Á meðan ísinn þiðnar

Íslenskur sjávarútvegur borgar um 2 milljarða í svokölluð kolefnisgjöld til ríkisins - á ári! Markmið slíkrar gjaldtöku er "að reyna að breyta hegð­un, til að reyna að fá fólk til að fara úr því að nota elds­neyti sem hefur í för með sér að menga og valda lofts­lags­breyt­ing­um", segir umhverfisráðherra, og vill auðvitað hækka skatta. Olíunotkun í sjávarútvegi á Íslandi hefur minnkað úr 246 þúsund tonnum árið 1990 í 133 þúsund tonn árið 2017, skv. SFS. Raunar hófst sú þróun ekki með notkun skattkerfisins heldur með innleiðingu framseljanlegra veiðiheimilda sem gerðu útgerðum kleift að skipuleggja sig til lengri tíma, en það er önnur saga.

Sjávarútvegurinn er sem sagt að breyta hegðun sinni á alveg leiftrandi hraða, en samt skal hann skattlagður í rjáfur. Og núna bíða fiskiskip eftir því að stærðarinnar ísspöng víki svo hægt sé að landa fiski. Kannski hlýnun Jarðar hafi verið afsökun til aukinnar skattheimtu frekar en eitthvað sem raunverulega á sér stað?

Ég birti hér í heild sinni alveg frábæran pistil Vefþjóðviljans (frá nóv. 2015) um tungutak stjórnmálamanna í samhengi loftslags og breyttrar hegðunar:

Í gær kynntu þrír ráðherrar Framsóknaflokksins svonefnda „Sóknaráætlun í loftslagsmálum“ á blaðamannafundi. Menn vilja ekki fara ónestaðir á loftslagsráðstefnuna í París.

Annað af tveimur tölusettum markmiðum í sóknaráætluninni er að losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi minnki um 40% til ársins 2030.

Það er ekkert smáræði, hafa sjálfsagt ýmsir hugsað með sér. Mjög metnaðarfullt. Náttúrverndarsamtök Íslands fögnuðu þessu 40% markmiði fyrir sjávarútveginn sem „frábæru“ í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi.

Þegar betur er að gáð er markmiðið hins vegar ekki að draga úr losun um 40% frá sjávarútvegi frá því í dag til ár[s]ins 2030 heldur verður miðað við árið 1990 sem upphafsár.

Árið 1990 er stundum sagt að kvótakerfið hafi loks verið fullskapað á Íslandi, kvótinn hafi orðið sæmilega traust eign sem gat gengið kaupum og sölum.  Vafalítið á kvótakerfið sinn þátt í því að dregið hefur úr olíunotkun í sjávarútvegi því það gefur miklu betri færi til skipulagningar veiða en önnur og fyrri kerfi. Skipum hefur því fækkað og dregið úr orkuþörf.

Frá 1990 til 2012 minnkaði losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi nefnilega um 38%.

Þetta er í raun frábært dæmi um hvernig ná má árangri í orku- og umhverfismálum án skatta, boða og banna. Orkusparnaður er innifalinn í góðum kerfum á borð við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Það er heldur ekki ónýtt fyrir ráðherrana að hafa nánast náð öðru tölusetta markmiðinu sínu um leið og sóknaráætlun þeirra var kynnt.

Fer ekki að koma tími til að taka upp heiðarlega skattheimtu aftur, frekar en skattheimtu byggða á vitleysu ætlaðrar til að framfylgja trúarskoðunum vinstrimanna?


mbl.is Ís lokar innsiglingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flórídaríki

Í Flórída-ríki Bandaríkjanna eru engar takmarkanir af hálfu ríkisins þegar kemur að sóttvörnum ("no state-imposed restrictions due to the virus" eins og einn orðaði það). Sýslurnar (counties) eru svo með einhverjar takmarkanir - sumar krefjast grímunotkunar og aðrar ekki. Disney World er opin, fólk fer á uppistand, tónleika og leiksýningar, skemmtistaðir eru opnir og fólk treðst grímulaust fram hjá fólki til að kaupa sér áfengi á barnum.

Þeir sem heimsækja Flórída tala um að ferðast inn í heiminn eins og hann var - hið gamla norm - venjulegt samfélag.

En er ríkið með einhverja elstu íbúa Bandaríkjanna (lífeyrisþegaparadísin) ekki að kafna úr veiru? Öðru nær. Ríkinu gengur mun betur en t.d. hinni ungu Kaliforníu þar sem allt var á bak við lás og slá þar til um það bil korteri eftir að Biden hafði svarið forsetaeiðinn, og nágrannaríkin. 

Innan ríkisins eru sýslur ýmist með grímuskyldu eða ekki og enginn munur er á frammistöðu þeirra. Kannski er lélegri eftirfylgni með grímunotkun um að kenna, kannski eru grímur einfaldlega ekki að hjálpa.

Flórída er galopið og fólk ferðast þar inn og út.

Ég bíð núna eftir því að einhver blaðamaðurinn skrifi níðgrein um Flórída sem "greiði fyrir gestrisnina" og því að halda ekki samfélaginu í kverkataki. Og skoði þá auðvitað ekki dauðsföll og hvað þá aldursdreifingu og heilsufarsástand þeirra látnu. Bara smit, smit og ekkert nema smit.


mbl.is Greiða fyrir opnun landsins með smitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuforði starfsmanna

„For­eldr­ar sem eru ör­ugg­ari í hlut­verki sínu verja meiri tíma með börn­um sín­um og sinna þörf­um þeirra bet­ur. Vel nærð börn ganga minna á orku­forða starfs­manna leik­skól­anna, sem er tak­mörkuð auðlind,“ seg­ir Ólaf­ur Grét­ar Gunn­ars­son, fjöl­skyldu- og hjónaráðgjafi. 

Já, það þarf að passa upp á að starfsfólk sem sinnir ákveðnum verkum hafi nægan orkuforða.

Einu sinni dugði ein fyrirvinna mörgum til að sjá fyrir maka, börnum og heimili. Sennilega voru skattar þá lægri og velferðarkerfið umsvifaminna. Eitt foreldrið gat verið heimavinnandi, hjálpað krökkunum með heimanámið og stutt þau í lífinu.

Síðan veit ég ekki alveg hvað gerðist því í dag þarf að vera nokkuð tekjuhár til að geta haldið uppi heimili á einum launum. Skatturinn hirðir auðvitað helling og auðvitað er samfélagið annað í dag með mun hærri atvinnuþátttöku kvenna en áður var. Þó má benda á að kannski hefði konan við færibandið eða búðarkassann valið að vera heimavinnandi frekar en útivinnandi ef bara ein laun dygðu til þess. Ekki eru öll störf sem konur vinna glæsilegar stjórnunarstöður og fyrirlestrahald, frekar en öll störf karlmanna.

Skattheimtan hækkar verðmiðann á venjulegu lífi. Langir vinnudagar halda foreldrum að heiman. Langir skóladagar halda krökkunum að heiman. Einn maður orðaði þetta ágætlega (feitletrun mín):

Education of the young, care for the elderly and the sick, assistance in times of emergencies—all of these services are today effectively “outsourced” to the state. The families have been degraded into small production units that share utility bills, cars, refrigerators, and of course the tax bill. The tax-financed welfare state then provides them with education and care. (The Ethics of Money Production, bls. 189)

En aftur að orkuforða leikskólastarfsmanna. Kannski hann mætti varðveita með því að lækka álögur á fjölskyldur og gera fleirum þeirra kleift að láta eina launaávísun duga. Mín ágiskun er sú að margir karlmenn kysu frekar að vera heimavinnandi en sópa byggingalóðir og moka skurði, og miklu fleiri karlmenn ættu kost á því á tímum þar sem konur eru meirihluti háskólanema. 

Eru róttækar skattalækkanir jafnréttismál? Jafnvel!


mbl.is Fækka mætti leikskólastarfsfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagfærð mynd

Við svolitla frétt um svokallaða borgarlína er viðhengd mynd af fólki við strætóskýli. Himininn blár, fólk léttklætt, auðar götur.

Þetta gengur auðvitað ekki svo ég leyfði mér að bæta á myndina svolítilli rigningu úr gráum himni, og auðvitað breiðu af svelli og slabbi.

svell

Lítur þetta ekki aðeins raunhæfar út?

Það er svolítið erfitt að teikna rok inn á mynd og konu að berjast við að koma barnavagni fullum af innkaupapokum inn í strætó. Í raun þyrfti líka að draga töluvert úr birtustiginu til að lýsa betur haustinu, vetrinum og vorinu. Kannski seinna.


mbl.is „Þrjú atriði sem við verðum dæmd af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áður en næsta bylgja skellur á

Loftborin veira er á ferð og það er miður vetur. Með því að stía fólki í sundur og fleira gott hefur tekist að hægja aðeins á ferðalagi hennar en það er bara tímabundið.

Þegar næstu tilslakanir ganga í gildi er því um að gera og drífa allt af sem til stóð að gera: Drífa af að ferma, skíra, gifta sig og halda upp á stórafmælið. Nokkrum vikum seinna verður svo aftur skellt í lás en þá er a.m.k. búið að sinna því sem þurfti að sinna.

Svo kemur vorið með sól á lofti og hlýrra veðurfari. Fólk fer meira út og loftar betur um. Veiran fer í sumarfrí og þríeykjum er veitt fálkaorða.


mbl.is Útlit ágætt og tilslakanir á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Appelsínugult ástand

Samkvæmt COVID-19 viðvörunarkerfinu ríkir nú appelsínugult ástand um allt land. Berum aðeins lýsingu á slíku ástandi við raunverulegt ástand.

Lýsingin í heild sinni:

Appelsínugult ástand - mikil fjöldatakmörkun. Miðlungs eða miklar líkur á að faraldurinn hafi veruleg áhrif á samfélagið og daglegar athafnir fólks. Skerðing á þjónustu og samkomum er töluverð, sýkingarhætta hefur aukist og fólk beðið að halda sig innan síns nána tengslahóps og fara sérstaklega varlega í kringum einstaklinga í viðkvæmum hópum. Hætta er á að heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi.

Tökum þetta aðeins í sundur:

"sýkingarhætta hefur aukist"

Nei, hún hefur minnkað niður í nánast ekki neitt.

"Hætta er á að heilbrigðiskerfið sé undir miklu álagi."

Nei, læknir nokkur segir að álagið sé "ekki upp í nös á ketti", og að það hafi gengið "mjög vel" að eiga við seinustu bylgjur. Af hverju var þá skellt í neyðarástand á sínum tíma og talað eins og plágan mikla lægi yfir landinu?

Það er búið að svipta fólk starfi, fyrirtækjum, framfærslu, námi og tíma með fjölskyldu og vinum í meira og minna heilt ár núna. Læknir segir að það hafi gengið "mjög vel" að eiga við ástand á sjúkrahúsi en um leið er talað um neyðarástand. Það eru strangar takmarkanir á ýmsu sem eru réttlætar með "aukinni" sýkingarhættu á meðan hið gagnstæða er raunveruleikinn.

Hversu lengi á að hafa fólk að fíflum?


mbl.is Fara hægt í tilslakanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðisaukaskatturinn er lamandi, letjandi og til leiðinda

Einu sinni sagði fjármálaráðherra nokkur að „átakið Allir vinna, sem veitir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna byggingaframkvæmda, hafi tekist einstaklega vel. Þessi skattaívilnun skilar líklega meiru í ríkissjóð en ella.“

Þetta var Steingrímur J. Sigfússon, og árið var 2011.

Hvernig stendur á þessu? Er ekki hlutverk virðisaukaskatts að afla ríkissjóði tekna?

Hvernig getur þá tímabundið afnám hans skilað „meiru í ríkissjóð en ella“?

Fyrir því eru margar mögulegar ástæður.

Virðisaukaskattur er lamandi: Hann gerir kaup á vörum og þjónustu dýrari en ella, og því selst minna. Iðnaðarmenn fá minni tekjur því fólk tekur að sér vinnu þess - málar veggina sjálft og reynir að tengja uppþvottavélina sjálft. Til að hafa tíma til að sinna störfum iðnaðarmanna tekur fólk sér frí frá eigin vinnu. Lamandi áhrif á verðmætaskapandi vinnu, með öðrum orðum. Læknirinn smíðar verönd á meðan iðnaðarmaðurinn bíður á biðstofu hans eftir viðtali.

Virðisaukaskattur er letjandi: Þegar vinna iðnaðarmannsins er skattlögð upp í rjáfur freistast fólk auðvitað til að spara sér kaup á vinnu hans. Framkvæmdum er frestað eða þær minnkaðar í umfangi. Nema menn hætti einfaldlega alveg við vegna kostnaðar.

Virðisaukaskattur er til leiðinda: Virðisaukaskatti fylgir gjarnan mikil pappírsvinna og ég hef heyrt að yfirvöld fylgist mjög náið með innheimtu hans - jafnvel betur en ýmsu öðru. Iðnaðarmenn finna fyrir þessu. Fyrir utan kostnaðaraukann fylgja skattinum þar með mikil leiðindi og freistingin til að á einhvern hátt losna við þau er stór. Fyrir kaupendur vinnu þýðir endurgreiðsla virðisaukaskatts líka pappírsvinnu. 

Væri ekki ráð að afnema þennan skatt og auka þannig tekjur ríkissjóðs með meiri verðmætaskapandi veltu í samfélaginu, ef marka má orð fyrrverandi fjármálaráðherra?


mbl.is Endurgreiðslur upp á 19,7 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál - leyst!

Nýleg frétt Hringbrautar fjallar um alvarlegt vandamál: Börn eru send svöng í skólann og geta ekki tekið þátt í skólastarfinu vegna hungurs.

Ég dreg ekkert úr því að þetta er vandamál, og jafnvel mjög alvarlegt vandamál. En hver er lausnin? Að foreldrar barna sinna næri börn sín með góðum morgunverði og þungu nestisboxi, troðfullu af orku og næringu? Og auðvitað að bjóða upp á máltíðir heima fyrir?

Nei!

"... tel ég mikilvægt að hafa saðsama máltíð á föstudögum og mánudögum"

"Auðvitað ætti að vera í boði ávextir, skyr, brauð á mornana fyrir börn í skólum og ókeipis skólamatur í hádeginu" (stafsetningavillur frá höfundi texta)

Lausnin er auðvitað sú að börnin fái góðan mötuneytismat í skólatíma. Ókeypis, hvað sem það nú þýðir í þessu samhengi.

Auðvitað er hungur skólabarna vandamál en kannski er enn stærra vandamál það að það er hrópað á skólakerfið að leysa vandamálið. Gefum börnunum saðsama máltíð á föstudögum og mánudögum, málið leyst! Gefið þeim skyr og ávexti á skólatíma!

Hvernig á foreldri að túlka svona kröfugerðir? Að hvítt brauð með sultu sé bara ágæt máltíð alla daga og yfir helgina því á mánudaginn býður saðsöm máltíð?

Persónulega skil ég ekki foreldra sem heyra barn sitt kvarta yfir magaverkjum í lok skóladags því það var ekkert að borða, og gera ekkert í því. Mötuneytið bauð kannski upp á slepjulegan hafragraut og skólamáltíðin er jú "ókeypis" svo engin ástæða til að senda barnið með nesti í skólann.

Kannski er hér búið að aftengja algjörlega ábyrgð foreldra og væntingar til hins opinbera. Nú er hið opinbera orðið að foreldri og foreldrið einfaldlega orðið veski sem borgar skatta og gíróseðla og þarf ekki að spá í barninu meira.

Kannski eru skólamáltíðir í boði skattgreiðenda slæm hugmynd, og nestisboxið betri hugmynd.

Kannski.


Styttist í vorið

Leikritið heldur áfram.

Takmarkanir, aflétting þeirra, innleiðing þeirra. Mátt fara í sund, mátt það ekki. Mátt æfa fótbolta, mátt það ekki. Smitin! Takmarkanir! Grímur! Fólk að hrópa á hvert annað í búðum fyrir að virða ekki fjarlægðamörk og grímuskyldu. Nágranninn klagaður fyrir að bjóða vinum í heimsókn. 

Og svo hækkar sólin á lofti og allt lagast. Aðgerðir sóttvarnaryfirvalda virkuðu! Fálkaorðan!

Þetta gildir á fleiru stöðum en Íslandi. Óháð sóttvarnaraðgerðum - þær voru mjög mismunandi í mismunandi ríkjum - þá færði vorið með sér skilvirkni sóttvarnaraðgerða!

Það hefði mátt draga allskyns sóttvarnaraðgerðir af handahófi úr hatti - og þær virkuðu allar rosalega vel, á sama tíma!

Því það voraði, vel á minnst. Fólk fór að fá D-vítamín úr sólinni, fór meira út og loftaði betur um heimili sín.

Nokkur dæmi (heimild):

dk

ir

is

neth

no

Kannski forseti Íslands ætti að senda orður á fleiri en íslensk þríeyki? Fleiri en íslensk þríeyki virðast geta stuðlað að veðurblíðu vorsins.


mbl.is Ræddu um „varfærnar afléttingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um áhrif hópamyndana í heitum pottum á útbreiðslu SARS-CoV-2

Þar til fyrir tæpu ári síðan voru sóttvarnaraðgerðir byggðar á umfangsmiklum rannsóknum þar sem harka aðgerðanna var vegin upp á móti ávinning og óbeinum afleiðingum.

Þetta breyttist í fyrra. 

Síðan í fyrra hafa sóttvarnaraðgerðir flestra ríkja verið byggðar á ágiskunum, tilraunastarfsemi og jafnvel því að gera þær auðskiljanlegar frekar en gagnlegar. Þannig eru takmarkanir um ákveðinn lágmarksfjölda fermetra á hvern viðskiptavin í verslun ekki byggðar á neinu öðru en að "gera eitthvað".

Auðvitað eru til sóttvarnaraðgerðir sem eru hvort tveggja í senn áhrifaríkar og einfaldar, t.d. að mæta ekki lasinn eða með sjúkdómseinkenni til vinnu eða á tónleika. Einnig er hægt að færa rök fyrir því að glænýrri veiru þurfi að mæta tímabundið með óvenjulega harkalegum aðgerðum á meðan menn kortleggja áhættuhópa og athuga virkni þekktra lyfja og forvarnaraðgerða. En síðan ekki sögunni meir.

Það sést best hversu handahófskenndar sóttvarnargerðirnar eru að bera saman mismunandi aðgerðir mismunandi ríkja. Af hverju eru ekki öll ríki að beita sömu aðgerðum? Af hverju má fara í skóla í ríki A en ekki B þótt smit, dauðsföll og annað séu keimlíkar stærðir? Af hverju er eins metra regla hér og tveggja metra þar? Af hverju má kaupa áfengi en ekki skó, fara til læknis en ekki klippingu? 

Hin fjölbreytta flóra aðgerða í mismunandi ríkjum virðist svo samt skila árangri - á sama tíma! Ég hef bent á það áður hvernig seinasta vor var allt í einu tíminn þegar fjölbreyttar sóttvarnaraðgerðir fjölmargra evrópskra ríkja fóru að "virka". Var hægt að þakka aðgerðunum, eða veðrinu?

Og nú tæpu ári eftir að menn fóru fyrir alvöru að skoða nýja veiru þá er búið að kortleggja áhættuhópana, þróa forvarnaraðgerðir gegn bæði alvarlegum veikindum og skaðlegum langtímaafleiðingum, finna margar skilvirkar lyfjameðferðir og meira að segja bólusetja elsta fólkið.

Má þá ekki fara að slaka á og hætta að henda fílhraustu fólki út úr heita pottinum? Fjöldatakmarkanir í sund eru hvort eð er bara handahófskenndar "gera eitthvað" aðgerðir.


mbl.is Óþarfa leiðindi við starfsfólk sundlauga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband