Fallöxin sem hangir uppi í bili

Flestir sem lesa þetta búa í því sem oftast er kallað frjálst lýðræðisríki þar sem stjórnarskrá verndar réttindi borgaranna og heldur aftur af ríkisvaldinu, menn borga skatta til að fá aðgang að innviðum, heilbrigðiskerfi og menntastofnunum frekar en borga beint fyrir notkun á slíku, einhvers konar velferðarkerfi er til staðar sem heldur utan um marga og langa biðlista af ýmsu tagi, almenningur fær að kjósa á milli úlfa í sauðagærum og sauða með falskar tennur og svona mætti lengi telja.

Yfirleitt tökum við ekki eftir ríkisvaldinu í svona fyrirkomulagi. Samfélagið hefur sinn gang, vinna, fjölskylda og félagslíf skiptist á tíma okkar og við tökum í höndina á fólki sem við erum að kynnast. Við köllum samfélag okkar frjálst og laust við endalaus afskipti, svo sem að vera krafin um skilríki við hvert götuhorn eða bannað að hitta aðra vegna skoðana þeirra eða annarra persónulegra eiginleika. 

En við höfum líka gleymt veirutímum sem voru einmitt þessi endalausu ríkisafskipti af okkar daglega lífi. Við vissum ekki að hið opinbera gæti gert allt sem að gerði til að raska lífum okkar. Vissulega stendur einhvers staðar að neyðarástand geti kallað á ýmsar skerðingar en túlkun yfirvalda á slíkum heimildum fór úr öllum böndum og þau komust upp með það.

Það mætti segja að fallöxi hafi verið látin detta á samfélagið og skar af okkur frjálst mannlíf og samfélag.

Síðan hefur ekkert breyst nema að það er búið að toga fallöxina upp og festa.

Hún er ekki farin neitt. Það er jafnvel búið að slípa hana. Hún er þarna og vofir eins og skuggi yfir samfélaginu. Nýtt neyðarástand, eða svokallað neyðarástand, og hún verður látin falla aftur.

Mér finnst óþægilegt að vita af þessari fallöxi. Það er einhver böðullinn líka sem klæjar í fingurna að fá að sleppa henni aftur. Það gæti verið vegna stríðsátaka sem er búið að lokka inn í landið, óþarfa ótta við loftslagsbreytingar, jafnvel innfluttrar borgarastyrjaldar í boði innflytjenda og yfirvalda. Yfirvöld hafa greiðan aðgang að hugsunum flestra sem samþykkja allt sem þau segja. Það tók ekki langan tíma að hræða okkur með veiru og margir nú þegar að lamast af ótta yfir loftslaginu. Fer að styttast í að fallöxin verði send af stað aftur? Og erum við á meðan eins og kalkúnar innan girðingar sem halda að úr því þeir eru á lífi eftir 999 daga að þá verði þeir það líka eftir 1000 daga?

Persónulega er ég að reyna gera einhverjar ráðstafanir en ekki nógu mikið, satt að segja. Það er ekki hægt að treysta því að bankainnistæðan verði aðgengileg. Skólar gætu lokað. Greiðslukortin gætu hætt að virka. Það er hægt að finna skít á alla, sérstaklega á netinu, og senda á atvinnurekanda og jafnvel lögreglu. 

En ég get haldið áfram að mennta mig. Lesa bækur eftir andspyrnumenn veirutímanna. Verða ósigrandi í röksemdafærslunni. Það er líka hægt að styrkja sig líkamlega svo seinasta glundrið úr tilraunastofum yfirvalda hafi minni neikvæð áhrif. 

En mikilvægast af öllu: Að mynda gott og mikið tengslanet af fólki sem ætlar ekki að láta traðka á sér, aftur. Og þar er ég í góðum málum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Rétti tíminn til að taka höndum saman!

Helga Kristjánsdóttir, 13.4.2024 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband