Al Gore 2.0

Það má segja að við lifum á tímum Al Gore 2.0. Hinn fyrri Al Gore talaði um hlýnun loftslagsins af mannavöldum og hræðilegar afleiðingar þess. Ekkert af hans spádómum hafa ræst. Þá fóru menn að tala um loftslagsbreytingar. Já, þá er hægt að segja við hverju einasta hita- eða kuldakasti að breytingar hafi átt sér stað sem megi rekja til iðnvæðingar manna. Og jú, breytingar eiga sér alltaf stað í loftslaginu svo það var snjall orðaleikur.

Núna er hins vegar að koma í ljós að loftslagsrannsóknaheimurinn er fullur af svikurum og svindlurum, að menn séu að hagræða gögnum, gera lítið úr því sem dregur úr heimsendastemmingunni og jafnvel tala niður sjálfa sólina og áhrif hennar á loftslag Jarðar.

Þá er vissara að skipta aftur um gír og hætta að tala um loftslagsbreytingar, og tala þess í stað um veðuröfgar. Nú má skrifa hvert einasta haglél og hverja einustu hitabylgju á mannkynið.

Og hvað er til ráða? Ekkert. Það er hægt að segja Kínverjum og Indverjum að stöðva iðnvæðingu sína, en þeir neita. Það er hægt að segja Evrópubúum að hjóla á veturna, en þeir halda áfram að setjast upp í bíla sína. Það er hægt að segja Bandaríkjamönnum að setjast í litla og óþægilega bíla en þeir halda áfram að keyra um á pallbílum.

Og þegar allt kemur til alls þá gerir það ekkert til.

Það væri óskandi að kolanotkun færi minnkandi og að olíu- og gasnotkun fari vaxandi. Það væri óskandi að menn virkjuðu fleiri stórfljót, t.d. Jökulsá á Fjöllum þar sem Dettifoss stendur í dag og er að hruni kominn og hverfur ef ekkert verður að gert. Það væri óskandi að menn einbeittu sér að því að greiða leið tækninnar þannig að hún verði sem ódýrust og aðgengilegust sem fyrst, t.d. með því að lækka skatta, draga úr vægi einkaleyfa, fækka reglum og afnema viðskiptahindranir. Það væri óskandi að menn hættu að einblína á útblástur og færu að einbeita sér meira að skilvirkni. 

Eða þarf önnur kynslóð stjórnmála- og blaðamanna að gera sig að fífli áður en dómsdagsspádómarnir fjara út? Þurfum við Al Gore 3.0 áður en við hættum þessu rausi?


mbl.is Hitabylgjur munu taka sinn toll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er það útrætt!

Google er aðdáunarvert fyrirtæki. Stjórnendur þess virðast samt vera komnir á hringekju pólitísks rétttrúnaðar. Þar á bæ hafa menn nú útilokað að líffræðilegur munur sé á kynjunum sem geri karla og konur misvel fallin til að sinna mismunandi störfum. Fíngerðar konur geta því drifið sig í byggingarvinnuna á meðan börnin eru send í pössun hjá stórvöxnum karlmönnum. 

Auðvitað er líffræðilegur munur á kynjunum sem hefur áhrif á það hvernig einstaklingar finna sig í mismunandi aðstæðum. Þetta eru samt bara almenn sannindi. Það finnast konur sem vilja stunda smíðavinnu og karlar sem vilja passa ungabörn. Það finnast karlmenn sem geta ekki klifið í stiga og mundað hamar og konur sem hafa enga þolinmæði fyrir börnum. Að sama skapi finnast karlmenn sem elska fallhlífastökk og aðrir (eins og ég) sem þola ekki tilfinninguna af því að vera í frjálsu falli. Og það finnast konur sem vilja vinna 12 tíma vinnudaga og aðrar sem vilja það ekki. Og karlar. 

Þetta breytir því samt ekki að það er almennt séð líffræðilegur munur á kynjunum. Sálfræðingar fara ekki leynt með það, en þeir eru sjaldan spurðir. Læknar vita þetta, en þeir þegja þegar umræðan fer inn á vígvöll pólitísks rétttrúnaðar.

Og segjum sem svo að hinn líffræðilegi munur á kynjunum geri það að verkum að konur finni sig, almennt séð, síður í hlutverki forritarans? Sé þetta raunin þá dregur þetta í engu úr þeim konum sem stunda forritun í dag. 

Um leið og umræða er fjarlægð frá yfirborðinu þá leitar hún neðanjarðar og mætir þar miklu síður málefnalegu aðhaldi eða fjölbreyttum nálgunum. En hún deyr ekki. Það er á hreinu. 


mbl.is Rekinn fyrir ummæli um konur og tækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fréttum er það helst: Ekkert fréttnæmt gerðist

Verslunarmannahelgin er að baki. Í fréttum er það helst að þúsundir manna þjöppuðu sér saman á lítil svæði, drukku ótæpilega, neyttu ólöglegra vímuefna, sváfu í ólæstum tjöldum í ofurölvun og berskjaldaðir fyrir umheiminum og ... nánast ekkert kom upp á!

Jú, vissulega stal einhver áfengi úr tjaldi eða lét hnefann rekast á kjálka annars manns. Það fylgir mörgum útihátíðum. Fréttamenn hafa hins vegar hamast við að slá upp orðum eins og kynferðisbrot og fíkniefnamál eins og þau hafi leikið einhverju hlutverki. Það gerðu þau ekki. Hvers vegna þessir uppslættir? Er blaðamönnum lífsins ómögulegt að flytja jákvæðar fréttir? Hvaða hvatar reka þá áfram? 

Ég get sagt frá stúlku - frænku konu minnar - sem fór núna í fyrsta skipti á Þjóðhátíð í Eyjum. Hún lýsti því yfir að hún ætlar nú að fara á hverju ári. Væri ekki nær að taka viðtal við hana og biðja hana um að segja frá hátíðinni? 

Það er auðvitað mikilvægt að brýna fyrir fólki að ræna ekki, berja eða nauðga. Þegar slíkar áminningar skila frábærum árangri á að fagna en ekki einblína á svörtu sauðina og veita verkum þeirra alla athyglina.


mbl.is Tvö kynferðisbrot komu upp í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfum íbúum Venesúela að gleypa meðalið sitt

Íbúar Venesúela hafa lengi látið sósíalismann táldraga sig. Þökk sé háu verði á olíu og öðrum auðlindum í hinum kapítalískari heimshlutum hafa yfirvöld í Venesúela geta leyft sér að lifa um efni fram lengi og hrifið margan spekinginn með sér í gleðina. Nú er hins vegar komið að skuldadögum. Hin óumflýjanlega einræðisharðstjórn sem sósíalisminn gefur af sér fæðist núna og íbúar landsins sjá hvað þeir hafa sjálfir kallað yfir sig.

Vonandi verður hið vonda meðal til þess að einhverjir vakni til meðvitundar. Í sumum ríkjum Austur-Evrópu hefur þetta meðal svo sannarlega haft góð áhrif. Eistland, Lettland og Litháen hafa til að mynda kastað vofu Sovétríkjanna út í hafsauga. Annars staðar hafa menn hins vegar bara ákveðið að halda áfram að eitra sinn eigin líkama í von um að stærri skammtur hafi betri afleiðingar en smærri skammtur.

Gefum íbúum Venesúela tækifæri til að átta sig án afskipta. 


mbl.is Aðrar þjóðir skipti sér ekki af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvald í framleiðslu afþreyingar og áróðurs

Ríkisvaldið sem hugmynd á sér marga aðdáendur. Að sögn er ríkisvaldið nauðsyn til að berjast gegn glæpum, spillingu og ofbeldi. Ríkisvaldið á að tryggja að löggæsla sé góð, að vegir séu lagðir og að menn geti leitað til dómstóla þegar á þeim er brotið. Ríkisvaldið á að lækna okkur í veikindum og styðja við okkur á mótunarárunum með menntun og fræðslu.

Svo já, það er margt sem margir telja að verði bara tryggt með ríkiseinokun.

Aldrei hef ég samt séð málefnaleg rök fyrir því að ríkisvaldið þurfi að tryggja næga framleiðslu á afþreyingu og áróðri.

Er ekki til nóg af afþreyingu? Vissulega hefur fólk mikinn frítíma en þarf ríkisvaldið að tryggja að þessum frítíma sé brennt upp? Er óhugsandi að fólki geti sjálft dottið eitthvað í hug til að láta vökutíma sína líða hraðar?

Ríkisframleiðsla á áróðri er svo enn furðulegri og erfiðari að rökstyðja. Þarf ríkisvaldið að halda úti hópi opinberra starfsmanna sem fær mikinn aðgang að eyrum okkar og barna okkar? Af hverju? Hvernig réttlæta menn framleiðslu á opinberum áróðri? 

Ég er forvitinn. 


mbl.is Meirihluti andvígur einkavæðingu RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamaður tekur að sér vinnu blaðamanna

Hér er djörf yfirlýsing:

Íslenskir blaðamenn nenna ekki að vinna vinnu sína. Þeir nenna ekki að kynna sér málin, velta upp báðum hliðum mála, kafa djúpt ofan í fullyrðingar og setja hlutina í samhengi.

Stjórnmálamenn hafa uppgötvað þetta fyrir löngu og því tekið til þess ráðs að tjá sig mikið á Facebook eða álíka miðlum á netinu. Þeir segja þar hluti sem koma blaðamönnum á óvart. Blaðamenn eru steinhissa. Bíddu, af hverju var ég ekki búin(n) að heyra af þessu sjónarhorni áður? Hvaða reglur og lög er hann að tala um? Hvaða óvæntu upplýsingar eru þetta?

Blaðamaður gerir það svo að frétt að stjórnmálamaður hafi tjáð sig á Facebook.

Blaðamaður í þessari stöðu ætti að segja upp stöðu sinni og finna sér eitthvað annað að gera. Væri hann starfi sínu vaxinn væri hann búinn að þefa uppi sjónarhorn viðkomandi og koma því áleiðis, í stað þess að rekast á það á Facebook.

Kæru blaðamenn Íslands, hættið að slóra og byrjið að vinna. 


mbl.is Bjarni tjáir sig um uppreist æru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að giska á tækniþróun næstu 15-20 ára?

Stjórnmálamenn víða um heim reyna nú að mála sig með grænum lit í von um að uppskera atkvæði. Yfirleitt gera þeir það með því að lofa einhverju eftir 20-30 ár þegar þeir eru ýmist dauðir eða komnir á eftirlaun. Enginn getur skammað aldraðan stjórnmálamann sem lofaði einhverju fyrir mörgum áratugum sem stóðst svo ekki.

Það er ævintýraleg bjartsýni að ætla sér að skrifa löggjöf sem veðjar á ákveðna tækniþróun á næstu árum. Menn vita ekki einu sinni hvert tæknin leiðir okkur á næstu 18 mánuðum, hvað þá meira. 

Stjórnmálamenn ættu bara að halda að sér höndum og einbeita sér að því að afnema hindranir í formi skatta og reglugerða sem kæfa frumkvöðlastarfsemi og tækninýjungar. 


mbl.is Langtímaáætlun er frumskilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið og rekstur

Innan hins opinbera fljúga nú pappírar og álitsgerðir fram og til baka til að skera úr um það hvort ákveðið skip geti siglt á milli tveggja áfangastaða á ákveðnu tímabili.

Ferjurekstur er ekki beinlínis flóknasta tegund reksturs sem til er. Menn þurfa hafnir, skip, varahluti og eldsneyti, auk mannafla. Það þarf að taka tillit til veðurs og vita hvað eru margir metrar niður á hafsbotn. 

Engu að síður vefst þetta mjög fyrir hinu opinbera. 

Við hljótum öll að vera fegin því að ríkisvaldið rekur ekki flugfélög eða símafyrirtæki lengur. Kæmist þá nokkur úr landi eða hefði efni á að hringja í vini sína? Hvað þyrfti marga fundi innan stjórnsýslunnar til að ákveða hvort fljúga eigi á Gatwick eða Heathrow? Til London eða Lissabon? Með breiðþotu eða skrúfuvél? 

Kæra ríkisvald, haltu þig við það sem þú gerir best: Að framleiða prentaðan pappír sem enginn les. Allt annað á heima á hinum frjálsa markaði. 


mbl.is Fjallað um ferjumálið á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar embættismenn ráða því sem þeir vilja

Skipulagsvaldið er fyrir löngu orðið að vandamáli. Með einu pennastriki má stöðva framkvæmdir við veitingahús eða gistiheimili án þess að nokkuð komi í staðinn. 

Leyfisveitingavaldið er á svipaðri vegferð. Embættismenn virðast geta gert kröfur um leyfisskyldu á óteljandi hlutum og um leið stungið umsóknum um slík leyfi ofan í skúffu. 

Réttarríkið snýst um að lög og reglur séu fyrirfram þekktar stærðir, gegnsæjar og skiljanlegar, og að borgararnir geti gert áætlanir innan ramma laganna en ella sæta refsingu sem er einnig fyrirfram þekkt. 

Ætlar enginn á Alþingi að taka þessi miklu völd embættismanna til endurskoðunar?


mbl.is Segir menn óttast hefndaraðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varfærna stjórnin

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist lítill. Það á ekki að koma á óvart. Ríkisstjórnin er varfærin svo vægt sé til orða tekið. Almenningur hefur ekki fundið fyrir neinum skattalækkunum að ráði. Það er líka búið að telja almenningi í trú um að gott efnahagsástand á Íslandi sé eins og rigning sem hafi fallið af himnum ofan og komi því ekkert við að það ríki pólitískur stöðugleiki þar sem ríkið einbeitir sér að því að láta tekjur duga fyrir útgjöldum. Svo virðist vera mjög auðvelt fyrir stjórnarandstöðuna að komast að hljóðnema fjölmiðlanna og segja frá sinni sýn á hlutina.

Hvað á ríkisstjórnin að gera í þessu? Hún gæti gert margt. Það er t.d. hægt að stefna að því að lækka alla skatta verulega og um leið halda áfram að greiða niður skuldir ríkisins. Það sem þarf bara að gerast á móti er að einkavæða stóra hluta ríkisrekstursins, afnema aðgangshindranir að íslenskum markaði og lækka rekstrarkostnað stjórnsýslunnar. Í stað þess að ríkið sé atvinnurekandi þúsunda einstaklinga gæti ríkið gert þjónustusamninga við fyrirtæki sem sjá sjálf um starfsmannamálin og lífeyrissjóðsgreiðslurnar. 

Ríkisstjórnin gæti líka verið duglegri að segja frá stefnumálum sínum og rökstyðja þau. Það má ekki leyfa vinstrimönnum innan Alþingis og fjölmiðlanna að stjórna umræðunni.

Björt framtíð og Viðreisn eru nýliðar í íslenskum stjórnmálum. Reynsluleysið er að hamla þessum flokkum. Þeir telja sér best borgið með því að halda sér til hlés, nema reyndar fjármálaráðherra sem fær ekki nóg af athyglinni, hvort sem sú athygli er neikvæð eða jákvæð.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja að ríkisvaldið einfaldi ríkisreksturinn, greiði niður opinberar skuldir og lækki skatta, og reyni almennt að búa í haginn fyrir verri tíð í hagkerfinu. Hvenær á að koma til móts við þá?


mbl.is „Súpa seyðið“ af stjórnarsamstarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband