Getgátur um frétt

Dagbók lögreglu er stundum athyglisverður lestur. Raunar svo að ég vildi óska að fleiri stéttir tækju upp sama sið. Hvar er dagbók lækna til dæmis?

Hvað um það. Að þessu sinni er sagt frá unglingasamkvæmi sem hafi verið stöðvað. Ekki kemur fram hvað margir lögreglumenn komu að því verki né hvað mikið af tíma þeirra hafi farið í þetta brýna þjóðfélagsmál, þar sem einu stóru samkvæmi var breytt í mörg lítil. En eitthvað hefur þetta kostað af fyrirhöfn fyrir lögregluna.

Einnig er sagt frá tveimur innbrotum/innbrotstilraunum. Ekki kemur fram að lögregla hafi mætt á vettvang til að rannsaka málið. Þó er vísað í upptökur eftirlitsmyndavélar svo sennilega hefur einhver lögreglumaður með tíð og tíma skilað sér á vettvang.

Mín ágiskun er sú að unglingasamkvæmið hafi kostað lögregluna a.m.k. tvo lögregluþjóna í 2 tíma, alls 4 manntímar, en að innbrotin hafi samanlagt fengið færri tíma lögreglu. 

Því lögin eru einfaldlega þannig að óteljandi ofbeldislausir verknaðir eru bannaðir með lögum og krefjast gríðarlega krafta af hendi lögreglu á meðan innbrot og ofbeldisverknaðir raðast neðar á listann, óumflýjanlega.

En ekki er þó eingöngu við löggjafarvaldið að sakast því lögreglan hefur vafalaust nokkuð svigrúm til að forgangsraða tíma sínum en velur að forgangsraða í mál sem má ætla að veki mesta athygli. Ég man t.d. vel eftir endurteknum fréttum um lögreglumenn að fjarlægja heimabrugg bænda. 

En þetta eru bara getgátur sem verða vonandi aflífaðar í hvelli. Ég vona það.


mbl.is Lögreglan stöðvaði fjölmennt unglingasamkvæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á meðan í Svíþjóð ...

Á Íslandi er nú verið að skella mörgu í lás. Aftur. Í Danmörku líka, og sennilega bráðum í Noregi:

With infection levels rising lately, government officials are clearly planning for the effects of any stricter Corona containment measures they may feel a need to re-impose.

Þetta eru löndin sem hreyktu sér af góðum árangri í baráttu gegn veiru. Og skutu í hnéskeljarnar á hagkerfinu um leið og fé var tekið að láni, eða dregið úr sjóðum, til að fjármagna hækjuna.

Á meðan, í Svíþjóð, eru menn að opna. Eftir mistök í upphafi faraldurs var skellt í lás á hjúkrunarheimilum, og menn eiga yfirleitt í vandræðum með blokkaríbúðahverfin þar sem innflytjendur frá suðlægari slóðum og afkomendur þeirra búa þétt saman og borða D-vítamínsnauðan mat án þess að fá sólskin á húðina. En í Svíþjóð á nú að opna aftur. Með einhverjum undantekningum er hægt að ferðast til landsins án þess að fara í sóttkví eða skimun.

Ég fékk eftirfarandi frásögn frá Íslendingi sem er búsettur í Svíþjóð. Þetta er lýsing sem yljar mér um hjartarætur því þarna lifir fólk greinilega eðlilegu lífi, og ég samgleðst innilega:

Hér situr fólk þétt saman á grasinu í garðinum. Fólk er óhrætt að ganga og hlaupa nálægt hvort öðru og ekki hægt að sjá neina grímu eða hanska. Fólk fer í ræktina og gufuböð eins og ekkert hafi gerst og mikið fjör á kvöldin á skemmtistöðunum þar sem unga fólkið skemmtir sér. Maður heyrir reglulega hláturköstin frá heimasamkomum og það er enginn hræddur við að hittast. Já það má segja það að hér hefur lítið breyst hér frá 2019, ef það væri ekki fyrir það að maður rekst stundum á fólk fyrir sjötugt með grímur í matvörubúðinni þá mætti halda að það sé enginn vírus í Svíþjóð. Fer sjálfur með konunni í matarboð í hverri viku og eru þar margir yfir fimmtugt, þannig það er ekki bara unga fólkið sem er hætt að vera hrætt, lífsgæðin jukust til muna við að fara út.

Og enginn deyr af veirunni einni saman, nema í undantekningartilvikum, eins og gildir um alla aðra sjúkdóma.

Svo já, menn ættu að hafa lært ýmislegt. Eða ekki.


mbl.is Fylgst með opnum og lokuðum stöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimapartý

Ég vil hvetja einhvern blaðamanninn til að verða sér úti um sölutölur frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sundurliðaðar eftir vikum, og bera saman við sóttvarnaraðgerðir af ýmsu tagi. Það ætti að vera ágæt vísbending um fjölda heimapartýa, þar sem fólk hittist og gerir sér glaðan dag í lokuðu íbúðarhúsnæði.

Því af hverju ætti t.d. unga fólkið að taka mark á þessum aðgerðum? Það deyr enginn fyrir aldur fram, það er svo til enginn á sjúkrahúsi, læknar eru búnir að læra margar aðferðir til að eiga við veiruna, veiran er sennilega orðin skaðminni en í upphafi, áhættuhóparnir eru nokkuð vel þekktir, fólk sem hóstar heldur sig heima og fæstir sem veikjast verða þess nokkuð varir.

Þríeykið fékk fálkaorðu fyrir að standa af sér erfiðan hjalla í upphafi þegar menn vissu lítið, og á auðvitað skilið hrós fyrir að standa þá vakt, en hefði svo átt að pakka saman og fara heim.

Sænsku leiðina, takk.


mbl.is Hertar aðgerðir á vínveitingastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir vinna - alltaf?

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, Samtaka iðnfélaga, segir 

... að átakið „Allir vinna" hafi sannað sig svo um munar á þessum erfiðu tímum en í átakinu var brugðist við efnahagsástandinu af völdum COVID-19 og var endurgreiðslan tímabundið hækkuð úr 60% í 100%.

Eða svo segir í frétt.

Það er gott að fleiri séu að átta sig á drepandi áhrifum yfirgengilegrar skattheimtu, og jafnvel að átta sig á hvetjandi áhrifum skattleysis. Alltaf.

Vonum að þetta hugarfar lifi af veiruna.


Trump á eftir áætlun

Trump segir að það muni kólna. Hann er á eftir áætlun. Nú þegar er fjöldi sólbletta á niðurleið og það er vísbending um kólnandi veðurfar. Myndin hér að neðan er tekin héðan.

Sólblettir

Fækkun sólbletta leiðir til óstöðugleika í lofthjúpnum og ýtir undir myndun svokallaðra skotvinda frá Norðurpólnum. Þeir skjóta ísköldu lofti niður og valda snöggkælingu á svæðum sem eru vön háum hitum. Um leið skýst funheitt loft frá miðbaug upp og veldur snögghitun á svæðum sem eru vön miklum kuldum. Eða í ögn tæknilegra máli (héðan):

Low solar activity is weakening the jet stream, reverting its usual tight ZONAL flow to more of a wavy MERIDIONAL one: this FULLY explains why some northern latitudes (such as Western Canada/Alaska) have been experiencing pockets of anomalous heat of late while the lower-latitudes (CONUS) have been dealing with “blobs” of record cold

Meira um skotvinda hér,

Skotvindar

Svo þá höfum við það. Koltvísýringur leikur hér ekkert hlutverk og fjölmiðlar steinþegja. Það er eins og það er. Trump er loksins byrjaður að fylgjast með vísindunum.


mbl.is „Það mun byrja að kólna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Val á mælikvarða?

Ég lauk í gærkvöldi við bókina Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, og verð að segja að ég er núna uppfullur af bjartsýni fyrir hönd heimsins, framtíðarinnar, umhverfisins, kvenna, minnihlutahópa og komandi kynslóða. Þó er á því fyrirvari: Að við setjum ekki hið frjálsa samfélag okkar á bak við lás og slá af ótta við ... eitthvað!

Ótta við hryðjuverkamenn.

Ótta við sjúkdóma.

Ótta við spákaupmenn.

Vestrænt samfélag hefur vissulega verið í hálfgerðu neyðarástandi seinustu 19 ár. Á flugvöllum er rakspírinn og vatnsbrúsinn tekinn af okkur við öryggishliðið. Leyniþjónustur fylgjast með ferðum okkar á netinu. Vestrænir hermenn dveljast í Miðausturlöndum og skiptast á sprengjum við innfædda sem hefna sín svo með því að sprengja upp almenna borgara á Vesturlöndum. Peningaprentvélarnar hafa ekki stoppað í 20 ár með tilheyrandi raski á verðmyndun, vaxtastigi og stöðugleika fjármálakerfa. Og nú fletja vestræn ríki hagkerfi sín til að fletja út veiru sem drepur sennilega hagkerfin hraðar en veiruna. 

En við erum ennþá frjáls á Vesturlöndum, þrátt fyrir allt.

Þetta leiðir samt huga minn að því hvaða mælikvarða við notum til að bæði vega og mega ástand heimsins og til að nota við áætlunagerð til framtíðar.

Sá sem fylgist vel með fréttum myndar í höfði sér þá hugmynd að heimurinn fari versnandi. Fréttamenn játa að neikvæðar fréttir selja betur en jákvæðar. Frávik frá reglu eru áhugaverðari en reglan. Það ýtir enginn á fyrirsögn sem segir að 40 milljónir flugvéla lendi á hverju ári heilu og höldnu. Hrapi ein úr loftinu er það hins vegar stórfrétt sem vekur mikla athygli. Skiljanlega, en tekið úr samhengi getur slík frétt brenglað upplifun okkar á heiminum.

Undanfarna mánuði er búið að hamra mikið á því að fjölgun á smitum á veiru sé á niðurleið eða uppleið og smitin notuð til að réttlæta hin og þessi inngrip í samfélagið. Þetta var kannski skiljanlegt í upphafi þegar ný veira með óþekkta eiginleika fór á stjá, en ekki lengur. Læknar eru orðnir ótrúlega færir í að eiga við veiruna. Og enginn er að deyja nema á gamals aldri eða vegna undirliggjandi sjúkdóma sem hefðu sigrast á líkama með hjálp hvaða veiru eða bakteríu sem er.

Með því að halda umfjöllun um veiru frá dauðsföllum og að smitum er hægt að mála alveg skelfilega mynd af einhverju frekar saklausu.

Tökum danskar tölur sem dæmi.

Hér er smitkúrfan:

smit

Heimsfaraldur!

Líkhúsin eru að fyllast!

Gjörgæslan er sprungin!

Ættarstapi!

Eða hvað?

Hér er kúrfa dauðsfalla fyrir sama tímabil:

daudfoll

Hvað er í gangi? 

Eru menn farnir að passa sig á hjúkrunarheimilunum og verja þá með undirliggjandi sjúkdóma á meðan unga fólkið djammar, kelar og knúsast og skiptist á veiru eins og enginn sé morgundagurinn? (Enda á nú að þvinga það heim núna.)

Hugsanlega. Því það er aðallega yngra fólkið sem fær veiruna, enda mest á ferðinni:

aldursdreifing smita

Og eins og með allar veirusýkingar er það aðallega eldra fólkið sem deyr þegar það sýkist.

aldursdreifing daudsfalla

Með því að fletja út hagkerfið tekst kannski að halda veiru í skefjum en þá byrjar fólk að deyja af ýmsu öðru. Sjálfsmorð eru fyrirsjáanlega byrjuð að aukast vegna vonleysis, atvinnuleysis og tekjuleysis. Læknar hafa séð vísbendingar um að fleiri hafi dáið úr hjartaáföllum en annars hefði verið raunin því fólk var hrætt við að hringja í sjúkrabíl og verða rúllað inn í veirubæli. Margir hafa frestað læknisheimsókninni til að athuga með krabbamein og aðra langvinna sjúkdóma. Og enn skal haldið áfram á sömu braut, til að fletja úr veiru.

Er ekki kominn tími til að skoða aðra nálgun?


Námsskylda, ekki skólaskylda

Samkvæmt íslenskum lögum er skólaskylda í grunnskólum Íslands og er einstaklingum frá 6 til 16 ára aldurs skylt að sækja þá (nema veittar séu undanþágur), eða svo segir Wikipedia mér.

Börn eru því múlbundin við skóla.

Í Danmörku er ekki skólaskylda heldur kennsluskylda (undervisningspligt). Það er einfaldlega á ábyrgð foreldra að sjá til þess að barnið gleypi í sig grunnskólanámið á einn eða annan hátt.

Kannski finnst einhverjum þetta ekki vera mikill munur, en kannski er þetta gríðarlegur munur. Eðlismunur, frekar en stigsmunur.

Heimakennsla er hratt vaxandi fyrirbæri. Margir foreldrar sjá ekki lengur nytsemina í því að kvelja sálina úr barni sínu innan fjögurra veggja skólastofunnar. Hagsmunaaðilar í núverandi fyrirkomulagi spyrna eðlilega við fótum. Það á ekki að láta slíkt hindra sig í að hugsa í lausnum. Foreldrar eru ábyrgir fyrir börnum sínum, ekki ríkið. Ekki gleyma því.


mbl.is Áform um heimakennslu eru umdeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjá ekki skóginn fyrir trjánum

Orkuskipti í samgöngum eru forsenda þess að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum samkvæmt Parísarsamningunum. Markmið stjórnvalda miða að því að minnka útblástur frá samgöngum á landi um 37%, miðað við árið 2018, fyrir árið 2030.

Og hvernig á að gera það?

Kannski með sama hætti og mannkynið hefur alltaf unnið, þegar hvatarnir eru til staðar: Fyrst þarf bara orku - einhverja orku. Svo þarf hún að menga minna. Um leið þarf hún að verða hagkvæm og skilvirk. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að endalaus orkuskipti hafa átt sér stað seinustu aldir, og eiga sér stað í sífellu: Mykju- og móbruni verður trjábruni sem verður kolabruni og loks gas- og olíubruni, hreinsibúnaðurinn batnar og nýtnin eykst. 

Með þessum hætti hefur t.d. íslenska útgerðin stórminnkað útblástur sinn seinustu áratugi, og það án alþjóðlegra skuldbindinga á herðar skattgreiðenda, því hún hefur einfaldlega stefnt að aukinni hagkvæmni. Og bílaflotinn heldur í raun áfram að blása minna og brenna betur, jafnvel þótt bílaeign hafi aukist, þökk sé kröfuhörðum neytendum sem halda framleiðendum bifreiða við efnið (hér eru Danmörk og Ísland sennilega ekki á sömu vegferð, því Danir ríghalda í ofurskattlögðu bílana sína eins lengi og þeir geta á meðan Íslendingar vilja helst vera á nýjum eða nýlegum bílum). 

Útblástur frá bílum er líka ósköp lítil stærð í hinu stóra samhengi, sé útblástur á annað borð talinn áhugaverð stærð, og ef ótalin er svo mismununin í skattkerfinu sem bitnar fyrst og fremst á ökumönnum. Með því að þröngva einhverjum orkuskiptum þar í gegn er verið að eyða stórfé. Nú fyrir utan að yfirvöld hafa með engum hætti útskýrt hvernig skattkerfið sem á að fjármagna vegagerð á að breytast þegar skattfrjáls batterí koma í stað brennsluvéla. Eða jú, með fleiri sköttum!

Rafmagnsbílar og rafmagnstæki af öllu tagi eru krúttlegar græjur og nothæfar í mörgu samhengi. Ég þekki marga sem þeytast nú um á rafskútum um götur borgarinnar og láta bílinn bíða heima. Græjufíklar vilja auðvitað eiga flotta Teslu. Í stórborgum erlendis eru rafmagnsbílar sniðug leið til að færa útblásturinn frá þéttbýlinu og út í sveit eða til annarra ríkja (rafmagnsbílar í Þýskalandi draga mjög á orkuframleiðslu kolavera í Austur-Evrópu). Og það er ljóst að bílaframleiðendur eru að vinna að ýmsum nýjungum, neytendum til hagsbóta. Sem dæmi má nefna hugmyndir Hyundai um að smíða vetnisbíla sem keyra á vetni framleitt með sól og vind (nú eða bara gasi, ef því er að skipta). Það þarf mun færri afríska námuverkamenn í Afríku í slíka hugmyndafræði, sé miðað við batterísblætið.

Nú fyrir utan alla talnaleikfimina sem er notuð til að réttlæta framgang batterísins. Þar lifa margar goðsagnir um ágæti hinna og þessara svokölluðu grænu orkugjafa.

En menn virðast ætla grafa skotgrafir: Annaðhvort olía eða batterí. Annaðhvort brennsla eða hleðsla. Það er óþarfi. Og það ættu allir að hafa varann á þegar stjórnmálamenn valsa um með milljarða af fé skattgreiðenda og lofa bjartri framtíð. Allir.


mbl.is Orkuskipti í samgöngum forsendan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarsóun

Í rándýrri viðleitni til að reyna minnka notkun á jarðefnaeldsneyti hafa menn dottið niður á svolitla aðferð: Að brenna matvæli!

Þannig er eldsneyti með mikinn orkuþéttleika tekið úr umferð, a.m.k. að hluta, og eldsneyti með lítinn orkuþéttleika notað í staðinn.

Þetta hefur allskyns afleiðingar. Til að byrja með leiðir þetta til verra eldsneytis og dýrara. Vefþjóðviljinn tók þetta ágætlega fyrir í mörgum pistlum, t.d. með eftirfarandi orðum:

Í tíð vinstri stjórnarinnar voru leiddar í lög kvaðir sem þvinga bensínstöðvar til að blanda dýrum og orkusnauðum jurtaafurðum í bensín og Dieselolíu. ... Vínandinn eða korn-etanólið, sem nú er blandað í bensín, er dýrara í innkaupum en bensín. Etanólið er einnig um þriðjungi orkuminna en óblandað bensín. Íblöndunin leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar og þar með aukins innflutnings eldsneytis.

Enn er þessi kjánalega kvöð í gildi, því miður.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Hvaðan eiga öll þessi matvæli að koma? Jú, frá ökrum bænda. Bændur senda uppskeru sína í bílvélarnar og hin aukna eftirspurn eftir afurðum þeirra þrýstir upp verði á mörkuðum, m.a. þeim þar sem fólk er að reyna kaupa sér í matinn. Hið hækkandi verð hvetur svo bændur til að leggja enn meira land undir ræktunina, þá vitaskuld á kostnað náttúrunnar. Lokaniðurstaðan er: Fátækt fólk hefur minna að borða, og náttúran fær skellinn.

Af því við viljum ekki nota jarðefnaeldsneyti sem liggur bara í jörðinni og bíður eftir því að breytast í hagkvæma orku.


mbl.is Prófa vistvæna repjuolíu á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðefnaeldsneyti er frábært

Allt tal um að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti er tómt tal. Mannkynið hvorki ætti né getur hætt að nota jarðefnaeldsneyti með núverandi tækni, og það eru fá teikn á lofti um að tæknin geti leyst jarðefnaeldsneytið af á næstu áratugum. 

Auðvitað geta rík lönd talað á öðrum nótum. Það er alveg hægt að neyða almenning til að taka upp hálfþróaða tækni og niðurgreiða með svimandi fjárhæðum valkosti við jarðefnaeldsneyti. Auðvitað. Og um leið láta börn í Afríku grafa á eftir sjaldgæfu málmunum sem þarf í öll þessi batterí. En fyrir heiminn, heilt á litið, eru það bara heimatilbúnar og svæðisbundnar æfingar sem skipta engu máli fyrir heildarmyndina og mannkynið. Á Ísland að nota jarðefnaeldsneyti eða ekki? Svarið skiptir ekki máli nema fyrir íslenska skattgreiðendur.

Nú fyrir utan að jarðefnaeldsneyti er ekkert vandamál í sjálfu sér. Jú, auðvitað veldur ósíaður kolareykur usla, en hreinn gasbruni eða bruni bensínvélar er engin sérstök óværa. Fyrir milljónir fátækra Jarðarbúa er raunar mikil framför í að komast í kol til brennslu, sem valkost við bruna dýraskíts innandyra með tilheyrandi reykeitrun og jafnvel hættu á dauða.

Hafi menn áhyggjur af styrkleika koltvísýrings í andrúmsloftinu og því að hann hafi meiri áhrif á hitastig lofthjúpsins en sjálf sólin þá er sú goðsögn á góðri leið með að verða afhjúpuð sem ósönnuð tilgáta. Koltvísýringur er ekki mengun. Hann er tiltölulega áhrifalítill fyrir lofthjúpinn, en meiri styrkur um leið frábær áburður fyrir plönturnar. Því meira, því betra (upp að ákveðnu marki, auðvitað).

Svo þurfum við að muna að jarðefnaeldsneyti er ekki bara eldsneyti heldur líka hráefni. Það kæmi mér mjög á óvart ef það væru færri en 50 hlutir í kringum þig, sem þetta les, sem á einn eða annan hátt eru framleiddir með notkun olíu sem hráefnis.

Mörgum er tíðrætt um orkuskipti. Þau eru ekki frá jarðefnaeldsneyti í græna orku (svokallaða), heldur frá skítugri orku til hreinni.


mbl.is Orkuskipti rædd á opnum ársfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband