Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
Mánudagur, 18. apríl 2011
Engin hætta, eða hvað?
Þá ætti líka að skýrast í ljósi nýrra upplýsinga frá slitastjórninni með endurheimtuhorfurnar. Þær verði aldrei minni en 90% og mögulega meiri. Endurgreiðslur munu geta hafist síðar á þessu ári.
Hérna er verið að einfalda hlutina töluvert.
"Endurheimtuhorfur" er e.t.v. góðar í dag, en ekkert meira er hægt að segja. Það að eitthvað sé með verðmiða og áætlað söluverð er ekki hið sama og að áætlað eða uppsett verð fáist. Einn jarðskjálfti í Japan olli breytingum á einhverjum hlutum þrotabús Landsbankans. "Horfurnar" eru ekki traustari en það.
Síðan er ekkert víst að neyðarlögin lifi af meðferð dómstóla. Ef þau verða skotin niður þá geta Bretar og Hollendingar ekki vænst þess að fá mikið fyrir sinn snúð úr þrotabúi Landsbankans.
Af þessum ástæðum (óvissan um endurheimtur og framtíð neyðarlaganna) var rosalega mikilvægt að hafna ríkisábyrgð á ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga. Sem betur fer var það gert.
Kröfur Breta og Hollendinga eru því komnar í sæng með "endurheimtuhorfum" Landsbankans og óvissunni um framtíð neyðarlaganna, og allt þetta aðskilið frá tómum veskjum íslenskra skattgreiðenda. Sem betur fer.
Leggja ekki stein í götu okkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. apríl 2011
Icesave, Ragnar Reykás og Steingrímur J. undir eftirliti
Þeir eru ansi beittir sumir af þessum moggabloggurum í dag.
Axel Jóhann Alexsson: "Ríkisstjórnin hefur öll Reykáseinkennin, enda tala ráðherrar hennar með og á móti hverju máli sem til kasta ríkisstjórnarinnar kemur, annan daginn talar einhver ráðherrann fyrir málinu og næsta dag kemur annar og lýsir algerlega öndverðum skoðunum, enda komast engin bitastæð mál stjórnarinnar af umræðustigi yfir á framkvæmdastig."
Viggó Jörgensson: "Árni Páll má þess vegna ekki fara á barinn á undan Steingrími."
Ríkisstjórnin þurfti ekki að hugsa málið lengi eftir kinnhest þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að komast að því að kannski er óheppilegt að tala Ísland endalaust niður til að hræða íslenskan almenning til að kjósa "rétt". Kannski er betra að reyna snúa vörn í sókn og senda einn ráðherra eða tvo til útlanda (loksins) og tala máli Íslands.
Steingrímur J. fær samt ekki að ferðast einn. Það er búið spil.
Reykás-heilkenni ríkisstjórnarinnar hefur nú farið í marga hringi, og þar af hálfan snúning á minna en tveimur vikum þegar kemur að "áhrifum þess að hafna Icesave". En menn láta það ekki á sig fá.
Engin áhrif á samstarf við AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 16. apríl 2011
Peningaprentvélarnar á fullu
Peningaprentvélar flesta seðlabanka keyra nú á metafköstum. Kaupmáttur flestra gjaldmiðla rýrnar og það veldur hækkandi verðlagi (eða verðbólgu). Í svona ástandi er ekki óalgengt að menn flýi með verðmæti sín úr rýrnandi peningum og í einhver gæði sem er yfirleitt hægt að reikna með að sé hægt að selja seinna, t.d. gull eða hrávörur, í skiptum fyrir aðra vöru eða þjónustu.
Þetta veldur hækkandi verði á t.d. gulli. Á meðan peningaprentvélarnar eru á fullum afköstum, þá heldur gullverð áfram að hækka.
Enn eitt gullmetið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 13. apríl 2011
Skýrslan sem enginn las
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er stór og þykk. Í henni er að finna marga gullmola. Gallinn við skýrsluna er ekki skýrslan sjálf, heldur sú staðreynd að mjög fáir hafa tök á að lesa hana. Það hindrar samt engan í að vísa í skýrsluna og segja, "sjáðu, skv. þessari skýrslu þá hrundi bankakerfið út af Davíð Oddssyni" eða "hérna var of mikið frelsi eða svo segir skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis".
Hérna er bent á gullmola. Ummælin eru eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og ganga þvert á ítrekaðar fullyrðingar Egils 'umræðustjóra' Helgasonar um að Þorvaldur Gylfason hafi "varað við hruninu":
Eftir á koma menn og segjast hafa varað við og séð hvað var að gerast - tveir sem hafa gert það, annar Robert Wade og hinn Þorvaldur Gylfason. Þetta voru báðir menn sem höfðu mjög greiðan aðgang að mér, sem ég var í persónulegum samskiptum við, og að þeir kæmu á framfæri þeim upplýsingum við mig að bankakerfið okkar væri komið að fótum fram, eða í mikilli hættu, það gerðu þeir ekki.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er örugglega mjög fín. Hún safnar hins vegar bara ryki. Það er hennar stærsti galli.
Ósáttur við vinnubrögð rannsóknarnefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Jóhanna er fljót að gleyma
Hún sagði jafnframt, að með því að krefjast nýrra kosninga væri formaður Sjálfstæðisflokksins að kalla eftir pólitískri upplausn í landinu á erfiðum tímum.
Jóhanna Sigurðardóttir, starfandi en óstarfhæfur forsætisráðherra landsins, er fljót að gleyma.
Man hún ekki hvernig Samfylkingin hagaði sér í kjölfar hrunsins haustið 2008? Hún hljóp inn í lokað og læst fundarherbergi með Vinstri-grænum og samdi um nýtt stjórnarsamstarf. Á sama tíma voru Bretar að beita hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki, bankakerfið að hrynja og krónan í frjálsu falli (sem hefði raunar átt að leyfa, en var ekki leyft).
Núna er stærsta vandamál Íslands sjálf ríkisstjórnin. Henni þarf að koma frá. Hún þjóðnýtir, hræðir fjárfesta úr landinu, lýgur um afnám gjaldeyrishafta, lofar störfum á meðan störfum fækkar, safnar gríðarlegum skuldum, talar upp mikla óvissu um allt sem skapar gjaldeyri á Íslandi og eyðir öllu púðri sínu í að reyna koma Íslandi inn í ESB, sem sjálft stendur veikum fótum.
Jóhanna er hrokafull, vanhæf, gleymin og getur seint kallast góður leiðtogi. Ég skal alveg taka undir skot hennar á Bjarna Benediktsson og Icesave-afglöp hans, en allt annað þarf að skrifast á tóma málefnalega innistæðu forsætisráðherra.
Loksins, loksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Önnum kafinn við eitthvað sem skiptir minna máli
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gat ekki þegið boð Evrópuráðsins í Strassborg um að ávarpa ráðið vegna þess að hann var önnum kafinn við að bregðast við aðstæðum hér heima í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.
Starfandi en óstarfhæfur fjármálaherra landsins er kominn í bullandi þversögn.
Í stað þess að sinna einhverju mikilvægasta verkefni stjórnvalda þessa dagana (að útskýra fyrir útlendingum hvers vegna Ísland er ekki sokkið og mun ekki sökkva í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar), þá er Steingrímur J. "önnum kafinn" við eitthvað allt annað.
Steingrímur var því upptekinn við eitthvað sem skiptir minna máli en mikilvægasta verkefni hans: Að útskýra af hverju fjarvera Icesave-klafans mun ekki hafa neikvæð áhrif á íslenskt hagkerfi (og hluti eins og "lánshæfi" þess).
Starfandi en óstarfhæfur fjármálaráðherra landsins þakkar eflaust í hljóði fyrir að geta bráðum lagst í helgan stein og á feitan lífeyri eftir þetta kjörtímabil, hvenær sem því nú lýkur.
Var önnum kafinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Að komast hjá skuldum... hverra?
Deilan þykir skapa það hættulega fordæmi að almenningur geti komist hjá skuldum, segir Phillips í Morgunblaðinu í dag.
Þetta er vægast sagt mögnuð yfirlýsing. Hérna reynir sá sem talar ekki að greina á milli almennings annars vegar og hins vegar einkafyrirtækja sem starfa með óbeinni ríkisábyrgð í gegnum seðlabanka heimsins. Öllu er hrært saman. Sparifjáreigandi labbar inn í banka og leggur 1000 kr. inn á reikning. Bankinn fer með þennan pening í seðlabankann, leggur þar 100 kr. inn og fær svo að leika sér með 900 kr. að vild. Bankinn lánar þessar 900 kr. út og græðir vel á vöxtunum. Bankinn fer á hausinn. Sparifjáreigandanum er sagt að hann "skuldi" nú það sem bankinn hans hafði lofað öðrum.
Þetta er fáheyrt.
Já skiljanlega óttast menn að þvermóðska Íslendinga til að éta töpuð viðskipti einkabanka skapi "slæmt fordæmi". Írland lét almenning éta alla peningaframleiðslu sinna banka. Írland er núna gjaldþrota og verður það um ókomin ár. "Slæmt fordæmi"? Nei. Gott fordæmi.
Óttast fordæmi Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 7. apríl 2011
NEI-lögfræðirökin í örstuttu máli
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, lögfræðingur, var í Spjallinu með Sölva á SkjáEinum í gærkvöldi og útskýrði þar lögfræðirökin fyrir NEI á laugardaginn í örstuttu máli. Ég mæli eindregið með því að allir gefi sér 5 mínútur og 31 sekúndu til að horfa og hlusta:
54,8% ætla að segja nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 4. apríl 2011
Hagspá í skugga gjaldeyrishafta
Ný þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 2,3% árið 2011 miðað við síðasta ár, og um 2,9% árið 2012.
Mér finnst menn vera kaldir að þykjast geta búið til "þjóðhagsspá" í skugga gjaldeyrishafta. Allt sem mælist til innflutnings er vanmetið í kostnaði fyrir "þjóðarbúið" (krónan er niðurgreidd með lánuðum gjaldeyrisforða), ýmis konar framkvæmdir eru ofreiknaðar (nútímaleg hagfræði er hreinlega hönnuð þannig) og áhrif skattahækkana, vaxandi regluverks og annarra letjandi og fjármagnssvæfandi aðgerða ekki tekin með í reikninginn (enda er ekki hægt að setja slíkt í tölur - hér er um atferlisatriði að ræða þar sem atferlið er fyrirfram þekkt* en tölulegar afleiðingar þess ekki).
Snögg yfirferð á þjóðhagsspánni (svokölluðu) er næg til að skjóta allt þetta skjal niður:
- Talað er um vaxandi kaupmátt launatekna sem muni leiða til vaxandi einkaneyslu. Dettur einhverjum í hug að taka slíkt trúanlegt í skugga gjaldeyrishafta?
- Ríkisreksturinn á að dragast saman um 4% að raunvirði árið 2011 skv. spánni. Er ríkið ekki að lofa öllu fögru þessa dagana til að múta verkalýðsfélögum til að skrifa undir 3ja ára kjarasamninga? Er bótakerfið ekki að þenjast út sem aldrei fyrr? Það getur vel verið að ríkið dragist saman um 4% en einkageirinn er að dragast enn hraðar saman svo niðurstaðan er stærra ríki ofan á minni verðmætaskapandi einkageira.
- "Óvissuþættir í spánni eru fjölmargir" segir berum orðum. Þetta er sennilega með því fáa sem er hægt að taka mark á í þessari völvuspá.
Síðan ríkisstjórnin tók við hefur hún endurtekið vanmetið samdráttaráhrif skattahækkana og ofmetið "tekjuhlið" þeirra. Nýjasta þjóðhagsspá Hagstofu Íslands er sennilega bara framhald á þeim "spá"mistökum. Þessari skýrslu má stinga niður í skúffu og í stað hennar getur komið heilbrigð skynsemi og 272 bls. af öllu bitastæðara lesefni.
* Dæmi: Hækkandi skattar leiða til þess að einstaklingar svæfa fjármagn, letja það eða flýja með það
Spáir 2,3% hagvexti í ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 3. apríl 2011
Bandaríkin að verða gjaldþrota
Fréttir um ástand hagkerfa geta oft verið villandi og stundum jafnvel ósannar. Þetta á t.d. við um 95% allra frétta frá Bandaríkjunum.
Bandaríska alríkið og fjöldi bandarískra ríkja stefna hratt í gjaldþrot. Í Bandaríkjunum prenta menn peninga eins og óðir, "skapa störf" í þjónustu og verslun, eyða gjaldeyri, skuldsetja sig, spara ekkert, framleiða minna og minna og þenja sífellt meiri ríkisrekstur út ofan á sífellt minni verðmætasköpun.
Obama er að kafsigla bandarísku skútunni. George W. Bush er af mörgum talinn vera einn versti forseti Bandaríkjanna. Allt sem hann gerði slæmt er Obama að gera mun verra. Munurinn á þeim tveimur liggur fyrst og fremst í ræðutækni og húðlit. Annað eiga þeir meira og minna sameiginlegt.
Hlutabréfaverð hækkaði vestanhafs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |