Þotuliðið mun ekki sætta sig við þetta

Kæra hefur verið lögð fram á hendur Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli vegna brots á áfengislögum. Kærendur, HBO vín ehf., vilja meina að engin lagaheimild sé fyrir hendi til þess að selja áfengi í Fríhöfninni. 

Snillingar!

Ef dómstóll samþykkir þessa kæru og leggur á lögbann á tollfrjálsa áfengissölu í íslenskum flugvöllum er ljóst að þotuliðið verður brjálað. Opinberir embættismenn og vel borgaðir viðskiptaferðalangar líta á aðgengi að tollfrjálsu áfengi sem nokkurs konar fríðindi eða bónus. Þetta fólk á fulla vínskápa af koníak, vodka og gini sem sauðsvartur almúginn getur ekki leyft sér að kaupa á venjulegu verði í tolluðum vínbúðunum.

Um leið er þotuliðið á því að áfengi til almennings eigi að vera dýrt og óaðgengilegt - annars fara allir sér jú að voða, ekki satt?

Ef fríhafnaráfengi hættir að vera í boði mun þotuliðið ekki sætta sig við það. Áfengislöggjöfinni verður breytt á slíkum hraða og í slíkri fjarveru umræðu á Alþingi að furðu sætir. Löggjöfinni verður ekki breytt til rýmkunar á sölufyrirkomulagi áfengis heldur eingöngu til að koma til móts við þotuliðið svo það geti áfram haft aðgang að tollfrjálsu áfengi. Vínbúðir ríkisvaldsins munu standa óhreyfðar á einokunrstalli sínum utan flugvallanna.  

Þetta verður spennandi mál, en um leið svo fyrirsjáanlegt. 


mbl.is Bannað að selja áfengi í Fríhöfninni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar börn festast í kerfinu

Þegar löggjöf er mjög nákvæm og á að ná yfir allt hugsanlegt og óhugsanlegt skapast tvö vandamál:

- Sveigjanleiki fólks til að gera samninga sín á milli er í raun kæfður

- Ef eitthvað fellur utan lagarammans festist það á eilífu gráu svæði

Það mætti segja að nákvæm löggjöf geri allt sem ekki er sérstaklega tilgreint sem löglegt - ólöglegt!

Þetta er breyting frá því sem áður var þegar almenn lög voru skrifuð og nákvæm túlkun þeirra leyst fyrir dómstólum. Nú þykist löggjafinn geta séð allt fyrir með ófyrirséðum afleiðingum.

Sem dæmi má nefna glóperuna sem Evrópusambandið bannaði og Íslendingar töldu sig þurfa að banna líka. Nú virðist vera að koma í ljós að glóperan - með svolítilli viðbót - er í raun miklu skilvirkari ljósgjafi en hinar svokölluðu sparperur. Vandamálið er hins vegar að nú standa lögin (meðal annars) í veg fyrir hraðri útbreiðslu tækninnar. Eða eins og segir á einum stað:

Why should governments be in the business of picking right and wrong technologies at all?

Þetta er spurning sem fáir geta svarað svo vel sé. Það er þá helst hægt að útskýra málið með því að velta því fyrir sér hvort stuðningsmenn opinberra boða og banna séu einfaldlega hræddir við sjálfa sig og hæfileikann til að prófa sig áfram, gera mistök og læra af reynslunni. 

Er þetta fólkið sem á að ráða?


mbl.is Hagir barns breyta ekki konu í móður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfsögðu

Það er gott að einhverjir vinstrimenn á Alþingi líta ekki á það sem eina hlutverk sitt að fá sem mestan tíma í ræðustól.

Auðvitað á Ísland að stunda frjáls viðskipti við Japan og við heiminn ef því er að skipta.

Til þess þarf samt ekki neina sérstaka samninga sem vefja viðskipti inn í allskonar skilyrði og undanþágur frá þeim. Alþingi getur einfaldlega ákveðið að afnema alla tolla og allar hömlur á frjáls viðskipti við allan heiminn - á morgun!

Þetta myndi þýða að í einhverjum tilvikum kæmu vörur frá einhverju landinu ótollaðar inn til Íslands á meðan íslenskar vörur lenda í háum tollum þegar þær fara í hina áttina. Það er samt engin ástæða til að tolla eitthvað. Þótt nágranninn grýti höfnina sína er engin ástæða fyrir okkur að grýta okkar.

Frjáls verslun er réttlætismál en ekki spurning um krónur sem lenda í höndum stjórnmálamanna. 


mbl.is Sammála um fríverslun við Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málfrelsið nær bara til viðtekinna skoðana

Ekki má tjá sig um hvað sem er, jafnvel ekki skoðunum sem byggjast á friðsamlegri andúð við ýmislegt í samfélaginu. Ef það gerist er skoðanalögreglan mætt á svæðið til að krefjast atvinnuleysis og útskúfunar.

Halda menn að þar með sé umburðarlyndi aukið? Eða óæskilegar skoðanir (að mati sumra) kæfðar?

Nei, það sem gerist er að skoðanir fara í felur og í lokaða hópa og þar fá þær að skjóta djúpum rótum og smita laumulega út frá sér. Þannig mæta þær minnstri mótstöðu og ná mestri útbreiðslu. 

Skoðanalögreglan er sinn versti óvinur því hún vinnur óbeint að því að virðingin fyrir henni verður lítil sem engin. Pólitískur rétttrúnaður fæðir beinlínis af sér og styrkir þær skoðanir sem honum er stefnt gegn.

Ég segi við rasista, hommahatara og útlendingahatara heimsins: Þið hafið sigrað umræðuna! Því miður ...


mbl.is Félagsráðgjafanema vikið úr skóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar kæra sig ekki um norræna módelið

Íslendingar líta gjarnan til Norðurlandanna eftir fyrirmyndum. Sem dæmi má nefna ýmis boð og bönn: Ef eitthvað er bannað á einhverju Norðurlandanna þá er barist fyrir sama banni á Íslandi. Ef einhver skattur er lagður á í einhverju Norðurlandanna þá er talið við hæfi að leggja á svipaðan skatt á Íslandi - vitaskuld með tilvísun til Norðurlandanna.

Lengra nær samanburðinn samt ekki. Ef eitthvað er frjálslyndara á öðrum Norðurlöndum þá er baráttan fyrir svipuðu frjálsræði lítil og veik á Íslandi.

Norræna módelið í rekstri heilbrigðisþjónustu er blandað módel opinbers reksturs og einkareksturs. Flóran er mikil og fjölbreytt, frá stórum ríkissjúkrahúsum til stórra sjúkrahúsa í einkaeigu sem eru rekin með það að markmiði að skila hagnaði.

Íslendingar kæra sig vitaskuld ekki um norræna heilbrigðisþjónustumódelið því það er frjálslyndara en hið íslenska. Hérna sækja Íslendingar fyrirmyndir til Bretlands eða jafnvel Austur-Evrópu. Því miður.


mbl.is Úrelt hugsun stjórnmálamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bland í poka eins og flestir flokkar

Nú stígur enn einn stjórnmálaflokkurinn fram með bland í poka í boði: Ríkisvaldið á að gera hitt og þetta en um leið á að ríkja einstaklingsfrelsi og hvaðeina. Sérstök áhersla á að banna moskur og hafna fjölmenningunni er sjálfsagt helsti sölupunkturinn. Hugsanlega er hljómgrunnur fyrir slíku, hugsanlega ekki.

Það er gott og vel að framboð stjórnmálaflokka aukist en það er erfitt að sjá hverju það breytir. Flestir stjórnmálaflokkar snúast í kringum breytingar á ríkisvaldinu sem leiða yfirleitt til stækkunar þess. Það er miður. 

En nú er sem sagt Íslenska þjóðfylkingin fædd og minnir að mörgu leyti á Danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti) í fljótu bragði, auk annarra skyldra flokka á hinum Norðurlöndunum. Menn ættu að fara varlega í að vanmeta slíkar hreyfingar því nú á tímum stórra þjóðflutninga eru margir sem vilja spyrna við fótum þótt fáir þori að segja það upphátt af ótta við að vera uppnefndir rasistar. 


mbl.is Hægri grænir heyra sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verndaðar starfsgreinar eru vanmáttugar starfsgreinar

Bændur njóta tollaverndar og niðurgreiðslu.

Í staðinn fær ríkisvaldið mikinn aðgang að starfsemi þeirra og getur í raun ákveðið hver fær að lifa og hver ekki.

Þetta virðast hagsmunasamtök bænda vilja. Þau vilja vera í kæfandi faðmi hins opinbera, eins og ungabarn á brjósti.

En segjum sem svo að stjórnvöld afnæmu, í hæfilega hröðum skrefum, alla vernd við landbúnað á Íslandi og tækju alla styrkina (í skiptum fyrir rýmri regluramma og lægri skatta, vitaskuld). 

Hyrfi landbúnaður á Íslandi? Myndu byggðir leggjast í eyði?

Nei. Land getur verið verðmætt af mörgum ástæðum. Menn reisa sumarhús, rækta skóga, leggja göngustíga og reisa hótel á fallegum svæðum. Kannski yrðu til fleiri golfvellir. Kannski fengi náttúran að endurheimta eitthvað land. Hægt væri að gera tilraunir með það að markmiði að framleiða á heimsmarkað og þá í stærri stíl - búin myndu stækka. Kannski er eftirspurn eftir íslenskum landbúnaðarvörum á heimsvísu slík að landbúnaður myndi hreinlega aukast. 

Um þetta er erfitt að spá en það þarf enginn að óttast. Framtíðin er ekki bara óvissa heldur líka tækifæri. Bændur gætu orðið raunverulega sjálfstæðir atvinnurekendur og það gæti hleypt í þá nýju blóði - að í stað þess að vera fátæk stétt á ríkisspenanum þá yrðu þeir öflugir athafnamenn.

Bændur ættu hér sjálfir að snúa við blaðinu og krefjast þess að ríkisvaldið dragi sig í hlé - fækki reglunum, lækki skattana, afnæmi styrkina og tollana og hleypti þeim af stað.


mbl.is Þingið hafni vondum samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið tekur á einum enda og veitir á öðrum

Í ágætri grein á einum stað er bent á eftirfarandi:

Hvers vegna búum við ekki frekar til þannig aðstæður að húsnæðiskostnaður verði sem lægstur í stað þess að hækka hann á einum enda opinbers rekstrar og greiða hann niður á öðrum?

Svarið er auðvitað það að lægri skattar og minna kerfi þýðir minni völd fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn.

Þessu má líkja við mann sem fer á sjúkrahús til að fá blóð en um leið heldur hann stóru svöðusári opnu svo úr blæðir. Þessi maður gæti sleppt blóðgjöfinni ef hann lokar svöðusárinu. Þannig yrðu læknar hans vissulega atvinnulausir og sjúkrahúsið sæti uppi með tómt rúm en væri þetta samt ekki betri lausn?

Hagfræðiprófessorar - meira að segja þeir færustu - eiga það til að einblína of mikið á tölurnar í Excel ("...ætti leiðin að kosta rík­is­sjóð svipað og nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag") og gleyma því hvað er í raun og veru besta lausnin. Hér væri besta lausnin að fylgja leiðbeiningunum í þessari grein og um leið gætu stjórnmálamenn hugað að einhverju öðru en húsnæðiskostnaði, svo sem aldursdreifingu embættismanna


mbl.is Ný hugmynd fyrir fyrstu íbúðarkaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Detroit Íslands

Ætlar Hafnarfjörður að breytast í Detroit Íslands?

Detroit var á sínum tíma höfuðborg bílaiðnaðar Bandaríkjanna og á þeim tíma þar með heimsins. Þarna voru bestu bílarnir framleiddir og þeir voru líka á hagstæðu verði. Fyrirtækin græddu vel og borguðu starfsmönnum sínum betur en gekk og gerist til að halda í þá bestu.

Síðan mættu verkalýðsfélögin á svæðið og byrjuðu að heimta. Í skjóli löggjafarinnar gátu þau knúið á um enn hærri laun, betri tryggingar og torveldari uppsagnarferla. Starfsmenn urðu latir. Talað var um "mánudagsbíla" - þá sem voru framleiddir á mánudögum þegar starfsmenn voru þreyttir og latir. 

Gæði bíla versnuðu og verð á þeim hætti að vera samkeppnishæft. Detroit dróst aftur úr samkeppnisaðilunum. 

Um leið minnkaði framboð vinnu og fólk hóf að flýja borgina. Verkalýðsfélögin gáfu ekkert eftir en um leið var líkaminn sem þau nærðust á að deyja. Borgin varð skuldsettari og skuldsettari. 

Árið 2013 lýsti Detroit sig gjaldþrota. 

Verður Hafnarfjörður að Detroit Íslands?


mbl.is Verkallsverðir stöðvuðu útskipunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræna leiðin er ólík þeirri íslensku

Ef Íslendingar vilja bæta sig í samanburði við Norðurlöndin þá er ekki nóg að einblína á eitthvað eitt og gleyma öllu öðru.

Það má vera að hin Norðurlöndin verji meira af landsframleiðslu sinni í heilsbrigðisþjónustu en munurinn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er sá að einkarekstur er umborinn í miklu meiri mæli á hinum Norðurlöndunum. Í Danmörku, svo dæmi sé tekið, má finna fjöldan allan af einkareknum fyrirtækjum sem sinna heilbrigðisþjónustu. Flest eru þau vissulega í samstarfi við hið opinbera um fjármögnun, en einnig við tryggingafélög og jafnvel einstaklinga sem vilja borga úr eigin vasa.

Norræna leiðin er því blönduð leið - samstarf einkaaðila og hins opinbera - á meðan íslenska módelið gengur út á að efla hið opinbera kerfi og halda einkaaðilum að sem mestu leyti frá. 

Ég segi því: Stefnum endilega að því að eyða meira fé í heilbrigðisþjónustu en um leið að því að auka hlutdeild einkaaðila á þessum markaði. Eða af hverju eru það eingöngu sjóndaprir og kvenfólk í leit að stærri brjóstum sem fá að láta einkaaðila keppa um viðskipti sín með gæðum, verðlagi og nýjustu tækni?


mbl.is Yfir 80 þúsundir undirskriftir komnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband