Almennt um áhrif ríkisafskipta

Búvörusamningar eru vinsælt deiluefni á Íslandi. Sumir eiga varla til orð yfir því að bændur njóti styrkja. Mjólk og kjöt má jú flytja inn. Ekki þurfa allir bændur styrki. Ekki eru allar atvinnugreinar á opinberum styrkjum. Af hverju geta þessir bændur ekki bara staðið undir sér sjálfir?

Þeir sem hneykslast hér eru samt rólegri þegar kemur að öðrum ríkisafskiptum, svo sem af framleiðslu listræns efnis. Þó hafa ríkisafskiptin nákvæmlega sömu áhrif hér og í landbúnaði. Nánar um það síðar.

Bændur eru bundnir inn í flókinn frumskóg niðurgreiðslna og ríkisafskipta. Þeir geta ekki bæði fengið fé frá hinu opinbera (og úr vösum skattgreiðenda) og hegðað sér eins og þeim sýnist, þ.e. eins og aðrir sjálfstæðir atvinnurekendur. Nei, þeim er gert að uppfylla allskyns kröfur og þurfa að sætta sig við allskyns fyrirmæli frá skrifstofufólki hins opinbera. Þeir fá niðurgreiðslur en eru fastir í kerfinu. 

Bændur hljóta að vera hugsi yfir þessu. Eru þeir ekki að framleiða hágæðavöru sem mikil eftirspurn er eftir, bæði hérlendis og erlendis? Hafa þeir ekkert á móti því að fá skammtað gegn því að haga sér eins og aðrir segja, rétt eins og hver annar krakki?

Vegur kannski meira sá ótti sem hið frjálsa fyrirkomulag vekur í huga þeirra? Óttast þeir, allir sem einn, að fara lóðbeint á hausinn ef féflettir skattgreiðendur hætta að ausa í þá fé og neytendur einir fá því ráðið hver græðir og hver ekki?

Ríkisafskipti af landbúnaði eru skaðleg öllum rétt eins og gildir um ríkisafskipti af öllu öðru, þar á meðal af framleiðslu listræns efnis. Þau verðlauna ekki þá bestu, hugmyndaríkustu eða framsæknustu, heldur þá sem eru í náðinni hjá hinu opinbera hverju sinni. Þau niðurgreiða suma á kostnað annarra. Þau verðlauna þá sem framleiða eftir höfði yfirvalda og refsa öðrum sem hugsanlega hefðu verið betri í að framleiða eftir höfði neytenda. 

Ríkisafskipti af landbúnaði eru eins konar velferðarnet sem bændur eru flæktir í. Án ríkisafskiptanna telja þeir sig fara á hausinn. Með þeim eru þeir bara launað vinnuafl hins opinbera. 

Auðvitað á hið opinbera á Íslandi að hætta niðurgreiðslum til landbúnaðar, rétt eins og það á að hætta að niðurgreiða listræna framleiðslu hinna útvöldu og veita sérstakar skattaívilnanir til ákveðinna fyrirtækja. Reglugerðafrumskóginn á líka að afnema að mestu leyti, sem og skattheimtuna, og völdunum á að skila til neytenda. Tugþúsundir íslenskra neytenda og margar milljónir erlendra neytenda eru miklu betri en örfáir opinberir starfsmenn í að ákveða hvern á að verðlauna og hvern ekki. Neytendur eru kjósendur á lýðræði markaðarins. Opinberir starfsmenn eru smákóngar í valdapíramída hins opinbera. 


mbl.is Þetta er frágengið mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Daníel Daníelsson

við leggjum styrki í bankakerfið með vaxtabótum, við styrkjum fólk til náms með menntakerfinu og við styrkjum fólk til að leita sér lækninga með heilbrigðiskerfinu. Eins og allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við styrjum við matvælaframleiðslu til að fólk hafi aðgang að ódýrari mat. 

Ef við myndum til dæmis ekki styrkja landbúnað heldur flytja inn ríkisstyrkta landbúnaðarafurð frá nágrannaríkjum, finnst okkur þá í lagi að íbúar þar séu að greiða niður matvæli í okkur?

Bjarni Daníel Daníelsson, 22.2.2016 kl. 10:04

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Þú nefnir mörg góð dæmi um ríkisstyrki sem mætti afnema með öllu.

Það að einhver grýti höfnina sína er ekki réttlæting fyrir því að við grýtum okkar höfn, eða hvað?

Geir Ágústsson, 22.2.2016 kl. 10:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband