Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Samhengi seðlaprentunar og sveiflukennds hagkerfis

Fyrir tæpum 100 árum útskýrði austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hvernig seðlaprentun seðlabanka (ríkisstudd aukning á peningamagni í umferð - peningafölsun í einu orði sagt) tengist eilífum upp- og niðursveiflum í hagkerfinu. Sjá til dæmis hér. Seinasta hrun, "dot com"-bólan, er þar ekki undanskilin. Kenningin er rétt og hefur verið margsönnuð.

Stjórnvöld heims vilja hins vegar ekki kannast við kenningu Mises. Hún grefur undan réttmæti ríkisstjórna heims til að auka peningamagn til að láta hagkerfið líta út fyrir að vera í blóma. Í Bandaríkjunum er til dæmis vel þekkt kosningabrella sitjandi forseta að freista endurkjörs að stórauka peningamagn í umferð og vona að hrunið komi ekki fyrr en eftir kosningar.

Myndin hér að neðan (héðan) sýnir hvernig rýrnandi kaupmáttur bandaríska dollarans (sem, í fjarveru mannlegrar trúgirni, er í öfugu hlutfalli við breytingar á magni dollara í umferð) á það til að þýða upphaf "kreppu" í hagkerfinu (samkvæmt einhverri skilgreiningu).  Myndina má stækka með því að smella á hana.

PPIACO_Max_630_378

Athyglisverðast þykir mér seinasta niðursveifla (sú sem kennd er við punktur-com) þegar ástandið var um margt svipað því sem nú er. Hver ætlar að láta koma sér á óvart að markaðurinn leiðrétti verðlag gjaldmiðils (kaupmátt hans) eftir áralanga, vísvitandi rýrnun hans í formi lágra stýrivaxta, undir því yfirskyni að skortur sé á lausafé úr galdrasmiðju ríkisvaldsins?


mbl.is Kreppa í uppsiglingu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru þeir eitthvað meira en Litháar?

Mikið er ég ánægður með að lögreglan náði að upplýsa hinn skelfilega glæp.

Afbrotamennirnir eru Litháar. Skiptir það máli? Kannski finnst sumum það. Öðrum finnst kannski skipta máli að þeir voru útlendingar því hinir hreinu og saklausu Íslendingar láta sér aldrei detta í hug að nauðga!

Enn aðrir hefðu kannski meiri áhuga á að vita við hvað þeir störfuðu. Voru þeir byggingavinnumenn? Störfuðu þeir við fiskvinnslu? Ráku þeir sitt eigið fyrirtæki? Unnu þeir hjá Kaupþingi?

"Tveir Breiðhyltingar ákærðir fyrir nauðgun!"

Svo sannarlega frétt til næsta bæjar, eða hvað?

Staðreyndin er sú að þetta eru tveir einstaklingar, meðlimir Evrópusambandsins/evrópska efnahagssvæðisins og nú nýlega Schengen-svæðisins. Íslenskri lögreglu ber skylda að verja líkama og eigur einstaklinga á sínu gæslusvæði, hvort sem þeir komu hingað löglega, sluppu í gegnum landamæraeftirlit eða fæddust á okkar vindblásnu eyju. Ríkisfangið á vegabréfi þeirra, atvinna þeirra, húðlitur eða trúarbragð eiga ekki að vera aðalpunkturinn í frétt af svona málum. Eigi þessi einstaklingseinkenni að koma fram þá þykir mér sanngjarnast að fleiri en eitt þeirra séu nefnd.

Á einum stað er skrifað: "Nú eru „drukknir sjómenn" alveg hættir að sjást í fyrirsögnum íslenskra dagblaða. Menn „af erlendu bergi brotnir" eða bara Pólverjar eða Litháar eru teknir við. „Utanbæjarmenn" fremja þó enn afbrot á Akureyri."

Nýjir tímar, eða nýtt uppeldi fréttamanna í blaðamannaskólunum? 


mbl.is Ákærðir fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið gegn vestrænum lífskjörum er hafið

Nú þegar hin náttúrulega sameind CO2 hefur verið skilgreind sem "mengun" og gerð að ástæðu og drifkrafti núverandi loftslagsbreytinga (örlítil hitnun á seinustu 2-3 áratugum, sem nú hefur stöðvast) þá geta opinberir embættismenn og stjórnmálamenn óhræddir stungið upp á hverju sem þeir vilja til að setja lífskjör Vesturlanda í spennitreyju.

Eitthvað píp mun vitaskuld heyrast frá þeim sem valtað er yfir hverju sinni en slíkt er auðvelt að leiða hjá sér á yfirríkja-stigi evrópskrar stjórnsýslu þar sem enginn er kosinn til valda og verður því ekki kosinn frá völdum.

Ég trúi hins vegar ekki öðru en að almenningur muni spyrna við fótum þegar atlagan að lífskjörum hans byrjar að sjást með áberandi hætti á verðskiltum bensínstöðva og húshitunar- og rafmagnsreikningum; þegar fríinu þarf að aflýsa til að hafa efni á að kaupa nauðsynlega orku til að lifa þægilegu lífi.

Píslavottar miðalda slógu sig með svipum til að sýna Guði með þjáningum sínum að þeir væru verðugir til inntöku í himnaríki. Vonandi hefur slíkur masókismi horfið úr menningu okkar. 


mbl.is ESB vill beita bílframleiðendur CO2 sektum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að knýja bíla með korni er slæm hugmynd

Óveður, þurrkar, fellibylir og flóð hafa alltaf verið til staðar, í mismiklum mæli og yfirleitt staðbundið, og enginn hefur sýnt fram á að loftslagsbreytingar dagsins í dag séu að hafa nein áhrif þar á. Veikar vísbendingar hafa verið hraktar með sterkum vísbendingum. CO2 er einfaldlega ekki markverður drifkraftur loftslagsbreytinga miðað við t.d. sólbletti, El Nino Kyrrahafsins, vatnsgufu og fleira slíkt.

Hið nýja við það sem er að gerast í dag er að eftirspurn eftir matvælum er að aukast. Vissulega vegna þess að milljónir Asíubúa eru að rísa úr ömurlegri fátækt og til betri lífskjara, en einnig vegna þess að ríkir Vesturlandabúar hafa tekið upp á því að breyta kornmeti í etanól í stórum stíl til að knýja bílvélar sínar. Hagkvæmni þess er svo gott sem engin, a.m.k. ekki þegar verðlag byrjar að endurspegla hina tilbúnu nýju eftirspurn sem fyrst og fremst er knúin áfram af gallaðri heimsmynd um umhverfisvitund og "CO2 hlutleysi". Skynsemi þess að brenna matvælum er einnig mjög takmörkuð. Þessari iðju ættum við að hætta sem fyrst.

Vesturlandabúar, vinsamlegast borðið matinn ykkar og brennið olíunni. Það er til næg olía til a.m.k. 50 ára og því nægur tími til að finna hagkvæman orkugjafa sem mun með tíð og tíma leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Kjarnorka og vatnsafl hafa vissulega reynst arðbærir arftakar á mörgum sviðum víða um heim, en engan veginn hentugir þegar kemur að því að knýja ökutæki okkar og flugvélar. Við þurfum því að bíða enn um sinn eftir arftakanum, en gerum engum greiða með því að sóa auðlindum og landi í vindmyllustæði og kornrækt fyrir bensínbíla.


mbl.is Matvælaverð aldrei hærra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sársaukafull lífskjaraskerðing almennings framundan? Nehhh...

Hef litlu við seinustu færslu að bæta. Punkturinn er sá sami: Stjórnmálamenn að tala fyrir snarhækkun orkukostnaðar eru ekki að fara framkvæma nema að takmörkuðu leyti. Hættan við atvinnuleysi eftir næstu kosningar of mikil til að stjórnmálamenn þori að ráðast beint og óhamið á lífskjör kjósenda sinna.
mbl.is Stífar samningaviðræður á Bali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sársaukafull lífskjaraskerðing almennings framundan? Nehhh...

Ég held að sama hvað pólitíkusar ræða sín á milli til að ganga í augun á Al Gore að þegar heim er komið munu þeir aldrei þora að leggja út í stórkostlega hækkun á orkukostnaði almennings og fyrirtækja í sínum ríkjum. Óttinn við atvinnuleysi eftir næstu kosningar er einfaldlega of mikill.

Ríkjum Evrópusambandsins hefur ekki tekist betur upp við að "hemja" losun CO2 en til dæmis Bandaríkjunum sem beita allt annarri nálgun (frjálst framtak og útbreiðsla orkusparandi tækni). Kolaverum sem er lokað í Vestur-Evrópu er mætt með auknum orkukaupum úr kolaverum Rússlands. Vindmyllurnar hafa lítið sem ekkert að segja.

Samningsviðræður dagpeninga-launaðra stjórnmálamanna sem fljúga í einkaflugvélum og ganga um í dýrum jakkafötum vekja tvímælalaust upp ákveðinn ugg hjá mér. Þegar heim er komið munu þeir eyða örlitlu meira af fé skattgreiðenda í vindmyllur og e.t.v. leggja á aukaskatt á hvers konar orkunotkun. Dramatísk árás á lífskjör almennings mun hins vegar seint sýna andlit sitt, og þar með munu öll fyrirheitin um "takmörkun á losun" CO2 falla dauð til jarðar (eins og frægt er orðið um Kyoto-samkomulagið).


mbl.is Góður árangur í viðræðum á Balí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er bensínverð of LÁGT?

Um þessar mundir fundar fína fólkið frá ríkisstjórnum 190 ríkja í sólarparadísinni Balí og ræðir afleiðingar þess að bensínverð sé of lágt - að verðlag á olíu og bensíni sé það lágt að almenningur brennir óhamið og, að sögn, er þar með að hækka hitastig um 0,1 gráðu að meðaltali á áratug, þá sérstaklega á köldustu og þurrustu svæðum jarðar að nóttu til.

Rætt er um að ríki heims komi sér saman um einhvers konar "bindandi samkomulag" um hvernig á að snarhækka bensínverðið og neyða þannig almenning og fyrirtæki til að skerða orkunotkun sína. Einhverjir halda því fram að slíkt þurfi "ekki endilega" að koma niður á lífskjörum eða hægja á lífskjarabætingu fátæklinga heimsins, en slíkt tal er vitaskuld marklaust. Ef þú, kæri lesandi, ert neyddur til að tvöfalda eyðslu þína í orkunotkun er nokkuð ljóst að einhvers staðar þarf að skera niður í útgjöldum þínum. Hvort það verður í mat, sparnaði, húsnæði eða lyfjum er háð aðstæðum hvers og eins. Þú gætir vitaskuld lifað í myrkri og haldið þér heima við, en fáum finnst það freistandi tilhugsun.

Er bensínverð of lágt? Þeir í Balí virðast halda því fram, svona rétt á meðan þeir eru ekki að fylla á einkaflugvélarnar sínar.


Hvað með fátækt, sjúkdóma og vannæringu?

Nú þykir mér forgangsröðun "alþjóðasamfélagsins" vera komin til fjandans. Í stað þess að tala um að "útrýma fátækt" (með niðurfellingu viðskiptahafta) er talað um að bjarga vesalings fátæklingunum frá veðrabreytingum. Hollendingar urðu fyrst ríkir og byggðu svo öfluga hafnargarða. Íslendingar urðu ríkir áður en þeim tókst að byggja brú sem þolir Skaftárhlaupin (flest þeirra).

Íbúar Bangladesh, sem með núverandi hagvexti tekst að verða jafnríkir og Hollendingar í dag eftir lítil 20 ár, hvað eiga þeir að gera? Jú, vera fátækir og láta ríku Vesturlöndin gefa sér ölmusa til að verja sig gegn veðurfarsbreytingunum eilífu.

Mesta áskorun okkar tíma er áframhaldandi áhersla á niðurfellingu viðskiptahafta, og ef einhverju fé á að eyða í sértækar, miðstýrðar aðstoðaráætlanir þá að eyða því í lyf til að tækla hina auðlæknanlegu sjúkdóma og tæknilega ráðgjöf sem aðstoða sósíalíska spillta einræðisherra að losa sig við völd sín.


mbl.is Loftslagsbreytingar mesta áskorun okkar tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni, sýndu nú gott fordæmi og hættu að fljúga til sólarlanda handan hnattarins

“The current warming trend is simply part of a natural cycle of climate warming and cooling that has been seen in ice cores, deep-sea sediments, stalagmites, etc., and published in hundreds of papers in peer-reviewed journals. The mechanism for producing such cyclical climate changes is still under discussion; but they are most likely caused by variations in the solar wind and associated magnetic fields that affect the flux of cosmic rays incident on the earth’s atmosphere. In turn, such cosmic rays are believed to influence cloudiness and thereby control the amount of sunlight reaching the earth’s surface—and thus the climate.” (Heimild)

Er ekki hægt að sanna og afsanna allt með því að skoða réttu tölurnar og túlka á réttan hátt? Jú, ætli það ekki. Er búið að sanna að Balí-ferðalag Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands, sé að valda breytingum í loftslagi Jarðar? Sennilega trúir hann því sjálfur (og kærir sig kollóttan því hann er að komast í sólarfrí á reikning annarra). Ég trúi því ekki. Ef ég tryði því þá væri mér líka alveg sama, því mannleg velferð Árna er (honum) mikilvægari en samkeppni mólikúla um pláss í lofthjúpnum, eða ég býst við því.

Hið minnsta sem ég get krafið græningjana um er að þeir sýni gott fordæmi. Af hverju þessi eilífa barátta fyrir ríkisþvinguðum lögboðnum lögregluaðgerðum gegn ísskápa- og bílnotkun almennings, og það í nafni vísinda sem eru vægast sagt ennþá á þróunarstigi? Af hverju sýna skattfjárfóðraðir embættismenn ekki einu sinni viðleitni til að sýna í verki að þeir trúi því sem þeir segja í orði?

Núna er stæðaskortur fyrir einkaflugvélar á Balí (takk Sigurgeir!). Hvað segir það okkur um meintan vilja stjórnmálamannanna til að gangast undir sársaukafullar lífskjaraskerðingar í nafni vísindagreinar sem enn hefur ekki haft rétt fyrir sér um nokkurn skapaðan hlut? 


mbl.is Mikil spenna á Balí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BNA þrjóskast við að stífla hagvöxtinn

Senn kemur sá dagur þegar fólk byrjar almennt að átta sig á því að þær fórnir í lífskjörum, hagvexti og mannlegri velferð sem skerðing á CO2-losun krefst eru of miklar til að sætta sig við. Evrópuríkin hafa brennt auðævum sínum á altari vindmylla og sólarpanela og keypt ódýra orku úr austri til að bæta upp fyrir lokun eigin orkuvera. Á endanum þurfa þau samt að herða tök sín á markaði og snarhækka orkukostnað evrópskra heimila ef ætlunin er í raun og veru sú að minnka CO2-losun.

Þegar sá dagur kemur mun óttinn við CO2 dofna og menn byrja aftur að líta á hina náttúrulegu sameind sem hluta af andrúmsloftinu og ósköp áhrifalítinn hluta þegar kemur að sífelldum breytingum í hitastigi lofthjúpsins, t.d. miðað við vatnsgufu og skýjafar. Aðrir munu halda áfram að trúa á ofurmátt CO2-sameindarinnar en sætta sig við losun hennar því hún er nauðsynleg hliðarafurð þess að færa mannkyninu dýrmæta orku.

Niðurstaðan verður í báðum tilvikum ein: Losun CO2 er nauðsynleg á meðan hagkvæm orkulind sem leysir af olíu er ó(upp)fundin. Næg olía er í jörðu til næstu 50-70 ára svo nægur er tíminn!

Þessi uppljómun almennings er hins vegar fjarri enn sem komið er. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að Bandaríkin - "drifkrafturinn" í heimshagkerfinu - haldi áfram að hafa yfir 4% hagvöxt á ári í langtímameðaltali og halda út sem hinn "illi sóðalegi óvinur umhverfisins" eins lengi og hægt er. Clinton og GW Bush gerðu báðir vel með því að neita að skrifa undir bindandi alþjóðasamþykktir um takmörkun á losun CO2 og vonandi heldur næsti Bandaríkjaforseti áfram á sömu braut (hjálp!).


mbl.is Bandaríkin skrifa ekki undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband