Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023
Fimmtudagur, 31. ágúst 2023
Heildarmyndin
Við teljum okkur vera umkringd fréttum. Þær eru jú í útvarpinu, sjónvarpinu, fréttamiðlar deila efni á samfélagsmiðlum og við opnum fréttasíður í símanum við hvert tækifæri. Fréttir hvert sem litið er!
En svo er ekki.
Hvað hafa íslenskir miðlar sagt okkur mikið frá stjórnarbyltingunum í fyrrum nýlendum Frakka í Áfríku? Lítið. Hvað segja þær okkur um rannsóknir á sprautunum sem allir voru eindregið hvattir til að þiggja á veirutímum? Nákvæmlega ekkert. Hvað vitum við mikið um langvarandi átök í Jemen? Sama og ekkert. Og er mikið fjallað um að á Íslandi eru að bætast við 15 útlendingar fyrir hvern Íslending sem fæðist? Nei, ætli það.
Í staðinn vitum við allt um hvert einasta þorp sem skiptir um hendur í Úkraínu og hvaða nýju afbrigði af kvefpestum eru farin að greinast.
En það er auðvitað ekki við innlenda miðla í litlu landi að sakast. Þeir eru einfaldlega að reyna fá áhorf og lestur. Og enginn á Íslandi hefur áhuga á því hver stjórnar Afríkuríki eða er sprengdur í loft upp í brúnu landi.
Til að fá einhvers konar hugmynd um heildarmynd þarf að skoða marga, ólíka miðla. Líka fjölmiðla sem eru undir enn meiri þrýstingi yfirvalda en íslenskir til að segja réttar fréttir (eða hætta á að fá ekki neitt þegar næsta umferð fjölmiðlastyrkja í boði skattgreiðenda fer í útdeilingu).
En þetta ristir jafnvel dýpra. Blaðamaðurinn Alex Berenson benti um daginn á að svo virtist sem rannsóknir á sprautunum góðu séu að mestu leyti að fara fram utan Bandaríkjanna og bendir á fjölmörg dæmi máli sínu til stuðnings. Og hvernig stendur á því? Berenson veltir því fyrir sér:
En nú þegar væntingar vetrarins 2021 um mRNA kraftaverk er horfið hafa bandarískir vísindamenn og stofnanir líka horfið. Fjarvera bandarískra rannsókna í vísindagreinum sem rannsaka vandamálin með stungurnar verður sífellt meira áberandi með hverri viku.
Bilið er sérstaklega áberandi vegna þess að lífeðlisfræðisamstæðan í Bandaríkjunum er sú öflugasta og best fjármagnaða í heiminum. Án þátttöku hennar munu framfarir í skilningi þessara mála gerast mun hægar.
Hvers vegna þetta áhugaleysi bandarískra vísindamanna? Og hvað ef eitthvað er hægt að gera til að breyta því?
**********
But now that the winter 2021 promise of an mRNA miracle has vanished, American scientists and institutions have disappeared too. The lack of American research on papers examining problems with the jabs grows more glaring each week.
The gap is especially notable because the United States biomedical complex is the most powerful and best-funded in the world. Without its involvement, progress on understanding these issues will occur much more slowly.
Why this studied disinterest from American scientists? And what if anything can be done to change it?
Já, þegar stórt er spurt. Kannski blasir svarið við: Þessir vísindamenn sjá fram á að vera sviptir rannsóknastyrkjum og mannorði sínu ef þeir traðka á tám lyfjarisanna.
Og það sem meira er: Þegar bandarísku fjölmiðlarnir sem íslenskir blaðamenn afrita eru ekki að fjalla um rannsóknir - frá Hong Kong, Singapore, Ítalíu og víðar - þá fjalla íslenskir blaðamenn auðvitað heldur ekki um þær.
Og heimsmynd íslenskra fréttaneytenda verður minni fyrir vikið.
Það skortir mikið á að fjölmiðlar okkar veiti nokkuð sem svo mikið sem minnir á heildarmyndina. Ég er ekki að segja að ég hafi hana á reiðum höndum, en ég reyni, því ég treysti ekki blaðamönnum. Nema kannski fyrir íþróttaúrslitunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 30. ágúst 2023
Sniðugt sniðmát að myndast
Lýðræði er svo æðislegt, ekki satt? Nema, auðvitað, að til valda veljist óæskilegir stjórnmálamenn. Þá er það ekki sniðugt.
Hvernig geta leiðtogar lýðræðisríkis komið í veg fyrir kosningar til að koma í veg fyrir að óheppilegir leiðtogar veljist?
Það er að koma í ljós að leiðirnar eru margar.
Ein er sú að lýsa yfir neyðarástandi. Í Úkraínu er verið að bera á borð slíka ástæðu, eða afsökun. Kannski menn séu þar að læra af nágrönnum sínum í Rússlandi en með eigin snúning á því.
Það má líka halda því fram að kosningar séu slæmar fyrir lýðræði, og að fólk sé að kjósa of mikið, ef marka má veirumiðla Bandaríkjanna [1|2], sem syngja þann söng á sama tíma núna, eins og kór.
Önnur heppileg leið er að færa mikið af völdum hins opinbera í hendur embættismannakerfisins sem breytist hægt og þá enn hægar í viðhorfi en innihaldi.
Fyrir fullvalda ríki í flótta frá lýðræði er svo valdaafsalið til alþjóðlegra lagaverksmiðja, eins og Evrópusambandsins, mjög þægileg leið.
Það má með öðrum orðum benda á margar leiðir fyrir lýðræðisríki til að forðast lýðræðið. Og þeim er núna öllum beitt, á sama tíma, með fyrirsjáanlegri niðurstöðu: Atkvæði þitt fer beint í ruslatunnuna (eða pappírsgáminn, sem þú færð að borga aukalega fyrir).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 29. ágúst 2023
Ég er enginn álhattur, en ...
Ég skil þörfina. Þörfina til að falla í kramið. Að líta vel út í augum þeirra sem halda á hljóðnemanum. Að vilja ekki taka skrefið alla leið til að misbjóða engum.
Ég hafði mögulega þessa þörf sem barn og unglingur og í ákveðnum aðstæðum þarf stundum að hlífa fólki og mjaka því í rétta átt til að víkja því frá menntun sinni í boði fjölmiðla og stjórnmálamanna. En stundum þarf einfaldlega að segja hlutina eins og þeir eru.
Tvö dæmi koma til hugar.
Á veirutímum sagði þingmaður nokkur, sem var vissulega efins um aðgerðir sem sviptu börn félagslífi og fullorðið fólk atvinnu sinni, að hann væri nú enginn samsæriskenningasmiður - búinn að fá þrjár sprautur og ekki spurning um að það væri málið. En bíddu við, sprauturnar höfðu reynst vera gagnslaust glundur síðan í upphafið ársins 2021! Hindruðu ekki smit og komu ekki í veg fyrir bylgjur. Af hverju var nauðsynlegur fyrirvari á gagnrýni á aðgerðir sá að segjast vera búinn að sprauta sig? Frekar að sleppa því og koma sér að kjarna málsins. En nei, þessi einstaklingur, með mikla reynslu af því að tjá sig á skýran og beittan hátt, þurfti að bæta þessu við, bara svona til að fullvissa áheyrendur um að viðkomandi væri nú ekki algjör álhattur.
Nýlegra dæmi heyrði ég í dag, í umræðu um skattahækkanir til að berjast við meint áhrif mannsins á breytingar í lofthjúpnum. Vissulega væri við manninn að sakast að einhverju leyti. Allir sammála því! Ekki vafi! En að beita sköttum til að breyta einhverju? Það er glatað. Af hverju að samþykkja að maðurinn hafi einhver teljanleg áhrif á lofthjúpinn? Af hverju að beygja sig fyrir því skurðgoði? Jú, til að geta komið gagnrýninni áleiðis. Nauðsynlegur fyrirvari, væntanlega.
Nú hefur auðvitað komið í ljós að sprauturnar reyndust verri en ekkert og ekki líður á löngu þar til menn gefast upp á að kenna manninum um hlýnun eða kólnun lofthjúpsins. Það gerist einfaldlega með því að allur heimurinn utan Evrópu og Norður-Ameríku heldur áfram að bæta hressilega í losun á koltvísýringi í andrúmsloftið án þess að það muni að neinu leyti tengjast þeim breytingum sem eiga sér stað í veðri, á stærð og tíðni fellibylja, ísþekju Grænlandsjökuls og svona mætti lengi telja. Heimsendafyrirsagnirnar halda áfram að hlaðast upp og eldast jafnvel og afskorið blóm á göngustíg.
Þessir fyrirvarar eru óþarfi og gera jafnvel meiri skaða en fjarvera þeirra. Veirutímar framlengdust vegna slíkra fyrirvara. Heimsendaspárnar þrífast á slíkum fyrirvörum.
Þú ert enginn álhattur, en... hvað ertu þá?
Laugardagur, 26. ágúst 2023
Yndisleg frétt um laxa
Ég ætla að gera undantekningu frá mínu venjulega kvarti og kveini yfir blaðamennsku stærri fjölmiðla og hrósa frétt á Morgunblaðinu um gengi hnúðlaxa í íslenskar ár. Það skín í gegn að blaðamaður veit hvað hann er að tala um, að hann sé með tengslanet sem eflir fréttina og að hann hafi brennandi áhuga á málinu.
Það má jafnvel greina svolitla sorg í hjarta blaðamanns yfir ástandinu sem hann er að lýsa.
Sem andstæða við svona frétt er hin dæmigerða: Blaðamaður treystir á aðra fjölmiðla, opinberar yfirlýsingar og formlega gagnagrunna. Þekkir engan. Skoðar engar aðrar hliðar málsins. Er fyrst og fremst ritari sem ritar það sem honum er sagt að rita.
Megi fleiri íslenskir blaðamenn njóta þeirrar blessunar að hafa skoðun og tilfinningar, mynda tengslanet og skoða hið stærra samhengi utan gagnagrunnanna.
Hnúðlax að hrygna í fjölmörgum ám | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 25. ágúst 2023
Samhengi og samsæriskenning
Ég elska góða samsæriskenningu. Nokkrar slíkar héldu mér kyrfilega frá því að sprauta mig með nýstárlegum og stórhættulegum lyfjum gegn veiru sem mér stafar engin raunveruleg ógn af, svo dæmi sé tekið. Þær kenningar reyndust vera sannleikurinn, en það er önnur saga.
Ég stenst ekki að birta þessa kenningu, eftir mikinn snilling sem ég er svo heppinn að þekkja:.
Læt þetta bara að láta þetta standa án frekari málalenginga.
Föstudagur, 25. ágúst 2023
Hvað er raunverulegur niðurskurður?
Til að ná markmiðum um hallalausan rekstur ríkissjóðs á komandi árum samhliða stórum verkefnum er gert ráð fyrir 17 milljarða króna hagræðingu til hægja á vexti útgjalda, að fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þetta hljómar eins og stór tala en er það ekki. Ríkisvaldið brennir á árinu 2023 um 1334 milljörðum og 17 milljarðar svara til 1,2% lækkunar á þeirri upphæð. Það eru varla meira en skekkjumörkin í þeirri miklu óvissu sem fjárlög eru.
Gleymum því svo ekki að skattgreiðendur borga ekki bara í ríkishítina. Þeir þurfa líka að fóðra sveitarfélögin, og sum þeirra eru einfaldlega byrjuð að borga af einum yfirdrætti með öðrum.
Ég vann einu sinni í einkafyrirtæki sem þurfti ítrekað að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Ein slík breyting var skellurinn í hinu alþjóðlega fjármálakerfi árið 2008 og önnur var hrun á olíuverði ekki mörgum árum síðar. Í bæði skiptin var ráðist í niðurskurð sem þurfti bæði að varðveita fjárhag fyrirtækisins og tryggja að það gæti þjónað sínum mörkuðum með framleiðslu og þróunarvinnu. Niðurskurðurinn í báðum tilvikum var mikill og í kringum 20-25% starfsmanna sagt upp. Ég sá marga samstarfsmenn hverfa, þar á meðal reynslumikla sérfræðinga. Ferðalög voru stöðvuð eins mikið og hægt var. Allar veislur voru skornar við nögl. Samið var við alla birgja og verktaka upp á nýtt. Meðal hugmynda var meira að segja að slökkva á sjálfsölum á nóttunni.
Auðvitað er drepleiðinlegt að vinna í slíku umhverfi en stundum er það einfaldlega nauðsynlegt. Fyrirtækið safnaði aldrei skuldum og var alltaf vel í stakk búið til að stökkva á næstu uppsveiflu.
Mér finnst varla hafa tekið því að blása í sérstakan blaðamannafund til að tilkynna um 1% lækkun á ríkisútgjöldum.
Fréttin er kannski sú að ríkisvaldið er einfaldlega ennþá á bleiku skýi og fjarri því jarðtengt.
17 milljarða hagræðing | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 24. ágúst 2023
Er slaufunarliðið að losa slaufuna sjálft?
Fræg bandarísk leikkona sagði nýlega í viðtali að hún væri búin að fá nóg af slaufunarmenningunni.
Sama leikkona var mjög stoltur slaufari á veirutímum og hreinlega gaf vinskap upp á bátinn ef rétt lyf voru ekki notuð meðal vinahópsins.
Er eitthvað að breytast? Einhver raunveruleg eftirsjá í gangi?
Nei, ætli það.
En það er gott að sjá vott af brestum í slaufunarmenningunni. Dropinn holar steininn og þeim slaufuðu sem gerðu ekki annað af sér en að vera mannlegir og viðurkenna það eru að rísa á fætur á ný.
Miðvikudagur, 23. ágúst 2023
Menntunin sem drap starfið
Í mörg ár hefur blasað við að yfirgengilegar kröfur um menntun í starf leikskólakennara bitni á nýliðun og vilja fólks til að leggja í þá löngu vegferð sem ráðning í starf leikskólakennara er orðin.
Á sama tíma eru biðlistar á leikskóla að lengjast, ekki bara vegna getuleysis í byggingu á þeim heldur oft vegna manneklu.
Það mætti því segja að háskólagráða í leikskólakennslu sé menntun sem drap starfið.
Ekki veit ég af hverju menn hófu þessa vegferð. Kannski er það þessi þráhyggja um að háskólanám sé eina námið sem eitthvað er varið í. Kannski er þetta eina leiðin til að hækka laun sín innan hins opinbera - raða á sig gráðum og námskeiðum því ekki er hægt að biðja um umbun fyrir vel unnin störf í umhverfi stirðra launataflna í kjarasamningum. Kannski er sökin hjá stjórnmálamönnum sem telja prófgráður sem mælikvarða á velgengni í eigin starfi.
En hver sem ástæðan er þá blasir við að þetta er vonlaust kerfi.
Ég hefði haldið að bestu leikskólakennararnir séu fólk sem hefur gaman af því að fræða börn og veita þeim upplifanir og búa þau undir framhaldið. Og ekki feimið við pissuslys eða svolítið hor.
En það er bara mín upplifun.
Sveitastjórnir hljóta að hugsa sinn gang. Einhverjar þeirra í hið minnsta. Þau sá kostnaðinn þenjast út en þjónustuna rýrna. Eitt úrræði gæti verið að hafa 1-2 háskólamenntaða leikskólakennara á hverjum leikskóla sem sjá um að búa til allskyns áætlanir fyrir börnin. Leiðbeinendur sjá svo um að framkvæma. Þannig má sameina háskólaprófin góðu og manna stöður af fólki sem nennir að vinna með börnum án þess að þræla sér í gegnum langt bóknám í skiptum fyrir léleg laun. Kannski launakostnaðurinn geti þá í staðinn farið í að umbuna duglegu og drífandi fólki frekar en því skreytt mörgum gráðum. Eða mismuna á grundvelli hæfni eins og einhver gæti orðið það.
Frekar en að krefjast áfram menntunar sem drepur starfið.
Fjórðungur leikskólastarfsmanna menntaðir kennarar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 22. ágúst 2023
Tvær hagfræðikenningar
Í kjölfar frestunar á verklegum framkvæmdum við Stjórnarráðshúsið var ákveðið að slétta og tyrfa svæðið til bráðabirgða, en stór grunnur var á lóðinni vegna viðbyggingar sem átti að reisa.
Í þessu sjá sumir hagfræðingar mikil og jákvæð áhrif á hagkerfið. Með því að borga mönnum fyrir að grafa holu og grafa svo aftur í hana sé verið að skapa störf, koma peningum í umferð og örva hagkerfið. Eða svo vitnað sé í einn frægasta hagfræðing 20. aldarinnar, sem margir líta ennþá á sem mikinn speking (ég umorða til styttingar):
Efnahagsleg áhrif þess ef ríkið myndi grafa niður seðla og þekja með rusli og leyfa svo einkaaðilum að bjóða í það verk að grafa þá aftur upp yrðu sennilega jákvæð.
Síðari tíma aðdáendur hans hafa bætt í og sagt að ef mannkynið legðist allt á eitt, með peningaprentun og skuldsetningu, í að búa sig undir ímyndaða árás geimvera að þá yrðu efnahagsleg áhrif jákvæð.
Á hinum endanum eru hagfræðingar sem benda á að tilgangslaus vinna sé tap á verðmætum og fræg dæmisaga eins hagfræðings fjallar um gluggann sem var brotinn. Gluggasmiðurinn fær vissulega vinnu en hvað með eiganda hins brotna glugga?
Það sem sést ekki er að þegar verslunarmaðurinn okkar hefur eytt sex frönkum í eitt, geti hann ekki eytt þeim í annað. Það sem sést ekki er að ef hann hefði ekki haft glugga til að skipta um hefði hann ef til vill skipt út gömlu skónum sínum, eða bætt annarri bók við bókasafnið sitt. Í stuttu máli hefði hann notað sex frankana sína á einhvern hátt, sem þetta slys hefur komið í veg fyrir.
Boðskapurinn hérna er auðvitað að benda á hið ósýnilega, en það reynist mörgum erfitt og því er ástand hagfræðinnar í dag eins og raun ber vitni. Kannski ástand sóttvarna sé álíka bágborið.
Núna er gat á ríkissjóði og í mörgum sveitarfélögum. Það er verið að fylla holu við Stjórnarráðið og margir hagfræðingar sennilega ánægðir með það. Hefðu sennilega verið ánægðari með að sjá peningunum eytt í húsbyggingu undir útþanið ráðuneyti í staðinn, en sæmilega sáttir samt.
En táknmynd hagfræðinnar í dag er þarna engu að síður: Gröfum holu og fyllum í hana.
Og þú þarft að fresta því að endurnýja slitnu skóna þína.
Mokað ofan í grunninn bak við Stjórnarráðshúsið og tyrft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. ágúst 2023
Er Trump afkvæmi góða fólksins?
Dónalegur, hrokafullur, málglaður og vægast sagt óheflaður maður stefnir nú hraðbyri að því að endurheimta stól forseta Bandaríkjanna. Innan hans eigin flokks er samkeppnin lítil sem engin og það stefnir í að mótherji hans í forsetakosningunum verði ellihrumur, spilltur og frekar ógeðfelldur maður.
Þetta er eins og að velja á milli kúks og skíts nema hvað annað lyktar jafnvel enn verr en hitt.
Hvernig stendur á þessu?
Af hverju takast ekki á tveir heiðarlegir einstaklingar og takast á um málefni? Þar sem er jafnvel slegið á létta strengi?
Augljós kenning er sú að sívaxandi hlutfall almennings, bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra, er einfaldlega búið að fá æluna upp í kok vegna yfirgengilegs, ósvífins pólitísks rétttrúnaðar.
Hvaða vers í Biblíu þess safnaðar fer mest í taugarnar á fólki er sennilega einstaklingsbundið.
Sumir eru foreldrar og vilja ekki að börn þeirra heyri ræður um limlestingar og geldingar í skólanum.
Sumir hafa ekki sannfærst um að bensínbíllinn þeirra sé að tortíma plánetunni.
Sumir hafa séð í gegnum þoku veirutímanna.
Sumir skilja ekki fjáraustrið í átök tveggja ríkja um yfirráð yfir rússneskumælandi fólki.
Sumir eru um þessar mundir að vaska upp ruslið sitt og fyllast gremju.
Sumir sjá sparnað sinn gufa upp og kaupmátt launa sinna hverfa á meðan það virðist vera nóg til í allskyns gæluverkefni, fjármögnuð með skuldum og peningaprentun.
Sumir vilja mögulega hægja á flæði innflytjenda sem fylla heilu hverfin, tala ekki tungumálið og fordæma vestræn gildi, allt á sama tíma.
Trump veit þetta enda myndar hann sér skoðanir út frá viðbrögðum á samfélagsmiðlum. Hann sér hvað fær góð viðbrögð. En það virkar, og hann eflist við það. Fyrir vikið rambar hann óvænt á alveg ljómandi góðar skoðanir (án þess endilega að geta rökstutt þær sérstaklega vel).
Trump er afkvæmi hins pólitíska rétttrúnaðar - góða fólksins sem setur sig á háan stall.
Nú eru úrslitin auðvitað ekki ljós en vegferðin blasir við.
Í boði góða fólksins.
Sleppir kappræðunum og mætir mögulega til Carlsons | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |