Mánudagur, 5. nóvember 2018
Markaðurinn hreinsar til
Icelandair hefur keypt WOW air. Þetta mun hafa breytingar í för með sér fyrr eða síðar. Kannski hækka flugfargjöld og hagnaður Icelandair eykst og laðar þannig að sér keppinauta. Kannski ekki og reksturinn verður ásættanlegur en ekki nógu glæsilegur til að draga fjárfesta frá öðrum tækifærum.
Kannski sjá félög eins og EasyJet og RyanAir tækifæri í kaupum WOW air. Kannski ekki.
Kannski sjá flugfélög eins og KLM og BA tækifæri nú þegar það er viðbúið að samruni sé að eiga sér stað með tilheyrandi hagræðingu sem leiðir kannski til svigrúms.
Við vitum það ekki en eitt er víst: Neytendum verður þjónað. Kannski fækkar hræódýrum miðum en þá ferðast þeir minna sem vilja borga minnst.
Svona sveigjanleiki hefði verið drepinn ef ríkið hefði troðið sér að borðinu og byrjað að niðurgreiða, veita ríkisábyrgðir eða beinlínis taka rekstrarlega stöðu. Þá hefði lífi verið haldið í sofandi risum rétt eins og gildir um svo margt annað á Íslandi. Heilbrigðiskerfið og landbúnaður eru sofandi risar á spenanum sem fá ekki að aðlagast, vakna, breyta um ásýnd eða leita nýrra leiða. Þeir fitna og fitna og verða sífellt svifaseinni. Sem betur fer urðu það ekki örlög flugsamgangna til og frá Íslandi.
![]() |
Skúli ávarpaði starfsfólk WOW air |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 3. nóvember 2018
Borgin leigir því dýrt en leigir út ódýrt
DV segir frá athyglisverðu máli í kringum svokallaðar mathallar Reykjavíkur. Lykilsetning í frétt þeirra er, að mínu mati:
Borgin leigir því dýrt en leigir út ódýrt.
Þetta er vitaskuld hægt að skýra með því að benda á að þeir sem vasast með fjármuni skattgreiðenda eru ekki að vasast með eigið fé. Menn nota skattfé til að ná pólitískum markmiðum og þau skipta oft meira en að fá sem mest fyrir takmarkað fé. Ekki hætta menn að borga skatta, er það nokkuð?
Borgin er kannski slæmt dæmi, en ekki einsdæmi. Um allt land, og raunar allan heim, brenna stjórnmálamenn fé skattgreiðenda í glæsihallir og bruðl og tískubólur og vonast til að fá endurkjör út á það eða klapp á axlirnar frá uppáhaldshagsmunagæsluhópunum.
Reykjavík er kannski með verst reknu sveitarfélögum landsins, en það mega fleiri taka til sín í þeirri gagnrýni sem borgarstjórn þarf að sæta, með réttu.
En kannski er hið jákvæða í þessu máli að miðbæjarbúar og ferðamann geta nú heimsótt matsölustaði í rándýru leiguhúsnæði og fjármagnað þannig hagnað einhvers vildarvinar borgarstjóra. Gleður það ekki alla?
Föstudagur, 2. nóvember 2018
Sem betur fer er miðbærinn að deyja
Það hefur verið ákveðið, á einn eða annan hátt, að byggja við og endurnýja spítalann við Hringbraut.
Nú þegar er erfitt fyrir alla að komast þarna að og komast þaðan í burtu. Sjúkrabílar eru engin undantekning.
Það má með réttu óttast að staðsetning þessa sjúkrahúss sé stórhættuleg fyrir sjúklinga.
Huggum okkur þá við eitt:
Með örfáum undantekningum eru fyrirtæki að flýja miðbæinn. Fyrir venjulegan Íslending fer ástæðunum til að leggja leið sína í miðbæinn fækkandi. Megnið af umferðinni þarna er fólk að troðast til og frá fyrirtækjum í kringum miðbæinn - vandamál sem sumar borgir leysa með hringvegum í kringum þrengslin, en ekki í Reykjavík.
Það er því kannski sjúklingum til happs að miðbærinn er að deyja og fyrirtæki miklu frekar að flýja hann en sækjast í hann. Já, vissulega opnaði H&M verslun þarna, og Harpan er þarna og Kolaportið og Landsbankinn, en hvað fleira? Búðir sem sérhæfa sig í ferðamönnum? Deyjandi verslanir því það er verið að skera á aðgengið með lokun á bílaumferð?
Kannski Hringbraut sé alveg réttur staður, vegna nálægðar við flugvöllinn og sjúkraflugin og vegna hægfara dauða miðbæjarins. Sjáum hvað setur.
![]() |
Ekki hjá óþægindum komist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 2. nóvember 2018
Nokkur orð um íslenskar aðstæður
Þegar ég sé teikningar af framkvæmdum á Íslandi, þar sem sólin skín og allt er bjart og opið, þá veit ég að menn eru ekki að hugsa með höfðinu.
Á Íslandi þurfa allir staðir þar sem fólk á að standa og bíða að vera yfirbyggðir á einn eða annan hátt. Annars verða þeir ekki notaðir.
Þeir eru ekki margir dagarnir þar sem veðrið beinlínis leyfir að fólk standi lengi úti og bíði eftir einhverju. Menn láta sig hafa það að horfa á gleðigönguna og skemmtiatriði 17. júní og dröslast á krakkadaginn á Klambratúni. Mikið lengra nær það samt ekki. Þeir sem geta sleppt því að bíða í láréttri rigningu eftir fari gera það, og hinir vilja geta gert það í skjóli og helst í upphituðu húsnæði.
Kannski vonast menn til að veðrið batni við það eitt að eitthvað sé byggt sem gerir ráð fyrir góðu veðri.
![]() |
Borgarlínustöð ný þungamiðja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 1. nóvember 2018
Kommúnismi vekur upp það versta í manninum
Þeir eru til sem telja að kommúnismi sé draugur fortíðar.
Þeir eru líka til sem telja að sósíalismi sé framtíðin.
Báðir hópar hafa rangt fyrir sér.
Kommúnismi, eða sósíalismi (sjálfur Lenín gerði engan greinarmun á þessu tvennu), er bráðlifandi. Hann lifir í Venesúela og Norður-Kóreu. Hann lifir í höfði margra Vesturlandabúa. Sósíalismi er jafnvel í tísku meðal ákveðinna hópa, t.d. ungs fólks í mörgum vestrænum ríkjum, og gamalla kommúnista sem það lítur upp til.
Þetta má skrifa á skort á sagnfræðilegri þekkingu og skort á þekkingu á innihaldi sósíalískrar heimspeki, hvort sem hún kallar sig kommúnisma eða sósíalisma.
Kommúnismi í hvaða formi sem er mun alltaf og á öllum stöðum vekja upp verstu kenndir mannsins og sé hann gerður að opinberri stefnu mun saklaust fólk alltaf þjást og jafnvel deyja.
En hvað er til ráða? Ekki fá andstæðingar sósíalisma mikið um það að segja hvað blessuð börnin eru látin lesa í hinu opinbera skólakerfi.
Ekki er hægt að vænta þess að opinberir starfsmenn með tryggð eftirlaun - kennarar - höggvi í höndina sem fóðrar þá: Ríkisvaldið.
Auðvitað geta foreldrar rætt við börn sín og látið þau fá lesefni, en eru þeir sjálfir nægilega meðvitaðir um hætturnar?
Það má samt reyna. Og menn reyna.
Nú stendur t.d. til að endurútgefa The Gulag Archipelago í tilefni 50 ára afmælis bókarinnar. Þetta er bók sem margir telja að hafi haft töluvert um það að segja að Sovétríkin hrundu á sínum tíma. Ég hef ekki lesið hana en það stendur til, og mér skilst að þarna sé kommúnismanum veitt hið heimspekilega náðarhögg, og það rökstutt með óteljandi dæmum.
Það má nálgast ýmis rit Ayn Rand á íslenskri tungu, og Lögin eftir Bastiat og ýmis önnur rit sem steinrota ástina á ríkiseinokun og ríkiskúgun.
Kommúnisminn lifir góðu lífi, og jafnvel betra en nokkru sinni fyrr þökk sé tækniframförum hins frjálsa markaðar sem gera útbreiðslu hugmynda auðveldari en nokkru sinni.
Reynum nú, í eitt skipti fyrir öll, að jarða bændamorðingjana Che Guevera, Maó, Stalín og Pol Pot, þjóðernissósíalistann Adolf Hitler og hinar vægari nútímaútgáfur af öllum þessum sjálfelsku, sósíalísku valdafíklum.
![]() |
Eru upp á náð karla komnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 30. október 2018
Skiptir nákvæmlega engu máli
Losun Íslendinga og íslenskra fyrirtækja á koltvísýring skiptir ekki nokkru einasta máli af óteljandi ástæðum.
Látum það ótalið að koltvísýringur stjórnar ekki veðurfari né loftslagi Jarðar. Menn geta haft sína skoðun á því fyrir mér, og jafnvel látið plata sig til að trúa á línulegt samhengi einnar lofttegundar og hitastigsins eins og það leggur sig.
Nei, losun Íslendinga skiptir engu máli af því hún er svo gott sem engin.
Kínverjar auka losun sína á hverju ári um jafnmikið og heildarlosun Bretlands er í dag. Bretar geta því lamið sig til dauða og skattlagt sig í örbirgð til að forðast losun koltvísýrings án árangurs Kínverjar verða búnir að bæta upp fyrir missinn á einu ári.
Losun Íslendinga er líka lítil því þeir nota tiltölulega lítið af jarðefnaeldsneyti og losa helst koltvísýring með því að opna jarðveginn fyrir mó og öðrum rotnandi plöntuleifum í jörðu.
Og losunin fer minnkandi með nýrri og sparneytnari tækni, sem menn kaupa ekki til að minnka losun heldur til að lækka eldsneytiskostnað. Útgerðin er nálægt því búin að helminga sína losun undanfarin 30 ár með því að fjárfesta í nýrri tækni og skipuleggja siglingar sínar betur.
Það kostar orku að lifa, og því meiri orku sem við höfum aðgang að því betra. Jarðefnaeldsneyti er hagkvæmt eldsneyti, og olía og gas hreint eldsneyti. Notum það og njótum.
![]() |
Losun CO2 frá flugi eykst mikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 29. október 2018
Næst fá Svíþjóðardemókratar 25%
Fordæmalaus staða er nú komin upp í sænskum stjórnmálum sem í gegnum tíðina hafa einkennst af fyrirsjáanleika.
Það sem gerðist var að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar dönsuðu við pólitískan rétttrúnað án þess að fylgjast með afleiðingunum fyrir venjulegt fólk. Þegar fólkið ákvað að setja atkvæði sín annað urðu allir steinhissa.
Dönsk stjórnmál eru að þessu leyti öðruvísi. Vissulega er rekinn pólitískur rétttrúnaður í Danmörku en hann er frekar vægur miðað við þann sænska og vitaskuld hinn íslenska (þann skæðasta í allri Vestur-Evrópu að mínu mati). Dönsk yfirvöld fá að heyra það þegar heilu hverfin eru orðin hættuleg svæði fyrir venjulegt fólk, og full af atvinnulausum og ótalandi innflytjendum sem hafa engan áhuga á að taka þátt í samfélaginu í kringum sig.
Hinir dönsku sósíaldemókratar eru nú orðnir meðal hörðustu gagnrýnenda innflytjendastraumsins og gera sér grein fyrir að það er ekki hægt að halda úti bæði gjafmildu velferðarkerfi fyrir innfædda og um leið öðru eins hliðarkerfi fyrir aðflutta. Með því að berjast fyrir strangari innflytjendalöggjöf eru hinir dönsku sósíaldemókratar að reyna verja velferðarkerfið. Svíar hafa ekki komist svo langt í orsakagreiningu sinni.
Eða með þeirra eigin orðum:
Vi vil gerne hjælpe mennesker, der er på flugt. Det er en medmenneskelig pligt. Samtidig er vi også enige om, at der er en grænse for, hvor mange flygtninge og udlændinge der kan integreres i vores samfund. Og det er altafgørende, at integrationen kommer til at fungere bedre.
(Nálgun frjálshyggjumannsins er aðeins öðruvísi. Hún er sú að velferðarkerfið býr til innflytjendavandamál, og laði að sér fólk sem er bara á höttunum eftir bótagreiðslum. Miklu heilbrigðara samfélag er það sem hvetur fólk til að sjá fyrir sér sjálft og rétta þá hjálparhönd með frjálsum framlögum til þeirra sem eiga erfitt með það.)
Svíar eru að brenna á eigin báli. Í næstu kosningum fá Svíþjóðardemókratar 25% atkvæðanna og komast í algjöra lykilstöðu í sænskum stjórnmálum. Menn munu þá skammast út í almenna kjósendur og kalla þá pópulista og ýmislegt annað og jafnvel siga Evrópusambandinu á sænska lýðræðið.
![]() |
Fordæmalaus staða í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 27. október 2018
Áminning til skattgreiðenda
Nú hefur myndastytta af typpi verið afhjúpuð í Tjörninni í Reykjavík. Hún minnir skattgreiðendur vonandi á að með því að láta féfletta sig í hítina er verið að styðja við ákveðna hluti á kostnað annarra. Þeir sem vilja ekki láta reisa styttu af typpi mega halda kjafti og borga. Hinir ánægðu geta brosað yfir því að hafa fengið typpið sitt og aðra til að borga fyrir það.
Typpið er vonandi góð áminning um það að allt sem hið opinbera sér um er gert á kostnað allra en vekur bara ánægju sumra. Það má vel vera að almenn sátt ríki um að hið opinbera einoki lagningu vega. Sértu óánægð(ur) með holurnar í þeim skaltu hins vegar halda kjafti. Þú færð ekki að ráða aðra til verksins eða hafa áhrif á vegalagninguna.
Þökkum bara fyrir að við höfum þrátt fyrir allt ekki fangelsisvist hangandi yfir okkur ef við skiptum sjálf um ljósaperu, sem við keyptum sjálf. Væri hið opinbera hér við völd er hætt við að flöktandi og hálfdauðar ljósaperur tækju af okkur kvöldstundirnar í miklum mæli.
Einkavæðum allt.
![]() |
Ekki typpi heldur lítil hafpulsa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 24. október 2018
Segja þeir sem sáu ekkert fyrir
Það vantar ekki spekingana til að tjá sig um ástand efnahagsmála á Íslandi og erlendis. Gallinn er sá að þetta eru spekingarnir sem sáu ekkert fyrir árið 2008, hvorki á Íslandi né erlendis.
Ekki ætla ég að þykjast vita neitt en ætla samt að fara varlega í vali mínu á spámönnum. Í það minnsta ætla ég ekki að leita í smiðjur spámanna innan kerfisins, ef svo mætti kalla: Opinberra stofnana og bankafólks.
Kannski Heiðar Guðjónsson, fjárfestirinn sem kom fé sínu í skjól fyrir hrunið, sé málið.
![]() |
Áhættan í kerfinu hófleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 23. október 2018
Verkalýðshreyfingin og sjálfvirknivæðingin
Sjálfvirknivæðingin er á fullri ferð. Hún verður ekki stöðvuð. Í stað afgreiðslumanns kemur snertiskjár. Í stað kokksins kemur hamborgaravélin. Í stað ritarans kemur símsvari. Í stað þjónustufulltrúans kemur háþróaður hugbúnaður sem greinir vandamál þín.
Margir hafa áhyggjur af þessari þróun og tala um að sumir hópar geti bráðum ekki fundið sér vinnu. Það þarf ekki að óttast. Fólk getur sótt sér endurmenntun. Ungt fólk undirbýr sig fyrir framtíðina þar sem hinir mannlegu hæfileikar verða ekki sjálfvæddir. Hér má nefna útsjónarsemi og nýsköpun. Vélar eru hannaðar með ákveðin hlutverk í huga. Um leið og þarf að endurhugsa það hlutverk þarf mannshugurinn að koma til sögunnar. Enn sem komið er að minnsta kosti.
Þessi sjálfvirkniþróun verður ekki stöðvuð, en það má flýta henni.
Í Bandaríkjunum hafa sum ríki sett á lögbundin lágmarkslaun sem eru svo há að fyrirtæki hafa annaðhvort þurft að tæknivæðast í hvelli eða loka rekstri sínum. Á einum stað segir t.d. svo frá:
These added costs give employers with already slim profit margins a strong incentive to automate or embrace self-service. In an interview with Forbes, the founder of a delivery robot company linked his products value proposition to a rising minimum wage: At something like $10 per delivery, the majority of citizens will not use [human delivery]. Its too expensive.
Það er gott mál að sjálfvirkni er að breiðast út. Það losar um hendur sem geta gert eitthvað annað og meira verðmætaskapandi. Það er hins vegar slæmt ef verkalýðshreyfingin er að flýta þessari þróun svo mikið að fólk nær ekki að aðlagast breyttum veruleika og sér fram á atvinnuleysi til lífstíðar.
![]() |
Hærri laun fækka störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |