Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
Föstudagur, 10. júní 2016
Um vensl jöfnuðar og velferðar
Þeir finnast enn sem telja að aukinn jöfnuður sé ávísun á aukna velmegun eða meiri velferð. Það er hins vegar orðið ljóst fyrir löngu að þetta er einskonar trúarleg kenning þeirra sem kalla sig gjarnan jafnaðarmenn.
Aukin velmegun og meiri velferð er ekki háð jöfnuði. Til að auka verðmætasköpun og þar með hag fólksins þarf að auka efnahagslegt frelsi. Þetta má vitaskuld rökstyðja án þess að styðjast við tölur og gögn en það er fljótlegra að sýna þrjár myndir og vísa í skýrslu.
Á myndunum hér fyrir neðan er búið að skipta ríkjum heims í fjóra hópa eftir því hversu mikils efnahagslegs frelsis íbúar þeirra njóta skv. mælingum Fraser-stofnunarinnar í Kanada og samstarfsfélaga hennar um allan heim.
Á fyrstu myndinni sjást meðaltekjur íbúanna. Þær eru auðvitað töluvert hærri þar sem efnahagslegt frelsi er mikið. Það ætti ekki að koma neinum á óvart.
Á næstu mynd sjást tekjur þeirra 10% fátækustu. Þær eru líka töluvert hærri í ríkjum þar sem efnahagslegt frelsi er mikið. Þetta vita líka allir. Sá sem er fátækur á Íslandi á sjónvarp og bíl. Sá sem er fátækur í Nígeríu eða Íran lifir við hungurmörk og á varla föt utan á líkama sinn.
En er ekki mikill ójöfnuður meðal frjálsustu ríkjanna þar sem allir eru ríkir en sumir ofurríkir? Um það má deila en það virðist litlu máli skipta í hvaða frelsishóp ríki fellur, þeir fátækustu eiga alltaf svipað hlutfall alls eins og sjá má á næstu mynd (og jafnvel ívið stærra hlutfall þar sem mest efnahagslegt frelsi ríkir).
Hver er svo boðskapurinn? Hann er eftirfarandi: Jöfnuður er ekki ávísun á verðmætasköpun og bættan hag þeirra fátækustu. Það er efnahagslegt frelsi hins vegar. Í bónusvinning með efnahagslegu frelsi kemur svo pólitískt frelsi því efnaðir íbúar hafa meira þrek og meiri viðspyrnu gegn yfirgangi yfirvalda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 10. júní 2016
Alþjóðlegt starf í innlendri þumalskrúfu
Flugumferðarstjórar eru í alþjóðlegu starfi ef svo má segja. Vinnutungumál þeirra er enska og flestir af þeim sem þeir tala við úr turninum tala við þá á ensku. Það kæmi mér ekki einu sinni á óvart ef íslenskir flugmenn töluðu við turninn í Keflavík á ensku.
Þeim má því skipta út fyrir útlendinga sem tala ensku.
Það mætti jafnvel hugsa sér að umsjón með brottförum og lendingum frá Keflavíkurflugvelli væri stjórnað frá útlöndum, t.d. Kaupmannahöfn eða Peking í Kína. Líklega yrði samt að vera til staðar varastöð í Leifsstöð ef gervihnattarsamband dettur út.
Hvað sem því líður er óþarfi að stjórn flugumferðar við Ísland sé í höndum eins aðila sem getur haldið öllum í gíslingu. Stjórnvöld ættu að nýta tækifærið núna og leita leiða til að brjóta upp þá einokun. Það hefur enginn sérstaklega gott af því að vera í einokunaraðstöðu og fyllast af of miklu áliti á sjálfum sér. Flestir í þessum heimi (fyrir utan ríkisstarfsmenn og þá sem njóta verndar lögbundinnar einokunar) starfa í samkeppnisumhverfi og líta á það sem hvata til að gera betur í dag en í gær.
Þegar störfum flugumferðarstjóra hefur verið komið í hendur einkarekinna aðila sem mæta í vinnuna má huga að öðrum stéttum sem liggja hálfsofandi í jötu ríkisvaldsins, t.d. stéttum lækna, kennara og annarra sem fara stundum í verkföll til að sýna fram á að þeir séu meira ómissandi en verkfræðingar, pizzasendlar og verslunareigendur sem fara aldrei í verkföll.
Funda með flugumferðarstjórum í fyrramálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 8. júní 2016
Þjóðhagsráð sjálfhætt
Til stóð að setja á laggirnar svokallað Þjóðhagsráð þar sem ríkisvaldið borgar fyrir kaffi helstu fulltrúa atvinnulífsins á meðan þeir spjalla saman um stöður og horfur og þess háttar.
Nú er þessu Þjóðhagsráði svo gott sem sjálfhætt því það vilja ekki allir vera með nema að listinn yfir umræðuefni verði lengdur.
Ekki veit ég hvort þetta ráð hafi átt að vera svar Íslands við hinum dönsku "vismænd" eða vitringum sem tjá sig um hitt og þetta með reglulegu og óreglulegu millibili. Eitt er víst: Svona kjaftaklúbbur hefur ekkert um efnahagsstjórn landsins að segja.
Landinu er stjórnað af stjórnmálamönnum og þeir eru með sínar eigin hugmyndir og jafnvel hugsjónir sem ráða för þeirra. Íslenskir stjórnmálamenn hafa aldrei verið sérstaklega góðir í að láta eigin hugmyndir víkja fyrir hugmyndum annarra. Annars hefði fráfarandi ríkisstjórn ekki hækkað skatta í vel á annað hundrað skipti. Núverandi ríkisstjórn væri líka búin að lækka skatta töluvert meira ef stjórnvöld væru viljug til að hlusta á góð ráð.
Í stað þess að stofna kjaftaklúbba ættu þeir sem vilja lágmarka skaðann af ríkisvaldinu að berjast fyrir því að það hætti svo gott sem allri starfsemi sinni og hleypi einkaaðilum að. Ríkisvald sem prentar ekki peninga (með aðstoð bankanna) getur ekki framleitt verðbólgu. Ríkisvald sem viðheldur ekki sovésku heilbrigðiskerfi getur ekki búið til biðlista og tækjaskort. Ríkisvald sem menntar ekki getur ekki klúðrað menntun barna og fullorðinna. Ríkisvald sem leggur ekki vegi getur ekki vanrækt þá. Ríkisvald sem hirðir ekki verðmæti getur ekki sólundað þeim. Ríkisvald með litla skattheimtu á erfiðar með að skuldsetja komandi kynslóðir.
Frelsi í stað frasa og kjaftaklúbbarnir verða óþarfir!
Greinir á um Þjóðhagsráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 8. júní 2016
Einkavæðum allt
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þriðjudagur, 7. júní 2016
Hvernig fær nánast óþekktur maður mikið fylgi?
Guðni Th. Jóhannesson er um margt geðþekkur maður og óumdeildur fyrir störf sín. Hann hefur skrifað bækur og haldið fyrirlestra og er með gott orðspor sem afkastamikill sagnfræðingur (þrátt fyrir skoðanir sínar á ýmsum málum, t.d. þorskastríðunum).
Menn fyrirgefa honum þess vegna fyrir að segja ósatt frá og vorkenna honum þegar hann lendir í alvörurökræðum þar sem hann þarf að gera grein fyrir máli sínu. Maðurinn virðist ekki geta opnað á sér munninn án þess að vera misskilinn eða þola að orð hans séu tekin úr samhengi. Það er eins og það er og nokkuð sem fylgir honum vonandi ekki í forsetaembættið ef honum hlotnast það.
En hann er líka nokkuð annað og meira. Hann er hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Davíð Oddsson. Hann er ekki-Davíð Th. Jóhannesson. Ólafur og Davíð eru umdeildir menn með langan feril að baki og allir hafa skoðanir á þeim. Hið sama gildir ekki um Guðna, a.m.k. ekki í sama mæli. Mikið af fylgi hans er sennilega fólk sem hefur svo sem enga sérstaka skoðun á Guðna en getur ekki hugsað sér að kjósa Davíð. Aðrir frambjóðendur gætu alveg fengið atkvæði þessa hóps kjósenda en þeir frambjóðendur hafa e.t.v. gert þau mistök að hafa prófað eða sagt ýmislegt sem er ekki öllum að skapi. Hérna er Guðni hlutlaust land - óflekkaður maður sem kemur úr óumdeildu starfi og lítið gert af sér annað en að tala stundum í kross.
Það mætti því eiginlega segja að ef Guðni nær kjöri þá hafi ekki-Davíð sigrað, sá maður sem hafði þann helsta kost að vera hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Davíð Oddsson.
En sjáum hvað setur.
Guðni með mest fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 6. júní 2016
Sósíalismi í dauðateygjunum
Norður-Kórea sendir þúsundir einstaklinga út í hinn stóra heim til að vinna ókeypis fyrir ríkisvaldið. Þetta er eðlileg og rökrétt leið fyrir gjaldþrota, sósíalískt ríkisvald til að framfleyta sér í dauðateygjum sínum. Allt sem gert er á jú að vera fyrir samfélagið eða heildina og einstaklingurinn skiptir engu máli.
Mörg önnur ríki en þau yfirlýst sósíalísku beita svipuðum úrræðum og er herkvaðning hér augljósasta dæmið. Með henni er fólk sent í herþjálfun og jafnvel af stað til að berjast í stríðum og fær fyrir það laun sem hið opinbera skammtar af eigin geðþótta og eru yfirleitt mun lægri en sömu einstaklingar gætu fengið sem verðmætaskapandi einstaklingar á frjálsum markaði. Allt í nafni heildarinnar eða samfélagsins auðvitað.
Ríkisvaldið um allan heim leggur mikla áherslu á að gera sem minnst úr einstaklingnum og leggja sem mesta áherslu á að við vinnum saman eins og maurar í maurabúi þar sem feit drottningin í miðju búsins er sú eina sem skiptir máli. Það er því rökrétt að Norður-Kórea haldi úti her farandverkamanna til að sjá ríkisvaldinu fyrir gjaldeyri, og þótt einn og einn maur sé kraminn þá skiptir það engu máli á meðan heildin er enn í lagi.
Þegar menn heyra hið opinbera nota hugtök eins og "samfélagsleg ábyrgð", "tekjur þjóðarbúsins" og "hagsmuni ríkisins" ættum við öll að staldra við og hugsa: En hvað með mig og mína fjölskyldu?
Vinna við bágar aðstæður í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 5. júní 2016
Tálbeitur í skuldafenið
LÍN er tálbeita sem dregur ungt fólk ofan í skuldafen og himinháa skattheimtu að námi loknu.
Rekstur LÍN er bundinn í slíka lagaflækju að LÍN getur með engu móti rekið sig öðruvísi en að sjúga milljarða úr ríkissjóði með reglulegu og óreglulegu millibili.
Nemendur fá svo himinhá lán að margir þeirra munu aldrei geta greitt þau til baka. Fjölskyldur nemenda hafa ekki efni á að hjálpa þeim því þær eru sjálfar skattlagðar upp til rjáfurs. Nemendur geta tæplega unnið samhliða námi til að minnka lánsfjárþörfina því skattheimtan er líka himinhá á þá sjálfa. Ríkisrekið nám er líka dýrara en það þyrfti að vera - í Bandaríkjunum sjá menn til dæmis sterka fylgni á milli upphæðar námslána sem hið opinbera býður upp á og skólagjalda.
Til að toppa vítahringinn er ríkisvaldið svo umsvifamikið, meðal annars á markaði lána, að það krefjst himinhárra skatta af hverju launaumslagið sem um leið dregur úr möguleikum fólks til að greiða skuldir sínar, þar á meðal námslánin.
LÍN er tálbeita sem ég vona að sem fæstir bíti á.
Þurfum að tryggja jafnrétti til náms | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 3. júní 2016
Endurvinnsla getur leitt til sóunar og mengunar
Endurvinnslutrúboðið er alltaf tekið lengra og lengra. Nú er rusl ekki bara rusl sem ber að aðskilja frá gömlum batteríum og skaðlegum spilliefnum og ónýtum raftækjum. Nei, nú er rusl aðgreint í pappír, gler, plast, lífrænan úrgang og jafnvel eitthvað fleira. Til hvers?
Yfirleitt er hagstæðast fyrir alla að láta ruslið enda í ruslatunnunni og koma því í urðun eða brennslu. Ruslið brotnar niður og verður jafnvel að prýðilegum jarðvegi sem má nýta i hvað sem er. Þannig er líka keyrsla á rusli lágmörkuð og auðlindir jarðar nýttast skynsamlegast. Stundum er betra fyrir umhverfið og okkar eigin pyngju að kaupa nýtt og henda því gömlu.
Því hvað gerist þegar menn setja pappírinn í sérstakan gám? Þennan gám þarf að sækja á sérstökum bíl. Það er keyrt á einhvern móttökustað. Þar er pappírnum þjappað saman með mikilli fyrirhöfn. Síðan er hann keyrður að höfninni og settur í skip. Þetta skip siglir í öllu sínu veldi til útlanda. Þar er hann blandaður saman við allskyns límefni og hrærigrauturinn svo notaður til að búa til lélegar endurunnar umbúðir sem þarf svo að keyra til nýs framleiðenda til notkunar.
Ég er viss um að ef menn bera allt þetta ferli saman við að hreinlega henda því gamla og kaupa nýtt þá komi í ljós stórkostleg sóun á auðlindum og peningum og jafnvel að mengun vegna endurvinnsluferlisins sé gríðarleg.
Hér hefur fólk smátt og smátt slökkt á tortryggni sinni gagnvart opinberu trúboði, því miður.
Fjölskyldusport að flokka sorp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 1. júní 2016
Hvað með daglegar kosningar?
Á Íslandi er stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir kosningum á fjögurra ára fresti nema ekki sé hægt að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Starfhæf ríkisstjórn situr nú í krafti meirihluta á Alþingi. Það er því ekkert stjórnarskráarinnar vegna sem kallar á kosningar.
Forystumenn í ríkisstjórninni lofuðu kosningum í haust gegn ákveðnum skilyrðum. Nú er þrýst á þá að standa við loforðið en henda skilyrðunum.
En gott og vel, mörgum finnst gaman að kjósa og þá sérstaklega þeim sem styðja liðið í stjórnarandstöðunni hverju sinni og sér að hún er að koma bærilega út í skoðanakönnunum.
En af hverju að láta sér nægja kosningar á 4 ára fresti, eða 3,5 ára fresti? Á mörgum sviðum kjósum við daglega og jafnvel oft á dag. Það gerum við þegar við veljum eina vöru eða eina þjónustu fram yfir aðra. Við kjósum ákveðna framleiðendur, söluaðila, heildsala og verslunareigendur daglega og um leið missa aðrir atkvæði okkar.
Þetta má skýra með dæmi. Segjum að ríkisvaldið hafi lögbundna einokun á framleiðslu og sölu skófatnaðar. Á um árs fresti þarf að endurnýja skóna. Við þurfum að kjósa sama framleiðenda og söluaðila á hverju ári. Skórnir eru e.t.v. aðeins betri eitt árið en annað en afstaða okkar til þess skiptir engu máli. Sá sem framleiðir og selur skó getur gert ráð fyrir að hann verði fyrir valinu, ár eftir ár.
Nú ákveður hið opinbera af einhverjum ástæðum að framleiðsla og sala skófatnaðar geti alveg farið fram á hinum frjálsa markaði og afnemur ríkiseinokun sína. Nú spretta upp skóframleiðendur og skósalar og úrvalið eykst. Við fáum að velja á milli mismunandi tegunda skófatnaðar, frá sandölum til stígvéla. Litaúrvalið eykst. Við getum valið ódýra skó og endurnýjað oft eða dýrari skó og endurnýjað sjaldnar, og jafnvel dýra skó og endurnýjað oft. Valið er okkar og markaðurinn hlustar og bregst við.
Að kjósa oft á dag á milli góðra valkosta er betra en að kjósa sjaldan á milli lélegra valkosta. Megi það gerast sem víðast!
70 prósent vilja kosningar í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)