Að þjóðnýta gróðann og einkavæða tapið

Hrunið haustið 2008 var svolítil afleiðing af því að bankakerfið er þannig skrúfað saman að þar er gróðinn einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Það borgar sig hreinlega að gíra bankann sinn alveg í botn og taka sem mesta áhættu til að hámarka gróðann því tapið lendir á öðrum.

Þetta er galin hugmynd en ennþá bráðlifandi og í fullri framkvæmd, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.

En það er til önnur hugmynd sem er álíka galin, ef ekki verri. Hún er sú að þjóðnýta gróðann en einkavæða tapið. Fyrir þessari hugmynd tala nú margir stjórnmálamenn. Þeir tala vissulega undir rós en það breytir ekki innihaldinu.

Sérstaklega beina sömu stjórnmálamenn spjótum sínum að útgerðinni. Þeir sjá að hún er yfir það heila að skila hagnaði. Ekki skoða þeir einstaka rekstrarliði. Þeir sjá bara fyrirsagnirnar sem segja frá hagnaði eftir afskriftir og skatta. Þeim finnst þetta vera alltof háar fjárhæðir til að skilja eftir í vösum þeirra sem öfluðu þeirra. Þeir vilja dreifa þessari upphæð - taka hana frá þeim sem sýndu útsjónarsemi og til annarra sem eru ekki eins útsjónarsamir.

Það er ekkert sjálfgefið að útgerðir geti skilað hagnaði og raunar tapar útgerðin fé í flestum ríkjum heims. Þessu er ekki haldið til haga.

Það er ekkert sjálfgefið að umráðaréttur yfir takmörkuðum veiðiréttindum leiði til hagnaðar. Raunar þarf mikla sérþekkingu og reynslu til að vita hvenær á að veiða hvaða fisk með hvaða skipi, hvert á að sigla honum að lokinni veiði, hvernig á að vinna hann og á hvaða markað á að senda hann og hvernig. Þessu er ekki haldið til haga.

Það er ekkert sjálfgefið að aðstæður séu til staðar til að skila hagnaði. Gengisbreytingar eru oft ófyrirsjáanlegar og óhagstæðar. Markaðir geta verið dyntóttir. Olíuverð, flutningskostnaður, launakostnaður, veðurfar, ástand fiskistofna, ástand fiska, rekjanleiki fiskitorfa, hitastig sjávar, fæðuinnihald fiska, viðhald skipa og ótal margt annað spilar hlutverk á hverjum einasta degi í rekstri útgerða. Þessu er ekki haldið til haga.

Því sem er haldið til haga er að útgerðin í dag skilar hagnaði og að hann eigi að soga í ríkishirslurnar. 

Útgerðin hlýtur þá í staðinn að benda á að þegar illa árar - fiskarnir synda í burtu eða viðhaldskostnaður er of hár til að halda úti skipum eða launakröfur orðnar svo háar að útgerðin ræður ekki við þær - þá hlaupi ríkið undir bagga.

Útgerðin hlýtur að benda á að ef það á að þjóðnýta hagnaðinn þá dugi ekki að einkavæða tapið. Útgerðin hlýtur að biðja um að fá að komast á fjárlög - að sérstakur björgunarsjóður verði settur á fót sem bjargar gjaldþrota útgerðum og störfum í henni. 

Það dugir nefnilega ekki að þjóðnýta gróðann og ætla sér um leið að einkavæða tapið. Tapið verður þá líka að þjóðnýta. Ríkisvaldið verður að gera sig að virkum þátttakenda í öllum þeim rekstrarþáttum sem útgerðin þarf að eiga við í dag. Embættismenn verða að fá að setjast í stjórnir útgerðanna sem sérstakir fulltrúar ríkisvaldsins og hafa umboð til að setja fé skattgreiðenda í reksturinn ef þess gerist þörf, nú eða fella gengið sem hefur "oft skilað góðum árangri gegnum tíðina", sérstaklega fyrir fársjúkar atvinnugreinar eins og útgerðin var einu sinni á Íslandi.

Í stað þess að hafa aðskilnað reksturs og skattheimtu verður að samtvinna þetta tvennt. Skattheimtan verður háð rekstrarafkomu enda á að hirða hagnaðinn í ríkissjóð sem hlýtur að þýða að þegar tap verður á rekstrinum komi til baka eitthvað af fé úr ríkissjóði.

Þeir sem vilja þjóðnýta hagnað útgerðarinnar hljóta að hugleiða þetta. Ég skil skammsýna vinstrimenn - þeir hafa alltaf haldið að hagnaður í dag haldi áfram að vera hagnaður á morgun eftir gríðarlegar skattahækkanir. En hvað með aðra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband