Þá er það útrætt!

Google er aðdáunarvert fyrirtæki. Stjórnendur þess virðast samt vera komnir á hringekju pólitísks rétttrúnaðar. Þar á bæ hafa menn nú útilokað að líffræðilegur munur sé á kynjunum sem geri karla og konur misvel fallin til að sinna mismunandi störfum. Fíngerðar konur geta því drifið sig í byggingarvinnuna á meðan börnin eru send í pössun hjá stórvöxnum karlmönnum. 

Auðvitað er líffræðilegur munur á kynjunum sem hefur áhrif á það hvernig einstaklingar finna sig í mismunandi aðstæðum. Þetta eru samt bara almenn sannindi. Það finnast konur sem vilja stunda smíðavinnu og karlar sem vilja passa ungabörn. Það finnast karlmenn sem geta ekki klifið í stiga og mundað hamar og konur sem hafa enga þolinmæði fyrir börnum. Að sama skapi finnast karlmenn sem elska fallhlífastökk og aðrir (eins og ég) sem þola ekki tilfinninguna af því að vera í frjálsu falli. Og það finnast konur sem vilja vinna 12 tíma vinnudaga og aðrar sem vilja það ekki. Og karlar. 

Þetta breytir því samt ekki að það er almennt séð líffræðilegur munur á kynjunum. Sálfræðingar fara ekki leynt með það, en þeir eru sjaldan spurðir. Læknar vita þetta, en þeir þegja þegar umræðan fer inn á vígvöll pólitísks rétttrúnaðar.

Og segjum sem svo að hinn líffræðilegi munur á kynjunum geri það að verkum að konur finni sig, almennt séð, síður í hlutverki forritarans? Sé þetta raunin þá dregur þetta í engu úr þeim konum sem stunda forritun í dag. 

Um leið og umræða er fjarlægð frá yfirborðinu þá leitar hún neðanjarðar og mætir þar miklu síður málefnalegu aðhaldi eða fjölbreyttum nálgunum. En hún deyr ekki. Það er á hreinu. 


mbl.is Rekinn fyrir ummæli um konur og tækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukurinn

Úff...hvar á að byrja?

Að sjálfsögðu er líffræðilegur munur á kynjunum. Það er staðreynd. En ég á erfitt með að samþykkja það sem fregnir herma að koma fram í þessu fræga minnisblaði, þ.e. að þar sé því slegið sem föstu að konur séu líffræðilega hneigðari til þess að vera taugaveiklaðar, minna ákveðnar, hafi minna þol hvað varðar streitu, o.s.frv. Þess ber að geta að mótmæli mín hvíla ekki á heimildum eða tilvitnunum í rannsóknir - en ég á einhvern veginn erfitt með að samþykkja þetta sem eiginlegar líffræðilegar staðreyndir.

Það væri að  mínu mati stórfelld einföldun að áætla, að kynjaskipting í störfum og starfsferlum væri einvörðungu bundin við líffræðilegar orsakir. Þeir sýnilegu og ósýnilegu strúktúrar sem að miklu leyti ákvarða skiptingu þessa kynjanna á milli - og sem byggja á langri veraldar- og samfélagssögu sem og menningarlegum og samfélagslegum þáttum - er erfitt að útiloka sem orsaka-/áhrifavalda.

Pólitískur rétttrúnaður? Tja, það er þessu ágæta fyrirtæki í sjálfvald sett hvað þeir ákveða að gera í eigin starfsmannamálum - og ef þeir meta það að þeirra orðspor og 'mannorð' líði fyrir aðgerðir þessa ágæta starfsmanns, þá er ákvörðunin þeirra að segja honum upp. Sérstaklega ef þeir meta það, að sú óþægilega umræða sem upp er sprottin í kringum þetta mál veiki stöðu fyrirtækisins - fjárhagslega eða að öðru leyti.

Þessi umræða ýtir að sama skapi við þeirri staðreynd, að Kísildalurinn er að stærstu leyti (80 %) leikvöllur ungra karla - og mér skilst á umræðunni að þeir séu einnig að miklu leyti hvítir á hörund. Því er þetta liður í þeirri umræðu um hvort að það sé eitthvað samfélagslegs/menningarlegs eðlis sem viðhaldi þessu - eða hvort að þeir séu hreinlega bara betur fallnir til starfsins. Ég leyfi mér að hafa mínar efasemdir um það, þar til annað verður sannað/afsannað.

Ég ætla ekki að þykjast vita hvað konur vilja eða hvernig konur 'eru' - ekki frekar en ég geri ráð fyrir því að þær viti allt um hvað karlar vilji eða hvernig þeir eru - en ég hef mínar efasemdir um að þær séu líffræðilega verr gerðar fyrir forritun. Þó svo þær séu ekki með typpi.

Haukurinn, 8.8.2017 kl. 13:58

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Haukur,

Ég tek fram að ég hef ekki séð neitt sem bendir til að konur séu á neinn hátt verri forritarar en karlar, þ.e. meðal þeirra einstaklinga sem hafa valið sér þennan starfsvettvang. 

Mér skilst að strákar byrji fyrr að fikta við tölvur en eyði svo bara mikið af tölvutíma sínum í vitleysu, á meðan stelpur gangi frekar skipulega til verks og noti tölvu eins og verkfæri en ekki leiktæki. En hvað um það.

Sálfræðingar geta þulið upp langa lista af hinu og þessu sem er tölfræðilega marktækt mismunandi á milli kynja, að jafnaði. Kannski mikil vinna undir miklu líkamlegu álagi til lengri tíma, á kostnað tíma með fjölskyldu og vinum, sé bara ekki þess virði fyrir kvenfólk, jafnvel þótt launin séu góð. Kannski þetta sé samfélagsleg útilokun þar sem vinnustaðahúmor og vinnuhefðir henti síður kvenfólki, en fyrirtæki í blússandi samkeppni hljóta að sjá að slík útilokun á hæfileikum er einfaldlega rekstrarfræðilega heimskuleg. 

Sjálfur er ég vélaverkfræðingur sem dútla mér við forritun og vinn aðallega með karlmönnum. Ég sé ekkert í mínu vinnuumhverfi sem ætti að fæla kvenmenn frá (og jafnvel þvert á móti). Fjarvera þeirra byrjar fyrr - með því að velja ekki verkfræðinámið til að byrja með. Kannski það sé að breytast. Og kannski það megi ræða. 

Geir Ágústsson, 8.8.2017 kl. 16:27

3 Smámynd: Haukurinn

Sæll Geir,

Nei, sama segi ég. Hins vegar hafa þættir eins það að konur almennt komu seinna inn á vinnumarkaðinn, barneignir, o.s.frv. haft þau almennu áhrif að konur hafa venjubundið valið sér starfsferla þar sem þær hafa t.d. getað unnið hálfa vinnuviku, starfsframar þeirra eru bremsaðir að stærra lagi en karla sökum barneigna og barnaumsjónar, þar sem ekki hefur verið krafist lengri skólagöngu og svo mætti halda áfram að telja.

Þetta er hinsvegar að breytast að einhverjum leyti þar sem t.d. hlutur kvenna sem ljúka háskólanámi eykst ár frá ári að því er mér skilst.

En það er rétt að ef fyrirtæki líta rökrétt á málið, þá ætti alltaf að vera í þeirra hag að ráða bestu manneskjuna í hvert einasta starf. Óháð kyni, hörundslit, fótboltaliði, hvað það aðhefst á kvöldin með öðru fullorðnu fólki, o.s.frv.

Umræðan er alltaf góð - en ég veit ekki hvort það hjálpar henni ef menn eru að henda fram að því er virðist órökstuddum dylgjum um kynjatengda galla eða vankanta sem gera það að verkum að XY sé betra en XX.

P.s. fer ekki að verða kominn tími á fótbolta?

Haukurinn, 8.8.2017 kl. 17:25

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Órökstuddar dylgjur eiga jafnvel frekar skilið að komast í sviðsljósið en hið viðtekna og margsannaða. 

Sbr. að rasistar ættu að fá að tjá sig (á sínum prívat vettvangi) án þess að vera einfaldlega kallaðir rasistar og vera hent út í horn, þaggaðir niður eða skammaðir án mótraka. Því hvernig eiga þeir þá að læra að vera ekki rasistar, sé það hin ranga skoðun? 

Sbr. að þeir sem fyrirlíta konur (nema sem bólfélaga) eiga að fá að tjá þá skoðun sína og að um leið opnast faðmur hins góða fólks sem býður upp á opinskáa, uppbyggilega og málefnalega umræðu. 

Google rekur auðvitað þá sem þeir vilja, sérstaklega þá sem brjóta vinnureglur á vinnutíma með bréfsefni vinnunnar. 

PS. Er bolta-season að byrja? Vei!

Geir Ágústsson, 8.8.2017 kl. 17:33

5 Smámynd: Haukurinn

Ef ég skil ykkur frjálshyggjumenn rétt, þá á allt rétt á sér svo lengi sem það er ekki ofbeldi gegn öðrum, þ.e. þegar frelsi eins einstaklings þarf ekki að uppfylla við það að ganga á og brjóta gegn frelsi annars. Nema ég sé að misskilja eitthvað - og þá máttu alveg endilega leiðrétta mig.

'Ofbeldi' eins aðila gagnvart öðrum getur haft mörg form, og þar með talið að nota dylgjur, bábyljur, níð og fleira álíka til þess ætlað að brjóta aðra niður með orðum eða gera lítið úr þeim. Er þá ekki réttur eins til að segja hvað sem þeim fellur í hug farinn að brjóta gegn frelsi hins til að vera til?

P.p.s. Vonandi. Er farið að kitla í tærnar...

Haukurinn, 8.8.2017 kl. 18:41

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Svokallað "non-agression principle" sem frjálshyggjumenn aðhyllast (flestir) flokkar ekki orðspor, tilfinningar og geðhræringu sem hluti af líkama neins né eignasafni hans. Svo nei, þegar ég er kallaður gleraugnaglámur af einhverjum þá get ég því miður ekki gert annað en að forðast viðkomandi, hundsa hann eða svara fyrir mig með orðum. Sé ég ranglega ásakaður um þjófnað get ég ekki ráðist á þann sem svo mælir og um leið bara vonað að fólk samþykki ekki slíkar ásakanir án sönnunargagna. 

Hrópi ég hins vegar "eldur" í troðfullu kvikmyndahúsi og veld troðningi sem skaðar innbú húseiganda er hins vegar hægt að ásaka mig um skemmdarverk. 

Stórkostlega skemmtileg lesning í þessum dúr má nálgast hér:

Defending the Undefendable: The Pimp, Prostitute, Scab, Slumlord, Libeler, Moneylender, and Other Scapegoats in the Rogue’s Gallery of American Society 

https://mises.org/library/defending-undefendable

Geir Ágústsson, 8.8.2017 kl. 18:52

7 identicon

Það er voðalega lítið aðdáunarvert við þetta blessaða fyrirtæki í dag, þetta er orðið eitt versta fyrirtæki sem fyrirfinnst á jarðríkinu í dag að mínu mati, þeir voru flottir í denne tid, ekki svo mikið í dag og kristallar þessi frétt það alveg.

Halldór (IP-tala skráð) 13.8.2017 kl. 15:43

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Hér er minnisblaðið margumrædda. Google er á hættulegri krossferð gegn ótrúuðum.

https://firedfortruth.com/2017/08/08/first-blog-post/

Geir Ágústsson, 29.8.2017 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband