Verður vægast sagt spennandi ríkisstjórnarsáttmáli

Vinstri-græn, Björt framtíð, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn ætla að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Viðreisn og BF tókst ekki að sannfæra Sjálfstæðisflokkinn um að kasta hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi heims á haugana né taka upp aðlögunarviðræður við Evrópusambandið. Þeir leita því lengra til vinstri.

En hvað eiga þessir fimm flokkar sameiginlegt? Jú, að vilja kasta hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi heims á haugana. Mikið annað dettur mér ekki í hug.

Kannski geta þeir náð saman um lista yfir skattahækkanir.

Kannski geta þeir náð saman um jafnlaunalögguna.

Þeir geta sennilega auðveldlega orðið sammála um aukin ríkisútgjöld. Styrkja skal ríkiseinokunina hvar sem hana má finna.

En hvað annað? Það kemur í ljós. 

Ég legg aftur til að Alþingismenn nái saman um málamyndastjórn þvert á alla flokka sem starfar til vors og að þá verði kosið aftur. 


mbl.is Samþykkja formlegar viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þjóðnýta gróðann og einkavæða tapið

Hrunið haustið 2008 var svolítil afleiðing af því að bankakerfið er þannig skrúfað saman að þar er gróðinn einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Það borgar sig hreinlega að gíra bankann sinn alveg í botn og taka sem mesta áhættu til að hámarka gróðann því tapið lendir á öðrum.

Þetta er galin hugmynd en ennþá bráðlifandi og í fullri framkvæmd, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.

En það er til önnur hugmynd sem er álíka galin, ef ekki verri. Hún er sú að þjóðnýta gróðann en einkavæða tapið. Fyrir þessari hugmynd tala nú margir stjórnmálamenn. Þeir tala vissulega undir rós en það breytir ekki innihaldinu.

Sérstaklega beina sömu stjórnmálamenn spjótum sínum að útgerðinni. Þeir sjá að hún er yfir það heila að skila hagnaði. Ekki skoða þeir einstaka rekstrarliði. Þeir sjá bara fyrirsagnirnar sem segja frá hagnaði eftir afskriftir og skatta. Þeim finnst þetta vera alltof háar fjárhæðir til að skilja eftir í vösum þeirra sem öfluðu þeirra. Þeir vilja dreifa þessari upphæð - taka hana frá þeim sem sýndu útsjónarsemi og til annarra sem eru ekki eins útsjónarsamir.

Það er ekkert sjálfgefið að útgerðir geti skilað hagnaði og raunar tapar útgerðin fé í flestum ríkjum heims. Þessu er ekki haldið til haga.

Það er ekkert sjálfgefið að umráðaréttur yfir takmörkuðum veiðiréttindum leiði til hagnaðar. Raunar þarf mikla sérþekkingu og reynslu til að vita hvenær á að veiða hvaða fisk með hvaða skipi, hvert á að sigla honum að lokinni veiði, hvernig á að vinna hann og á hvaða markað á að senda hann og hvernig. Þessu er ekki haldið til haga.

Það er ekkert sjálfgefið að aðstæður séu til staðar til að skila hagnaði. Gengisbreytingar eru oft ófyrirsjáanlegar og óhagstæðar. Markaðir geta verið dyntóttir. Olíuverð, flutningskostnaður, launakostnaður, veðurfar, ástand fiskistofna, ástand fiska, rekjanleiki fiskitorfa, hitastig sjávar, fæðuinnihald fiska, viðhald skipa og ótal margt annað spilar hlutverk á hverjum einasta degi í rekstri útgerða. Þessu er ekki haldið til haga.

Því sem er haldið til haga er að útgerðin í dag skilar hagnaði og að hann eigi að soga í ríkishirslurnar. 

Útgerðin hlýtur þá í staðinn að benda á að þegar illa árar - fiskarnir synda í burtu eða viðhaldskostnaður er of hár til að halda úti skipum eða launakröfur orðnar svo háar að útgerðin ræður ekki við þær - þá hlaupi ríkið undir bagga.

Útgerðin hlýtur að benda á að ef það á að þjóðnýta hagnaðinn þá dugi ekki að einkavæða tapið. Útgerðin hlýtur að biðja um að fá að komast á fjárlög - að sérstakur björgunarsjóður verði settur á fót sem bjargar gjaldþrota útgerðum og störfum í henni. 

Það dugir nefnilega ekki að þjóðnýta gróðann og ætla sér um leið að einkavæða tapið. Tapið verður þá líka að þjóðnýta. Ríkisvaldið verður að gera sig að virkum þátttakenda í öllum þeim rekstrarþáttum sem útgerðin þarf að eiga við í dag. Embættismenn verða að fá að setjast í stjórnir útgerðanna sem sérstakir fulltrúar ríkisvaldsins og hafa umboð til að setja fé skattgreiðenda í reksturinn ef þess gerist þörf, nú eða fella gengið sem hefur "oft skilað góðum árangri gegnum tíðina", sérstaklega fyrir fársjúkar atvinnugreinar eins og útgerðin var einu sinni á Íslandi.

Í stað þess að hafa aðskilnað reksturs og skattheimtu verður að samtvinna þetta tvennt. Skattheimtan verður háð rekstrarafkomu enda á að hirða hagnaðinn í ríkissjóð sem hlýtur að þýða að þegar tap verður á rekstrinum komi til baka eitthvað af fé úr ríkissjóði.

Þeir sem vilja þjóðnýta hagnað útgerðarinnar hljóta að hugleiða þetta. Ég skil skammsýna vinstrimenn - þeir hafa alltaf haldið að hagnaður í dag haldi áfram að vera hagnaður á morgun eftir gríðarlegar skattahækkanir. En hvað með aðra?


Nokkur orð um meintan arð af auðlindum

Á Íslandi er að mörgu leyti aðskilnaður á milli stjórnmála og sjávarútvegs. Sjávarútvegurinn er starfsvettvangur einkafyrirtækja sem kaupa, lána, fjárfesta, borga, þéna og ýmist græða eða tapa. Þau þurfa að haga seglum eftir vindi og þræða flókið samspil gengisbreytinga, markaðsverðs á sjávarfangi, eldsneytiskostnaðar, flutninga, árstíðasveifla, aðgengi að starfsfólki, reksturs á skipum og húsnæði og svona mætti lengi telja.

Þeim sem tekst það tekst að skila hagnaði. Af honum er svo tekinn ríflegur skattur. Eftir stendur fé sem má nota til að fjárfesta fyrir (t.d. bæta aðbúnað eða endurnýja búnað) og greiða hluthöfum arð.

Þeim sem tekst það ekki tapa fé - eigin fé og ekki annarra. 

Stjórnvöld sitja svo hinum megin við borðið og taka við skattgreiðslunum. Þau taka enga áhættu en njóta ágóðans. 

Nú er verið að tala um að breyta þessu. Stjórnvöld vilja snarauka skattheimtuna. Bætist þá enn í flækjustig sjávarútvegsfyrirtækja. Svigrúmið til að taka á sig gengissveiflur minnkar til dæmis. Allt annað líður líka fyrir aukið fjárstreymi úr rekstri sjávarútvegsfyrirtækja - fjárfestingar, getan til að ná hæft starfsfólk og halda því, viðhald, endurnýjun og allt þetta.

Menn segja að sjávarútvegurinn hafi efni á þessu. Það gleymist að þótt sumir skili góðum hagnaði í dag þá gera aðrir það ekki endilega.

Menn gleyma því líka að ytri aðstæður breytast hratt fyrir sjávarútveginn. Gengi gjaldmiðla getur breyst hratt. Fiskurinn getur synt í burtu.

Spurningin er því: Ef ríkisvaldið ætlar sér að sjúga til sín enn meira fé þegar vel gengur ætlar það þá líka að hlaupa undir bagga ef og þegar náttúruleg áföll dynja á eða ytri aðstæður verða sjávarútveginum óhagstæðar?

Ætlar ríkisvaldið að blanda sér með þessum hætti í rekstur sem í dag er í höndum einkaaðila og taka á sig þá rekstraráhættu sem einkaaðilar búa við í dag?

Eða ætlar ríkið bara að þjóðnýta gróðann og einkavæða tapið? Og hvað halda stjórnvöld þá að verði um þessa iðngrein?

Maður spyr sig. Ég sé alveg dollaramerkin í augum margra stjórnmálamanna en ef ríkið ætlar sér að auka afskipti sín af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja er spurningin bara hvenær en ekki hvort skattgreiðendur þurfa að standa reiðubúnir og borga brúsann þegar eitthvað fer úrskeiðis.


mbl.is „Hreinskipt og gott samtal“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða sammála um skattahækkanir og fátt annað

Ef fer sem horfir blasir vinstristjórn við Íslandi. Það eru hræðilegar fréttir en það er eins og Íslendingar þurfi reglulega á slíkri stjórn að halda til að minna sig á seinustu vinstristjórn.

Vinstriflokkarnir á Íslandi eru ekki sammála um margt en þeir eru þó sammála um að það þurfi að hækka skatta á eitthvað. Um það mun stjórnarsáttmálinn snúast. 

Vinstriflokkur 1 mun ekki líta á skattahækkun vinstriflokks 2 sem hindrun við eigin skattahækkun. Þeir eru jú lagðir á sitthvorn "skattstofninn" eins og sagt er. Sveitarfélög hækka t.d. stundum fasteignagjöld og stundum sorphirðugjald og réttlæta báðar hækkanir með sitthvorum rökunum eins og um eitthvað tvennt aðskilið og ótengt sé að ræða. Niðurstaðan er samt sú að heimilin horfa upp á tvær skattahækkanir sem dragast af einu launaumslagi. En það sjá vinstriflokkarnir ekki.

Ljósið í myrkrinu hér er að Birgitta Jónsdóttir heimtar að fá að koma að ríkisstjórn og það vita allir að það er ávísun á deilur og samstarfsörðugleika, helst fyrir opnun tjöldum svo Birgitta fái sem mest af sviðsljósinu með sínum hótunum og skömmum, með smá skvettu af baktjaldamakki. Vinstristjórnin gæti því orðið eins og snarpt eldgos sem hristist í skamman tíma, springur og fer aftur í dvala. Og þá er hægt að kjósa aftur og leysa úr þessari óreiðu á Alþingi. 


mbl.is Píratar vilja taka ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir vilja bara vera í stjórnarandstöðu

Grumpy Old MenMargir þingmenn kunna best við sig í stjórnarandstöðu. Fyrir því eru margar ástæður.

Ein er sú að stjórnarandstaðan, sé hún til vinstri, fær mikla athygli fjölmiðla og á greiðan aðgang að t.d. öllu hjá RÚV en einnig öðrum miðlum. Margir kunna vel við sig í sviðsljósinu og eru minna hrifnir af þessari leiðinlegu pappírsvinnu sem þarf að vinna í einrúmi þegar búið er að slökkva á hljóðnemunum. 

Önnur ástæða er sú að stjórnarandstaðan fær sjaldan að finna fyrir afleiðingum orða sinna og gjörða. Hún er jú bara stjórnarandstaða sem reynir að benda sitjandi ríkisstjórn á ljósið. Fari eitthvað úrskeiðis getur það ekki verið stjórnarandstöðunni að kenna. Margir kunna vel við þetta fyrirkomulag - að geta masað og masað en þurfa aldrei að bera ábyrgð á neinu. 

Í þriðja lagi er alltaf hægt að vera ósáttur við eitthvað í stjórnarandstöðunni. Skattar eru of lágir, útgjöld til gæluverkefna of lítil og innlimun í Evrópusambandið of hægfara. Stjórnvöld eru spillt, hreinu og óflekkuðu sálir stjórnarandstöðunnar fá aldrei orðið, framkvæmdavaldið kúgar þingið og svona má lengi telja. "Grumpy old men" líður best þegar þeir fá að tuða og nöldra og þurfa aldrei að stinga upp á raunhæfum lausnum. 

Ég legg til að þeim sem líður best í stjórnarandstöðu játi einfaldlega þessa tilfinningu sína og um leið að þeir hafi engan áhuga á að koma að stjórnarsáttmála sem þarf í raun og veru að leggja undir kjósendur í næstu kosningum. 


mbl.is Eiga ekki samleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrið og lýðræðið

Vinstrimenn virðast því miður hafa takmarkaða þolinmæði fyrir lýðræði. Þetta kom fram eftir Alþingiskosningarnar í október og eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þeir sótbölva kjósendum fyrir að hafa ekki kosið eftir þeirra höfði. Það liggur við að þeir sýni hreina mannfyrirlitningu.

Allir flokkar eiga eitthvað sameiginlegt með öllum öðrum. Í mínum huga er t.d. sterkur vilji meðal allra flokka að viðhalda á Íslandi sovésku fyrirkomulagi í bæði menntun og heilbrigðisþjónustu þótt sumir flokkar séu opnari en aðrir fyrir því að einkaaðilar fái eitthvað svigrúm (t.d. hefur enginn talað fyrir því að þjóðnýta heilbrigðisþjónustu sjóndapra). Allir flokkar vilja líka ríkiseinokun á vegakerfinu sem meginstefið.

Vinstrinu svíður það sárt að kjósendur hafi ekki veitt þeim brautargengi. Ég held að því væri samt hollt að reyna fela mannfyrirlitningu sína því annars bítur hún það í rassinn í næstu kosningum. 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gera lítið og gera það vel

Þrír flokkar ætla að láta reyna á stjórnarmyndunarviðræður. Gott og vel, annað eins hefur gerst. Ég legg til eftirfarandi dagskrá.

Gefa ESB-flokkunum sínar kannanir, viðræður og kosningar

ESB-flokkarnir vilja að Ísland gangi í ESB. Þeir vilja samt ekki segja það upphátt. Þeir vilja að þjóðin fái að velja, að pakkann þurfi að skoða, að samræður við ESB þurfi að eiga sér stað. Gott og vel - það má láta á eftir öllu þessu. Að lokum kemur samt raunveruleikinn í ljós - ESB er sökkvandi skip og Íslendingar hafa engan áhuga á að stökkva á það.

Lækka skatta

Skattar eru of háir. Jaðarskattar eru sérstaklega of háir. Samspil bóta og skatta er þannig skrúfað saman að það borgar sig varla fyrir nokkurn mann að bæta við tekjur sínar. Þessu þarf að breyta.

Ríkisvaldið sem rekstraraðili

Ríkið er að vasast í rekstri á alltof mörgum fyrirtækjum. Hver einasta fækkun hér er til bóta. Kannski þarf að kaupa slíkt af samstarfsflokkum með því að lofa enn einni nefndinni eða skoðanakönnun um aðild að ESB, en þá það. 

Skuldirnar

Ríkið þarf að losa sig við skuldir sínar og ekki bara það heldur líka loka á tækifæri í framtíðinni til að skuldsetja ríkið. Næsta vinstristjórn, hvenær sem hún tekur við, á eftir að reyna sökkva Íslandi aftur í umhverfi skulda- og skattahækkana. Það þarf að reyna girða fyrir það. Meira að segja Katrín Jakobsdóttir hlýtur að skilja að skuldsetning í dag er dragbítur á morgun. Hún rekur a.m.k. eigin flokk með það að leiðarljósi.

Annars liggur svo sem ekkert á að stofna ríkisstjórn að mínu mati. Það má kannski draga það á langinn fram yfir áramót?


mbl.is Byrjað á sáttmála um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar í vor 2017?

Ég sé fyrir mér að Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð geti náð saman um myndun ríkisstjórnar. Ég sé líka fyrir mér að hún starfi ekki lengur en til næsta vors og að þá verði kosið aftur.

Það þarf fyrr eða síðar að rétta kjörtímabilið af og koma upphafi þess á vormánuði aftur. Hví ekki að ljúka því af? Þessar haustkosningar voru algjör della og spruttu af þörf lítils en háværs hóps til að hefna fyrir aðgerðir eða aðgerðaleysi eins manns. Vinstrimenn vonuðu svo að þeir gætu riðið á reiðibylgjunni inn í Stjórnarráðið og hafið skattahækkanir á tveggja vikna fresti að hætti Steingríms J.

4 mánaða þing, kosningar í maí 2017 og skýrari línur. 


mbl.is Viðreisn „meira spurningarmerki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málamyndastjórn til vors - kjósa aftur

Bjarni Benediktsson er búinn að berja höfðinu í stein undanfarna daga og hefur komist að því að enginn hefur áhuga á skattalækkunum, niðurgreiðslu ríkisskulda og hægfara en stöðugum framförum. Allir flokkar eru með einhver gæluverkefni og ekki hægt að setja þrjá eða fleiri undir sömu regnhlíf nema lenda í gæluverkefnum sem stangast á.

Hann talar því um að skila stjórnarmyndunarumboði sínu.

Í stað þess að sjá fram á vinstristjórn sem verður ekki sammála um neitt innbyrgðis annað en að hækka skatta ætti Bjarni að reyna ná saman málamyndastjórn sem starfar til næsta vors og boða þá til annarra kosninga. 

Þannig væri hægt að samþykkja fjárlögin og losna við tolla af öllu nema matvælum.

Þannig væri hægt að rýmka enn frekar gjaldeyrishöftin.

Þannig væri hægt að leyfa fólki að halda jól án þess að óttast hvað tekur við eftir áramót.

Má ekki smala saman nokkrum þingmönnum sem mynda ríkisstjórn sem ákveður í raun ekki neitt fram til næsta vors? 


mbl.is Bjarni gæti skilað umboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Clinton sýnir auðmýkt

Hillary Clinton virðist ekki ætla að bergmála orð margra stuðningsmanna sinna og bölva bandarískum kjósendum og bandarískum almenningi. Það er líka mín tilfinning að þeir sem bölva niðurstöðun kosninganna hafi aldrei verið neitt voðalega hrifnir af Bandaríkjunum til að byrja með. Kjör Donald Trump var bara enn ein ástæðan fyrir þessa eintaklinga til að lýsa yfir fyrirlitningu á Bandaríkjunum.

Hillary Clinton sýnir auðmýkt og þroska og tekur niðurstöðunum eins og þær eru. Fyrir það má hrósa henni. 


mbl.is „Sársaukafullt og verður það lengi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband