Til fyrirmyndar

Það eru til margar leiðir til að ná markmiði sem kostar fé eða fyrirhöfn eða bæði.

Ein er sú að betla og vona að stjórnmálamenn þröngvi skattgreiðendur til að borga.

Önnur er sú að safna fé með frjálsum framlögum.

Enn ein er sú að borga sjálfur. 

Vonandi lýst flestum best á seinni tvær aðferðirnar.


mbl.is Netverjar kaupa kastala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðið mig sem aðstoðarmann ráðherra!

Nýir ráðherrar raða nú í kringum sig vinum og félögum til að aðstoða sig. 

Ekki veitir af. Magnið af pappír sem rennur í gegnum Alþingi er gríðarlegt. Það hefur enginn maður komist yfir það síðan Hjörleifur Guttormsson sat á þingi. Ríkið skiptir sér af nánast öllu í samfélaginu, því miður. Hvað á t.d. að gera við allar þessar óhreyfðu innistæður bankanna? Þingmenn þurfa að hafa afstöðu hér. 

Síðan eru það fjölmiðlarnir. Þeir eru í sífellu að spyrja um hitt og þetta. Einhver þarf að svara þeim spurningum.

Svo má ekki gleyma að fylgjast með skoðanakönnunum. 

Félagslífið er líka krefjandi. Ráðherrar eru sífellt á ferðinni að ávarpa fólk.

Svo já, ráðherrar þurfa aðstoðarmenn.

Ég væri alveg til í að gerast aðstoðarmaður ráðherra. Það má vera hvaða ráðherra sem er en ekki væri verra að ég væri sammála honum í a.m.k. einhverjum málum. Ég get séð um að skrifa svör til blaðamanna og benda á hagfræðilegar rökvillur, en af þeim er nóg í umræðunni.

Tímakaupið er eflaust ágætt og ég þarf sennilega ekki að undirbúa vinnu mína mikið. Ég gæti verið aðstoðarmaður ráðherra samhliða mínu fulla starfi og fjölskyldulífi.

Já, ég held að þetta myndi henta mér ágætlega. 

Kæri ráðherra (bara einhver ráðherra), gerðu mig að aðstoðarmanni þínum!


mbl.is Lísa og Bergþóra aðstoða Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með skuldirnar og skattana?

Í fyrra var samþykkt 5 ára áætlun í ríkisfjármálum. Síðan var kosið. Nú skal ný 5 ára áætlun lögð fram. Þau líða hratt þessi 5 ár!

Stóra - risastóra - spurningin er: Hvað á að gera við skuldir hins opinbera?

Jú vissulega skuldar íslenska ríkið lítið miðað við mörg önnur vestræn ríki. Mörg önnur vestræn ríki eru samt tæknilega gjaldþrota. Þau munu aldrei greiða upp skuldir sínar. Á að miða rekstur sinn við rekstur þess sem er gjaldþrota og haldið á lífi af bönkum og skattgreiðendum?

Það þarf að hreinsa upp skuldirnar og setja upp varnir sem koma í veg fyrir að ríkisvaldið geti skuldsett sig upp í rjáfur.

En er það hægt? Nei, ætli það. Það má hins vegar reyna. Ein leið að markmiðinu er að lækka skatta umtalsvert og færa rekstur úr hinni svokölluðu samneyslu og út á hinn frjálsa markað. Þar með myndast ákveðin náttúruleg vörn gegn skattahækkunum. Minna ríkisvald getur ekki veðsett sig eins mikið og stórt ríkisvald. 

Skattar eru ennþá í himinhæðum eftir meingallaðar björgunaraðgerðir stjórnvalda á árunum eftir hrun. Skattar á fyrirtæki eru t.d. í himinhæðum

Ísland stendur frammi fyrir því sem snjöll manneskja kallaði 1000 milljarða áskorunina. Undir henni verður ekki staðið með nýrri 5 ára áætlun á hverju ári. Hér þarf sterk bein sem þola mótlæti þegar róttækum aðgerðum er hrundið af stað.

Ný ríkisstjórn Íslands þykist ætla að gera allt fyrir alla. Það er ekki hægt. Seinasta hrun í hinum alþjóðlega fjármálageira skall á þegar íslensk yfirvöld óðu í peningum og spáðu óendanlegu góðæri. Er sagan af fara endurtaka sig?

Kæra ríkisstjórn, varaðu þig! 


mbl.is Álag á eldsneyti lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin skapandi eyðilegging

Verslunin Kostur lokar og eigandinn segir í hreinskilni að ástæðan sé opnun Costco. Báðar verslanir byggja á svipaðri hugmyndafræði og önnur er einfaldlega hagkvæmari í rekstri en hin. Þá þarf eitthvað að gefa eftir.

Við þetta losnar um fjármagn og mannafla sem getur snúið sér að einhverju öðru. Kannski opnar í staðinn fjöldi lítilla verslana sem leggja áherslu á litlar pakkningar með vörur frá Austurlöndum. Kannski leitar fjármagn í kaffihús, bakarí eða kertaverkstæði. Það veit enginn. Þúsundir einstaklinga eru stanslaust að skoða ný tækifæri á öllum tegundum markaða og munu prófa sig áfram þar til þeir hitta á einhverja óuppfyllta þörf meðal neytenda.

Þegar banki fer á hausinn á hið sama að fá að gerast: Gjaldþrot og flutningur á fjármagni í aðrar tegundir rekstrar. Það gerist hins vegar sjaldan. Bankar eru svo verndaðir fyrir áföllum og samkeppni að þeir lifa að því er virðist að eilífu og þéna fúlgur á hverju ári, nánast sama hvernig árar. 

Þegar sjúkrahús er rekið með halla ár eftir ár á það að fá að fara á hausinn. Það gerist hins vegar ekki. Sjúkrahúsin eru í eigu aðila sem getur sótt nánast óendanlegt fé í vasa skjólstæðinga sinna, sem geta sér enga vörn veitt. Þeir eru ríkiseinokunarfyrirtæki sem fá að tapa fé, safna í biðraðir og útskrifa fársjúkt fólk, og gera allt þetta án nokkurs markaðsaðhalds.

Hin skapandi eyðilegging hins frjálsa markaðar er hreinsandi, skapandi, ýtir undir frumkvöðlastarfsemi, flytur fólk og fé í arðbærari greinar og stuðlar að sem mest fáist fyrir sem minnst. 

Þar sem hún fær ekki að eiga sér stað blasir við stöðnun, okur og rýrnandi gæði á sífellt dýrari þjónustu.

Einkavæðum allt. 


mbl.is Fjölmenni samankomið í Kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðileg uppgötvun! Skattur hækkar verð og minnkar eftirspurn!

Það virðist hafa runnið upp fyrir einhverjum að með því að setja skatt á eitthvað þá hækkar það í verði, eftirspurn minnkar, velta dregst saman og allir sem hafa lífsviðurværi af sölu verða fyrir skerðingu á tekjum. Meira að segja þar sem aukning á veltu á sér stað er um að ræða minni aukningu en hefði annars verið.

Þetta gildir um tannbursta, bækur, klippingu, gistinætur og hjólbarðaskipti.

Það er samt ekki öll vinna og þjónusta sem vekur athygli stjórnmálamanna.

Stjórnmálamenn hika t.d. ekki við að fara rosalega illa með lífsviðurværi hárgreiðslufólks, pípara, smiða, bifvélavirkja, málara og forritara. Þeirra vinna er skattlögð upp í rjáfur. 

Hins vegar geta rithöfunar, skáld, bókaútgefendur og leikarar oftar en ekki bara rétt út hendurnar og peningarnir rigna niður á þær, beint úr vösum skattgreiðenda.

Þetta er andstyggileg mismunun á lífsviðurværi fólks en mjög í tísku engu að síður.

Nú skal skattur á bækur lækkaður. Það hefur nýlega runnið upp fyrir stjórnmálamönnum að skattahækkanir valda samdrætti. Bækur á pappírsformi eru að seljast minna. Þær skal því gera ódýrari. Bækur ná þar með samkeppnisforskoti á aðra afþreyingu. Þetta er lögleg mismunun en siðlaus. 

Í stað þess að halda úti flóknu, siðlausu og fjárfreku skattkerfi væri kannski einn daginn hægt að ræða flata og lága skatta sem mismuna ekki einum á kostnað annars og gera allt fólk og öll fyrirtæki jöfn gagnvart löggjafanum?


mbl.is Ríkisstjórnin boðar afnám bókaskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægt að anda léttar

Ráðherrar hafa verið skipaðir og það er hægt að anda léttar.

Í stól fjármálaráðherra er maður sem leggur mikla áherslu á að greiða niður skuldir hins opinbera. Það er gott. Að vísu fær hann ekki að lækka skatta að ráði en það var svo sem aldrei hans keppikefli. Hann getur þó skreytt sig með því að hafa afnumið vörugjöld og flesta tolla með tilheyrandi jákvæðu afleiðingum

Í stól utanríkisráðherra er maður sem leggur áherslu á friðsamleg samskipti og viðskipti við sem flest ríki, þar á meðal Bretland sem yfirgefur bráðum ESB. Það er gott. Hann hefur líka talað um mikilvægi fríverslunar, sem er gott.

Í stól dómsmálaráðherra situr sami einstaklingur og áður og það er gott. Í dómsmálaráðuneytinu eru mörg stór og mikilvæg mál sem þarf að taka föstum tökum. Meðal annars þarf að ryðja Hæstarétt og endurnýja þar frá grunni.

Í öðrum ráðuneytum er fólk sem mun ekki fara út í neinar umdeildar eða róttækar aðgerðir. Þar er hægt að búast við algjörri stöðnun. Kannski er það skárra en illdeilur þótt mín skoðun sé raunar sú að þótt það kosti mikil átök að koma ríkisvaldinu út úr einhverjum rekstri þá sé það þess virði.

Nú er að vona að það pissi enginn á sig af hræðslu þegar skoðanakannanir byrja að birtast á næstu vikum og mánuðum og hlaupi út úr samstarfinu í örvæntingu eins og flokkurinn sem senn verður lagður niður.

Vonum líka að næsti alvarlegi skellur í fjármálakerfi heimsins dynji ekki á þessari stjórn. Hún verður þá fljót að fara úr límingunum eins og Samfylkingin forðum. 

Þetta verður íhaldssöm, varfærin og róleg stjórn. Íslendingar þurfa kannski bara á því að halda í bili.


mbl.is Ráðherrakapallinn opinberaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað fyrir alla: Jólasveinastjórnin fæðist

Ný ríkisstjórn, Jólasveinastjórnin, er að fæðast. Hjá henni fá allir, nema skattgreiðendur, eitthvað gott í skóinn.

Ríkið ætlar að tryggja aukna þenslu með því að færa milljarða úr bönkum í innviði. Bankana á svo að selja, en verðminni en ella þegar búið er að mjólka þá. Fyrir andvirðið á að greiða niður skuldir ríkisins, sem eru enn alltof háar og gera ríkissjóð veikan fyrir áföllum af ýmsu tagi (nýju bankahruni, eldgosi í Kötlu, flótta fiskistofna á aðrar slóðir, tískustraumabreytingum hjá ferðamönnum osfrv.).

Meðlimir bæði VG og Sjálfstæðisflokks hugga sig sennilega við það að flokkur þeirra sé, þrátt fyrir allt, í ríkisstjórn, og geti þar haft meiri áhrif en seta í stjórnarandstöðu. Það er auðvitað rétt, en á kostnað svo gott sem allra kosningaloforða. VG hefði viljað hækka skatta meira, og margir Sjálfstæðismenn hefðu viljað aukna áherslu á að hreinsa upp skuldir ríkisins og auka svigrúm til skattalækkana. Hvorugur fær allar óskir sínar uppfylltar. 

Vissulega eru málamiðlanir hluti af pólitíkinni. Frjálshyggjumenn hljóta samt að spyrja sig að því hvað býður þeirra við næstu kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn er, á norrænan mælikvarða, vinstra megin við miðju. Það er gríðarlegt svigrúm hægra megin við hann fyrir staðfastari flokk sem er síður líklegur til að hlaupa á eftir skoðanakönnunum þegar stefnumálin eru ákveðin.

Það þyrfti ekki einu sinni að vera sérstaklega róttækur frjálshyggjuflokkur, bara eitthvað sem líkist hinum danska Liberal Alliance

Sjáum hvað setur og vonum að það fari ekki allt á hliðina hjá vel meinandi en hagfræðilega ólæsum jólasveinum í nýrri ríkisstjórn. 


mbl.is Töluverð uppstokkun á skattkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknin og stjórnmál

Á öllum tímum síðan iðnbyltingin var fyrir alvöru byrjuð að breiðast út hafa stjórnmálamenn talað um að störf hverfi og að aumur almúginn hafi ekkert fyrir stafni.

Enginn slíkur spádómur hefur ræst þar sem frjáls markaður hefur fengið að starfa, a.m.k. að einhverju leyti.

Það er rétt sem margir segja að tæknin mun leysa af hólmi manninn á sífellt fleiri sviðum.

Það er líka rétt að félagsfærni, frumleiki og sköpunargáfur munu skipta sífellt meira máli.

Búðarkassastarfsmaðurinn hverfur. Í staðinn kemur eitthvað annað.

Leigubílstjórinn hverfur. Í staðinn kemur eitthvað annað.

Kannski hverfa líka nuddarar, ræstingarfólk, flugþjónar, flugmenn, skipstjórar og margar tegundir verkfræðinga og lögfræðinga. 

Í staðinn kemur eitthvað annað.

Það er ekki fyrr en að menn hella sandi í gangverk hins frjálsa markaðar að vandamálin spretta upp eins og arfi í beði. Stjórnmálamenn má líka forrita. Má ekki leggja niður störf þeirra líka á næsta áratug? 


mbl.is Arður tæknibyltingar skili sér sanngjarnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjánalegt að trúa á hlutlausa eigendur

Í Bandaríkjunum hafa nokkrir fjölmiðlar nú skipt um hendur. Það er eins og það er. Fjölmiðlar eins og önnur fyrirtæki ganga kaupum og sölum.

Fjölmiðlar eru samt svolítið sérstök fyrirtæki. Þar vinnur fólk við að skrifa, segja frá, lýsa, boða og tjá sig og reksturinn gengur vel ef margir lesa, horfa og hlusta og kaupa dótið og þjónustuna sem er auglýst á sömu miðlum.

Margir hefðbundnir fjölmiðlar glíma við hratt lækkandi tekjur. Það nennir enginn að sjá auglýsingar lengur nema þeim sé laumað inn á samfélagsmiðlasíðurnar eða komi úr munni einhvers áhrifavaldsins þar. 

Hvað er þá til ráða? Það er ýmislegt:

  1. Aðlaga fréttaflutninginn að smekk og skoðunum áheyrenda/áhorfenda. Það vilja allir fá staðfestingu á skoðunum sínum.
  2. Fjármagna fjölmiðla með fé úr öðrum og ábatasamari rekstri. Þá getur fjölmiðill haldið áfram að segja óvinsæla hluti og þótt hann tapi á því þá gerir það ekkert til, enda ekki ætlað að græða á því.
  3. Búa til smáforrit (e. app) og vona að fólk nenni þá frekar að lesa eða horfa á, t.d. á meðan það er á klósettinu með símann.
  4. Eyða miklum og löngum tíma í að byggja upp trúverðugleika með markvissri ritstjórnarstefnu, aðhaldssemi í rekstri og öguðum fréttaflutningi. Þetta er langdregnasta og leiðinlegasta aðferðin af þeim öllum og eiginlega enginn sem nennir því lengur.
  5. Komast á ríkisspenann.

Eigendur fjölmiðla þurfa að hugleiða allar þessar leiðir og fleira. Flestir velja að tapa fé á fjölmiðlum sínum og velja leið nr. 2. Þetta geta eigendur gert beint, með því að hlutast til um fréttirnar frá degi til dags í eigin persónu eða í gegnum ritstjóra, eða óbeint með því að velja bara fólk til starfa sem snýst á ákveðinni sveif.

Og það er ekkert að því. Ef maður vill brenna seðlabúnt á báli á hann að geta gert það. Ef maður vill borga undir fjölmiðil og nota sem málpípu þá er það í hans fulla rétti. Ef maður vill standa á þaki húss síns og baula skoðanir sínar yfir alla í nágrenninu þá er það gott og blessað.

Enginn eigandi fjölmiðils er fullkomlega hlutlaus um rekstur fjölmiðilsins. Það er á hreinu. Eigendur þurfa að koma að rekstri hans með einum eða öðrum hætti. Sumir velja sjálfstæða ritstjórn, aðrir ekki. 

Það er ekki hlutverk fjölmiðla að þykjast vera hlutlausir og telja fólki í trú um að hjá þeim finnist hið eina sanna jafnvægi sannleika og frásagnar. Þeir eiga fyrst og fremst að reyna vera heiðarlegir og sanngjarnir. Finnst mér. 


mbl.is Koch-bræður koma að kaupunum á Time
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tími gefst fyrir raunverulega glæpi

Það eru alltaf góðar fréttir þegar lögreglunni tekst að stöðva raunverulega glæpi.

Meðal raunverulegra glæpa eru: Þjófnaður, ofbeldi að fyrra bragði (sjálfsvörn má telja eðlilegt ofbeldi sé hún í hlutfalli við umfang árásarinnar), frelsissviptingu og ógnanir þar sem ofbeldi er hótað.

Því miður fer alltof mikið af tíma lögreglu og yfirvalda í allskonar annað en glæpi. Má þar nefna framleiðslu, dreifingu, sölu og neyslu allskyns efna. Það á heldur ekki að vera hlutverk lögreglu að sinna starfi foreldris og hella niður áfengi eða gera upptækar þurrkaðar plöntur, jafnvel þótt sá varningur sé í höndum unglinga. 

Lögregla sóar að auki miklum tíma í pappírsvinnu vegna allskyns verknaða sem eru í raun ekki glæpir, bara lögbrot. 

Það er einfaldlega til of mikið af lögum sem draga athyglina frá raunverulegum lögreglustörfum. 

Tvennt er þá í stöðunni: Annars vegar að fækka lögum og þar með lögbrotum, sem má teljast ólíklegt að gerist í umhverfi pólitísks rétttrúnaðar þar sem meira og meira er bannað. Hins vegar að lögreglan sýni meira frumkvæði í forgangsröðun sinni og hætti einfaldlega að eyða púðri í verknaði sem eru fyrst og fremst lögbrot en ekki glæpir.

Um leið má losa gríðarlegan mannafla til að sinna raunverulegri löggæslu, stöðva þjófnaði, uppræta mansal og koma í veg fyrir ofbeldi.

Eða á ég að vera kræfur og segja að lögreglan og ríkisvaldið séu ekki starfi sínu vaxin, og að það mætti byrja að hugleiða annars konar fyrirkomulag á vernd gegn ofbeldi og þjófnuðum? Eitthvað í samkeppnisrekstri sem nýtur aðhalds? 


mbl.is Björguðu um 30 fórnarlömbum mansals
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband