Fimmtudagur, 20. september 2018
Sambúð með 100 manns
Ímyndaðu þér að þú værir í sambúð. Fyrir utan maka þinn og þín eigin börn væru á sama heimili 100 aðrar manneskjur. Þetta væri vissulega stórt heimili en fjöldinn líka mikill.
Þessi hópur þarf að ákveða hverjir þrífa klósettið, versla inn, taka til, þrífa gólf, þurrka af, þvo föt og ganga frá þeim, hjálpa börnum að bursta tennur og útbúa nesti, sækja, skutla og setja bensín á bílinn.
Í svona miklum fjölda er hætt við að einhverjir reyni að komast hjá því að vinna sín verk. Um leið ætlast þeir sömu til að aðrir vinni sín verk. Þetta fólk kemst stundum upp með það. Þetta eru þeir lötu sem uppskera meira en þeir sáðu. Þeir njóta sömu lífskjara og aðrir en í skiptum fyrir minni vinnu.
Um leið væru aðrir sem leggðu meira á sig en aðrir svo sambúðin gangi vel fyrir sig. Þeir týna upp rusl sem þeir sjá jafnóðum þótt slíkt eigi að vera í verkahring annarra. Þeir þrífa aðeins meira en verkskipulagið mælir fyrir. Þeir borga aðeins meira til sameiginlegu innkaupanna en aðrir. Þetta eru þeir sem uppskera minna en þeir sáðu. Þeir njóta sömu lífskjara og aðrir en í skiptum fyrir meiri vinnu.
Skyndilega dettur einhverjum í hug að sambúð með svona mörgu fólki gangi ekki upp. Það þurfi að setja upp milliveggi og innan þeirra búa smærri hópar sem þurfi að skipta verkum sínum upp á nýtt. Skyndilega blasir það betur við hverjir gera meira en ætlast er til og hverjir gera meira. Þeir duglegu heimta meiri umbun og að þeir lötu fái minna en aðrir. Það blasti síður við í 100 manna sambúðinni hverjir voru hinir duglegu og hverjir voru hinir lötu. Núna blasir það við öllum.
Verkalýðsfélögin eru að reyna steypa launþegum saman í 100 manna sambúðina. Það mun draga úr starfsorku þeirra duglegu en þeir lötu verða alsælir. Allir fá meðallaun hópsins í heild sinni. Þeir duglegu geta ekki unnið sig upp. Þeir lötu hafa minni ástæðu til að rífa sig upp af rassgatinu.
Væri ekki best ef fólk fengi bara að semja um sín eigin kaup og kjör?
![]() |
Reyna að ná breiðri samstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 19. september 2018
Já og nei
Það liggur fyrir að Laugavegur og raunar fleiri svæði miðbæjarins lokist fyrir bílaumferð. Göngugötur eru mjög í tísku og ferðamenn eru hrifnir af þeim, sem og mæður í fæðingarorlofi sem vilja rölta um á dögum þar sem veðrið heimilar slíkt. Í ráðhúsinu sitja menn ofan á sínum bílastæðakjallara og finnst voðalega notalegt að skjótast í pulsu í hádeginu án þess að þurfa rekast á bíl.
Þetta þýðir að þeir sem reka fyrirtæki í miðbænum í dag þurfa að gera nýjar áætlanir. Mörg fyrirtæki hafa nú þegar flúið miðbæinn og á opnari svæði í nágrannasveitarfélögunum. Sú tilhneiging heldur áfram. Önnur hafa þrýst á yfirvöld að byggja bílastæðahús- eða kjallara fyrir sína skjólstæðinga, svo sem Harpan sem fær dýrustu bílastæði landsins til ráðstöfunar. Fyrirtæki sem liggja fjarri bílastæðahúsum og sjá ekki fram á að fá slík, og geta um leið ekki treyst á að þeirra viðskiptavinir geti gengið í hálku í mótvindi upp brekku, þurfa einfaldlega að fara.
Allt í þessum heimi er undirorpið breytingum. Stundum gýs eldfjall. Stundum er götu lokað. Stundum er skattur hækkaður. Stundum breytist smekkur neytenda. Eigendur fyrirtækja geta vonast til að hafa áhrif á sumt en ekki allt. Og ef tískan meðal stjórnmálamanna með bílastæði undir vinnustað sínum bendir á göngugötur þá eiga fyrirtæki ekki séns. Þau þurfa að flýja eða skipta út kúnnahóp sínum.
![]() |
Aldrei hlustað á okkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Sunnudagur, 16. september 2018
Maður sem hugsar í lausnum
Það er hressandi að lesa viðtöl við fólk sem hugsar í lausnum og notar jákvætt hugarfar til að vinna á erfiðleikum og mótlæti. Slíkt er ekki sjálfgefið. Oftar en ekki eru viðtöl fjölmiðla og tímarita við fólk sem virðist vera í fullri vinnu við að kvarta, kenna öðrum um, vorkenna sjálfu sér og heimta að aðrir lagi þeirra eigin vandamál (Auðvitað er til fólk sem hefur orðið fyrir mótlæti og getur lítið gert til að bæta aðstæður sínar, en það hlýtur að vera lítill minnihluti.)
Þröstur Leó Gunnarsson, leikari og kokkur, er góð fyrirmynd.
![]() |
Fékk símtal frá Guðlaugi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 15. september 2018
Eru listamannabæturnar ekki nóg?
Alveg afbrigðilega mikil áhersla virðist vera hjá ríkinu að framleiða afþreyingu. Kvikmyndaframleiðendur fá vaskinn endurgreiddan. Listamenn fá framfærslubætur. Tónleikar óvinsællar tónlistar eru niðurgreiddir. Leikhúsin, sem tapa flest kvöld fyrir kvikmyndahúsunum, fá gríðarlega styrki. Heilum her listamanna sem geta ekki framfleytt sér er haldið uppi af skattgreiðendum. Og nú er talað um skattaívilnanir.
Af hverju er þessi brjálæðislega áhersla á að framleiða afþreyingu? Hefur ríkið áhyggjur af því að fólk hafi of mikinn frítíma? Er ekki nóg að gera þótt ríkið skipti sér ekki af?
Er vinnuvikan orðin of stutt hjá mörgum? Svo stutt að það þarf að hjálpa fólki að finna sér eitthvað að gera, bæði með niðurgreiðslum og ríkisrekstri?
Átti ríkisvaldið ekki upphaflega að verja réttindi okkar og eigur, greina úr ágreiningsmálum og ef til vill rétta einhverjum hjálparhönd? Hvaða stjórnmálaheimspekingur barðist fyrir því að ríkið færi út í framleiðslu og niðurgreiðslu á leiðum til að drepa tímann? Hvaðan kom þessi hugmynd?
![]() |
Rithöfundar hafa áhyggjur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. september 2018
Ef Apple væri í heilbrigðisgeiranum
Hugsið ykkur ef fyrirtæki eins og Google, Apple, Amazon, Sony, Microsoft, Nokia, Cisco, Toyota, Siemens og Samsung gætu séð hagnað í sölu á heilbrigðisþjónustu. Sjúklingar yrðu samstundis tengdir við tæki sem skönnuðu þá frá toppi til táar og greindu öll mein. Þráðlaus tæki sendu upplýsingar inn í tölvur með öflugri gervigreind og einkenni heilablóðfalla, hjartaskemmda og blóðeitrunar yrðu greind á augabragði og hjúkrunarfræðingur kallaður út.
Fólk þyrfti ekki að borga stóran hluta launa sinna til að fjármagna heilbrigðiskerfi sem tekur bara við fólki í bráðri lífshættu.
Í staðinn greiddi fólk hóflega áskrift að fullkominni þjónustu sem nýtti sér tæknina til að spara launakostnað en eyddi í laun þegar sérfræðinga væri þörf.
Í staðinn fyrir viðtalstíma hjá syfjuðum lækni sem greinir ekkert tæki við reglubundið og jafnvel samfellt og rafrænt og stafrænt eftirlit sem greinir sjúkdóma áður en þeir verða óviðráðanlegir og þar með rándýrir.
Fólk gæfi með glöðu geði upplýsingar um heilsufar sitt og sjúkrasögu til gríðarmikilla gagnagrunna sem tölvuforrit plægðu sig í gegnum til að greina mynstur og einkenni. Nú eða ekki. Það væri undir hverjum og einum komið.
Tryggingafélög gætu lækkað til muna iðgjöld sín á sjúkratryggingum (sem kæmu í stað hins opinbera kerfis) því alvarlegir sjúkdómar yrðu greindir mun fyrr og yrðu auðveldari í meðhöndlun, auk þess sem öflug greiningarvinna og tölfræði með milljónum gagnapunkta gerðu alla greiningu mun betri og líkurnar á réttri meðhöndlun mun meiri.
Lyfjafyrirtækin yrðu ekki sátt. Þau fengju færri áskrifendur að lyfjum sem halda sjúkdómum sem eru orðnir ólæknandi í skefjum. Færri þróuðu með sér krabbamein að því marki að það yrði ólæknandi og banvænt. Færri fengju líffærabilanir vegna langvarandi sjúkdóma sem fela einkenni sín svo árum skiptir.
Fagstéttir eins og læknar og hjúkrunarfræðingar yrðu að endurmennta sig og í sumum tilvikum lækka í launum enda orðnir síður nauðsynlegar stéttir því færri þyrftu á langvarandi dvöl á spítölum að halda, og flest mein yrðu greind og meðhöndluð svo snemma að minni sérhæfingar væri þörf til að sinna þeim. Þeir sjúkdómar sem eftir stæðu og er erfiðast að eiga við fengju nauðsynlegan mannskap og þjálfun og fjármagn til að líkurnar á bata aukist.
Já, hugsið ykkur ef öll framþróun og tæknistökk símanna og úranna og tölvanna gæti einnig átt sér stað í heilbrigðisgeiranum?
En svo er ekki. Og fólk deyr of snemma úr of miklum sársauka eftir að hafa kostað svimandi fjárhæðir fyrir sig og aðra. Læknar í dag eru í raun og veru þeir sömu og læknar 19. aldar, bara með betri pillur og aðeins betri tæki, en ekki miklu.
Fer ekki að koma tími á Google Hospital eða iDoctor eða Microsoft Health eða Samsung Galaxy Nurse?
![]() |
Hjartalínurit í snjallúrinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 11. september 2018
Afnemið tekjuskattinn
Stjórnvöld ættu að íhuga alvarlega að afnema tekjuskattinn og veita þannig launþegum mestu kaupmáttaraukningu í manna minnum. Eftir stæði bara útsvarið sem mætti líka hæglega lækka með því að fækka skyldum á sveitarfélög, afnema lögbundið lágmarksútsvar og koma á hressilegri samkeppni þeirra á milli um íbúa og fyrirtæki.
Um leið gæti ríkið hætt að vasast í ýmsu því sem það neyðist til að vasast í því skattgreiðendur hafa ekki efni á því vegna hinna háu skatta.
Það er ekkert víst að ríkið yrði af miklu ránsfé úr vösum skattgreiðenda og fyrirtækja. Aukinn kaupmáttur færi að hluta í aukna neyslu sem ber virðisaukaskatta. Hann færi að hluta í aukinn sparnað sem fyrirtæki gætu lánað til hagkvæmra framkvæmda og sprotafyrirtæki gætu sótt í. Um leið mætti leggja niður peningahítina Íbúðarlánasjóð, alla opinbera nýsköpunarsjóði og stóra afkima velferðarkerfisins (fólk hefði efni á því að vinna og lifa af launum sínum). Neytendur hefðu efni á að kaupa íslenskar landbúnaðarvörur á markaðsverði og bændur kæmust þannig af spenanum. Allskyns opinberar framkvæmdir, eins og vegalagning, gæti orðið að einkaframkvæmdum því neytendur hefðu efni á að borga fyrir notkun veganna, og sú verðlagning gæti miðast við álag og þannig dreift umferð mun betur.
Það er margt unnið með því að afnema tekjuskattinn. Er eftir einhverju að bíða?
![]() |
Segir ekkert gert fyrir tekjulága |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. september 2018
Næst fá Svíþjóðardemókratar 35% atkvæðanna
Stjórnmálaelítan í Svíþjóð aftengdist kjósendum sínum fyrir löngu síðan. Núna hoppa þeir í stríðum straumum á eina flokkinn sem tekur stærsta áhyggjuefni venjulegra Svía alvarlega: Innflytjendaflóðbylgjan.
Þar með er ekki sagt að Svíar séu orðnir fordómafullir rasistar eða að þeir tími ekki að borga undir aðstoð við fólk í neyð.
Þeir hafa einfaldlega áhyggjur af samfélagi sínu og skiljanlega svo.
Í Svíþjóð berjast gengi innflytjenda um yfirráðin yfir ólöglegum mörkuðum fyrir vændiskonur og eiturlyf.
Þar eru bílabrennur orðnar algengari en fólk þolir.
Innflytjendur fremja svimandi hátt hlutfall allra glæpa í Svíþjóð.
Velferðarkerfið hefur verið þanið að þolmörkum sínum til að standa undir innflytjendastraumnum. Ekki mátti sænskt samfélag við því. Þar hefur velferðarkerfið fyrir löngu kæft hagkerfið með skattheimtuþörf sinni. Raunfjölgun starfa í sænska hagkerfinu hefur ekki verið til staðar í nokkra áratugi. Ekki batnar ástandið núna.
Fólk er hætt að kaupa þá lygi að Svíar séu að hjálpa illa stöddum flóttamönnum nema að litlu leyti.
Ef stjórnmálaelítan hlustar ekki er hætt við að flokkar eins og Svíþjóðardemókratarnir, sem enginn er sérstaklega spenntur fyrir, komist í algjöra oddaaðstöðu í náinni framtíð. Hvað gera menn þá?
![]() |
Rauðgrænir einum fleiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 7. september 2018
Kvóti hefur kosti og galla
Kvótakerfið svokallaða hefur kosti og galla.
Það hefur þann stóra galla að kvótinn er ákveðinn af opinberri stofnun sem fylgir ákveðnum kenningum sem tekur langan tíma að gefast upp á. Menn hafa í áratugi deilt um það hvort sé betra að grisja eða vernda en yfirvöld hafa engan áhuga á slíkri umræðu.
Annar stór galli kerfisins er miðstýringarvald ríkisins. Yfirvöld eru alltaf að hringla í því hvar má veiða og hvað og hvenær. Getur einhver ímyndað sér bónda sem þyrfti að búa við slíka stjórnun? Honum yrði daglega sagt fyrir verkum í smölun, slátrun, fóðrun, meðhöndlun og vinnslu. Hann yrði að athuga nýjustu reglugerð til að sjá hvenær hann megi slátra hvaða kind og með hvaða vopni má taka kindina af lífi. Viðkomandi bóndi yrði æfur.
Um leið hefur kvótakerfið líka kosti. Útgerðirnar eru aðeins nær því en ella að geta kallað sig eigendur atvinnutækja og þora því að byggja upp til lengri tíma án þess að óttast að hið opinbera setji þá á hausinn.
Útgerðirnar geta sérhæft sig og ráðið til sín sérfræðinga til að reyna fá sem mest verðmæti út þeim takmörkuðu veiðiheimildum sem eru í boði. Þeim hefur tekist það svo vel að á Íslandi borgar útgerðin skatt frekar en að vera ölmusaþegi á spena skattgreiðenda eins og útgerðir víðast hvar í heiminum.
Það sem útgerðunum vantar er að gera gert tilkall til heilu hafsvæðanna og fengið að ráða því - eins og bændur á landi - hvenær á að veiða og grisja og hvenær þarf að vernda og bíða. Slík hafsvæði geta svo gengið kaupum og sölum og endað í höndum þeirra sem geta nýtt þau best.
Það getur vel verið að einhver lagatexti tali um fiskiðmiðin sem sameiginlega auðlind þjóðarinnar en það vita samt allir að kaffiþambandi spekingar í miðbæ Reykjavíkur vita ekkert um útgerð annað en að hún aflar peninga sem má hirða af henni.
![]() |
Hljótum að þurfa að doka við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 6. september 2018
Andskotans lýðræði og heimskir kjósendur
Lýðræði má skilgreina á mjög nútímalegan hátt sem svo:
Að réttir kjósendur mæti í kjörklefann og kjósi til valda rétta fólkið.
Með því að setja fram þessa skilgreiningu er ég alls ekki að verja embættisfærslur Bandaríkjaforseta eða lýsa yfir stuðningi við hann eða lofsama persónuleika hans, lundarfar og greind.
Ég er bara að skilgreina gamalt hugtak á nútímalegri hátt sem endurspeglar betur opinbera umræðu.
![]() |
Er ekki óþekkti embættismaðurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 3. september 2018
Útsjónarsamir, framsæknir, framsýnir einkaaðilar opna landið
Fyrirtækið Into the Glacier er að gera alveg einstaka hluti. Það býður ferðamönnum bókstaflega að ganga inn í jökul, sem er magnað. Reksturinn gengur vel en það er því að þakka að menn hafi lagt mikið á sig, skipulagt, hugsað og gert raunhæfar áætlanir.
Sem betur fer var enginn búinn að friða Langjökul. Þá hefði pappírsflóðið sennilega náð að drepa þetta framtak í fæðingu.
Sem betur fer var ekki búið að siga einhverju ríkisfyrirtækinu á jökulinn og bora í hann göt á kostnað skattgreiðenda. Þá er næstum því 100% öruggt að reksturinn væri orðinn að blússandi tapi og að skattgreiðendur væru að éta reikninginn.
Það er hægt að sameina ferðamennsku og sjálfbæra umgengni við náttúruna en það verður ekki gert í hugsjónastarfi heldur með því að leyfa fólki að afla sér lífsviðurværis, og þeim mun meira eftir því sem betur gengur. Einkaaðilar sem hafa lífsviðurværi af því að selja aðgang að náttúrunni hafa bókstaflega lífsviðurværi sitt af því að verja hvern einasta mosa og runna fyrir ágangi. Í slíku felst miklu meiri hvati en t.d. fyrir landvörðinn sem er áskrifandi að launum sínum sama hvað gengur á, og hvorki hækkar né lækkar í launum við að einhver Kínverjinn spæni upp varpsvæði kríunnar á bílaleigubíl.
Einkavæðum hálendið, jöklana og íslenska náttúru - því meira, fyrr og hraðar, því betra.
![]() |
HM og veðrið haft sitt að segja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)