Innflytjendur flytja inn meira en spennandi uppskriftir

Með innflytjendum koma ekki bara spennandi og framandi uppskriftir, aukið úrval veitingahúsa og ferskur blær hugmynda.

Með innflytjendum koma líka hugsanir þeirra, hugmyndir, menning og skoðanir.

Ekki er þar með sagt að það sé eitthvað slæmt. Nú vita t.d. Danir alveg hvað fylgir íslenskum innflytjendum: Ásókn í nám og bætur, nothæft vinnuafl, aukin bjór- og nammisala og illa lyktandi samkomuhús vegna þorrablóta og hangikjötssuðu. 

Innflutt menning og innfluttar skoðanir eru líka frekar áhrifalausar ef fjöldi innflytjenda er lítill þannig að þeir þynnist vel út meðal innfæddra. Þannig eru þorrablótsmenguð samkomuhús fá og langt á milli þeirra. Fjöldinn má heldur ekki vera meiri en svo að atvinnulífið og skólarnir geti ekki með góðu móti gleypt hann án róttækra breytinga á umgjörð sinni. 

Nú ætla ég ekki að fullyrða að nauðgun sé einhver sérstakur hluti af menningu sums flóttafólks í Noregi. Þó telja Norðmenn sig hafa ástæðu til að setja karlkynsflóttamenn á sérstök námskeið þar sem þeim er "kennt ým­is­legt er varðar menn­ing­armun í rétt­ind­um kvenna og viðeig­andi fram­komu í þeirra garð milli heimalanda fólks­ins og Nor­egs."

En sem sagt, þá er því haldið til haga. 


mbl.is Ákærðir fyrir hópnauðgun í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almennt um áhrif ríkisafskipta

Búvörusamningar eru vinsælt deiluefni á Íslandi. Sumir eiga varla til orð yfir því að bændur njóti styrkja. Mjólk og kjöt má jú flytja inn. Ekki þurfa allir bændur styrki. Ekki eru allar atvinnugreinar á opinberum styrkjum. Af hverju geta þessir bændur ekki bara staðið undir sér sjálfir?

Þeir sem hneykslast hér eru samt rólegri þegar kemur að öðrum ríkisafskiptum, svo sem af framleiðslu listræns efnis. Þó hafa ríkisafskiptin nákvæmlega sömu áhrif hér og í landbúnaði. Nánar um það síðar.

Bændur eru bundnir inn í flókinn frumskóg niðurgreiðslna og ríkisafskipta. Þeir geta ekki bæði fengið fé frá hinu opinbera (og úr vösum skattgreiðenda) og hegðað sér eins og þeim sýnist, þ.e. eins og aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur. Nei, þeim er gert að uppfylla allskyns kröfur og þurfa að sætta sig við allskyns fyrirmæli frá skrifstofufólki hins opinbera. Þeir fá niðurgreiðslur en eru fastir í kerfinu. 

Bændur hljóta að vera hugsi yfir þessu. Eru þeir ekki að framleiða hágæðavöru sem mikil eftirspurn er eftir, bæði hérlendis og erlendis? Hafa þeir ekkert á móti því að fá skammtað gegn því að haga sér eins og aðrir segja, rétt eins og hver annar krakki?

Vegur kannski meira sá ótti sem hið frjálsa fyrirkomulag vekur í huga þeirra? Óttast þeir, allir sem einn, að fara lóðbeint á hausinn ef féflettir skattgreiðendur hætta að ausa í þá fé og neytendur einir fá því ráðið hver græðir og hver ekki?

Ríkisafskipti af landbúnaði eru skaðleg öllum rétt eins og gildir um ríkisafskipti af öllu öðru, þar á meðal af framleiðslu listræns efnis. Þau verðlauna ekki þá bestu, hugmyndaríkustu eða framsæknustu, heldur þá sem eru í náðinni hjá hinu opinbera hverju sinni. Þau niðurgreiða suma á kostnað annarra. Þau verðlauna þá sem framleiða eftir höfði yfirvalda og refsa öðrum sem hugsanlega hefðu verið betri í að framleiða eftir höfði neytenda. 

Ríkisafskipti af landbúnaði eru eins konar velferðarnet sem bændur eru flæktir í. Án ríkisafskiptanna telja þeir sig fara á hausinn. Með þeim eru þeir bara launað vinnuafl hins opinbera. 

Auðvitað á hið opinbera á Íslandi að hætta niðurgreiðslum til landbúnaðar, rétt eins og það á að hætta að niðurgreiða listræna framleiðslu hinna útvöldu og veita sérstakar skattaívilnanir til ákveðinna fyrirtækja. Reglugerðafrumskóginn á líka að afnema að mestu leyti, sem og skattheimtuna, og völdunum á að skila til neytenda. Tugþúsundir íslenskra neytenda og margar milljónir erlendra neytenda eru miklu betri en örfáir opinberir starfsmenn í að ákveða hvern á að verðlauna og hvern ekki. Neytendur eru kjósendur á lýðræði markaðarins. Opinberir starfsmenn eru smákóngar í valdapíramída hins opinbera. 


mbl.is Þetta er frágengið mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefst hið opinbera bara ekki upp á þessu?

Hið opinbera ætti að líta í eigin barm og lýsa því yfir að það sé búið að gefast upp á því að reyna stjórna umferð og leggja vegi og stíga sem gagn er að. Vegakerfið verði selt og skattar vegna þess lagðir af.

Þetta væri snyrtileg lausn og myndi rýmka töluvert til í dagatali stjórnmálamanna. 

Ríkisvaldið ákvað á sínum tíma að það þyrfti ekki að standa í rekstri símafyrirtækja. Þar var opnað á frjálsan markað og skattfé var ekki lengur eytt í lagningu samskiptaloftneta og landlína. Flestir kannast við afleiðingarnar: Einkaaðilar spruttu upp, verðlag lækkaði, úrval jóks og verðlag fór að endurspegla kostnað og samkeppnisumhverfi.

Innviðir eins og vegalagning eru að mörgu leyti miklu einfaldari rekstur og framkvæmd en sífelld endurnýjun á símaþjónustu og gagnaflutningum. Hérna þarf ekkert ríkisvald. Ekki er heldur um að ræða miklar tæknilegar hindranir. Ef sími getur skynjað tilvist fjölda tengimöguleika og valið þann rétta en til vara einhvern annan gegn hærra gjaldi þá geta litlir skynjarar í bílum tryggt samskipti vegaeigenda og ökumanna snuðrulaust. Tollahlið yrðu sjaldséð sjón. Skattar snarlækka á bíla og bensín og fé leitar til þeirra sem leggja hagkvæmustu vegina og verðleggja rétt eftir tíma sólarhrings, þyngd ökutækja og almennu viðhaldi og aðgengi.

Kæra ríkisvald, slepptu vegakerfinu úr snöru þinni! 


mbl.is Peningar í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins nýtt efni frá Mannanafnanefnd!

Fyrir frjálshyggjumanninn er alltaf gleðiefni þegar Mannanafnanefnd gefur frá sér nýja úrskurði. Hvers vegna? Jú, því hérna verða ríkisafskipti svo augljóslega kjánaleg og jafnvel andstyggileg að fólk fer jafnvel að leiða hugann að ríkisafskiptum af öðru.

Ekki þarf að skilja grunnatriði i hagfræði, heimspeki, lögfræði eða sögu til að sjá hvað ríkisafskipti af nöfnum eru einkennilegt fyrirbæri.

Ekki þarf að hugsa í krónum og tölum. Um er að ræða nöfn og þau skilja allir.

Mannanafnanefnd er vinur frjálshyggjumannsins því hún treður fólki svo augljóslega um tær að það kveikir frelsisglóð í hjörtum margra. 


mbl.is Má ekki heita Einarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins sinnir lögreglan glæp!

Mansal er alvarlegur glæpur á mælikvarða allra. Það er gott að sjá að lögreglan hefur ennþá tíma til að sinna glæp eins og þessum í stað þess að eyða orku sinni og fé í að handtaka einstæða feður fyrir plönturækt, hella niður landa hjá unglingum og loka skemmtistöðum þar sem yfirvöld telja að háttatími fullorðins fólks sé skollinn á.

Nú eiga yfirvöld ekki að skipta sér af því hvaða efni ég set í líkama minn, hver sefur hjá hverjum gegn gjaldi, hvað ég vaki lengi, hvað ég segi og hvaða plöntur ég rækta. Þau gera það samt og það kostar mikið fé. Lögreglan ber við fjársvelti og manneklu en í raun er hún bara of upptekin við að framfylgja allskyns lögum sem mætti afnema með öllu. Lögreglan ruglar saman glæpum og lögbrotum ef svo mætti að orði komast. 

Lögreglan á hér svolitla sök sjálf því hún hefur þrátt fyrir allt möguleika á að forgangsraða. Hún velur að ég held oft að forgangsraða þannig að mál á hennar könnu fái sem mesta umfjöllun og athygli. Blaðamenn vilja fá gott myndefni - t.d. af lögreglumönnum að halda á stórum blómapottum með kannabisplöntum. Lögreglan veit það. Á sama tíma fá glæpamenn svigrúm til að athafna sig. Mansal, ofbeldisglæpir og þjófnaðir eru raunverulegir glæpir sem fara fram á meðan lögreglumaðurinn hellir úr landabrúsa unglingsins. 

Ég vil þakka lögreglunni fyrir að rannsaka ábendingu um mansal og vona að hún byrji í auknum mæli að forgangsraða alvöruglæpum ofar lögbrotum sem henta til stórra fyrirsagna. 


mbl.is Handtekinn vegna mansals í Vík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ríkið að vasast í þessu öllu saman?

Af hverju er það nánast eingöngu á könnu ríkisvaldsins að ræða vegaframkvæmdir og annað slíkt? Geta einkaaðilar ekki sinnt þessu?

Nú má nota orðið innviðir um ansi margt, en ég tek dæmi símaþjónusta. Hérna eru einkaaðilar einir að störfum og árangur þeirra er frábær. Á dreifbýlu og fámennu Íslandi eru fjölmargir aðilar að grafa línur í jörð eða reista turna og loftnet og opna stór svæði fyrir sífellt hraðari gagnaflutningum og þéttara farsímaneti. Símtöl fara um landlínur af ýmsu tagi, á milli loftneta og jafnvel upp í geim og til baka. Gríðarlegar fjárfestingar liggja að baki þessu en um leið eru neytendur að upplifa lægra verð fyrir betri vöru og þjónustu.

Hið sama má segja um flugsamgöngur til og frá landinu. Hér er hart bitist um hvern viðskiptavin og sá viðskiptavinur getur átt von á betri og betri þjónustu, úrvali og verðlagi. 

Einkaaðilar starfa í öðrum heimi en hið opinbera. Hið opinbera getur borað holu í fjall sem enginn keyrir um og enginn opinber starfsmaður mun finna fyrir því. Einkaaðili sem tekur ranga fjárfestingarákvörðun getur fljótlega byrjað að undirbúa gjaldþrotaskipti.

Hið opinbera einokar að nánast öllu leyti vegalagningu og -viðhald á Íslandi. Vegir eru víða slitnir eða hættulegir. Það bitnar heldur ekki á opinberum starfsmönnum. Stjórnmálamenn eru allt í einu mættir á völlinn til að heimta götu hér og götu þar í von um að uppskera atkvæði.

Ég legg til að ríkisvaldið hætti að leggja skatta vegna framkvæmda í innviðum og selji frá sér alla þessa svokölluðu inniviði til einkaaðila og komi sér alveg út úr þessu brasi sem felur fyrst og fremst í sér niðurníðslu og rifrildi á Alþingi.

Ef einkaaðilar geta tengt símann þinn við 3G netsamband við Geirfuglasker þá geta þeir byggt vegi. 


mbl.is Ísland á leið „niður í aðra deild“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðmál á vefnum

Margir (og vonandi flestir) kannast við tímaritið Þjóðmál sem kemur út fjórum sinnum á ári og hefur gert síðan 2005. Þar er lögð áhersla á vandaða umfjöllun um þjóðmál og er slagsíðan frekar höfð nær frjálshyggju en sósíalisma.

Nýlega tók Óli Björn Kárason við ritstjórn tímaritsins og hefur nú komið upp mjög flottri og aðgengilegri vefsíðu fyrir tímaritið sem ég mæli með að sem flestir heimsæki sem oftast:

www.thjodmal.is

Þessi vettvangur er ágæt tilbreyting frá allri vinstrisinnuðu drullunni sem vellur út úr flestum öðrum fjölmiðlum (vitaskuld að undanskildum Vefþjóðviljanum og að mestu leyti Viðskiptablaðinu).  


Fleira kemur til en einkunnir

Margt er ritað og rætt um heimanám grunnskólabarna en ég vil engu að síður leggja nokkur orð í belg.

Heimanám hefur, að mínu mati, mjög marga kosti sem oft gleymist að nefna og byggjast bæði á minni eigin reynslu og reynslu minni sem föður grunnskólabarns.

Heimanám styrkir tengsl foreldra og skóla (og barns): Þegar barn kemur heim með heimanám og biður um aðstoð þá eru foreldrarnir um leið gerðir hluti af náminu og það er gott. Þeir geta séð hvar barnið sitt stendur, hvað það er að læra og hversu vel námsefnið er að síast inn. Þetta er allt í senn félagsleg samverustund foreldra og barns og upplýsingagjöf.

Ég hef prófað löng tímabil án heimanáms hjá skólastráknum mínum og missti fyrir vikið algjörlega sjónar á því hvað hann ætti að vera læra í skólanum og hvað hann var í raun og veru búinn að læra, en gjáin þar á milli var orðin ansi stór því miður.

Heimanám brýtur upp hangsið: Heimanám er góð tilbreyting frá tölvuleikjum og öðru hangsi. Krakkar þurfa líka oftar en ekki að nota blað og blýant, en fyrir þá sem ekki vita þá er sú færni í útrýmingarhættu. 

Heimanám kennir ábyrgðartilfinningu: Barn sem vinnur samviskusamlega heimanám sitt er um leið að þróa með sér ábyrgðartilfinningu sem á eftir að gagnast því mun víðar en í skólastarfi. Barnið fær verkefni, tímaramma og kröfulýsingu og á að bera ábyrgð á vinnunni og skilunum og það er ómetanlegt veganesti (gefið að barnið taki heimanámið alvarlega, en á því er allur gangur).

Heimanám getur dýpkað skilning: Skólastofan er ekki endilega besti staðurinn fyrir öll börn til að taka inn nýja þekkingu. Sumum hentar betur að setjast yfir námsefnið í ró og næði heima hjá sér og læra að setja sig inn í það (með eða án aðstoðar foreldra). Þetta á þó alls ekki við um alla krakka, en suma. Heimanám getur því orðið að hinu eina sanna námi á meðan skólastofan er meira nýtt til félagslífs og sem geymslustaður fyrir börnin á meðan foreldrarnir eru í vinnu/skóla. 

Heimanámið hefur sem sagt marga kosti í mínum huga þótt auðvitað megi deila um hversu mikið eða erfitt það eigi að vera, í hvaða fögum það hentar best og hvað hentar hverjum aldurshóp best.

Danskir grunnskólar eru meira og minna hættir að senda krakkana heim með verkefni en ég hef tekið heimanám upp á okkar heimili einhliða og kenni þar barninu það sem mér sýnist og ætla að halda því áfram. 


mbl.is Er heimavinna bara tímaeyðsla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjúkrunarfræðingar geta meira en þeir mega

Nú kemur það væntanlega engum á óvart þegar ég bendi á að fyrirkomulag ríkiseinokunar er um leið fyrirkomulag sóunar á fé, hæfileikum og tíma bæði starfsmanna og skjólstæðinga.

Hjúkrunarfræðingar geta gert töluvert meira en þeim er leyft. Nú ætla ég ekki endilega að vísa til Íslands þar sem ég er ekki viss um fyrirkomulagið þar en víða þurfa hjúkrunarfræðingar að takmarka starfssvið sitt innan þröngra ramma. Ástæðan er sú að læknar krefjast þess því þeir vilja tryggja að eftirspurn eftir þeim sé nægilega mikil svo þeir geti samið um hærri laun.

Þessum þröngu römmum er fylgt strangt eftir og hjúkrunarfræðingar geta með engu móti fengið að spreyta sig á því sem læknar hafa frátekið fyrir sjálfa sig.

Þetta er allt í senn sóun á hæfileikum hjúkrunarfræðinga, letjandi fyrir þá og röng notkun á sérhæfðri þekkingu læknanna sem að auki kosta meira en þeir þyrftu. 

Í þau fáu skipti sem ég hef farið á íslenska heilsugæslu hefur mér alltaf mætt læknir. Yfirleitt hefur samt þörf mín ekki verið umfram það sem hjúkrunarfræðingur hefði geta sinnt. Þeir sem betur þekkja til íslenska kerfisins geta kannski frætt mig um hvort það hafi verið tilviljun eða ekki. 

Í Danmörku er þetta þveröfugt: Ég tala sjaldnast við lækni nema ef hjúkrunarfræðingur hefur talið þörf á því. 

Nú ríkir vissulega ríkiseinokun á heilbrigðisþjónustu í báðum löndum (nema hvað Danmörk fylgir norræna módelinu og leyfir umfangsmikla aðkomu einkaaðila að heilsugæslu) en samanburðurinn er áhugaverður engu að síður. 


mbl.is Sækja í flugfreyjustarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn ríkisbankinn

Íslenska ríkið rekur nú þegar tvo banka sem tapa fé skattgreiðenda í stórum stíl: Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þeim síðarnefnda er reyndar ætlað að tapa fé ári en þeim fyrrnefnda ekki. 

Landsbankinn skilar hagnaði. Kannski væri ráð að sameina alla þessa þrjá banka í einn. Sá banki gæti þá tapað á sumu en grætt á öðru en fyrst og fremst haldið rekstri sínum utan við pyngju skattgreiðenda. Svo væri hægt að einkavæða allt heila klabbið þegar rétt pólitískt andrúmsloft myndast.


mbl.is Landsbankinn verði samfélagsbanki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband