Tvær hagfræðikenningar

Í kjölfar frestunar á verklegum framkvæmdum við Stjórnarráðshúsið var ákveðið að slétta og tyrfa svæðið til bráðabirgða, en stór grunnur var á lóðinni vegna viðbyggingar sem átti að reisa.

Í þessu sjá sumir hagfræðingar mikil og jákvæð áhrif á hagkerfið. Með því að borga mönnum fyrir að grafa holu og grafa svo aftur í hana sé verið að skapa störf, koma peningum í umferð og örva hagkerfið. Eða svo vitnað sé í einn frægasta hagfræðing 20. aldarinnar, sem margir líta ennþá á sem mikinn speking (ég umorða til styttingar):

Efnahagsleg áhrif þess ef ríkið myndi grafa niður seðla og þekja með rusli og leyfa svo einkaaðilum að bjóða í það verk að grafa þá aftur upp yrðu sennilega jákvæð.

Síðari tíma aðdáendur hans hafa bætt í og sagt að ef mannkynið legðist allt á eitt, með peningaprentun og skuldsetningu, í að búa sig undir ímyndaða árás geimvera að þá yrðu efnahagsleg áhrif jákvæð. 

Á hinum endanum eru hagfræðingar sem benda á að tilgangslaus vinna sé tap á verðmætum og fræg dæmisaga eins hagfræðings fjallar um gluggann sem var brotinn. Gluggasmiðurinn fær vissulega vinnu en hvað með eiganda hins brotna glugga? 

Það sem sést ekki er að þegar verslunarmaðurinn okkar hefur eytt sex frönkum í eitt, geti hann ekki eytt þeim í annað. Það sem sést ekki er að ef hann hefði ekki haft glugga til að skipta um hefði hann ef til vill skipt út gömlu skónum sínum, eða bætt annarri bók við bókasafnið sitt. Í stuttu máli hefði hann notað sex frankana sína á einhvern hátt, sem þetta slys hefur komið í veg fyrir.

Boðskapurinn hérna er auðvitað að benda á hið ósýnilega, en það reynist mörgum erfitt og því er ástand hagfræðinnar í dag eins og raun ber vitni. Kannski ástand sóttvarna sé álíka bágborið. 

Núna er gat á ríkissjóði og í mörgum sveitarfélögum. Það er verið að fylla holu við Stjórnarráðið og margir hagfræðingar sennilega ánægðir með það. Hefðu sennilega verið ánægðari með að sjá peningunum eytt í húsbyggingu undir útþanið ráðuneyti í staðinn, en sæmilega sáttir samt. 

En táknmynd hagfræðinnar í dag er þarna engu að síður: Gröfum holu og fyllum í hana. 

Og þú þarft að fresta því að endurnýja slitnu skóna þína.


mbl.is Mokað ofan í grunninn bak við Stjórnarráðshúsið og tyrft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Plúsinn er að auðnuleysingjarnir sem Kata Jak ætlaði að koma fyrir í byggingunni verða að hanga örlítið lengur á atvinnuleysis bótum.

Ragnhildur Kolka, 22.8.2023 kl. 20:01

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ragnhildur,

Nei blessuð vertu, þeir geta ennþá fundið stól til að hengja jakkann sinn á og eytt tímanum við kaffivélina, í einhverju rándýru leiguhúsnæði í miðbænum.

Geir Ágústsson, 22.8.2023 kl. 20:23

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í þeim löndum sem framleiða og selja vopn er sú starfsemi talin með í útreikningum á þjóðarframleiðslu og hagvexti.

Samt eru vopn til einskis nýt nema að drepa og eyðileggja.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.8.2023 kl. 23:59

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eftir þúsund ár munu fornleifafræðingar grafa þetta upp og ímynda sér að þarna hafi á fyrri öldum staðið hátimbrað stjórnsýsluhof.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.8.2023 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband