Þegar skatturinn drepur fyrirtæki

Veiðigjöldin eru að hraða stórkostlegri samþjöppun í íslenskri útgerð. Kannski er það allt í lagi. Stórar útgerðir geta ýmislegt sem þær smærri geta ekki. Þær virðast líka alltaf geta skilað hagnaði sama hvað þær eru skattpíndar. Kannski draumur skattgreiðenda sé sá að á Íslandi sé allri útgerð sinnt af 3-4 mjög stórum útgerðum. Ef svo er þá eru himinhá veiðigjöld góð hugmynd.

Hafi menn hins vegar áhuga á útgerð annars staðar en við allrastærstu hafnirnar og jafnvel um allt land eru há veiðigjöld ekki góð hugmynd.

Menn þurfa að velja: Útgerð um allt land eða háar heimtur af veiðigjöldum.


mbl.is Allri áhöfninni sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Vandinn er ekki skattlagningin eða hvað svo sem menn vilja kalla afgjöldin.  Vandinn er gjafakvótinn!  Í dag hirða "kvótaeigendurnir" 99% af rentunni í gegnum annars vegar leigugjöld af kvóta sem þeir veiða ekki sjálfir og svo af allt of lágu hráefnisverði til útgerðahlutans.

Lausnin sem enginn vill viðurkenna eða ræða um felst í uppstokkun á rekstrarfyrirkomulagi stórútgerðanna þannig að veiðar, vinnsla og sala verði aðskilin rekstrarlega og svo náttúrulega á að selja allan afla á markaði.  Máttleysisleg afskipti fákeppniseftirlitsins eru bara hlægileg þegar kemur að yfirgangi sjávarútvegsrisanna. Þótt áhöfn gamals línuskips sé sagt upp hefur það ekkert með veiðigjöld að gera. Þegar Fisk Seefood gleypti hina gamalgrónu útgerð Soffaníasar Cecilssonar í Grundarfirði þá gerist það óhjákvæmilega að sjómenn missa atvinnu, þjónustustarfsemi minnkar og vegakerfið verður fyrir auknu álagi.

Þegar menn eins og þú, Geir , dásamið íslenzka gjafakvótakerfið gleymið þið að reikna inní dæmið kostnaðinn sem almenningur stendur undir og felst í byggðaójafnvægi og eyðileggingu innviða, hafna og vega o.s.frv.

Hver skyldi til dæmis hlutur fiskflutninga vera í ástandi vegakerfisins?  Hverjir munu borga fyrir þessa eyðileggingu sem þungaumferð fiskflutningatrukka hefur valdið á öllum helztu stofnvegum landsins?  500-1000 milljarða reikningurinn verður ekki tekinn af kvótagreifum svo mikið er víst. Og ekki munu þeir einu sinni greiða vegatolla búandi flestir í vellystingum erlendis.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.4.2018 kl. 10:10

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég er bara að benda á að háir skattar hafa afleiðingar.

Geir Ágústsson, 10.4.2018 kl. 10:21

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Gallinn við veiðigjöldin er að upphæð þeirra ræðst ekki af framboði og eftirspurn. Ekki að betur rekin fyrirtæki geti keypt upp þau sem verr eru rekin. Það er þvert á móti gott.

Forsenda veiðigjalda er að óeðlilegt sé að ríkisvaldið úthluti verðmætum ókeypis, sér í lagi þegar verðmætið grundvallast einungis á takmörkunum sem ríkisvaldið sjálft hefur sett. Útfærslan er hins vegar hörmung og leiðir til stöðugra deilna. Það á einfaldlega að bjóða kvótana upp.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2018 kl. 19:33

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Það væri kannski ráð að kaupa út þá sem hafa keypt kvóta eftir upprunalega úthlutun (yfir 90% kvótans) og byrja aftur (eða hætta á málsóknir á grundvelli sviptingar eignarétts). 

Uppboð kvóta hafa verið reynd og ekki reynst vel. Verð veiðiheimilda hefur hækkað og þær runnið á hendur færri og stærri aðila. Svipuð áhrif og veiðigjaldið raunar. Kannski menn vilji það.

Annars finnst mér þetta ekki einfalt mál. Annars vegar finnst mér blasa við að framseljanleg eignaréttindi gagnist sjávarútvegi eins og öllum öðrum greinum nokkurn tímann (t.d. eignarhald bænda). Hins vegar finnst mér ríkið vera að gera eignahluti dýrari en þeir þyrftu að vera vegna aðhalds í leyfilegum veiðum sem stendur á mjög veikum grundvelli (lærðar ágiskanir á hvað teljist hæfilegt að veiða mikið af hverri tegund). Það er eitt að eiga súrefnið sem gestir á heimili manns anda að sér, annað að minnka súrefnismagnið með ráðum og dáðum og rukka gestina fyrir hæfilegt magn til að halda meðvitund. (Vona að hugsun mín hafi komist til skila með þessari myndlíkingu.)

Kannski á ríkið bara að koma sér úr ákvörðunum á hæfilegum veiðum rétt eins og ríkið ákvarðar ekki hæfilegt beitarþol sauðfjár á sumarlendum þeirra (eða hvað?). Útvegsmenn, eins og bændur, finna svo einhverja lausn.

Geir Ágústsson, 10.4.2018 kl. 20:19

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ríkið gæti í sjálfu sér vel afnumið kvótakerfið og tekið upp aðra leið til að takmarka veiðar. Þá verða kvótarnir einfaldlega verðlausir og vangaveltur um eignarréttindi líka. Í raun er út í hött að takmarkanir á aðgangi að gæðum í krafti ríkisvalds geti skapað einhvern eignarrétt yfirleitt. Takmarkanirnar byggja á vísindalegum grunni. Hann kann vel að vera veikur, en ég er hræddur um að við höfum ekkert skárra.

Einnig mætti sleppa því, eins og þú segir, að láta ríkið skipta sér af þessu. En vandinn við það er að þá er ofveiði afar líkleg niðurstaða. Því má jafna saman við sauðfjárræktina þar sem ofbeit hefur verið viðvarandi vandamál í gengum tíðina.

Uppboð leiða auðvitað til samþjöppunar, en veiðigjöldin gera það líka. Svo þarf reyndar hvorugt til. Frjálst framsal eitt og sér leiðir til samþjöppunar. Það gerist vegna þess að í greininni er hagkvæmara að vera stærri en smærri.

Þorsteinn Siglaugsson, 10.4.2018 kl. 21:22

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Það skortir tilfinnanlega umræðu um það, hvað álögur hins opinbera eru að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum í þessu landi. Ekki bara í sjávarútvegi, heldur öllum þeim ótal fyrirtækjum, sem í dag eru við það að sligast undan skattbyrði, eftirlirsgjöldum og að því er virðist geðveikislegum álögum, í formi mótframlags, til launþega sinna. Útgjöldum sem, að því er virðist, skila engu til launþeganna, þegar upp er staðið. 15% í lífeyrissjóð! Eruð þið ekki að grínast! Hin guðdómlega nýja ríkisstjórn, hefur nú gefið það út, að tryggingargjald muni lækka um 0,25% stig.

 Þvílíkur viðsnúningur, sem þetta náðarsamlega útspil fallegu stjórnarinnar, með öllu fallega, brosmilda og góða fólkinu, mun valda í öllum eðlilegum rekstri fyrirtækja! Þetta hlýtur jú að teljast alger vendipunktur í rekstri, á Íslandi! 

 Djöfullinn að þurfa að standa í þessu, hugsa margir sem eru að bagsa í rekstri. Rekstri, sem ef starfaði undir eðlilegum kringumstæðum, stæði alveg hreint ágætlega undir sér. 

 Aumingjavæðing nútímans er að tortýma öllu, sem ætti undir öllum eðlilegum kringumstæðum að standa undir sér. "Fæðingarorlof". Hvur andskotinn er það eiginlega? Er ekki lengur hægt að eignast barn, án þess að fara í orlof á eftir, sem einhver annar borgar? Ótal mæðrum blæddi út í sænginni, hér áður fyrr. Feðurnir máttu sjá á eftir börnum sínum út um allar koppagrundir. Systkyni aðskilin og sáust jafnvel aldrei meir. Nú heimtar fólk frí, á annara kostnað, en þetta er nú utúrdúr.

 Álögurnar eru orðnar slíkar, að varla er standandi í rekstri lengur og því mun allur atvinnurekstur falla í færri og færri manna hendur, undir verndarvæng þeirra, sem dýrka aumingjavæðinguna, eða hagkvæmni stærðarinnar.

 Afsakaðu langlokuna Geir.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.4.2018 kl. 02:38

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég kann ágætlega við langlokur.

Einu sinni var ákveðin sátt um að velferðarkerfið væri til staðar og væri fjárfrekt en um leið væri líka nokkurn veginn einskorðað við að flytja peninga frá einu tímabili einstaklings til annars. Barn er menntað fyrir skattfé en sem fullorðið framleiðir það skattfé og endar svo í ellinni á að vera hjúkrað fyrir skattfé. Velferðarkerfið gerði foreldrum kleift að eignast börn um leið og það skattlagði þá svo mikið að þeir höfðu ekki efni á að mennta þau. Sömu börn verða svo fullorðin og láta mjólka sig bæði fyrir umönnun og menntun eigin barna og umönnun foreldra þeirra. En þetta var allt í lagi því peningarnir voru innan fjölskyldunnar ef svo má segja.

Núna er búið að brjóta þessa viðkvæmu sátt. Velferðarkerfið heldur núna úti allskyns utanaðkomandi aðilum sem leggja ekkert af mörkum og munu aldrei gera. Velferðarkerfið heldur úti her ónauðsynlegra starfsmanna sem éta miklu meiri verðmæti en þeir framleiða en standa um leið undir veigamiklum hluta af atkvæðum ýmissa stjórnmálahreyfinga. 

Velferðarkerfið er ekki lengur seinasta úrræði þess slasaða, veika, fatlaða eða að öðru leyti minna en 100% vinnufæra. Nei, núna hafa menn "rétt á bótum" og sækja hann í gríð og erg. Það var alltaf ákveðin skömm í því að þiggja bætur nema allir sæju greinilega þörfina (t.d. að það vantaði hönd á einstaklinginn eða hann sat í hjólastól). Þetta er breytt.

Og með stækkun velferðarkerfisins, fjölgun verkefna þess og fjölgun skjólstæðinga þess - eða þiggjenda réttara sagt - er fjárþörfin endalaus og þar með pressan á að finna nýja og nýja svokallaða "skattstofna" til að mæta henni.

Hvar endar þetta? Eins og hjá Uruguay?

Geir Ágústsson, 11.4.2018 kl. 06:25

8 identicon

Einu sinni var ákveðin sátt ....Nei, það hefur aldrei verið nein sátt. Og þess vegna hefur hver meirihlutinn á Alþingi eftir annan í hundrað ár komið með breytingar á velferðarkerfinu og velferðakerfið verið eitt af aðal kosningamálunum í nær öllum Alþingiskosningum.

Það er algengur blekkingaleikur að segja einhverja sátt hafa ríkt áður um alla hluti, allt hafi verið svo mikið betra þá, friður og samhugur. Sól allt sumarið og snjór til að búa til snjókalla á veturna. Síðan komu vinstri menn eða framsókn eða Davíð Oddson eða kvótakerfið o.s.frv. allt eftir því hver segir söguna og hvern á að blekkja.

Gústi (IP-tala skráð) 11.4.2018 kl. 11:34

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Það var a.m.k. tímabil þar sem stjórnmálamenn sem þöndu út velferðarkerfið hlutu mikinn stuðning og þöndu því velferðarkerfið hratt út. Svíþjóð og Danmörk hættu að vera lágskattaríki með hraða auðsköpun og í háskattaríki með staðnaða auðsköpun. Skilningur fólks var sá að þeir sem vinna borguðu í gegnum skatta fyrir menntun, heilsugæslu og umönnun aldraðra sem þeir sjálfir á einhverjum tíma voru eða myndu sjálfir njóta góðs af í fortíð eða framtíð. 

Íslenska dæmið er svolítið sérstakt. Menn hafa getað selt allskonar vitleysu á Íslandi með því að segja að Svíar eða Danir eða Norðmenn geri eitthvað svipað. Svo nei, kannski hefur aldrei verið sátt um að moka fólki á opinbera framfærslu á Íslandi. Þó hefur þetta verið vaxandi tilhneiging. Íslendingar eiga enn eftir að brenna sig á því sama og Svíar og Danir og neyðast þá til að spóla til baka, sem gæti orðið mörgum sársaukafullt.

Geir Ágústsson, 11.4.2018 kl. 14:44

10 Smámynd: Haukurinn

Hvað norrænu velferðarkerfin varðar, þá er að mörgu leyti hægt að halda því fram að grundvöllur fyrir rekstri þeirra í núverandi mynd fari óðun hverfandi. Þetta er einkum sökum þeirrar þróunar í samsetningu mannfjölda sem átt hefur sér stað síðustu áratugi í hinum norrænu samfélögum - sem og í öðrum vestrænum samfélögum. 

Kjarninn í þeirri þróun er að borgararnir eignast almenn færri börn, og eignast þau seinna, á sama tíma sem framþróun í heilbriðgismálum hefur í för með sér að við lifum lengur, oft þrátt fyrir langvinna sjúkdóma, og af þeim sökum horfum við inn í framtíð með færri 'tekju- og skattaskapandi' einstaklingum fyrir hvern 'útgjaldaskapandi' einstakling. Þetta skapar aukna pressu á allan hinn opinbera geira, því fleiri eldri borgara þýða að öllu jöfnu aukin útgjöld til heilbrigðisþjónustu, ummönnun og greiðslu lífeyris - á sama tíma og það eru færri á vinnufærum aldri sem geta borgað brúsann. Ennfremur eru menn farnir að reka sig í síauknu mæli á vankanta almenns og alhliða velferðarkerfis (universal welfare state) - þar sem allir njóta sömu réttinda og gæða þrátt fyrir stétt, þörf og burði til að sjá fyrir sér sjálfum - þ.e. allir fá jafnt úr kassanum hvort sem þeir þurfa það eða ekki og hvort sem þeir hafa lagt sitt af mörkum til kerfisins eður ey.

Þetta skapar aukna pressu á nýsköpun, hagræðingu og endurhugsun þess hvað velferð snýst um - sem að öllu leyti er af hinu góða. En hvernig sem fer þá er víst, að við munum verða vitni að marktækri þróun og breytingu í hinum norrænu velferðarkerfum á komandi árum. En ég leyfi mér að efast um að þessi samfélög endi eins og í ríkjum suðurameríku - og á sama tíma er ég óviss um að þessi þróun verði nægilega víðtæk til að koma til móts við óskir og kröfur frjálshyggjumanna.

Haukurinn, 14.4.2018 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband