Mánudagur, 22. október 2018
Enginn píndur til að skrifa
Sumir virðast hafa miklar áhyggjur af kjörum rithöfunda. Þó er enginn að pína neinn til að starfa sem rithöfundur, og nóg er framboðið miðað við eftirspurnina (ólíkt því sem á við um t.d. smiði og rafvirkja um þessar mundir). Fólk virðist vilja skrifa bækur, söngva og texta almennt án þess að skattgreiðendur þurfi að blæða fyrir uppihaldið og efniskostnaðinn. Sumir hafa samt fengið þá einkennilegu hugmynd að vilja lifa af ritstörfum einum saman án þess að geta selt nægilega margar bækur, og það sem er enn ótrúlegra: Hafa sannfært aðra um að það sé góð hugmynd.
Ritstörf þeirra sem geta ekki lifað af þeim eiga að flokkast sem áhugamál sömu rithöfunda. Rithöfundar eins og Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson, sem selja bílfarma af bókum á hverju ári, eru í hefðbundnum launavinnum samhliða ritstörfum. Ekki man ég eftir að hafa heyrt þau heimta fé skattgreiðenda til að fjármagna áhugamál sín. Þau eru til fyrirmyndar. Betlandi rithöfundar á opinberri framfærslu eru það ekki.
Ef einhver vill skrifa bók er bara hægt að setjast niður í frítíma sínum og byrja skrifa. Það á ekki að vera vandamál annarra. Bókina má svo gefa út hjá forlagi eða á eigin spýtur með aðstoð ýmiss konar fyrirtækja, t.d. Amazon.
Menn ættu kannski frekar að hafa áhyggjur af framfærslu þeirra skattgreiðenda sem þurfa að borga fyrir heimtufrekjuna og listamannabæturnar.
![]() |
60 þúsund á mánuði fyrir bókaskrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 21. október 2018
Meðvirkir stjórnmálamenn ala upp meðvirka kjósendur
Af hverju er harðskeyttur og jafnvel illa innrættur femínismi svona áhrifamikill á Íslandi?
Af því stjórnmálamenn beygja sig fyrir honum.
![]() |
Meðvirkir foreldrar ala upp meðvirk börn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 20. október 2018
Grænmeti hækkar í verði
Íslenskir garðyrkjumenn eru í niðurgreiddri samkeppni við sólina í suðlægari löndum. Menn rembast við að rækta gúrkur og tómata innandyra sem vaxa utandyra um víða veröld á veðursælli svæðum. Þessir bændur eru bókstaflega í samkeppni við sólina, á kostnað skattgreiðenda.
Núna á að hækka enn þann reikning sem skattgreiðendur fá með því að kolefnisjafna. Sú jöfnun er innblásin af ótta við lofttegund sem er um 0,04% af andrúmsloftinu og eykst í styrkleika með hækkandi hitastigi í sveiflum sem ná yfir mörg hundruð ár. Almenningi hefur hins vegar verið seld sú lygi að hitastig Jarðar fylgi línulegu samhengi við styrk kolefnis í andrúmsloftinu, og í öfugu orsakasamhengi við raunveruleikann.
En gott og vel, gerið samkeppnina við sólina bara enn erfiðari. Skattgreiðendur borga brúsann eins og fyrri daginn.
![]() |
Flutningur á grænmeti kolefnisjafnaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 18. október 2018
Opið hlaðborð fyrir vini og bandamenn
Bragginn var og er opið hlaðborð fyrir vini og bandamenn meirihluta borgarstjórnar.
Það er ýmislegt svona sem veldur því að stærsta sveitarfélag landsins safnar skuldum í blússandi góðæri í mestu mögulegu skattheimtu, og íbúarnir eru meðal þeirra óánægðustu í landinu með þjónustu sveitarfélags síns.
Bragginn er sennilega bara toppurinn á ísjakanum sem mun aldrei verða afhjúpaður. Menn skýla sér á bak við það að engar reglur segi þetta eða hitt í stað þess að stunda bara heiðarlega stjórnsýslu og hætta að einblína á hvað má eða ekki skv. lögum.
Hluti af ísjakanum er stofnun allskyns embætta og ráða sem veita vinum og bandamönnum öruggar tekjur djúpt í stjórnkerfi borgarinnar. Það verður ekki auðvelt að sópa því út.
Hluti af ísjakanum eru líka allskyns skýrslur um hitt og þetta, svo sem svona eða hinseginn strætó, á sérakreinum eða ekki.
Hluti af ísjakanum eru líka allskyns ferðalög útvaldra einstaklinga til útlanda þar sem menn skoða allskyns framkvæmdir í stað þess að lesa sér bara til um þær á netinu.
Kjósendum ætlar ekki að ganga vel að losa sig við þessa innræktuðu vitleysu. Er það því að kenna að aðrir valkostir eru ekki eins líkamlega aðlaðandi og borgarstjóri að mati kjósenda eða luma margir kjósendur á gamalli andúð á tónlist Todmobile? Eða halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn geti gert enn verr, og ef svo er, á hvaða raunverulegu dæmum er sú skoðun byggð?
![]() |
Brotið gegn innkaupareglum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 17. október 2018
Hvar sæki ég um?
Ég hef gefið út tvö lítil rit og er með fleiri í maganum en hef alltaf fundist vera leiðinlegt að þurfa treysta á sölu á ritunum til að þau afli mér tekna.
Íslenska ríkið ætlar nú að eyða þeirri leiðinlegu kvöð að þurfa selja til að þéna.
Hvar sæki ég um?
![]() |
Mælti fyrir frumvarpi til stuðnings bókaútgáfu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 16. október 2018
Aðeins úr hinni áttinni
Það er enginn skortur á heimsendaspádómum og bölsýni. Þannig hefur það alltaf verið og verður alltaf.
Ég vil hins vegar hvetja þá sem vilja til að heimsækja reglulega síðuna HumanProgress.org en þar eru bara sagðar jákvæðar fréttir. Til dæmis er þarna frétt sem fagnar útrýmingu svokallaðrar "extreme poverty" og önnur sem bendir á að helmingur jarðarbúa geti núna kallað sig miðstétt eða ríkari.
Það er full ástæða til að ríghalda í bjartsýnina þótt veðrið breytist og múslímar haldi áfram að brytja hvern annan niður með vopnum sem þeir fá send frá Bandaríkjunum og Rússlandi.
![]() |
Varar við skelfilegum afleiðingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 15. október 2018
Hugmyndir að heimasíðum
Núna hefur einhver tekið sig til og gert skattaupplýsingar allra Íslendinga aðgengilegar á netinu (ekki er rétt að tala um tekjuupplýsingar).
Miklu grófari innrás í einkalíf fólks er varla hægt að hugsa sér, en þó get ég boðið upp á hugmyndir.
Hægt væri að setja upp myndavélar í öllum baðklefum sundlauga og íþróttahúsa og taka þar myndir af kynfærum fólks og setja á netið og gera aðgengilegar gegn greiðslu. Í tilviki kvenfólks þyrftu myndavélar sennilega að vera staðsettar í gólfinu til að ná sem bestum myndum.
Hið sama væri hægt að gera á hótelherbergjum. Þar er líka meiri von til að ná myndum af typpum í fullri reisn og setja á netið.
Síðan væri hægt að verða sér úti um myndir tannlækna af gini fólks og setja á netið. Hver hefur eitthvað á móti því að sýna umheiminum tannviðgerðina sína?
Sjúkrasögum fólks mætti koma á netið með einföldum hætti því þær eru nú þegar til á rafrænu formi. Þá getur enginn falið veikleika sína fyrir yfirvöldum og atvinnurekendum.
Úr því verið er að birta upplýsingar um greiðslu skatta ætti líka að birta upplýsingar um þá sem þiggja skattfé: Öryrkja, aldraða, barnafjölskyldur, skuldara, bændur, listamenn og alla opinbera starfsmenn.
Skattaupplýsingasíðan gæti verið fyrsta skrefið í átt að algjöru gegnsæi samfélagsins þar sem enginn fær að halda neinu út af fyrir sjálfan sig. Þannig má uppræta glæpi, draga úr tortryggni og fræða samborgara sína um sjálfan sig með einföldum og fljótlegum hætti. Með eða án samþykkis. Eða bara án samþykkis.
![]() |
Skoða hvort Tekjur.is teljist fjölmiðill |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 14. október 2018
Hatursorðræða er kjarni tjáningarfrelsisins
Allir eru sammála um að tjáningarfrelsi sé mikilvægt.
Þessu frelsi þarf stundum að setja skorður. Sá sem á kvikmyndahús vill ekki að viðskiptavinir sínir hrópi "eldur!" án ástæðu og flæmi þar með alla viðskiptavinina út. Sá sem á heimili með börnum biður gestina um að nota ekki allrasvæsnustu blótsyrðin í orðabókinni.
En svo eru sumir sem vilja setja tjáningarfrelsinu slíkar skorður að tjáningin hreinlega gufar upp.
Tökum dæmi: Siggi er kynþáttahatari. Hann einlæglega þolir ekki fólk með neinn annan húðlit en bleikan og er jafnvel ekki mjög vel við Austur-Evrópubúa þrátt fyrir að þeir séu með réttan húðlit að hans mati. Hann talar um niggara, júða, grjónapunga og apa þegar hann vísar í hina og þessa kynþætti og trúarbrögð. Í hans vinahópi er hann umborinn og vinir hans reyna stundum að draga úr kynþáttahatri hans með tilvísun í rannsóknir og mannkynssöguna. Siggi gefur sig samt ekki. En þökk sé áeggjan vina hans fær hann þó fróðleik og upplýsingar sem láta Sigga a.m.k. endurskoða sumar af skoðunum sínum. Hann fær aðhald og gagnrýni af því hann tjáir sig og tekur þátt í samræðum.
Dag einn ákveður Siggi að láta reyna á upplýsingamátt netsins og skrifar litla grein sem lýsir afstöðu hans til hinna og þessara kynþátta. Hann dregur ekkert undan - skrifar eins og hann talar við vini sína. Og þá gerðist nokkuð.
Daginn eftir að greinin birtist var bankað að dyrum hjá Sigga. Hann var ákærður fyrir hatursorðræðu. Siggi er dæmdur sekur og til refsingar.
Siggi lærði sína lexíu. Hann hætti að ræða skoðanir sínar á opinberum vettvangi og hætti meira að segja að ræða þær meðal vina. Þess í stað fann Siggi lokaða umræðuhópa þar sem fólk með svipaðar skoðanir hélt til. Núna mætti Siggi engu málefnalegu aðhaldi. Þvert á móti þá styrktust allar hans hatursfyllstu skoðanir. Að lokum fékk Siggi nóg og framdi ofbeldisglæp í nafni skoðana sinna. Og glæpaferill hans fór nú á flug.
Þessi Siggi hefði átt að fá að skrifa sína grein og fá hana birta án þess að hún hefði lagalegar afleiðingar fyrir hann.
Við eigum öll að fá að tjá okkur. Það er lykillinn að því við þroskumst og lærum.
Hatursorðræða er kjarni tjáningarfrelsisins. Sé hún bönnuð er tjáningarfrelsið bara leyfi til að segja hið viðtekna - fylgja línunni. Og þá ræður ríkið í rauninni hvað má og hvað má ekki segja. Það er slæmt.
![]() |
Skila fimm frumvörpum til ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Laugardagur, 13. október 2018
Verðmætamaskínan
Íslenskur sjávarútvegur er verðmætamaskína. Ár eftir ár dælir hann milljörðum inn í landið sem eiga stóran þátt í því að halda uppi lífskjörum á Íslandi.
Þetta gerist þrátt fyrir að sjávarútvegurinn sé skattlagður miklu meira en annar iðnaður og greiðir að jafnaði lægri arðgreiðslur en fyrirtæki í öðrum greinum.
Þetta gerist þrátt fyrir þær endalausu hömlur sem yfirvöld setja á ajávarútveginn í formi ágiskana á veiðiþoli stofna og lokun svæða.
Ástæða velgengni sjávarútvegsins er að hann hefur þrátt fyrir allt fengið stöðugt rekstrarumhverfi. Það er eina leiðin til að byggja upp til framtíðar. Í sjávarútveginum starfar stór hópur sérfræðinga sem ákveða hvað á að veiða og hvenær og hvernig, hvaða fjárfestingar þarf að fara út í til að auka afköst og hvaða tækni þarf að þróa til að gera betur. Trillukallinn með besta nef í heimi til að þefa uppi þorsk í sjó en fyrir skipulagðar veiðar allan ársins hring þarf gögn, tæki, tækni, fjárfestingar og vel þjálfað starfsfólk.
Það er í tísku að ráðast á sjávarútveginn og auðvitað má gagnrýna hann fyrir eitt og annað, en hann skilar sínu. Ferðamenn koma og fara og eyða stundum miklu og stundum litlu. Það er framleiðsla raunverulegra verðmæta sem mun fleyta Íslandi í gegnum næstu alheimskreppu, sem verður svæsin. Gleymum því ekki.
![]() |
Heiðrún svarar Björgólfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 10. október 2018
Jón Steinar og lektorinn
Þá er búið að kalla til leiks Jón Steinar Gunnlaugsson til að verja mál brottrekins lektors. Greyið Háskólinn í Reykjavík. Þetta er búið spil fyrir skólann. Sennilega þarf hann á endanum að greiða stórar skaðabætur nema hann falli á hnén og grátbiðji lektorinn um að snúa aftur.
Lektorinn sagði ekkert hræðilegt. Hann sagði nokkuð athyglisvert. Hann sagði að konur væru að troða sér inn á vinnustaði karlmanna og finna þeim síðan allt til foráttu. Það er engin lygi. Nú er orðið "troða" kannski ekki við hæfi - konur eru einfaldlega byrjaðar að mennta sig í meiri mæli til læknis, verkfræðings, vélvirkja og flugmanns. Það er frábært. En það þýðir ekki að ætlast til þess að vinnustaður einhvers hóps aðlagi sig að smekk og tilfinningum eins einstaklings og gera það í einum hvínandi hvelli. Ég er ekki að meina að einelti eða áreiti eigi að viðgangast. Ég er að meina að ef vinnustaður nokkur er þekktur fyrir prumpubrandarana sína þá á sá sem þolir ekki slíka brandara kannski að sækja um vinnu annars staðar eða smátt og smátt að skipta þeim bröndurum út fyrir Hafnarfjarðarbrandara. Svo einfalt er það.
Nú er ég sjálfur að vinna í fyrirtæki þar sem meirihluti starfsmanna eru karlmenn: Verkfræðingar, verkefnastjórar, vélfræðingar, verkamenn og þess háttar. Í minni deild er sá meirihluti enn frekar yfirgnæfandi (verkfræðideildin). Kvenmenn minnar deildar gætu ekki þrifist þar ef þeir væru einhverjar teprur. Þó er enginn að uppnefna þær eða blóta í sand og ösku. Þvert á móti. Þær njóta mikillar virðingar - jafnvel lotningar. Þetta eru töffarar sem sanna sig með verkum sínum en ekki með því að kvarta og kveina. Ég þekki samt nokkra kvenmenn sem gætu ekki unnið í minni deild í meira en nokkra daga áður en þeir væru roknir á dyr, öskubrjálaðir og auðvitað sármóðgaðir og búnar að kæra hvern einasta samstarfsmann fyrir einhvern nútímaglæpinn (að hafa sagt eitthvað rangt, nefnt eitthvað óviðeigandi, tjáð sig örlítið ónærgætið osfrv).
Kannski var lektorinn að meina þetta þótt hann hafi svo sagt að hann hefði ekkert upp á kvenkyns samstarfsfólk sitt að klaga. Kannski á hann vini sem vinna á bifvélaverkstæði þar sem kvenmaður nokkur sótti um starf - og fékk - til þess eins að geta móðgast sem mest. Kannski átti lektorinn samstarfsfélaga fyrir einhverjum árum sem útrýmdi öllum myndrænum dagatölum í stað þess að setja bara upp eitt slíkt að sínu skapi.
Það er rétt að kvenfólk sækir nú í auknum mæli inn á vinnustaði karlmanna. Það er frábært, en bara á meðan fólk ætlast ekki til þess að sólin skíni bara af því maður fór út á sundskýlunni einum fata.
![]() |
HR komi skoðanir lektors ekki við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)