Ef Apple væri í heilbrigðisgeiranum

Hugsið ykkur ef fyrirtæki eins og Google, Apple, Amazon, Sony, Microsoft, Nokia, Cisco, Toyota, Siemens og Samsung gætu séð hagnað í sölu á heilbrigðisþjónustu. Sjúklingar yrðu samstundis tengdir við tæki sem skönnuðu þá frá toppi til táar og greindu öll mein. Þráðlaus tæki sendu upplýsingar inn í tölvur með öflugri gervigreind og einkenni heilablóðfalla, hjartaskemmda og blóðeitrunar yrðu greind á augabragði og hjúkrunarfræðingur kallaður út.

Fólk þyrfti ekki að borga stóran hluta launa sinna til að fjármagna heilbrigðiskerfi sem tekur bara við fólki í bráðri lífshættu.

Í staðinn greiddi fólk hóflega áskrift að fullkominni þjónustu sem nýtti sér tæknina til að spara launakostnað en eyddi í laun þegar sérfræðinga væri þörf.

Í staðinn fyrir viðtalstíma hjá syfjuðum lækni sem greinir ekkert tæki við reglubundið og jafnvel samfellt og rafrænt og stafrænt eftirlit sem greinir sjúkdóma áður en þeir verða óviðráðanlegir og þar með rándýrir. 

Fólk gæfi með glöðu geði upplýsingar um heilsufar sitt og sjúkrasögu til gríðarmikilla gagnagrunna sem tölvuforrit plægðu sig í gegnum til að greina mynstur og einkenni. Nú eða ekki. Það væri undir hverjum og einum komið.

Tryggingafélög gætu lækkað til muna iðgjöld sín á sjúkratryggingum (sem kæmu í stað hins opinbera kerfis) því alvarlegir sjúkdómar yrðu greindir mun fyrr og yrðu auðveldari í meðhöndlun, auk þess sem öflug greiningarvinna og tölfræði með milljónum gagnapunkta gerðu alla greiningu mun betri og líkurnar á réttri meðhöndlun mun meiri.

Lyfjafyrirtækin yrðu ekki sátt. Þau fengju færri áskrifendur að lyfjum sem halda sjúkdómum sem eru orðnir ólæknandi í skefjum. Færri þróuðu með sér krabbamein að því marki að það yrði ólæknandi og banvænt. Færri fengju líffærabilanir vegna langvarandi sjúkdóma sem fela einkenni sín svo árum skiptir. 

Fagstéttir eins og læknar og hjúkrunarfræðingar yrðu að endurmennta sig og í sumum tilvikum lækka í launum enda orðnir síður nauðsynlegar stéttir því færri þyrftu á langvarandi dvöl á spítölum að halda, og flest mein yrðu greind og meðhöndluð svo snemma að minni sérhæfingar væri þörf til að sinna þeim. Þeir sjúkdómar sem eftir stæðu og er erfiðast að eiga við fengju nauðsynlegan mannskap og þjálfun og fjármagn til að líkurnar á bata aukist.

Já, hugsið ykkur ef öll framþróun og tæknistökk símanna og úranna og tölvanna gæti einnig átt sér stað í heilbrigðisgeiranum?

En svo er ekki. Og fólk deyr of snemma úr of miklum sársauka eftir að hafa kostað svimandi fjárhæðir fyrir sig og aðra. Læknar í dag eru í raun og veru þeir sömu og læknar 19. aldar, bara með betri pillur og aðeins betri tæki, en ekki miklu.

Fer ekki að koma tími á Google Hospital eða iDoctor eða Microsoft Health eða Samsung Galaxy Nurse?


mbl.is Hjartalínurit í snjallúrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband