Gráðuverðbólgan

Undanfarin ár hefur svokölluð gráðuverðbólga (educational inflation) hrjáð Vesturlönd. Í Danmörku er, eða var a.m.k. um tíma, markmið yfirvalda að 75% allra nemenda ljúki skólagöngu sinni með háskólagráðu. Á Íslandi er nú krafist, eftir því sem kostur er, háskólaprófs til að sinna börnum á leikskólum og til að kenna krökkum að lesa og skrifa. Hugmyndir um að lögreglunám fari á háskólastig voru eitthvað í umræðunni á tímabili.

Á yfirborðinu er alltaf talað um auknar faglegar kröfur. Fólk þarf jú að kunna vélrita og nota tölvur, ekki satt? Það þarf að fylla út miklu fleiri eyðublöð nú eða áður og uppfylla miklu fleiri kröfur til gæða og skriffinnsku, ekki satt?

En auðvitað blasir við að hér eru menn einfaldlega að minnka samkeppni innan starfsstétta. Það er ljóst að laus staða leikskólakennara fær töluvert færri umsækjendur ef háskólapróf er gert að skilyrði. Þar með eykst þrýstingur á launakjörin. Háskólapróf er einfaldlega leið til að minnka framboðið á meðan eftirspurnin er alltaf til staðar.

Mörg fyrirtæki nota líka kröfur um háskólapróf til að fækka umsækjendum. Þetta er leið til að spara mannauðsdeildinni fyrirhöfn. 

En nú er kannski eitthvað byrjað að breytast. Í frétt er sagt frá því að fyrirtæki eins og Netflix og Apple séu í auknum mæli að hætta að gera háskólapróf að skilyrði fyrir ráðningu.

Svolítil tilvitnun:

Now prominent companies such as Google and Apple are hiring employees who have the skills required to get jobs done, with or without a degree. LinkedIn found many of today’s hottest companies to work for do not require that employees have a college degree.

Þetta eru góðar fréttir. Ég efast um að það verði gert mikið úr þeim á Íslandi en úti í hinum stóra heimi er baráttan við gráðuverðbólguna hafin. Háskólar eru góðir fyrir marga en ekki alla. Háskólapróf sem skilyrði er í raun útilokun á ákveðnu fólki sem á erfitt með að troða sér í ferköntuð form formlegrar háskólagöngu.

Ef við viljum hlífa mannauðsdeildum við álagi og styðja við kjarabaráttu leikskólakennara þá eru til aðrar leiðir en sóa lífum hæfileikafólks með óþarfa bóknámi.


Fyrirsögn: Enginn veiktist

Einn nemandi við Verslunarskólann greindist með kórónuveiruna í gær. Enginn er veikur. Málið er dautt. 

Eða hvað?

Aldeilis ekki: Vegna greiningar eru fjórtán nemendur skólans komnir í sóttkví og tveir kennarar til viðbótar.

Hjálpi mér!

Núna sitja sextán hraustir og heilbrigðir einstaklingar heima hjá sér og reyna að láta hluti ganga upp af því einhver nemandi ákvað að fara í próf og greindist með veiru.

Ekki fylgir sögunni hvenær eða hvernig hann smitaðist. Sennilega í einhverju teitinu eða af því hann stóð nálægt manneskju í Krónunni sem talaði hátt í síma og þeytti agnarsmáum dropum út úr sér.

Ennþá er markmið yfirvalda að útrýma smitum í stað þess að eiga við sjúkdóm þeirra sem veikjast. Ekki smitast, heldur veikjast. Þetta var kannski viðeigandi í tímabundnu óvissuástandi en alls ekki lengur.

Sem betur fer er andspyrnan smátt og smátt að rísa upp úr jörðinni. Greinar sem gagnrýna yfirvöld skjóta reglulega upp kollinum og höfundar þeirra engir viðvaningar. 

Smit er ekki sjúkdómur! Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Við erum að smitast af allskyns veirum og bakteríum á hverjum degi, og engum dettur í hug eltast við slíkt með rándýrum prófunum og lokun landamæra og morði á heilu atvinnugreinunum, nema þegar veiran heitir COVID-19. Það er fyrst að einhver verður veikur að einhver á að gera eitthvað.

Hrausta fólkið nær aldrei að mynda varnarvegg fyrir þá sem eru veikastir fyrir sjúkdómum ef allir eru heima í sóttkví.

Hættum þessari vitleysu.


mbl.is Nemandi Versló greindist með veiruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr 2 í 1

Frétt segir:

Hann [Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir] sagði rannsóknir benda til að einn metri á milli einstaklinga minnki líkur á smiti fimmfalt sem er ásættanlegt og auðveldar framkvæmd auk þess að hún hafi virkað vel í skólum landsins. 

Já, mikil ósköp. Svo virðist sem sóttvarnarlæknir hafi loksins farið inn á heimasíðu WHO, þar sem segir:

Maintain at least 1 metre (3 feet) distance between yourself and others. Why? When someone coughs, sneezes, or speaks they spray small liquid droplets from their nose or mouth which may contain virus. If you are too close, you can breathe in the droplets, including the COVID-19 virus if the person has the disease.

Nú eða hringt í einhvern í Danmörku, en þar hefur síðan í byrjun maí verið 1 metra regla og enginn talað um að það hafi bætt á vandann. Þvert á móti hefur fólk miklu raunhæfari möguleika á að virða 1 metra en 2 metra, og tekur það því alvarlegar. 

Það tekur flöskuskeyti langan tíma að berast til Íslands en á endanum tekst það, og það opnað og lesið.

Annars ætla ég að taka fram að ég tel sóttvarnarlækni hafa staðið vaktina vel, sem slíkur. Ég hef ekkert á móti honum, hans ráðleggingum og hans tilmælum. Hann er sóttvarnarlæknir og hugsar um sóttvarnir (nema þegar honum leiðist). Ég er hins vegar steinhissa á því að stjórnvöld hafi valið að setja nánast öll önnur sjónhorn ofan í skúffu og þar með kafsiglt hagkerfinu án þess að bjarga einu einasta mannslífi, og jafnvel þvert á móti ýtt mörgum hættulega nálægt bjargbrúninni.

Eða er ekki orðið illt í efni þegar embættismaður biður yfirvöld vinsamlegast um einblína ekki á eigin orð og byrja að „taka tillit til annarra hagsmuna“?


Gæluverkefnin laumast inn um bakdyrnar

Sjaldan lætur hið opinbera góða krísu fara til spillis.

Nú þegar er búið að knésetja hagkerfið og óveðursskýin hrannast upp er upplagt að leggja til leiðir til að komast aftur á fætur. Ríkisvaldið er hér tilbúið að rétta þér hækju eftir að hafa brotið á þér hnéskeljarnar.

Gott dæmi er svolítil hugmyndavinna frá Viðreisn. Þar leynast mörg gullkorn:

  1. Að fara á fullt í að leggja Borgarlínuna svokölluðu, i nafni hagkvæmra opinberra framkvæmda! Nú er ekki tíminn til að ræða ágæti þess að fjölga strætisvögnum og bera saman við aðra kosti. Nei. Í nafni neyðarástands skal byggja fyrir 100 milljarða af lánsfé, strax!
  2. Að hraða því eins og frekast er unnt að nota óhagkvæma orkugjafa í stað hagkvæmra.
  3. Tímabundnar skattalækkanir og ríkisstyrkir til fyrirtækja frekar en að lækka bara skatta almennt, á alla línuna, varanlega. Auðvitað.
  4. Almennt stóraukin fjárútlát fyrir lánsfé úr tómum ríkissjóði.

Ég skal alveg viðurkenna að það er ekki allt alslæmt við tillögu Viðreisnar, og gott hjá þeim að setja hugmyndir í pottinn, en almennt má samt segja að Viðreisn sé að reyna gera gæluverkefni sín að þjóðþrifamálum, í nafni neyðarástands, og vonar að þau verði gripin á lofti í örvæntingu og keyrð í gegn. Og viðbúið að fleiri flokkar hugsi það sama, nú fyrir utan alla vitleysuna sem nú þegar er í gangi.


mbl.is Vilja snarpari viðbrögð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin íslenska sænska leið

Þrjú börn hafa verið fjarlægð af heimili sínu í Svíþjóð eftir að foreldrar þeirra lokuðu þau inni í fjóra mánuði af ótta við kórónuveirufaraldurinn.

Þarna er þá kannski sænska leiðin sem Íslendingar völdu, að hluta a.m.k. upp á síðkastið, að fara: Að reyna læsa loftborna veiru úti og koma í veg fyrir smit.

Markmiðið er þá ekki að reyna verja heilsu fólks.

Markmiðið er ekki að hlífa heilbrigðiskerfinu.

Markmiðið er ekki að dreifa smiti yfir lengri tíma.

Nei, markmiðið er að læsa veiru úti, sem er auðvitað ekki hægt.

Kannski það sé kominn tími til að taka upp hina sænsku leiðina, sem er sú jarðtengda hugsun að heilbrigt fólk fær í sig allskyns óværu, en flestir sigrast einfaldlega á henni og myndar varnarvegg fyrir hina sem þola slíkt verr.


mbl.is Óttuðust faraldurinn og lokuðu börnin inni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varúð! Blaðamaður skrifar frétt!

Í frétt segir:

"Þúsund­ir hvítra bænda voru þá hrakt­ar á brott frá landi sínu, oft með of­beldi. ..."

"... en þær [landtökurnar] urðu á end­an­um til þess að skaða efna­hag lands­ins ..."

Val á orðum getur verið misvísandi.

Umrædd frétt segir frá landtökum yfirvalda í Simbabve á eignum hvítra bænda. Þar var hvítum bændum bolað frá löndum sínum. Ekki "oft með ofbeldi", sem "skaðaði efnahag landsins". Nei, með grimmd, sem eyðilagði efnahag landsins. Munurinn á "skaðaði" og "eyðilagði" ætti að blasa við. Að segja "oft með ofbeldi" frekar en "morðum og nauðgunum" er líka augljós fegrun á aðstæðum.

Það ber að varast fréttir skrifaðar af blaðamönnum. Nauðgun verður klapp á rassinn, og brunnið hús, ásamt öllu innbúi, verður að svolitlum bálkesti.


mbl.is Simbabve býðst til að skila landareignum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskriftin

Um daginn birtist í Viðskiptablaðinu ágæt grein eftir Steinar Þór Ólafsson, fyrrverandi markaðsstjóra Orkunnar og núverandi sérfræðings hjá Viðskiptaráði Íslands. Þar ræðir hann reynslu Eista af umbótum í hagkerfinu og segir meðal annars:

En hver ætli séu innihaldsefnin í þessum áhrifaríka eistneska áburði? Með takmarkaðar náttúruauðlindir var ákveðið að búa þannig um jarðveginn að hann væri sem næringarríkastur fyrir einstaklingsframtakið. Má þar nefna flatan tekjuskatt, niðurfellingu opinberra gjalda, aðhald í kostnaði hins opinbera og auðvelda stofnun og rekstur fyrirtækja. Innan menntakerfisins hefur frelsið svo að miklu leyti verið sett í hendur kennarans frekar en staðreyndarlærdóm aðalnámskrár. Eins og við þekkjum t.d. frá Finnlandi.

Mikið rétt, en það er svolítið meira á bak við þessa sögu og það hvernig Eistland bókstaflega flaug úr gráum rústum kommúnismans og inn í velmegandi og opið hagkerfi. Meðal annars segir á öðrum stað (áhersla mín):

Laar [prime minister] was politically naïve enough to put the theories into practice. Instead of worrying about winning trade wars, he unilaterally disarmed by abolishing almost all tariffs. He welcomed foreign investors and privatized most government functions (with the help of a privatization czar who had formerly been the manager of the Swedish pop group Abba). He drastically cut taxes on businesses and individuals, instituting a simple flat income tax of 26 percent.

Einnig:

These reforms were barely approved by the legislature amid warnings of disaster: huge budget deficits, legions of factory workers and farmers who would lose out to foreign competition. But today the chief concerns are what to do with the budget surplus and how to deal with a labor shortage.

Takið eftir: Við stjórnvölinn var sögukennari sem hafði lesið eina bók eftir Milton Friedman, skoðað og hugleitt af hverju sum ríki eru auðug á meðan önnur eru það ekki, las uppskriftina að auðsköpun og fylgdi henni.

Eða eins og segir á Wikipedia:

Laar claims the only book on economics he had read before becoming prime minister at the age of 32 was Free to Choose by Milton Friedman.

Meira þurfti ekki til, í raun. Eistland þaut inn í nútímann og er í dag talið meðal frjálsustu hagkerfa heims á mælikvarða efnahagslegs frelsis [1|2] (í flokki með Norðurlöndunum og Norður-Evrópu). 

Í Eistlandi fundu menn uppskrift og fylgdu henni. Á meðan Eistarnir halda því áfram er framtíð þeirra björt. Og hið sama gildir um aðrar þjóðir. Þetta er ekki flókið nema fyrir stjórnmálamenn.


Kylfan og hækjan

Ríkisvaldið má eiga það. Það er duglegt í því að brjóta fætur manns og rétta honum svo hækjur og segja: Sjáðu nú bara hvað ríkisvaldið er gott og nauðsynlegt fyrir þig! Án þess hefðir þú ekki fengið hækjur!

Forsætisráðherra hefur ranglega sagt að veiru væri hvergi nærri lokið, og bætti við: „En þegar henni lýk­ur er okk­ar mark­mið að hægt verði að segja að sam­an hafi okk­ur tek­ist að vernda heilsu, efna­hag og frelsi okk­ar þannig að þjóðlífið allt verði fyr­ir sem minnst­um skaða og þjóðinni tak­ist að vinna hratt til baka það sem tap­ast hef­ur í þess­um far­aldri,“ og býður þar með fram hækjur svo samfélagið geti gengið á ný.

Það er rétt að í upphafi faraldurs var gengið rösklega til verks.

En í framhaldinu tók eitthvað annað við en upphaflega stóð til: Að fletja út kúrfu. Allt í einu varð markmiðið að halda loftborinni og bráðsmitandi veiru alveg í burtu, jafnvel þótt það hafi fljótlega komið í ljós að hún fer aðallega illa í mjög aldrað fólk og fólk með veikt ónæmiskerfi af ýmsum ástæðum.

Allt í einu töldu íslensk yfirvöld sig geta stjórnað veðrinu, ef svo má segja.

En blaðamenn eru byrjaðir að spyrja og veita aðhald. Það er gott. 


mbl.is Forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn þingmaður í stjórnarandstöðu

Ég hef tekið eftir því undanfarnar vikur að það er að trappast upp í svolitla stjórnarandstöðu á Alþingi eftir frekar daufa frammistöðu þar í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þessi nýja stjórnarandstaða er að veita mjög málefnalega og yfirvegaða gagnrýni á störf meirihlutans og gjarnan þingsins í heild sinni. Á sama tíma er hún hvöss og ætti að hitta í mark hjá viðeigandi aðilum. 

Þessi stjórnarandstaða er um leið ekki stjórnarandstaða því hún er hluti af ríkisstjórnarflokki, og stjórnarandstaða þessi styður sitjandi ríkisstjórn. Það mætti frekar kalla þessa stjórnarandstöðu aðhaldshóp sem tekur þátt í því góða sem lagt er fram á Alþingi en spyrnir við fótum ef eitthvað óheppilegt er á leið í meðferð þess eða er í gangi hjá stjórnsýslunni.

Það var löngu orðið tímabært að á Alþingi risi einhvers konar málefnaleg en um leið hvöss gagnrýni upp úr þessum hefðbundnu skotgröfum. Það er öllum til hagsbóta.

Takk Óli Björn Kárason fyrir að standa í lappirnar, og til hamingju með afmælið í gær!


Tilfellafaraldur, ekki veirufaraldur

Nú safna menn undirskriftum gegn sóttkví ferðalanga. Það er gott. Umræðan um sóttvarnarúrræði þarf að vera galopin, gagnrýnin og snerta á öllum fletum málsins.

Um leið og ég fagna þessu innleggi í umræðuna vil ég benda á svolítið myndband sem er vægast sagt upplýsandi - sjá hér að neðan.

Þarna er í stuttu máli bent á að þótt menn séu að greina mörg tilfelli, af því menn eru að leita og prófa á fullu, þá er fjöldi dauðsfalla svo gott sem í núlli. Höfundur myndbandsins leggur á þetta þunga áherslu:

Fjöldi tilfella er ekki vísbending um fjölda dauðsfalla! Ekki lengur!

Menn eru einfaldlega að prófa mjög mikið og finna veirur, eða leifar af veirum, í fjölda manns sem er hreinlega við ágæta heilsu.

Hann kallar þetta "casedemic" sem einskonar andstæðu "epidemic" og sýnir mörg sannfærandi dæmi um slíkt. Sem dæmi má benda á myndina hér að neðan. "Hóllinn" sýnir fjölda tilfella, á meðan "dalurinn" sýnir fjölda dauðsfalla.

casedemic

Í upphafi faraldursins náði veiran mörgum, sérstaklega þeim sem voru veikastir fyrir veirusýkingum (af öllu tagi; í Svíþjóð er meðalaldur þeirra sem hafa látist vegna COVID-19 nálægt níræðu). En svo gekk veiran einfaldlega yfir. En þá fóru menn að prófa aftur og fundu fjölda tilfella. Nýr "hóll" myndast, en enginn dalur! 

Ég vona að menn séu að ná þessu og bregðist rétt við í kjölfarið. Mikið er í húfi.


mbl.is Safna undirskriftum gegn sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband