Skrifræði, almenningur og upplýst andspyrna

Árið 1944 ritaði hagfræðingurinn Ludwig von Mises eftirfarandi hvatningu til almennings (Bureaucracy (1944), bls. 120):

The plain citizens are mistaken in complaining that the bureaucrats have arrogated powers; they themselves and their mandatories have abandoned their sovereignty. Their ignorance of fundamental problems of economics has made the professional specialists supreme. All technical and juridical details of legislation can and must be left to the experts. But democracy becomes impracticable if the eminent citizens, the intellectual leaders of the community, are not in a position to form their own opinion on the basic social, economic, and political principles of policies. If the citizens are under the intellectual hegemony of the bureaucratic professionals, society breaks up into two castes: the ruling professionals, the Brahmins, and the gullible citizenry. Then despotism emerges, whatever the wording of constitutions and laws may be.

Hvatningin gekk í stuttu máli út á að almenningur kynnti sér grundvallarlögmál hagfræðinnar og almennt gangverk samfélagsins og myndaði upplýsta andspyrnu við yfirgang ríkisvaldsins og skrifræðisins. 

Í þessu felst meðal annars að efast. Af hverju er ríkiseinokun viðhaldið? Hver eru rökin? Hver er valkosturinn? Einu sinni skoðaði ríkið bíla og framleiddi sement. En ekki lengur.  Af hverju þarf íslenska ríkisvaldið að selja áfengi í fyrirkomulagi ríkiseinokunar? Til hvers eru öll þessi eyðublöð? Af hverju þarf að fá samþykki á svona mörgum stöðum innan hins opinbera? 

Stundum er kannski hægt að rökstyðja en oft ekki. Oftast er bara um venju að ræða. Svona hefur þetta alltaf verið! Við fanga sem situr saklaus bak við lás og slá fær hann einfaldlega svarið: Þú ert á bak við lás og slá núna og þarft að sanna af hverju þú átt að sleppa. En á meðan heldur allt áfram eins og það hefur verið.

Ég vona að sem flestir taki hvatningarorð Mises til sín. Það er eina haldbæra viðspyrnan gegn skrifræðinu.


mbl.is „Höfum séð blóðuga sóun úti um allt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífshættulegar sóttvarnaraðgerðir

Allt bendir til þess að svartsýnustu spár um afleiðingar sóttvarnaaðgerða ætli að rætast. Lækningin er að reynast verri en sjúkdómurinn.

Fyrirtæki hafa verið knésett, fólk einangrað frá vinum og ættingjum (ýmist með heimsóknarbönnum, sóttkví og takmörkunum á ferðalögum), atvinnuleysi sett á flug og þeir sem stóðu höllum fæti í góðæri hafa nú verið endanlega keyrðir í þrot.

Lögreglan hefur nú þegar gefið til kynna nálægt því 70% fjölgun sjálfsvíga það sem af er þessu ári og hætt við að það sé bara forsmekkurinn enda sjá margir fram á að þurfa fjármagna jólahátíðina á atvinnuleysisbótum og það mun sennilega hrekja fleiri fram af bjargbrúninni. Miklu fleiri.

Frestun ýmissa aðgerða á líka eftir að draga dilk á eftir sér. Þeir sem hafa beðið svo mánuðum skiptir eftir liðskiptaaðgerð og eru alveg við það að detta í örorku hafa verið settir í enn lengri bið. Fjölgun örorkubótaþega er fyrirsjáanleg. Vinnufært fólk er gert óvinnufært. 

Fjölgun allskyns dauðsfalla sem koma veiru ekkert við blasir einnig við. Hjartaáföll í heimahúsum, krabbamein sem greinast seinna en ella og ýmsir lúmskir sjúkdómar eru að njóta sín á meðan heilbrigðiskerfið einblínir á hina fjölmiðlavænu veiru.

Ungt fólk er sent heim til sín til að læra fyrir framan tölvu. Slakir námsmenn sem hefðu kannski átt sér viðreisnar von með góðum kennara eiga nú enga von. Tölvuleikirnir taka við af stærðfræði og stafsetningu. 

Haustið er framundan og næsta veira fer bráðum á stjá. Aftur er verið að skella í lás og setja á samkomubönn. Það er engin áætlun. Það er verið að einblína á smit en ekki sjúkdóma. Þessar sóttvarnaraðgerðir eru lífshættulegar og þeim ber að snúa við hið snarasta.


mbl.is Veruleg fjölgun óútskýrðra dauðsfalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokun landamæra tilgangslaus?

Ferðamönnum á leið til Íslands var í ágúst tilkynnt að þeirra biði 5 daga sóttkví. Þeir hættu að koma. Söluræðan var sú að íslenskt samfélag ætti að óttast smit að utan og að án þeirra gæti lífið haldið áfram, sinn vanagang.

Augljósa hefur þetta ekki staðist. Aftur er skellt í lás innanlands.

Þá er upplagt að spyrja: Má þá ekki opna landamærin aftur?

Ferðamenn eru fátíðir smitberar og fjöldi smita þeirra vega ekkert í tölfræðinni.

Úr því samfélagið er aftur komið á bak við lás á slá þá er væntanlega engin ástæða til að takmarka ferðamenn sem koma til landsins. Þeir eru ekki vandamálið.

Eða á einfaldlega að loka öllu án tillits til raunveruleikans?

Ákvörðunarfælni íslenskra stjórnvalda er algjör. Landinu er stjórnað af minnisblöðum með þröngt áherslusvið. 


mbl.is 20 manna samkomutakmarkanir á mánudaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkdómur ríka fólksins

Í Indlandi tala menn um COVID-19 sem sjúkdóm ríka fólksins. Hinir fátækari eru þá sennilega svo umkringdir af veirum og skít að kórónavírus hefur ekkert í þá sem á annað borð lifa af daglega lífið. Hinir ríku eru kannski með veikara ónæmiskerfi og sennilega fleiri lifandi einstaklinga í áhættuhópum svo veiran hrellir þá í meiri mæli.

Annars gleyma blaðamenn alltaf að setja hluti í samhengi. Skoðum aðeins dánarorsakir á Íslandi undanfarin ár. Að jafnaði deyja um 1800-2200 Íslendingar af einhverjum sjúkdómi eða líffærabilun eða einhvers konar sjálfsskaða. Sem dæmi má nefna að illkynja æxli í maga drepur um 15-40 manns, á ári! Vísvitandi sjálfsskaðar drepa um 30-50 manns á ári. Í fyrra voru sjálfsvígin 39 og hefur fjölgað um 67% í ár, og metið árið 2000 sennilega rækilega slegið með vel yfir 60 sjálfsvígum þegar árið er úti.

Sjalfsvig1996-2020

(Ég hef þann fyrirvara á þessu grafi að tölurnar sem ég finn í gögnum Landlæknis passa ekki alveg við tölur sem eru nefndar í frétt um fjölgun sjálfsvíga, en í fréttinni er talað um ákveðna tíma ársins sem ég get ekki séð í gögnunum, og um leið getur verið að sumir vísvitandi sjálfsskaðar séu ekki flokkaðir sem sjálfsvíg. Óháð því þá er kannski hægt að gera sér í hugarlund hvaða hneigð er í gangi.) 

Tölfræðin mun svo sennilega líka taka flugið þegar kemur að dánarorsökun eins og hjartaáföllum þar sem fólk finnur fyrir einkennum en veigrar sér við að hringja á sjúkrabíl og deyr einfaldlega úr einhverju sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Hið sama gildir um krabbamein og aðra lúmskari sjúkdóma. 

Það er margt sem við vitum ekki um COVID-19 en um leið margt sem við vitum ágætlega. Látum nú það sem við vitum ráða gjörðum okkar, ekki það sem við vitum ekki.


mbl.is Þrír á gjörgæslu, þar af tveir í öndunarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölbreytni og frjáls markaður

Veganbúðin byrjaði sem lítil netverslun í Hafnarfirði en hefur á aðeins tveimur árum eignast stóran hóp viðskiptavina. Eigendurnir anna nú vart eftirspurn.

Þetta er ánægjuleg frétt. Vonandi gengur Veganbúðinni sem best. Neytendur eiga skilið alla þá fjölbreytni sem þeir eru tilbúnir að fjármagna.

Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að geta keypt það sem við viljum. Það er óvarlegt. Fjölbreytni, úrval, aðlögun og frjáls viðskipti eru drifkraftur sem hvetur frumkvöðla og fyrirtæki áfram. Þar sem önnur lögmál gilda, t.d. í menntakerfinu þar sem ein afurð - námsskrá hins opinbera - er í boði, er stöðnun og jafnvel afturför. Þetta kemur ágætlega fram þegar niðurstöður hinnar svokölluðu PISA-rannsóknar eru skoðaðar: Allir flokkar eru "negative" eða "stable". Er ekki hægt að krefjast meira fyrir alla peningana?

Fullorðið fólk þekkir þarfir sínar betur en stjórnmálamenn. Fullorðið fólk á að hafa valið. Þá fá fleiri en grænmetisæturnar möguleika á að gera kröfur og halda fyrirtækjum og frumkvöðlum á tánum, og stjórnmálamönnumum í löngu sumarfríi fram að jólafríi.


mbl.is Veganbúðin er í miklum vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndbandið sem lokar COVID-19 umræðunni

Fyrir þá sem hafa áhuga á að loka umræðunni um COVID-19 (lokanir, grímur, skólalokanir, sóttkví og hvaðeina) er hægt að nota myndabandið hér að neðan sem heimild:

Þegar einhver reynir að rökstyðja grímur, lokanir, landamæraskimanir, sóttkví og aðrar hömlur á samfélaginu vegna COVID-19 er nóg að benda á þetta myndband og segja: Opnum, núna! Punktur, búið.

Það tekur um 37 mín að tyggja sig í gegnum þetta en framsetningin er alveg frábær.

Ég legg til að einhver sjónvarpsstöðin setji þetta myndband í útsendingu og að einhver blaðamaðurinn skrifi upp úr því grein. Og auðvitað er rétt að deila því sem víðast á netinu.


Milljón leiðir til að safna milljón

Þegar eignaréttur, samúð, viljinn til að láta gott af sér leiða og tæknin renna í sama spor gerast margir góðir hlutir.

Nýlega var mér t.d. bent á þjónustuna DonoreSee. Stutta útgáfan af söluræðunni er hér

Okkur er sagt að við þurfum að hafa velferðarkerfi. Það kostar sitt, sérstaklega í stjórnsýslukostnaði. Er það ekki úrelt fyrirkomulag? Sé það rétt sem talsmenn velferðarkerfsins segja - að fólk vilji hjálpa þeim í neyð - þá er hægðarleikur að miðla þörfum og gjöfum. Það hefur verið hægðarleikur í áratugi (samanber SOS þorpin) en tæknin hefur gert það að enn auðveldara. Þú gætir jafnvel horft á lifandi myndband af viðtakanda taka við þínum dollar! 

Kannski sumir séu enn á því að peningasendingar til íslensks stjórnmálamanns séu vænlegasta leiðin til að hjálpa fátækum nágranna eða hungruðu barni í öðru ríki. En ég er efnis.


mbl.is 89 ára pítsusendill fékk 1.6 milljón í þjórfé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnatakan er faraldurinn, ekki veiran

Ég ætla núna að reyna færa rök fyrir því að faraldurinn vegna COVID-19 sé, þegar nú er komið, ekki veirufaraldur heldur greiningarfaraldur. 

Byrjum á þremur myndum frá covid.is, og helst þarf að horfa á þær allar þrjár í einu:

Fjöldi smita

Fjöldi sýna

Hlutfall smitaðra af sýnum

Augljóslega eru vandræði fólgin í því að greina hneigðir með tíma. Áherslur eru alltaf að breytast. Eina stundina eiga allir kost á sýnatöku, þá næstu eiga bara þeir með einkenni að mæta í prófun. Handahófskenndar skimanir hafa verið framkvæmdar, og við landamærin eru skimanir kerfisbundnar. Tölfræðin er ekki sundurliðuð þannig að það megi sjá væntanlega dreifingu smita meðal alls almennings á hverjum tíma. Átaksverkefnin, síbreytileg fyrirmælin og auðvitað raunveruleg smitdreifing er því allt í einum hrærigraut.

Þó má freistast til að draga ályktanir.

Ein er sú að þegar sýnataka er aukin þá fjölgar smitum án þess að hlutfall smita meðal sýna breytist mjög mikið. Undir það seinasta hefur t.d. verið mjög bætt við sýnatökur, og bara þeir með einhvers konar einkenni einhvers beðnir um að koma, og viti menn, fjöldi smita fer upp. Hlutfall smita af teknum sýnum er samt frekar flöt stærð, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að nú er fólk beðið um að láta sýnatöku eiga sig nema vera með einkenni. Skiljanlega eykst hlutfall smita þegar fólk er beðið um að sleppa sýnatöku nema sýna einkenni.

Önnur ályktun er sú að veirufaraldurinn sé í raun prófunar- eða greiningarfaraldur. Ef færri sýni væru tekin væru færri greindir. Spítalar eru svo gott sem lausir við sjúklinga vegna veirunnar svo ekki er um að ræða útbreiðslu á neinu sem raunverulega gerir fólk veikt (enda búið að átta sig á áhættuhópunum og verja þá sérstaklega). Miklu frekar eru menn að taka mörg sýni meðal þeirra sem eru með svokölluð einkenni, greina marga smitaða (að því marki sem veiruprófið grípur slíkt rétt) og taka svo stórar og afdrifaríkar ákvarðanir um framgang samfélagsins í kjölfarið. Væru menn að telja sjúklinga á gjörgæslu væri alveg ljóst að þessi veira er búið spil og lífið getur haldið áfram, óáreitt.

Þriðja ályktunin er svo sú að það er engin raunveruleg aðferðafræði í gangi. Menn telja smit eftir að hafa tekið ýmist mörg sýni eða fá, handahófskennt eða meðal útvaldra, og eru jafnvel að reyna drepa vindkviður með sverðum núna. 

Athugasemdir vel þegnar.


Friðsöm mótmæli listamanna

Bubbi Morthens, tónlistargoðsögn á Íslandi, var í viðtali og lætur gamminn geysa.

Spurður um hvort við verðum ekki að fara að læra að lifa með far­aldr­in­um án þess að breyta öllu seg­ist Bubbi á þeirri skoðun.

Ég segi: Auðvitað!

Úti í hinum stóra heimi eru listamenn farnir að mótmæla yfirgangi ríkisvaldsins með friðsömum hætti. 

Meðal annarra má nefna aðra goðsögn, Van Morrison. Hann segir:

Come forward, stand up, fight the pseudo-science and speak up.

Og það er ekki nóg með hvatningarorð. Hann ætlar að skrifa lög til að mótmæla lokun samfélagsins

Er til betri leið til að hafa áhrif á ástandið? Varla.

Ég henti í smávegis leirburð fyrir listamenn sem þeir geta notað að vild.

Allir smitast, enginn veikist,
afhverju að verja þá,
sem hósta ekki, hnerra ekki,
hugsanlega kommaþrá.

Gangi ykkur vel, listamenn!


mbl.is Eins og „Bubbi fallinn“ sé búið að raungerast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðborgarsvæðið

Ég var á einhverjum þvælingi á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar það blasti við mér betur en áður hvað skipting hins íslenska landflæmis upp í sveitarfélög er órökrétt. Myndin hér að neðan sýnir það vonandi.

Höfuðborgarsvæðið og sveitarfélög

Sveitarfélög eru eins konar verkfæri ríkisvaldsins og hafa þann tilgang að sinna ákveðnum lögbundnum verkefnum sem hafa það kannski helst sameiginlegt að krefjast nærveru stjórnvaldsins við íbúana. Sveitarfélög geta svo að auki reist glæsihallir og sjósett gæluverkefni eins og enginn sé morgundagurinn. 

Þegar fjarlægðin milli stjórnvaldsins og íbúanna er orðin mjög mikil er hætt við að tengingin rofni. Þetta getur komið fram með ýmsum hætti, og segir t.d. á einum stað sem túlkun á niðurstöðum ánægjukönnunar meðal íbúa:

Stundum megi ætla að minni sveit­ar­fé­lögin græði á smæð sinni, þar sem ein­hvers konar bæj­arstolt kunni að mati við­mæl­enda Kjarn­ans í sumum til­vikum að hafa áhrif á svör íbúa þeirra.

Bæjarstolt! Þetta kannast ég vel við sem gamall Árbæingur og stuðningsmaður Fylkis sem leit niður á bæði Breiðholt og Grafarvog en aðallega miðbæjarliðið, en auðvitað á vingjarnlegum nótunum. Ég vann sjálfboðavinnu fyrir íþróttafélagið, sópaði götuna mína á hreinsunardeginum á vorin með öllum hinum krökkunum og fannst ég raunverulega tilheyra litlu samfélagi sem væri ólíkt öllum öðrum. Bæjarstolt er gott og þegar það dalar er það slæmt.

Það eru einhver teikn á lofti um að bæjarstolt í sumum hverfum Reykjavíkur sé á fallandi fæti. Ég veit t.d. af því að í sumum hverfum austan við Elliðaá finnist fólki það frekar vanrækt af borgarstjórn (með réttu eða röngu). Og hvað er þá til ráða? 

Ekkert.

Þrýstingur frá ríkisvaldinu er í þá átt að sveitarfélög stækki svo það sé auðveldara fyrir það að fleygja í þau fleiri lögbundnum verkefnum án þess að þurfa hafa áhyggjur af fjármögnuninni. Sveitarfélög geta því sameinast út í hið óendanlega og hætta þannig auðvitað að vera þetta nálæga stjórnvald sem er í nánum tengslum við íbúa sína. Og fólk sem er ósátt þarf að flytja langar vegalengdir til að komast í næsta sveitarfélag. Í Reykjavík er þó, þrátt fyrir allt, frekar auðvelt að skipta um sveitarfélag, og líklegt að það veiti svolítið aðhald. Það gæti breyst ef Reykjavík fær að gleypa nágranna sína.

En af hverju má ekki stokka upp? Eða má það? Segjum sem svo að íbúar Grafarvogs tjái þá skoðun afdráttarlaust í íbúakosningu að þeir vilja frekar tilheyra Mosfellsbæ en Reykjavík. Væri slíkt mögulegt? Væri það þungur róður? Ég spyr því ég veit það ekki en vona um leið að svarið sé: Ekkert mál! Landfræðilega er það a.m.k. skynsamlegt enda er Grafarvogur smátt og smátt að bráðna saman við þéttbýli Mosfellsbæjar (þyrfti bara að kaupa út einn sveitabæ og þá æðir byggðin áfram), og aukin nálægð við stjórnsýsluna væri bara góð fyrir aðhald íbúanna á kjörnum fulltrúum sínum.

Hvað um það. Ef sveitarfélögin eiga ekki að verða þessi ógnarskrímsli sem drepa bæjarstoltið þá þarf sennilega að fara hugsa í átt frá eilífri stækkun sveitarfélaga og að rökréttari legu þeirra svo fólk geti á ný verið nálægt stjórnsýslunni og sparkað þar upp hurðinni ef yfirvaldið gengur of langt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband