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. apríl 2018
Ónei, hvað verður um heimsendaspárnar þá?
Vísindamenn gæla nú við tækni sem getur flýtt niðurbroti á plasti í sjónum.
Þetta eru slæmar fréttir fyrir þá sem þrífast á heimsendaspádómum.
Einu sinni var fátækt að drepa mannkynið. Í stað hennar kom mengun sem átti að drepa mannkynið. Þá átti fæðuskortur að drepa mannkynið. Núna á vistkerfið að hrynja og taka allt líf með sér.
Í hvert skipti sem heimsendaspá fæðist kemur lausn fram á sjónarsviðið. Þetta finnst mörgum vera alveg óþolandi. Sjávarmálið er ekki að hækka, Jörðin er ekki að hlýna, hungur og stríð eru ekki að breiðast út, menn eru ekki að slást um vatnslindir og námur og enginn sjúkdómafaraldur er að útrýma heilu samfélögunum.
Fátækt er á undanhaldi, átök eru í sögulegu lágmarki og lífslíkur eru að aukast um allan heim um leið og fæðingatíðnin er víðast hvar að minnka og fjölgun mannkyns að fletjast út.
Óþolandi!
Menn þurfa hreinlega að búa til vandamál til að hafa eitthvað að kvarta yfir. Tugþúsundum einstaklinga úr framandi menningu er hleypt inn í lönd þar sem gilda allt aðrir siðir. Skattfé er dælt í vindmyllur og annað dúllerí ríka mannsins. Iðjuleysi er niðurgreitt. Duglegu fólki er mokað inn í innihaldslaust háskólanám og gert að svefngenglum. Vinnandi fólk er kaffært í sköttum sem fjármagna heilaþvott á börnum þess. Ritskoðun á óvinsælum skoðunum er tekin upp í nafni tillitssemi. Peningaprentun er leyft að blása í bólur sem springa jafnharðan. Það vantar ekki heimatilbúnu vandamálin. Öll hin virðast samt vera að leysast, smátt og smátt.
Ensím sem étur upp plast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 16. apríl 2018
Safnað á lágum vöxtum, skuldað á háum vöxtum
Ég hélt að Vefþjóðviljinn hefði endanlega skotið niður hugmyndina um svokallaðan þjóðarsjóð á sínum tíma? Ríkisvaldið skuldar um 1000 milljarða sem bera vexti. Samt á að safna í sjóð til að sukka með sem mun líklega bera lægri vexti.
Skuldlaust ríkisvald kemur sér öllum vel. Digur sjóður kemur örfáum útvöldum vel.
Þegar allir flokkar eru sammála um eitthvað er eiginlega öruggt að hugmyndin sé slæm.
Frumvarp um þjóðarsjóð næsta vetur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 14. apríl 2018
Heimanám hefur marga kosti
Mínir strákar eru í dönskum grunnskóla og þar er eiginlega ekkert heimanám. Stundum á að lesa aðeins heima en ekki mikið. Ég sé aldrei stærðfræðibækur, stíla eða málfræðiverkefni í töskunum þeirra.
Að sögn er betra að krakkar séu lengi í skólanum og sleppi við heimanámið. Þetta jafnar aðstæður barna. Sum börn fá enga aðstoð heima og dragast aftur úr ef heimanám skiptir miklu máli. Það vandamál er leyst.
(Mér er spurn: Af hverju eignast fólk börn ef það getur ekki sinnt þeim?)
Hins vegar verða til mörg önnur vandamál þegar heimanámið fýkur.
Heimanám er vinna sem þarf að framkvæma samkvæmt eigin skipulagi. Þetta krefst ákveðins sjálfsaga sem þarf að tileinka sér. Á ég að byrja klukkan 16 eða 19? Tekur verkefni langan tíma eða stuttan? Þarf ég aðstoð eða bara ró og næði? Þetta læra krakkar með heimanáminu og það er jafnvel mikilvægari lexía en sjálft heimanámið.
Heimanám sameinar skóla og heimili. Foreldrar geta séð hvar börnin sín standa og brugðist við ef þeim finnst börnin sín eiga erfitt með námsefnið. Þetta gerir foreldra í raun að hluta kennaraliðsins og bætir í hóp manneskja sem hjálpa barni að tileinka sér námsefni.
Heimanámið þarf ekki að vera þungt og mikið til að ná öllum sínum markmiðum um skipulag, sjálfsaga og upplýsingagjafar til foreldra.
Það voru mistök að afnema heimanám í Danmörku og ég hef þurft að gera ýmislegt til að bæta upp fyrir þau. Vonandi gera Íslendingar ekki sömu mistök.
Horft á heimanám með öðruvísi gleraugum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 13. apríl 2018
Leiðrétting: Engin ræktun var stöðvuð
Í fréttum er þetta helst:
Umfangsmikil kannabisræktun var stöðvuð í Þykkvabæ í vikunni og hald lagt á 322 plöntur í blóma, 16 kíló af kannabislaufum og sjö milljónir í reiðufé.
Ég vil koma á framfæri leiðréttingu: Engin ræktun var stöðvuð nema í besta falli til skamms tíma. Á öðrum stað spretta upp plöntur í staðinn fyrir þær sem lögreglan hirti. Þegar hinar 322 plöntur hverfa af markaðinum hækkar verð á kannabis aðeins og sendir þau skilaboð til annarra að það sé orðið enn arðbærara en áður að rækta kannabis.
Hins vegar gæti lögreglunni hafa tekist að framkalla ofbeldi með aðgerðum sínum. Með því að banna eiturlyf er verið að gera seljendur, dreifingaraðila og kaupendur þeirra að glæpamönnum. Glæpamenn nota ekki innheimtuþjónustur og dómstóla til að rukka. Nei, þeir nota hnúajárn og járnklippur. Glæpamenn skrifa ekki greinar í blöðin og kvarta yfir vörunni og hvetja fólk til að fara með viðskipti sín annað. Nei, þeir kaupa hana jafnvel þótt hún sé eitruð og selja hana án innihaldslýsinga eða gæðavottunar. Glæpamenn verðleggja ekki eftir framboði og eftirspurn heldur eftir áhættunni við að stunda viðskipti þar sem lögreglan getur hirt allan lager þinn og svipt þig frelsinu. Þetta snarhækkar verðlag og gerir það að verkum að margir viðskiptavinir þurfa að stunda arðbær lögbrot til að fjármagna neysluna.
Engin ræktun var stöðvuð en kannski bættist eitthvað við af öðrum glæpum.
Umfangsmikil ræktun stöðvuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 12. apríl 2018
Þegar hinn hraðskreiði nær hinum staðnaða
Það er talið fréttnæmt að nefna að bílaleigur velti nú jafnmiklu og landbúnaður á Íslandi.
Það er af því að bílaleigur eru eins og arfi sem sprettur upp þegar hann finnur næringu í jörðinni. Ferðamenn biðja um fleiri og fleiri bíla og fleiri og fleiri bílaleigur fæðast. Fækki fyrirspurnum ferðamanna fækkar bílaleigum. Bílaleigumarkaðurinn er lifandi, aðlögunarhæfur, nýjungagjarn og framsækinn.
Landbúnaðurinn býr yfir þveröfugum eiginleikum. Hann er fastur í kæfandi faðmi ríkisvaldsins sem veitir vissulega næringu og súrefni en enga hreyfigetu. Hann er staðnaður. Hann býr við verðlagshöft sem senda bjöguð skilaboð til bænda. Hann framleiðir annaðhvort of mikið eða lítið og sama hvað halda bændur áfram að vera fátækir.
Íslenskur landbúnaður framleiðir einhverjar bestu landbúnaðarvörur í heimi. Það jafnast ekkert á við ofneldað íslenskt lambalæri sem er búið að strá íslenskum kryddjurtum yfir. Íslenskar kartöflur eru bragðgóðar. Íslenskt nautakjöt bráðnar í munni. Íslenskar landbúnaðarvörur ættu að vera til sölu um allan heim á uppsprengdu verði og bændur ættu að vera í kapphlaupi til að anna eftirspurn. Þetta er samt ekki staðan.
Það eina sem kemst að í íslenskri umræðu um landbúnað er sú óheppilega staðreynd að Bandaríkin og Evrópusambandið niðurgreiða sinn landbúnað og að þar með þurfi hinn kæfandi faðmur að halda íslenskum landbúnaðir föstum líka.
Væri kannski ráð að fá nýsjálenskan bónda til að halda fyrirlestur á Íslandi?
Orðnar jafn stórar landbúnaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. apríl 2018
Þegar borgin malbikar loksins
Það gengur ekkert upp á Reykjavíkurborg þessi misserin. Göturnar eru holóttar og lítið gert nema korteri fyrir kosningar. Borgin ákveður loks að malbika og malbikar þá ofan í reiðleið.
Það er ekki skrýtið að innan borgarinnar sé nefnd sem hefur það hlutverk að rannsaka hvað hinar ýmsu nefndir gera og hvernig þær eiga samskipti sín á milli og við íbúa borgarinnar. Báknið er einfaldlega að hrynja undan eigin þunga.
Elsta reiðleið Elliðaárdals malbikuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 10. apríl 2018
Þegar skatturinn drepur fyrirtæki
Veiðigjöldin eru að hraða stórkostlegri samþjöppun í íslenskri útgerð. Kannski er það allt í lagi. Stórar útgerðir geta ýmislegt sem þær smærri geta ekki. Þær virðast líka alltaf geta skilað hagnaði sama hvað þær eru skattpíndar. Kannski draumur skattgreiðenda sé sá að á Íslandi sé allri útgerð sinnt af 3-4 mjög stórum útgerðum. Ef svo er þá eru himinhá veiðigjöld góð hugmynd.
Hafi menn hins vegar áhuga á útgerð annars staðar en við allrastærstu hafnirnar og jafnvel um allt land eru há veiðigjöld ekki góð hugmynd.
Menn þurfa að velja: Útgerð um allt land eða háar heimtur af veiðigjöldum.
Allri áhöfninni sagt upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 6. apríl 2018
Tekst að gera upp seinasta hrun fyrir það næsta?
Síðasta svokallaða hrunmálið er núna komið í aðalmeðferð. Tekst að klára málið áður en næsta hrun skellur á?
Þegar seinasta hrun skall á ríktu eftirfarandi aðstæður:
- Mörg ríki skulduðu mikið
- Mörg heimili skulduðu mikið
- Peningaprentvélarnar gengu á fullu og héldu vöxtum niðri
Núna ríkja eftirfarandi ástæður:
- Mörg ríki skulda miklu, miklu meira
- Mörg heimili skulda miklu, miklu meira
- Peningaprentvélarnar ganga enn hraðar og halda vöxtum enn lægri
Þetta getur ekki farið á annan hátt en mjög, mjög illa. Margir sem skulda mikið, svo sem Ítalía og bandarískur almenningur, þola enga raunverulega hækkun vaxta. Um leið er slík hækkun óumflýjanleg til að forða gjaldmiðlum eins og bandaríska dollaranum eða evrunni frá meiriháttar kaupmáttarrýrnun sem gæti þess vegna endað í andstyggilegum verðbólguskotum sem ekki einu sinni færustu hagfræðingar hins opinbera geta töfrað í burtu með reiknikúnstum.
Ísland stendur kannski aðeins betur en mörg ríki en samt verr en árið 2007. Ríkið á stóra banka sem fara á hausinn á kostnað skattgreiðenda. Það skuldar miklu meira en árið 2007. Skattar eru miklu hærri og er ekki hægt að hækka eins og gert var í kjölfar hrunsins 2008. Hagkerfið á Íslandi er orðið miklu háðara dyntóttum tekjum ferðamannaiðnaðarins en áður. Almenningur tekur bílalán og kaupir húsnæði á uppsprengdu verði, allt á verðtryggðum lánum.
Verður pláss í réttarkerfinu fyrir öll hin nýju hrunmál? Það mun tíminn leiða í ljós.
Síðasta hrunmálið komið á dagskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |