Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018

Eini sinni var bið eftir heyrnartækjum, en ekki lengur

Þegar ég les fréttir um biðlista hjá hinu opinbera dettur mér alltaf í hug gömul frétt um heyrnartæki. Einu sinni þurfti að bíða í marga mánuði eftir því að fá heyrnartæki sem hið opinbera borgaði. Enginn annar valkostur var í boði. Síðan var reglugerð breytt. Einkaaðilar fóru þá að bjóða upp á heyrnartæki á fullu verði. Margir nýttu sér þá þjónustu og komu sér út úr hinni opinberu biðröð sem fyrir vikið hvarf. Allir fá nú heyrnartæki þegar þeir þurfa.

Má ekki gera eitthvað svipað í heilbrigðiskerfinu og í aðhlynningu aldraðra? Kannski er pólitískt óraunhæft að einkavæða þetta allt saman og lækka skatta í kjölfarið en má ekki fjarlægja einhverjar hindranir á einkaaðila? Má t.d. ekki endurskoða 14. gr. 2. í lögum 125/1999 um málefni aldraðra með það að markmiði að einkaaðilar getir boðið upp á minni þjónustu en þar er kveðið á um? Eða þurfa allir að keyra um á Mercedes Benz ef þeir vilja á annað borð keyra? Þarf alltaf að vera aðstaða fyrir heilabilaða á hjúkrunarheimili? 

Biðlistar eftir heyrnartækjum eru fjarlæg minning. Má ekki gera biðlista eftir hjúkrunarheimilum það líka?


mbl.is Fjölgun á biðlistum eftir hjúkrunarrými
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissulega ritskoðar Youtube en ...

Það er enginn vafi á því að Youtube ritskoðar, og fleiri og fleiri netþjónustur boða aukna ritskoðun (t.d. Google og Facebook). Það er ákveðinn hjúpur pólitísks rétttrúnaðar sem verið er að verja og þannig er það.

Svarið er samt ekki að ráðast á fólk eða einu sinni að gremjast ritskoðunina. Menn eiga einfaldlega að leita friðsamlegra lausna til að komast framhjá ritskoðuninni, og þær eru margar.

Það er hægt að stofna sína eigin netþjónustu sem ritskoðar ekki. Margar eru nú þegar til. Youtube er stærst og fjölmennust en líka sú netþjónusta sem inniheldur mest af rusli. Margir með boðskap halda úti sínum eigin netþjónustum til að varðveita gæði innihaldsins og tryggja málfrelsi sitt, t.d. hjá CRTV.

Það er hægt að tjá sig með öðrum hætti en myndböndum. Það er ekkert mál að finna síðu til að hýsa bloggsíðu sem enginn ritskoðar. Það má hreinlega halda úti sínum eigin netþjóni ef þannig liggur á manni og gagnamagnið er ekki yfirdrifið.

Það er hægt að benda á ritskoðunina án þess að verða gómaður af henni. Jordan B. Peterson, sem heimsækir Ísland í sumar, segir marga umdeilda hluti en allt hans efni fær að standa á Youtube-síðu hans. Hið sama má segja um Stefan Molyneux og Tom Woods.

Sumir, eins og Lauren Southern, hafa ítrekað lent í ritskoðun [1|2] en halda áfram að færa sig til á netinu og halda áfram að tjá sig. Það að fá ekki að tjá sig á ákveðinni vefsíðu á ekki að vera dauðadómur.

Mörg fyrirtæki óttast hinn pólitíska rétttrúnað eins og heitan eldinn og gera allt sem þau geta til að friðþægja æsta æðstupresta rétttrúnaðarkirkjunnar. Sú friðþæging mun ekki taka enda fyrr en menn spyrna við fótum og krefjast þess að fá að tjá sig. Friðþæging tryggir ekki frið heldur er hún eldsneyti á frekari heimtufrekju þeirra allra viðkvæmustu, sem þola hvorki samræður né andstæð sjónarmið.

Svo já, Youtube ritskoðar, en á meðan Youtube sleikir rass hins rétttrúaða er ekkert við því að gera og best að snúa sér annað.


mbl.is Hafði sakað YouTube um ritskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf heiðskýrt við Borgarlínuna

Ég tek eftir því að á öllu kynningarefni Borgarlínunnar er heiðskýrt, logn og götur eru auðar. Ég hef nú bætt aðeins úr þessu ástandi og hér má sjá Borgarlínuna við íslenskar aðstæður: Hellirigningu á mann sem bíður í biðskýli. Hjá honum standa engar mæður með lítil börn eða fólk með innkaupapoka því þannig fólk stendur ekki blautt í biðskýli ótilneitt. Það er því við hæfi að manneskjan sem bíður er einstaklingur einn á ferð, án farangurs, poka eða annarra byrða. Ég hef haldið þessu frá upprunalegri mynd. Það er heldur engin ástæða til að breyta því að vagninn á myndinni er tómur fyrir utan bílstjórann sem endurspeglar ágætlega núverandi strætóa utan annatíma. 

bl


mbl.is Telja hugmyndir um borgarlínu hæpnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Kína frjálsara hagkerfi en Bandaríkin?

Bandaríkin urðu auðug á frjálsri verslun eins og öll önnur rík ríki nema auðlindaríki. Bandaríkin eru vissulega auðlindaríki og geta og gátu því leyft sér ófrjáls viðskipti að hluta til, en það breytir ekki lögmálinu: Leirklessur eins og Danmörk eða klettahrúgur við sjóinn eins og Hong Kong eru rík vegna frjálsra viðskipta. 

Kínverjar eiga auðlindir, meðal annars allt að því óendanlegan mannauð, en hafa undanfarna áratugi áttað sig á verðmætaskapandi afli frjálsra viðskipta.

Bandaríkin hafa misst sjónar af verðmætaskapandi afli frjálsra viðskipta.

Ég heyrði einu sinni mann sem stundar alþjóðleg viðskipti segja að Kína sé efnahagslegra frjálsri en Bandaríkin. Skattar á fyrirtæki eru lægri og skriffinnskan minni, a.m.k. í hans tilviki. Viðkomandi var alls ekki meðlimur hins kínverska kommúnistaflokks. Hvað meinti hann þá?

Það er hugsanlegt að Kína sé frjálsara hagkerfi en Bandaríkin að mörgu leyti. Sé það rétt er bara spurning um tíma hvenær Kína verður mikilvægari markaður en Bandaríkin. Sé það rétt eru Bandaríkin að grýta eigin höfn og af eigin afli að gera sig síður mikilvæg sem viðskiptaland.

Trump mun ekki ná endurkjöri. Í hans stað verður kjörinn sósíalisti í anda Bernie Sanders sem mun ýta Bandaríkjunum endanlega til hliðar sem efnahagslegs stórveldis. En hvað gerist eftir það? Það kemur í ljós.


mbl.is Táknrænar aðgerðir hjá Kínverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínar 3 vikur á hjúkrunarheimili

Ég vann einu sinni á hjúkrunarheimili. Mig vantaði eitthvað til að hlaupa í í 3 vikur og fékk afleysingastöðu á hjúkrunarheimili og lærði mikið á því.

Starfið var stundum mjög krefjandi og stundum mjög auðvelt. Miklar tarnir eru í kringum máltíðir, lyfjagjafir og þegar eitthvað kemur upp á. Þess á milli er nánast ekkert að gera nema drekka kaffi, borða kex, spjalla, reykja og hanga á netinu. Ég man eftir einni stúlku sem vann þarna - ung stúlka, fastráðin og hjúkrunarfræðimenntuð. Hún taldi það nánast vera mannréttindi að fá að horfa á einhvern ákveðinn þátt í sjónvarpinu og hreyfðist varla úr sófanum ef einhverjum vantaði hjálp. Aðrir starfsmenn létu ekki svona en það kom mér á óvart að þessi hafi komist upp með svona hegðun.

Skiljanlega kosta gistirýmin þarna mikið. Það ber hins vegar ekki mjög mikið á nýsköpun (tek samt fram að þetta var fyrir 14 árum). Starfsfólk lagði bakið á sér undir oft á dag til að reisa við eða leggja niður vistmenn. Litlar konur eru jafnvel að lyfta þyngri byrðum en risavaxnir karlmenn á byggingalóð.

Sennilega kostar líka skildinginn að þurfa hafa hátt hlutfall faglærðra einstaklinga á launaskrá. Ekki hafði ég lært neitt í hjúkrun eða aðhlynningu en tel mig samt ekki hafa veitt verri aðhlynningu en næsti maður, þ.e. á meðan allt gekk að óskum. 90% af deginum fer í frekar einföld verkefni þar sem áhugi og virðing fyrir skjólstæðingunum eru aðalhráefnin.

Ég velti fyrir mér hvort rekstur hjúkrunarheimila eigi ekki inni vænan skammt af nýrri hugsun sem nær langt út fyrir staðlaða þjónustusamninga við ríkisvaldið. Aldraðir einstaklingar vilja komast inn á góða staði þar sem þeir fá nauðsynlega þjónustu og eru oftar en ekki ágætlega aflögufærir þótt þeir vilji vissulega ekki gera sig gjaldþrota á vistinni eftir að hafa borgað háa skatta alla ævi. 

Íslenskir grunnskólar kosta meira á hvern nemanda en grunnskólar flestra ríkja heims, og út úr þeim útskrifast hátt hlutfall nemenda ólæsir og óskrifandi. Þjáist íslensk hjúkrunarþjónusta af sömu meinsemd?


mbl.is Hjúkrunarrými kostar um milljón á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband