Nornaveiðarnar

"Búningur annars kennarans varð til þess að nokkrum kennaranemum blöskraði en kennarinn klæddi sig upp sem araba." (frétt DV en sjá einnig athugasemd SÁS við frétt Fréttablaðsins)

"Útvarpskona sökuð um að fitusmána ..." (frétt DV)

Er það bara ég eða fer þeim fjölgandi fréttunum þar sem venjulegt fólk úti í bæ - heiðarlegt, góðhjartað, venjulegt fólk - er einfaldlega tekið fyrir í fjölmiðlum og sett í gapastokkinn þar sem virkir í athugasemdum geta barið á því þar til þeir fá leið á því og færa sig að næsta máli?

Eða heldur einhver að kennari nokkur á Ísafirði hafi hugsað með sér: "Þessir fjárans arabar, nú skal ég sko sýna heiminum hvað ég fyrirlít þá mikið með því að klæða mig eins og þeir, á skemmtidegi fyrir börn!"

Nú eða að útvarpskona nokkur, sem velti af mikilli einlægni fyrir sér hvort hún væri fordómafull þegar hún vildi alls ekki vera það, hafi hugsað með sér, innst inni: "Þessar fitubollur eiga sko ekki skilið að ná sér í maka og lifa hamingjusömu lífi! Nú ræðst ég á þær í opnu útvarpi og smána þær fyrir framan alþjóð!"

Nei, auðvitað ekki! 

Þvert á móti! Þvert á móti var kennarinn einfaldlega að skemmta krökkum með auðþekkjanlegum klæðnaði sem gæti jafnvel vakið uppbyggilega forvitni um að kynnast ólíkum menningarheimum, og útvarpskonan var að reyna vekja til umhugsunar á uppbyggilegan og opinskáan hátt, með opinni umræðu.

Hvað í ósköpunum vakir fyrir fjölmiðlum að lepja upp þessa óstöðvandi og óendanlegu hneykslun örfárra hræða sem eru sjálfar einfaldlega í mörgum tilvikum að reyna upphefja sjálfar sig með því að bauna á aðra?

Hvað er takmarkið? Að enginn þori lengur að segja neitt? Gera neitt? Hafa skoðun? Velta fyrir sér skoðun? Opna á umræðu? Tjá tilfinningar sínar?

Er það takmarkið? Jæja, til hamingju. Ég held að því sé nokkurn veginn náð.


Er spilaborgin orðin of stór?

"A nation, therefore, has no right to say to a province: You belong to me, I want to take you. A province consists of its inhabitants. If anybody has a right to be heard in this case it is these inhabitants. Boundary disputes should be settled by plebiscite." 
Ludwig von Mises, Omnipotent Government, p. 90

Sjálfstæðissinnar, eða aðskilnaðarsinnar, eru víða að fá meiri vind í seglin. Í Katalóníu á Spáni er hreyfing sem fer síst af öllu minnkandi. Undir Trump töluðu sífellt fleiri um aðskilnað hinna og þessara sambandsríkja frá alríkinu. Meðal annars kallaði ríkisstjóri Kaliforníu ríki sitt "þjóðríki" og vildi með því leggja áherslu á að ríkið gæti gripið til aðgerða í óþökk alríkisins (nokkuð sem stjórnarskrá Bandaríkjanna heimilar tvímælalaust enda hafi alríkið ekki önnur völd en þau sem sambandsríkin framselja til þess).

Víða í Evrópu eru mislanglífar hreyfingar aðskilnaðarsinna sem virðast sumar hverjar stundum ætla að brjótast í gegn og fá a.m.k. kosningar um baráttumál sitt. Brexit er auðvitað angi aðskilnaðarhreyfingar. 

Hvernig stendur á þessu í heimi sem efnahagslega er sífellt að bráðna meira saman?

Kannski má skrifa þetta á sífellt valdaþyrstari og miðstýrðari ríkjasambönd. Alríki Bandaríkjanna er t.d. alltaf að sópa til sín fleiri völdum, nú seinast með nýju Bandaríkjameti í útgáfu svokallaðra "presidential execetive orders" (síðan Roosevelt). Evrópusambandið er auðvitað frægt fyrir sívaxandi umsvif sín. Kannski þungi miðstjórnarvaldsins leiði til þess að spilaborgin undir því hrynur og spilin þjóta hvert í sína áttina.

Kannski er einfaldlega um hefðbundinn hjónaskilnað að ræða. Tveir aðilar semja þá um að slíta samvistum og deila eingöngu með sér sameiginlegum verkefnum, svo sem uppeldi barna, og reyna í kjölfarið að eiga í vingjarnlegum samskiptum og uppbyggilegu samstarfi þegar þess gerist þörf (eða gerast svarnir óvinir og fylla líf sitt af heimatilbúnum vandamálum). Aðskilnaður er oft friðsælasta leiðin til að vinna saman. Þá getur annar aðilinn keypt og borðað beinar og lífrænt ræktaðar gúrkur en hinn kaupir og borðar bognar áburðargúrkur. 

Þetta er þróun sem hefur bara fengið byr undir báða vængi seinustu ár og ég held að eigi enn nóg inni og muni jafnvel leiða til róttækra breytinga á landamærum víða um heim. Sjáum hvað setur.


mbl.is Sjálfstæðissinnar með meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave, CO2, þrælahald og COVID-19

Ég veit að það fer í taugarnar á mörgum að sífjölgandi gagnrýnisraddir á sóttvarnaryfirvöld fái yfirleitt að heyrast.

"Á bara að drepa gamla fólkið?"

"Ertu ekki að taka heimsfaraldurinn alvarlega?"

"Er ekki betra að vera varkár en kærulaus?"

"Grímur eru nauðsynlegar!"

"Hlustaðu á vísindin!"

Það fór líka í taugarnar á mörgum þegar gagnrýnisraddir á Icesave-samningana fóru á kreik.

Og óþolið fyrir þeim sem trúa ekki á heimsendaáhrif svolítillar losunar á CO2 er algjört.

Og fyrir margt löngu voru líka einhverjir síkvabbandi nöldrarar að gagnrýna þrælahald og vildu banna það án þess að hafa reiknað út efnahagsleg áhrif á plantekrur og námur þess tíma.

Það sem ég á við er að oft halda yfirvöld og klappstýrur þeirra úti einhverri línu - einhverju stefi - sem við eigum einfaldlega að taka undir.

Þeir sem gera það ekki eru hávær, grenjandi minnihluti. Afneitarar! Draumórafólk! 

En sem betur fer heyrast raddir sem gagnrýna meginstefið. Sem betur fer! Þær eru samfélagi okkar alveg bráðnauðsynlegar. Mörg meginstef hafa reynst vera bull og vitleysa. Málefnalegri gagnrýni á að svara með málefnalegum mótrökum, ekki taugatitringi og útilokun frá opinberri umræðu. 

Áfram gakk, gagnrýnendur meginstefsins!


Þessi blessuðu smit

Smit, smit, smit! 

Er þetta í alvörunni það eina sem kemst að eftir 11-12 mánuði af veiru sem er búið að kortleggja að innan og utan í smáatriðum?

Menn hafa rökstutt ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir sem draga úr alvarleika sýkingar vegna smits.

Menn hafa prófað óteljandi tegundir þekktra lyfja og blöndu þeirra á allskonar aldurshópum og fólki í mismunandi líkamlegu ástandi og fundið skilvirkar leiðir til að slá á veirumagnið.

Menn hafa komist að því að börn þola veiruna mjög vel og vita jafnvel ekki alltaf af henni í eigin líkama.

Það er held ég á hreinu að almenn grímunotkun gerir ekkert nema búa til falska öryggistilfinningu og getur jafnvel leitt til vandamála í sjálfu sér.

fl

Lokanir eru að rústa geðheilsu fólks - sérstaklega barna - og auðvitað hagkerfinu. 

En samt kemst ekkert annað að en smit! 12. mánuðinn í röð!

Eru einhver hagsmunaöfl hérna að ríghalda í ástandið? Stjórnmálamenn sem neita að viðurkenna mistök? Lyfjafyrirtæki sem sjá fram á mikinn hagnað? Blaðamenn sem stunda engar rannsóknir aðrar en viðveru á upplýsingafundum hins opinbera?

Ég er alveg gáttaður á hinni hrópandi þögn almennings. Hafa foreldrar fermingarbarna engar áhyggjur af páskavikunum? Vill ástfangið fólk ekki fara að henda í brúðkaup? Vill fólk ekki losna úr atvinnuleysi? Vilja unglingar ekki fara í fjölmenn partý og á dansleiki? Vill íþróttaáhugafólk ekki komast á völlinn og hvetja sitt lið áfram? Vill sá sem er að detta í stórafmæli ekki blása til stórrar veislu? Vill ferðalangurinn ekki komast til útlanda og heim aftur án þess að sjá á eftir heilli viku í stofufangelsi?

Eða trúa svona margir því enn að um óþekkta og stórhættulega drepsótt sé að ræða sem slær flensuna margfalt út, og að seinustu 12 mánuðir hafi ekki fært okkur neitt nothæft?

Í alvöru?


mbl.is Reyndust vera með bráðsmitandi afbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjólkurverzlunin

mjolk

(Mynd: Alþýðublaðið - 263. Tölublað (18.12.1968))

Vínbúðinni í Borgartúni verður lokað frá og með mánudeginum 22. febrúar og rekstri hætt í núverandi húsnæði. 

„ÁTVR harm­ar þessa niður­stöðu en því miður eru ekki aðrir val­kost­ir að svo stöddu. Við biðjum viðskipta­vini okk­ar af­sök­un­ar á þeim óþæg­ind­um sem lok­un­in hef­ur í för með sér en bend­um á að næstu Vín­búðir eru í Kringl­unni, Skeif­unni og Skútu­vogi,“ seg­ir í tilkynningu ÁTVR (og blaðamaður bætir við að einnig sé verslun við Austurstræti).

Og þá er það mál úr sögunni, ekki satt?

Ég dvaldi um hríð í íbúð í Túnunum seinasta sumar og fannst frábært að geta skottast á fæti í áfengisverslunina í Borgartúni. Núna dugir sennilega ekkert minna en bifreið til að krækja í sopann. Það mætti segja að núverandi fyrirkomulag áfengisverslunar stuðli að aukinni umferð og þrýsting a stóru verslunarkjarnana að leggja land undir bílastæði.

Um leið dregur núverandi fyrirkomulag áfengisverslunar þróttinn úr minni kaupmönnum sem gætu annars starfrækt hverfisverslanir sem fólk getur skotist í á fæti eða hjóli.

Heilli verslun er lokað með einni tilkynningu og fólki bara bent á bílinn sinn.

Kannski sagan sé gleymd - tímar þegar sunnudagssala á mjólk var mál á borði sveitarstjórnar en ekki samkomulagsatriði milli neytenda og kaupmanna.

Því miður.


mbl.is Rekstri Vínbúðarinnar í Borgartúni hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóg að gera hjá lögreglunni

Ég velti því fyrir mér hvaða hugsanir leika um höfuð lögreglumanns sem sendir fullorðið fólk heim til sín fyrir "ólöglega" en friðsæla, afslappaða og félagslega nærandi tónleika. 

Ætli hann hugsi með sér að þetta sé nú bara vinnan hans og að hann þurfi að fylgja fyrirmælum yfirmanna sinna?

Eða er hann reiður út í fólkið fyrir að dæla banvænni drepsótt yfir samfélagið?

Eða hlýðir hann yfirmönnum sínum með beiskt bragð í munni og hefði frekar viljað stöðva heimilisofbeldi eða innbrot á öðrum stað í bænum?

Annars er frekar auðvelt fyrir lögregluna að eltast við fólk sem brýtur þessi blessuðu sóttvarnarlög á almannafæri. Öll stórhættulegu heimapartýin í stofum fólks eru öllu erfiðari viðfangs. Hér þarf lögreglan að treysta á nágranna sem klaga hvern annan til yfirvalda, og virðist vera nóg af þess slags fólki víða.

Hérna í Danmörku eru að myndast stórir brestir í samstöðu fólks eins og sést á Google Mobility línuritinu fyrir Kaupmannahöfn:

mob

Þegar allir veitingastaðir og skemmtistaðir eru lokaðir, sem og flestar verslanir í verslunarmiðstöðvum (og auðvitað klippistofur og annað eins) þá hittist fólk og ferðast um utandyra, í miklu frosti, og engu minna en á venjulegri tímum. Ég hef oft gengið framhjá illa upplýstu svæði í nágrenninu þar sem unglingar sitja á bekkjum og skemmta sér saman, "ólöglega". Og ég skálaði fyrir nýja árinu með nágranna mínum inni á heimili hans, grímulaus.

Vonandi vorar snemma. Útfjólublátt sólarljósið veikir veiruna og styrkir líkama okkar með meinhollu D-vítamíni. Þá er hægt að deila út fálkaorðum á ný og leyfa lögreglunni að sinna öðrum verkefnum en að segja fullorðnu fólki að fara heim og sofa.


mbl.is Sóttvarnalög brotin í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leið til að létta álag á fangelsum

Nú eru fangelsi landsins nánast fullnýtt og að auki er stór hópur einstaklinga að afplána refsingu með samfélagsþjónustu. Öllu þessu fylgir talsvert umstang og auðvitað kostnaður. Fyrir fanga er lífið líka orðið erfiðara með blettótta sakaskrá sem útilokar þá frá mörgum störfum.

Er engin leið að leysa þetta vandamál?

Jú auðvitað, og leiðin er auðveld í framkvæmd og virkar strax: Fækka því sem er ólöglegt að gera.

Af handahófi (úr hegningarlögum) mætti t.d. afnema eftirfarandi ákvæði:

"Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að [12 árum]." (úr 173. gr.)

"Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum … eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru." (úr 183. gr.)

"Hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári." (úr 206. gr.)

Hvað ætli losni um mörg fangelsispláss við að afnema þessi lög? Hvað ætli lögreglan fái mikið meiri tíma til að eltast við raunverulega glæpi, svo sem innbrot, ofbeldi og skemmdarverk? Hvað ætli álagið á dómskerfið myndi minnka mikið? Hvað ætli margir einstaklingar geti endurheimt líf sitt með hreina sakaskrá?

Glæpir eru auðvitað alvarlegt og raunverulegt vandamál en annað vandamál er hvað margt er talið vera glæpsamlegt, og það er heimatilbúið vandamál.


mbl.is Fangelsin nánast fullnýtt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samhengi?

Berum saman línurit og svokallaðar sóttvarnaraðgerðir:

nygengi

adgerdir

Smit nánast engin. Þeir 11 sem eru sagðir vera á sjúkrahúsi undir fyrirsögninni "COVID-19 á Íslandi" eru það alls ekki vegna veiru.

11

"Ell­efu eru inniliggj­andi á spít­al­an­um vegna Covid-19 sýk­ing­ar en um er að ræða ein­stak­linga sem smituðust á öldrun­ar­lækn­inga­deild Land­spít­ala á Landa­koti í haust og eru enn inniliggj­andi. Smit þeirra eru því ekki leng­ur virk."

Þessi 11-tala er því blekkingarleikur, eða leið til að ýkja ástandið og kannski laða að sér stuðning við að veitingahús eru takmörkuð við 20 manns og fólk getur ekki haldið almennilega fermingarveislu eða brúðkaup.

En senn kemur vorið og þá fer veiran í frí, óháð sóttvarnaraðgerðum.


Hugsað í malbiki

Af hverju halda menn að almenningssamgöngur séu ekki vinsælli en raun ber vitni?

Af því fólk elskar að sitja í þéttri umferð því síðdegisútvarpið er svo skemmtilegt?

Af því fólk elskar að reka bíl með tilheyrandi kostnaði, verkstæðaheimsóknum, ástandsskoðunum og óvæntum vélabilunum, fyrir utan dekkjaskiptin, snjómoksturinn og þrifin?

Af því fólk borgar há iðgjöld til tryggingafélaga með bros á vör og nánast vegna ánægjunnar einnar?

Af því bílastæðaleitin er svo spennandi - tilfinningin að finna ódýrt bílastæði jafnast á við tilfinninguna að vinna í happdrætti?

Eða af því bíllinn er einfaldlega eina leiðin fyrir flesta til að sinna því sem sinna þarf - versla inn (áfengið fæst t.d. bara í örfáum stórum verslunarkjörnum umkringdum bílastæðum, fyrir utan Austurstræti), sækja og skutla, útréttast og hvaðeina. 

Hvað er þá til ráða? Menn hugsa hérna ekki beinlínis í lausnum. Einu úrræðin eru að fjölga akreinum, stækka vagnana og fjölga ferðum með tilheyrandi svimandi kostnaðarauka. Um leið skal þrengt að öðrum valkostum - það er svo gott sem yfirlýst markmið. 

Hérna vantar alla lausnamiðaða hugsun. Kannski eru stórir vagnar á sérakreinum sem keyra oft hin eina sanna lausn en önnur nálgun er sú að hugleiða betri nýtingu á núverandi innviðum. Malbikið er til staðar og það tekur alveg nógu mikið pláss. Það þarf bara að nýta plássið betur. Koma fleirum í hvern bíl og keyra svo þann bíl þangað sem fólk vill fara en ekki að vindblásnu strætóskýli umkringdu slabbi og drullu í láréttu roki.

Hver getur boðið upp á slíka nálgun? Svarið er: Fullt af fyrirtækjum!

Hleypið Uber, Lyft og hugbúnaðarfyrirtækjum inn á þennan blessaða markað: Að ferja fólk frá A til B. 

Það þarf ekki að eyða miklum tíma á leitarvélum til að finna hrúgur af tilraunaverkefnum þar sem sveitarfélög fara í samstarf við sérhæfð fyrirtæki til að reyna koma fólki á milli staða hratt og örugglega og á viðráðanlegu verði.

Engar vegaframkvæmdir að ráði og engir skriðdrekar úr stáli sem fylla sérakreinar gegn svimandi kostnaði.

Persónulega finnst mér miklu notalegra að sitja þægilega í ökutæki sem einhver annar sér um að keyra. Ég get þá lesið bók á meðan eða hlustað á hlaðvarp á meðan ég líka við færslur á samfélagsmiðlum. Þess vegna óska ég almenningssamgöngum, eða hópsamgöngum réttara sagt, sem mestrar velgengni, en einnig skattgreiðendum, og í bili fer velgengni þessa tvenns í sitthvora áttina.


mbl.is Vonast eftir sjálfkeyrandi strætó árið 2023
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokanir og veira

Ég átti smávegis spjall (stafrænt, auðvitað) við vinnufélaga hérna í Danmörku um opnun á skrifstofunni og takmarkanir vegna veiru almennt og setti saman svolítið graf. Minn punktur var sá að óháð "aðgerðum" þá muni veiran halda áfram að tikka og loks fjara út í vor. Fjöldi þeirra sem eru taldir sem látnir vegna veiru (með réttu eða röngu) á 2. ársfjórðungi 2020 er að bráðna ágætlega saman við kúrvuna í þessum töluðu orðum.

dkdeath

Menn geta því opnað og lokað hinu og þessu, hleypt fólki í vinnu eða skóla eða ekki, skyldað grímunotkun eða ekki, en veiran fer ekki í frí fyrr en í vor. Og þá ætla ég og vinnufélaginn að hittast á föstudagsbarnum og ræða ástand heimsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband