Hvað með daglegar kosningar?

Á Íslandi er stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir kosningum á fjögurra ára fresti nema ekki sé hægt að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Starfhæf ríkisstjórn situr nú í krafti meirihluta á Alþingi. Það er því ekkert stjórnarskráarinnar vegna sem kallar á kosningar.

Forystumenn í ríkisstjórninni lofuðu kosningum í haust gegn ákveðnum skilyrðum. Nú er þrýst á þá að standa við loforðið en henda skilyrðunum. 

En gott og vel, mörgum finnst gaman að kjósa og þá sérstaklega þeim sem styðja liðið í stjórnarandstöðunni hverju sinni og sér að hún er að koma bærilega út í skoðanakönnunum.

En af hverju að láta sér nægja kosningar á 4 ára fresti, eða 3,5 ára fresti? Á mörgum sviðum kjósum við daglega og jafnvel oft á dag. Það gerum við þegar við veljum eina vöru eða eina þjónustu fram yfir aðra. Við kjósum ákveðna framleiðendur, söluaðila, heildsala og verslunareigendur daglega og um leið missa aðrir atkvæði okkar.

Þetta má skýra með dæmi. Segjum að ríkisvaldið hafi lögbundna einokun á framleiðslu og sölu skófatnaðar. Á um árs fresti þarf að endurnýja skóna. Við þurfum að kjósa sama framleiðenda og söluaðila á hverju ári. Skórnir eru e.t.v. aðeins betri eitt árið en annað en afstaða okkar til þess skiptir engu máli. Sá sem framleiðir og selur skó getur gert ráð fyrir að hann verði fyrir valinu, ár eftir ár.

Nú ákveður hið opinbera af einhverjum ástæðum að framleiðsla og sala skófatnaðar geti alveg farið fram á hinum frjálsa markaði og afnemur ríkiseinokun sína. Nú spretta upp skóframleiðendur og skósalar og úrvalið eykst. Við fáum að velja á milli mismunandi tegunda skófatnaðar, frá sandölum til stígvéla. Litaúrvalið eykst. Við getum valið ódýra skó og endurnýjað oft eða dýrari skó og endurnýjað sjaldnar, og jafnvel dýra skó og endurnýjað oft. Valið er okkar og markaðurinn hlustar og bregst við.

Að kjósa oft á dag á milli góðra valkosta er betra en að kjósa sjaldan á milli lélegra valkosta. Megi það gerast sem víðast!


mbl.is 70 prósent vilja kosningar í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú átt við að t.d, fyrirtækið sem þú vinnur hjá kjósi sér daglega starfsmenn. Þá væru þeir ekki bundnir við þínar launakröfur og þekkingu. Þeir hefðu stöðugt val og þú fengir bara símhringingu að kosningu lokinni um hvort þú ættir að mæta í vinnu eða ekki.

Davíð12 (IP-tala skráð) 1.6.2016 kl. 17:20

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þannig séð já. Yfirleitt gerir fólk samt með sér ráðningasamninga sem kveða bæði á um uppsagnarfrest af hálfu fyrirtækis og af hálfu starfsmanns. Starfsmenn hljóta að vilja vinna sér inn orðspor fyrir að svíkjast ekki undan samningum og fyrirtæki sömuleiðis ætli þau sér að laða að sér hæft starfsfólk.

Ef þú værir með stóran garð sem krefðist daglegs aðhalds, t.d. við að slá gras og klippa greinar, þá gætir þú ráðið menn frá degi til dags (enda lítil þjálfun sem þyrfti að fara fram). 

Hann er ansi magnaður þessi heimur þar sem fyrirtæki þurfa starfsfólk og starfsfólk þarf vinnu, nánast eins og um samkvæmisdans sé að ræða þar sem báðir þurfa á hinum að halda. Ríkið væri þá steppdansarin sem gæti dansað einsamall og þvingað þig til að horfa á. 

Geir Ágústsson, 1.6.2016 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband