Hin skapandi eyðilegging

Verslunin Kostur lokar og eigandinn segir í hreinskilni að ástæðan sé opnun Costco. Báðar verslanir byggja á svipaðri hugmyndafræði og önnur er einfaldlega hagkvæmari í rekstri en hin. Þá þarf eitthvað að gefa eftir.

Við þetta losnar um fjármagn og mannafla sem getur snúið sér að einhverju öðru. Kannski opnar í staðinn fjöldi lítilla verslana sem leggja áherslu á litlar pakkningar með vörur frá Austurlöndum. Kannski leitar fjármagn í kaffihús, bakarí eða kertaverkstæði. Það veit enginn. Þúsundir einstaklinga eru stanslaust að skoða ný tækifæri á öllum tegundum markaða og munu prófa sig áfram þar til þeir hitta á einhverja óuppfyllta þörf meðal neytenda.

Þegar banki fer á hausinn á hið sama að fá að gerast: Gjaldþrot og flutningur á fjármagni í aðrar tegundir rekstrar. Það gerist hins vegar sjaldan. Bankar eru svo verndaðir fyrir áföllum og samkeppni að þeir lifa að því er virðist að eilífu og þéna fúlgur á hverju ári, nánast sama hvernig árar. 

Þegar sjúkrahús er rekið með halla ár eftir ár á það að fá að fara á hausinn. Það gerist hins vegar ekki. Sjúkrahúsin eru í eigu aðila sem getur sótt nánast óendanlegt fé í vasa skjólstæðinga sinna, sem geta sér enga vörn veitt. Þeir eru ríkiseinokunarfyrirtæki sem fá að tapa fé, safna í biðraðir og útskrifa fársjúkt fólk, og gera allt þetta án nokkurs markaðsaðhalds.

Hin skapandi eyðilegging hins frjálsa markaðar er hreinsandi, skapandi, ýtir undir frumkvöðlastarfsemi, flytur fólk og fé í arðbærari greinar og stuðlar að sem mest fáist fyrir sem minnst. 

Þar sem hún fær ekki að eiga sér stað blasir við stöðnun, okur og rýrnandi gæði á sífellt dýrari þjónustu.

Einkavæðum allt. 


mbl.is Fjölmenni samankomið í Kosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nýfrjálshyggja og kapitalismmi er hvor í sínu lagi gjorólíkt.

Heilbrigðis þjónusta er rukkuð með sköttum og samt um leið rukkuð með gjaldtöku.

Virðist vera löglegur þjófnaður með sögusögnum um að heilbrigðisþjónusta eigi ekki að vera " frí ".

Í hvað renna gríðar háir skattar almennings ef ekki í þá hýt sem ætti að þjóna þeim sjálfum?

L. (IP-tala skráð) 3.12.2017 kl. 03:46

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Það er bara eins og Gordon Gekko sé mættur á Moggabloggið :-)

Wilhelm Emilsson, 3.12.2017 kl. 04:24

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Oliver Stone gerði Gordon Gekko viljandi að óheiðarlegum þrjóti sem stal, sveik og beitti fantabrögðum til að fá sínu framgengt.

Hins vegar er fræg ræða Gordon Gekko í myndinni í eðli sínu alveg hárrétt.

"Greed, for a lack of a better word, is good."

Hérna flækist orðið "greed" fyrir fólki. 

Hvað kallast það þegar eigandi hárgreiðslustofunnar vill skila hagnaði af rekstrinum? Er hann gráðugur? Gráðugur á sama hátt og krakki sem fyllir vasa sína af miklu meira sælgæti en hann getur torgað? Gráðugur á sama hátt og maðurinn sem borðar yfir sig af kökum á hverjum degi þar til hann hlýtur heilsubresti?

Er göfugra að vera í sífelldum taprekstri? Eða að tapa fé annarra án afleiðinga?

Geir Ágústsson, 3.12.2017 kl. 11:31

4 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Geir. Ég var nokkuð viss um að þú þekktir vel ræðuna hans Gekko. Hann er þrjótur, jú, en heillandi þrjótur. Og ef við notum annað orð yfir græðgi, t.d. lífsþorsta þá fáum við annað sjónarhorn á málið. 

En ef hin ósýnilega hönd markaðarins er látin ráða bókstaflega öllu, er útkoman arðrán og ógæfa.

Wilhelm Emilsson, 3.12.2017 kl. 18:18

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég veit ekki hvað menn óttast, satt að segja.

Ég hefði frekar haldið að sá hjartaveiki öfundaði þá sjóndöpru af öllu úrvalinu sem þeim stendur til boða á frjálsu markaði.

Sá hjartaveiki á bara einn kost: Að bíða á biðlistum hins opinbera og vona það besta eftir að hafa borgað marga tugi milljóna í skatta vegna heilsbrigðisþjónustu alla ævi.

Sá sjóndapri getur valið að fá tæki til að leiðrétta sjón sína í óendanlegu úrvali (gleraugu, linsur), eða láta senda leisergeisla í augun á sér, eða skipta þar um linsu. Allt þetta verður betra og betra og ódýrara og ódýrara. 

En óttinn við hið óþekkta er oft meiri en tilhlökkunin þótt menn geti með vissu sagt að hið óþekkta, sveigjanlega og tilraunaglaða verði mun betra en hið þekkta, rótgróna og staðnaða. 

Geir Ágústsson, 4.12.2017 kl. 08:15

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Þess má geta að hugtakið "skapandi eyðilegging" eins og ég nota það á ekki rætur sínar að rekja til kvikmyndar Oliver Stone, heldur hagfræðingsins Joseph Schumpter (þótt saga hugtaksins í öðrum skilningi sé eldri). 

Wikipedia.

Geir Ágústsson, 4.12.2017 kl. 08:42

7 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir svarið, Geir. Ef ég man rétt talaði Nietzsche um skapandi eyðileggingu og eflaust fleiri.

Frelsi til að velja er yfirleitt af hinu góða. Ef ef við látum markaðinn sjá um spítala hvað verður um þá sem hafa ekki efni á því að borga?

Wilhelm Emilsson, 5.12.2017 kl. 09:54

8 Smámynd: Wilhelm Emilsson

"En ef . . ." vildi ég sagt hafa :-)

Wilhelm Emilsson, 5.12.2017 kl. 09:55

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Sögulega séð hefur aðstoð við náungann verið á höndum einstaklinga og góðgerðarsamtaka. Við þekkjum Mæðrastyrksnefnd á Íslandi vel.

Íslendingar, meðal annarra, læra að það er ríkið sem á að sjá um alla aðstoð, gegn ríflegri skattheimtu. Fólk fellur fyrir þessu, nú fyrir utan að enginn hefur efni á því að borga bæði háa skatta og gefa til góðra málefna.

Ég óska engum þess að vera upp á kerfið komið. Heldur ekki fátækum. Jafnvel ekki þótt þeim sé smalað inn á biðlista eftir aðgerðum á spítala sem þeir komast svo kannski aldrei í. 

Geir Ágústsson, 6.12.2017 kl. 08:16

10 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Og ef náunginn og góðgerðasamtök eru ekki nógu góð? Er betra að treysta á góðvild ókunnugra fremur en skilvirkt kerfi, þar sem öllum er tryggður sami réttur?

Wilhelm Emilsson, 6.12.2017 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband