Hatursorðræða er kjarni tjáningarfrelsisins

Allir eru sammála um að tjáningarfrelsi sé mikilvægt. 

Þessu frelsi þarf stundum að setja skorður. Sá sem á kvikmyndahús vill ekki að viðskiptavinir sínir hrópi "eldur!" án ástæðu og flæmi þar með alla viðskiptavinina út. Sá sem á heimili með börnum biður gestina um að nota ekki allrasvæsnustu blótsyrðin í orðabókinni.

En svo eru sumir sem vilja setja tjáningarfrelsinu slíkar skorður að tjáningin hreinlega gufar upp.

Tökum dæmi: Siggi er kynþáttahatari. Hann einlæglega þolir ekki fólk með neinn annan húðlit en bleikan og er jafnvel ekki mjög vel við Austur-Evrópubúa þrátt fyrir að þeir séu með réttan húðlit að hans mati. Hann talar um niggara, júða, grjónapunga og apa þegar hann vísar í hina og þessa kynþætti og trúarbrögð. Í hans vinahópi er hann umborinn og vinir hans reyna stundum að draga úr kynþáttahatri hans með tilvísun í rannsóknir og mannkynssöguna. Siggi gefur sig samt ekki. En þökk sé áeggjan vina hans fær hann þó fróðleik og upplýsingar sem láta Sigga a.m.k. endurskoða sumar af skoðunum sínum. Hann fær aðhald og gagnrýni af því hann tjáir sig og tekur þátt í samræðum.

Dag einn ákveður Siggi að láta reyna á upplýsingamátt netsins og skrifar litla grein sem lýsir afstöðu hans til hinna og þessara kynþátta. Hann dregur ekkert undan - skrifar eins og hann talar við vini sína. Og þá gerðist nokkuð.

Daginn eftir að greinin birtist var bankað að dyrum hjá Sigga. Hann var ákærður fyrir hatursorðræðu. Siggi er dæmdur sekur og til refsingar.

Siggi lærði sína lexíu. Hann hætti að ræða skoðanir sínar á opinberum vettvangi og hætti meira að segja að ræða þær meðal vina. Þess í stað fann Siggi lokaða umræðuhópa þar sem fólk með svipaðar skoðanir hélt til. Núna mætti Siggi engu málefnalegu aðhaldi. Þvert á móti þá styrktust allar hans hatursfyllstu skoðanir. Að lokum fékk Siggi nóg og framdi ofbeldisglæp í nafni skoðana sinna. Og glæpaferill hans fór nú á flug.

Þessi Siggi hefði átt að fá að skrifa sína grein og fá hana birta án þess að hún hefði lagalegar afleiðingar fyrir hann.

Við eigum öll að fá að tjá okkur. Það er lykillinn að því við þroskumst og lærum. 

Hatursorðræða er kjarni tjáningarfrelsisins. Sé hún bönnuð er tjáningarfrelsið bara leyfi til að segja hið viðtekna - fylgja línunni. Og þá ræður ríkið í rauninni hvað má og hvað má ekki segja. Það er slæmt.


mbl.is Skila fimm frumvörpum til ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"73. gr. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi
aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."

Stjórnarskrá Íslands

Þorsteinn Briem, 14.10.2018 kl. 17:14

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum."

"Mannréttindi á að verja með lögum."

"Þannig hefst inngangur Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var 10. desember 1948 [til að mynda af íslenska ríkinu]."

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

Þorsteinn Briem, 14.10.2018 kl. 17:16

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum."

Almenn hegningarlög nr. 19/1940

Þorsteinn Briem, 14.10.2018 kl. 17:18

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðigöngurnar snúast um mannréttindi samkynhneigðra og lögbrot að hæðast opinberlega að samkynhneigð.

Fólk ákveður ekki sjálft hvort það er samkynhneigt.

Þorsteinn Briem, 14.10.2018 kl. 17:19

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. ..."

Stjórnarskrá Íslands

Þorsteinn Briem, 14.10.2018 kl. 17:21

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Stjórnarskrá - Lög sem geyma helstu reglur um stjórnskipun ríkis og helstu grundvallarmannréttindi.

Stjórnarskrá er æðri öðrum réttarheimildum."

"Grundvallarmannréttindi - Mannréttindi sem vernduð eru af mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum."

(Lögfræðiorðabók með skýringum - Lagastofnun Háskóla Íslands, útg. 2008.)

Þorsteinn Briem, 14.10.2018 kl. 17:22

7 identicon

Hatursorðræða er ekki kjarni tjáningarfrelsisins frekar en hnupl kjarni eignarréttarins.

Tökum dæmi: Siggi er hnuplari, þjófur. Í hans vinahópi er hann umborinn og vinir hans reyna stundum að draga úr hnuplinu og sækja þýfið heim til hans. Siggi gefur sig samt ekki. En þökk sé vinum hans fær hann þó aðhald og skammir sem láta Sigga a.m.k. endurskoða sumar af athöfnum sínum. Hann fær aðhald og gagnrýni af því hann stelur meðal vina sem umbera það.

Dag einn ákveður Siggi að láta reyna á þjófavarnir verslunar í nágrenninu. Hann raðar í vasa sína vörum í versluninni og sleppur út á götu með þær. Og þá gerðist nokkuð. Siggi finnur hönd grípa í öxl sína. Lögreglan er komin á staðinn og handtekur Sigga. Siggi er dæmdur sekur og til refsingar.

Siggi lærði ekki sína lexíu. Hann hætti ekki að stela en fór að stunda innbrot og passaði að nást ekki. Og glæpaferill hans fór nú á flug.

Hefði þessi Siggi átt að fá að stunda sitt búðahnupl án þess að það hefði lagalegar afleiðingar fyrir hann? Var það eignarrétturinn sem gerði Sigga að glæpamanni eða það að hann kaus sjálfur að hundsa og brjóta reglur þær sem siðað samfélag byggir á?

Vagn (IP-tala skráð) 14.10.2018 kl. 18:58

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Hérna hafa menn klifrað aðeins of hátt upp í fílabeinsturninn. Það hafa allir einhverjar skoðanir sem stæðust ekki kröfur dómstóla um sönnunarbyrði. Sumir hata Bónus og elska Krónuna. Sumir líta niður á Skoda en upp á Volkswagen. Sumir borða ekki ákveðinn mat bara af því hann hefur ákveðið útlit. 

Og sumir fyrirlíta ákveðna kynþætti.

Af hverju á að fangelsa fyrir sumar skoðanir en ekki aðrar? Hvaða djúp-sálfræði-rannsóknir hafa farið framhjá mér sem heimila ákveðna flokkun á sumum fordómum sem glæpsamlega og aðra sem leyfilega? Gefið auðvitað að enginn sé að beita neinn líkamlegu ofbeldi, stela eða eyðileggja.

Af hverju má sá sem hatar sviðasultu að tjá sig, en ekki sá sem segist ekki þola svarta Sambó? Af hverju má tala illa um Trump en ekki Múhammeð? Það er ekkert grundvallargildi í gangi hérna, bara verið að velja og hafna og steypa tjáninum fólks (þó ekki hugsunum) í sama mótið.

Geir Ágústsson, 14.10.2018 kl. 19:31

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Fyrst þarf væntanlega að skilgreina hatursorðræðu. Í dag virðist þetta hugtak ná yfir ansi stórt svið, allt eftir því hvar hver liggur í pólitík.

Og jafnvel þó hægt væri að skilgreina hatursorðræðu við eitthvað ákveðið málefni, t.d. útlendinga, kyn, eða eitthvað annað, þá á eftir að skilgreina hvenær umræðan færist frá því að vera eðlileg út frá ýmsum vandamálum, yfir í að verða hatursorðræða.

Eins og staðan er í dag á Íslandi, er útilokað að treysta nokkrum fyrir slíkri skilgreiningu og alls ekki stjórnmálamönnum.

Pólitísk umræða getur hins vegar aldrei talist til hatursorðræðu, sama hversu orðljótir menn eru, enda hefur það sannast á Alþingi Íslendinga að menn geta þar orðið ansi orðljótir og jafnvel látið hnefann lenda á andstæðingum sínum, án þess það hafi haft afleiðingar.

Gunnar Heiðarsson, 14.10.2018 kl. 19:47

10 Smámynd: Egill Vondi

Ég fæ ekki séð hvernig það getur staðist að hatursorðræða sé sambærileg við hnupl. Þetta hljómar eins og rhetorík frekar en rök.

Tilvísun um það sem stendur í stjórnarskránni er einnig marklaus. Tjáningarfrelsið er siðferðislegt prinsipp, en ekki bara eitthvað sem lagabokstafur veitir, enda má breyta stjórnarskrám ef mönnum þykir þær ábótavant.

Alltént: tilgangurinn með tjáningarfrelsi er að vernda þá sem hafa óvinsælar skoðanir. Þeir sem hafa vinsælar skoðanir eða almennt viðteknar skoðanir þurfa ekki slíka vernd. "Þú hefur leyfi til að segja það sem þú vilt, svo fremi sem þú segir ekki það sem við viljum ekki heyra" er ekki málfrelsi.

Það má einnig benda á að hugtakið "hatursorðræða" er mjög teygjanlegt hugtak, og gerir í raun kröfu um að valdhafar séu að stunda hugsunarlestur. 

Egill Vondi, 15.10.2018 kl. 00:26

11 Smámynd: Mofi

Hvað þýðir: "Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum"?

Þýðir þetta að maður getur ekki gagnrýnt með hæðni trúarskoðanir?

Í dag þá er eins og ef maður er ósammála einhverju þá hlýtur maður að hata manneskjuna. Eins og sá sem kom upp með þá hugmynd glímir einmitt við þetta, að geta ekki hlustað á skoðanir sem hann er ósammála án þess að hata viðkomandi. Fyrir slíka þá hef ég fréttir, það er þú sem ert illa innrættur því það er ekki erfitt að vera ósammála einhverjum án þess að hata viðkomandi. 

Mofi, 15.10.2018 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband