Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Þriðjudagur, 4. desember 2007
Markmið Íslands: Hægja á þróun þróunarríkjanna?
Notkun hagkvæmasta orkugjafans, jarðaefnaeldsneytis, hefur í för með sér losun á CO2 í andrúmsloftið. Um þetta er varla deilt. Er deilt um hagkvæmnina? Já, en bara staðbundið, allt eftir landslagi og gerð jarðlaga.
Vanþróuð ríki eða ríki á hraðri leið til þróunar eru að auka brennslu sína á jarðefnaeldsneyti í stórum stíl núna. Um þetta er ekki deilt.
Rík Vesturlönd eru að reyna draga úr notkun sinni á jarðefnaeldsneyti og nota til þess mikinn auð sinn til að skipta yfir í óhagkvæma orkugjafa, t.d. vind- og sólarorku. Sum eru meira að segja byrjuð að brenna matvælum (með því að breyta korni í etanól) með tilheyrandi hækkun á verði þeirra (minna framboð til manneldis leiðir til hærra verðs).
Ég veit ekki alveg hvað vakir fyrir þeim sem segja að vanþróuð og fátæk ríki eigi að skipta í auknum mæli yfir í dýra orkugjafa sem þau sjálf hafa ekki álitið hagkvæma eða fýsilega. Stundum skortir bara tækniþekkingu og sérfræðinga en tímabundið lán á slíku hefur lítið upp á sig þegar til lengri tíma er litið. Fyrst þarf að verða ríkur, svo er hægt að mennta sig í háþróuðum vísindum og fræðum. Tímabundið lán á sérfræðingum hefur lítið að segja.
Er í alvöru verið að leggja til að Kína og Indland hætti að auka stórkostlega notkun sína á þeim orkugjöfum sem taldir eru hvað hagkvæmastir og fýsilegastir í dag? Hvers vegna? Vegna þess að hitastigið er að sveiflast upp en ekki niður um þessar mundir? Vegna þess að CO2, þessi ágæta sameind sem byggir upp líkama okkar og er mikilvægt hráefni ljóstillífunar hjá plöntum, er allt í einu orðin að "mengunarvaldi"?
Einhver má vinsamlegast svara mér eftirfarandi spurningu, til að hjálpa mér að skilja:
Ef aukning á notkun hagkvæmasta orkugjafa nútímans á að takmarkast við núverandi notendur hans sem hafa nú þegar eignast auðævi og hafa efni á að nota dýra og óhagkvæma orkugjafa, hvað eiga þeir fátæku þá að gera til að bæta lífskjör sín?
Markmið í loftslagsmálum kynnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |