Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2022
Föstudagur, 12. ágúst 2022
Tvöfalt siðferði
Stundum er betra að vera bara hreinskilinn um misræmi og ósamræmi í stað þess að reyna í sífellu að þykjast vera sjálfum sér samkvæmur í öllum málum.
Ég rakst á þessa skemmtilegu tilvitnun í ráðamann hjá Evrópusambandinu:
We are often criticized for double standards. But international politics is to a large degree about applying double standards. We do not use the same criteria for all problems.
Hérna er viðkomandi að útskýra af hverju Evrópusambandið bregst öðruvísi við innrás Rússa í Úkraínu en vandamálum Gaza-svæðisins vegna Ísrael. Mér sýnist tilvitnunin eiga uppruna sinn hérna, en kannski einhver með aðgang að þeirri síðu geti staðfest það (spænska blaðið El Pais).
Svona siðferðislegur sveigjanleiki hefur marga kosti fyrir þann sem við hann býr. Þannig verður til dæmis réttlætanlegt að sprengja upp konur og börn á einum stað en ekki að siga hermönnum á hermenn til að stöðva þjóðarmorð á öðrum. Þægilegt, ekki satt?
Ég held að tilvitnunin hér að ofan sé mjög góð lýsing á alþjóðastjórnmálum og þá sérstaklega eins og þau eru stunduð á Vesturlöndum. Og ekkert að því að viðurkenna það. Hvort það sé siðferðislega á hæsta plani er svo kannski önnur saga.
Fimmtudagur, 11. ágúst 2022
Danir hætta að sprauta
Dönsk heilbrigðisyfirvöld segja eftirfarandi í tilkynningu á heimasíðu sinni:
Børn og unge bliver kun meget sjældent alvorligt syge af covid-19 med omikron-varianten. Derfor vil det fra den 1. juli 2022 ikke længere være muligt for børn og unge under 18 år at få 1. stik, og fra den 1. september 2022 vil det ikke længere være muligt at få 2. stik.
Ganske få børn med særlig øget risiko for et alvorligt forløb, vil fortsat have mulighed for vaccination, efter en individuel vurdering af en læge.
Lausleg þýðing:
Börn og unglingar veikjast sjaldan alvarlega af völdum covid-19 með omicron afbrigðinu. Þess vegna frá 1. júlí 2022 verður ekki lengur mögulegt fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára að fá 1. sprautu, og frá 1. september 2022 verður ekki lengur hægt að fá 2. sprautu.
Enska útgáfan er aðeins öðruvísi. Þar er ekki sami boðskapur um að börn séu meira og minna í engri hættu vegna COVID-19.
Danir eru ekki að beina neinum meðmælum að fólki um að sprautur í börn séu óþarfi. Þau eru beinlínis að loka á fleiri sprautur fyrir krakka og unglinga. Krakkar og unglingar mega ekki einu sinni fá eina sprautu ef þeir eru ósprautaðir með öllu.
Klókur maður spurði mig hvort ég vissi af hverju. Af hverju þetta bann við sprautum í börn? Ég hef ekki tekið eftir neinni umræðu um hættuna af sprautunum í dönskum fjölmiðlum (en hún er vissulega raunveruleg þótt blaðamenn segi foreldrum lítið frá því).
Nú eru Danir vissulega hættir að sprauta sig og hafa lítið látið sjá sig í sprautur síðan í febrúar eða um það bil.
En hvað með unglinga sem vilja núna undirbúa veturinn og láta sprauta sig? Yfirvöld segja eftirfarandi við þá:
But, we must expect that many will be infected with covid-19 during this fall and winter. Therefore, it is important that the population remembers the good infection prevention recommendations that also prevent a number of other infectious diseases.
Jahérna, persónulegar sóttvarnir! Án sprautu og takmarkana! Það mætti halda að venjuleg flensa sé á ferðinni, ekki heimsfaraldur sem færir yfirvöldum óendanleg völd!
Við létum plata okkur og núna er sýningin búin og vetur að ganga í garð. Heimsfaraldur er ekki lengur hið heimatilbúna vandamál yfirvalda heldur orkuskortur, matarskortur og verðbólga. Spurning hvort heimatilbúna vandamál yfirvalda sé verra?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 10. ágúst 2022
Gögnin hans Trump
Ýmsar getgátur eru á lofti um hvað gæti leynst í persónulegum fórum Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Mögulega staðfesting á því að COVID-19 sé upprunin á rannsóknarstofu í Kína sem notaði fjármuni frá bandarískum yfirvöldum til að breyta náttúrulegri veiru í eitthvað skaðlegra.
Mögulega heimsóknalistar Jeffrey Epstein, sem flestir þekkja sem barnaníðing sem bauð fræga og ríka fólkinu að heimsækja sig og dvelja með ungmeyjum í hans haldi.
Mögulega einhver skjöl sem menn telja að geti haldið Donald Trump frá því að bjóða sig fram til forseta aftur, enda samkeppnin ekki beysin svo vægt sé tekið til orða.
Maður veltir því fyrir sér hvað fer fram í innsta hring Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Þar á bæ hljóta menn að vera á fullu að skrifa eitthvað handrit sem kemur Biden frá sem fyrst og rúllar varaforsetanum (sem Biden hefur ítrekað kallað "President Harris", en einnig "First Lady") inn í staðinn. Ekki að það leysi öll vandamál flokksins. En Trump fer að verða sífellt líklegri og örvæntingin að taka völdin hjá andstæðingum hans.
Hver veit hvað leynist í þessum gögnum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 9. ágúst 2022
Raunsæi og orka
Orkuskortur hrjáir marga Jarðarbúa. Sumir Jarðarbúar hafa átt við hann alla tíð með því að hafa ekki aðgang að neinni orku. Þeir brenna prik og gras og elda mat sinn innandyra í reykmettuðum húsum sem skaða heilsu allra og draga jafnvel til dauða. Aðrir hafa losnað við orkuskortinn á seinustu árum en upplifa hann nú aftur, ýmist með því að hafa enga orku eða að hún sé svo dýr að ekki er hægt að kaupa hana. Og svo eru það þeir sem hafa orku en þurfa að borga miklu meira fyrir hana en áður.
Þetta ástand má skrifa á nokkur atriði. Staðbundin átök í austurhluta Úkraínu hafa til dæmis haft einhver áhrif, ýmist vegna stjórnmála, viðgerða eða viðskiptahindrana. En aðalvandamálið er heimatilbúið og einfalt að skilgreina: Vanræksla á að sækja hagkvæmt jarðefnaeldsneyti í jörðu.
Á örlitlu frímerki á Jarðarkringlunni sem yfirleitt er kallað "Vestur-Evrópa" hafa menn í nokkur ár talið sér trú um að hagkvæma orku sé hægt að framleiða með vindmyllum. Þessi trú hefur ekki bara haft staðbundin áhrif. Nei, fé sem annars hefði runnið í fjárfestingar í til dæmis Afríku hefur ekki fengið að fjármagna borun eftir olíu og gasi í til dæmis Afríku. Afríku hefur verið sagt að hún geti byggt vindmyllur og fangað sólarorku. Það er hin rétta leið. Það er vistvænt og sjálfbært. Annað fær ekki fjármagn.
Á Íslandi hafa menn lokað á byggingu nýrra virkjana þótt áhrif þeirra á umhverfið séu nálægt því engin. Myndir af áætlaðri Hvammsvirkjun segja sína sögu. Menn þurfa að beita stækkunargleri til að sjá breytingar á vatnshæð og landslagi fyrir og eftir virkjunarframkvæmdir ef undan er skilið svolítið lón. Annað dæmi er Hvalárvirkjun sem myndi veita afskekktri byggð töluvert aukið orkuöryggi á kostnað Dísil-rafstöðva. Við þurfum orku og getum sótt hana með hagkvæmum hætti en gerum það ekki.
En í raunveruleikanum, fjarri skýrslum samtaka og stofnana sem lifa á verðmætasköpun annarra, er að votta fyrir breytingum í hugarfari. Þjóðverjar og Hollendingar ákváðu nýlega að bora eftir gasi í Norðursjó þvert á fyrri áætlanir, og Bretar eru einnig að opna á slíkt. Skip sem kanna hafsbotninn og bora í hann holur til að leita að olíu og gasi eru að verða uppseld. Afríkuríki vilja sækja miklu meira af jarðefnaeldsneyti sínu en áður jafnvel þótt skýrsluhöfundar í Evrópu og Bandaríkjunum séu á móti því. Rússar leggja bráðum nýja gasleiðslu til Kína sem dregur úr sömu lindum og sjá Evrópu fyrir gasi í dag, og búast við mjög ört vaxandi gasneyslu í Kína á næstu áratugum. Í Brasilíu sækja menn olíu og gas á sífellt meira dýpi og gengur vel að auka framleiðslu sína.
Kannski er of seint í rassinn gripið núna að spýta í lófana til að afstýra fjölda dauðsfalla þegar vetrarkuldinn leggst yfir Evrópu í haust en menn eru nú samt, sem betur fer, að vakna aðeins. Skýrslur má nota sem eldsneyti á meðan jafnvægi næst á ný. Olían og gasið bíður eftir okkur, jafnvel upp við strendur Íslands. Sækjum þessi verðmæti og njótum samhliða því sem við könnum nýja orkugjafa fyrir mannkynið og staðbundnar lausnir þar sem við á.
Ekki seinna en núna strax.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 7. ágúst 2022
Fjárfestingatækifæri: Útfararþjónustur
Nú þegar verðbólga er í himinhæðum, skuldir almennings og ríkissjóða víðast hvar í sögulegu hámarki, mikil óvissa ríkir á heimssviðinu og allskyns hamfarir og plágur að geysa (a.m.k. í fjölmiðlum) þá er erfitt fyrir hinn samviskusama fjárfesti að finna góða fjárfestingakosti.
En mögulega er ráð við því: Útfararþjónustur.
Blaðamaðurinn Alex Berenson segir okkur aðeins frá þessu. Útfararþjónustur hafa upplifað mikla uppsveiflu seinustu misseri. Í fyrstu var talið að þetta væri tímabundin uppsveifla, því að skæð veira væri að taka þá sem hefðu hvort eð er fallið í valinn af einhverjum ástæðum í náinni framtíð, og að framundan væru eðlilegri tímar. En nei, ekkert að óttast! Dauðsföll eru ennþá miklu fleiri en venjulega og útfararþjónusturnar taka eftir því, mögulega miklu fyrr en aðrir (og þá sérstaklega sprautuyfirvöld). Og samtök þeirra tala um bjarta tíma á fjárfestingarráðstefnum sínum, og um að hér sé góður staður að fjárfesta.
Nú held ég því auðvitað ekki fram að sprautunum sé um að kenna, eða þakka (fer eftir því hvaða hagsmuna maður hefur að gæta). Ungt fólk, meðal annars, er að hrynja niður eins og flugur og enginn veit af hverju. Of mikið koffín? Of stífar æfingar? Það vantar ekki kenningarnar. En hvað hefur breyst núna frá því fyrir bara 2-3 árum? Nú fyrir utan að veira kom fram sem réðist fyrst og fremst á háaldrað fólk. Sprauturnar, eða hvað? Og fjórði skammtur á leið í haust? Ekki seinna vænna en að byrja fjárfesta, strax!
Föstudagur, 5. ágúst 2022
Tilraunir
Ég er hlynntur tilraunum, að prófa eitthvað nýtt, að finna nýjar lausnir, að leysa vandamál með nýjuð leiðum, að prófa sig áfram og gera mistök og læra af þeim. En stundum erum við bara að reyna laga eitthvað sem virkar með einhverju sem hljómar vel, og framkvæmum skemmdarverk.
Ég rakst á þessa tilvitnun og má til með að skrifa út frá henni:
Við erum að reyna laga kapítalismann með alla sína auðsköpun og misskiptingu (eins og einhver sé að skipta), en erum að eyðileggja hann. Í staðinn kemur eitthvað verra.
Við hentum veiruvarnarleiðbeiningum sem virkuðu ágætlega í ruslið og innleiddum eitthvað miklu verra sem hefur haft hræðilegar afleiðingar í för með sér.
Við erum að reyna losna við jarðefnaeldsneyti og upplifum núna orkuskort.
Við erum að reyna minnka losun á snefilefnum í loftið og í leiðinni rýra lífskjör okkar og möguleika til að takast á við síbreytilegt loftslagið.
Allt þetta gerum við af slíkri stærðargráðu að neikvæðar afleiðingar verða gríðarlegar. Gamla góða tilraunastarfsemin, þar sem margar litlar tilraunir eru gerðar og mistök breiða lítið úr sér, eru á undanhaldi. Fjármálabólan sem sprakk um aldamótin (dot com bólan) gerði nokkra fjárfesta fátæka. Bankahrunið tæpum áratug seinna gerði ríkissjóði fátæka. Ríkissjóðahrunið sem er framundan mun steypa heilu hagkerfunum í glötun.
Af því leiðin þangað hljómaði svo vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 5. ágúst 2022
Dönsk stjórnmál og umræða
Í athugasemdum við færslum á þessari síðu er stundum gefin til kynna mikil þörf á að ég fjalli um dönsk stjórnmál og danska umræðu frekar en íslenska. Sú íslenska komi mér varla við því ég bý í Danmörku! Ég eigi að ræða sveitastjórnarmál í Tårnby en ekki Reykjavík.
Gott og vel, kannski er mikil eftirspurn eftir slíku, þótt hjarta mitt slái miklu frekar fyrir móðurjörð mína og fólkið mitt þar. Ég ræði um dönsk stjórnmál og tek þátt í viðræðum við Dani um það sem fer fram hér í landi en kannski íslenskir lesendur séu ákaflega áhugasamir um slíkt, og sjálfsagt að verða við því.
Í danska ríkisfjölmiðlinum DR var um daginn fjallað um þá vel þekktu aðferðafræði úkraínskra hersins að hreiðra um sig í skólum og spítölum og gera þannig almenna borgara að skotmörkum. Frettin.is fjallaði um þetta í ítarlegu máli. DR tók ekki afstöðu með rússneska hernum þótt þeir hafi bent á hættuspil úkraínska hersins. Nei, hann flutti einfaldlega fréttir. Íslenskir fjölmiðlar eiga hér langt í land í fjölmiðlafræðum. Mikið er gott að sjá suma Íslendinga lesa aðeins á öðru tungumáli en íslensku.
Í sveitarfélaginu Tårnby, sem ég bý í til að vera sem næst alþjóðaflugvellinum, heldur þessa dagana breski tónlistarmaðurinn Ed Sheeran fjölmenna tónleika, fjóra daga í röð. Svæðið troðfyllist af fólki, umferðin fer í lamasess og lætin eru gríðarleg. Ég heyri í þeim á heimili mínu, 3 km frá tónleikastaðnum. Enn er hægt að fá miða á tónleikana í kvöld og annað kvöld ef einhver er í stuði.
Í öðrum fréttum úr sveitarfélagi mínu má nefna áætlanir um að byggja göng sem tengja saman suðurhluta Amager (eyjan sunnan af Kaupmannahöfn) við miðbæinn (kort). Í fréttabréfi borgarstjóra segir að þetta séu góð tíðindi og ekki þurfi að gera neinar lóðir upptækar.
Rússneski sjóherinn flytur þessa dagana mörg skip og kafbáta til Eystrasalts með viðkomu í dönsku hafsvæði. Þessi skip og kafbátar eru víst að fara taka þátt í stórri hersýningu. Dönsk yfirvöld fylgjast vel með þessu og fylgja þessum fleyjum áleiðis.
Danir ætla að fjórfalda rafmagnsframleiðslu með vind og sól á næstu 8 árum. Orka er góð og gott að menn ætli að framleiða sem mest af henni þótt það eigi að gera með dýrustu, óhagkvæmustu og óáreiðanlegustu aðferðunum. Veturinn 2023-2024 verður endurbótum á danska gasvinnslusvæðinu Tyra lokið og þá fer gasið að streyma aftur úr því. Núna í vetur tengist danska gasnetið við norskar gaslindir í gegnum Baltic Pipe rörið á leið þess til Póllands. Kannski orkukreppu Evrópusambandsins verðir afstýrt aðeins í Danmörku. Maður vonar. Það fer svolítið eftir því hvað Norðmönnum tekst að sjúga mikið gas úr sínum lindum, en Norðmenn hafa aldrei hægt á sínum framkvæmdum með olíu og gas og aðrir, sem vanræktu slíkt, njóta nú góðs af því.
Mjög heitt er undir danska forsætisráðherranum, Mette Frederiksen. Ný skoðanakönnun sýnir að þriðja hverjum Dana finnst hún ekki standa sig í stykkinu (og svipað margir telja hana standa sig vel). Allskyns hneykslismál hafa elt hana á röndum síðan hún fyrirskipaði ólöglega aflífun á öllum minkum í Danmörku til að berjast við veiru sem flestir hrista af sér vandræðalaust. Glænýr flokkur, Danmarksdemokraterne, er að stökkva inn á sviðið og mælast með 20% fylgi. Sá flokkur er dæmigerður danskur flokkur en undir forystu konu sem er búið að reyna knésetja en er í staðinn búið að hefja til skýjanna. Næstu kosningar verða spennandi að því marki að danskar kosningar geti verið það.
Ég læt þetta gott heita í bili með fréttir frá Danmörku og Tårnby en ef ákall um slíkt kemur aftur þá bregst ég auðvitað vel við.
Föstudagur, 5. ágúst 2022
Tvær tegundir Íslendinga
Nú bý ég erlendis og þarf að styðjast við símtöl, skrifleg samskipti og ýmsa miðla til að vita hvað er í gangi á Íslandi og hvað er á milli tannanna á fólki. Það gefur ekki alltaf rétta mynd, og eftir að hafa verið 3 vikur á Íslandi hef ég myndað kenningu um Íslendinga (sem á sennilega við um fleiri þjóðir): Að það séu tvær tegundir Íslendinga.
Stundum blunda þessar tvær tegundir í sömu manneskju. Aðstæður ráða því hvor er ríkjandi. En stundum er fólk bundið við aðra tegundina.
Þessar tvær tegundir má til einföldunar kalla Landsbyggðaíslendinginn (LÍ) og Borgaríslendinginn (BÍ).
BÍ er mjög upptekinn af reglum og því hvað yfirvöld segja. Hann gekk með grímu í tvö ár, ferðaðist helst ekki neitt, heilsaði með olnboganum og lét sprauta sig ítrekað, og bíður nú spenntur eftir enn einni sprautunni. Hann sigar lögreglunni á nágranna sína og verslar ekki óvottaðan þorramat.
LÍ lifir meira eftir eigin reglum. Hann sprengir flugelda í júlí til að skemmta börnum, hendir í bálköst til að losna við ónýtt timbur og bruggar landa í hlöðunni sinni. Börnin hans leika sér úti í náttúrunni jafnvel þótt þar séu hættur á ferð og hann geymir matarafganga við stofuhita þótt örverur geti farið á stjá.
Ég ræddi við mann sem vissulega hegðar sér eins og BÍ en er í raun LÍ, innst inni. Hann sagði mér frá svolitlu vandamáli sem hann þurfti að leysa. Gamalt fjárhús hafði verið rifið og eitthvað þurfti að gera við timbrið, og nærtækast að kveikja í því. Maðurinn kynnir sér allar reglur, að hætti BÍ, og byrjar að hringja. Hann hringir í sveitarfélagið, slökkviliðið og aðra aðila og þar benda menn hver á annan. Enginn vissi hver ætti að gefa leyfi, samþykkja eða vera upplýstur. Á endanum er honum hálfpartinn sagt að kveikja bara í, sem hann gerði, afleiðingalaust.
Hvað hefði hreinræktaður BÍ gert? Hann hefði sennilega setið uppi með timbrið eða látið keyra það á milli landshluta með tilheyrandi kostnaði og sóun á auðlindum.
BÍ og LÍ takast víða á. LÍ er núna á leiðinni að skoða eldgos á meðan BÍ bíður eftir grænu ljósi frá forsetanum. LÍ er að kæsa skötu í óvottuðum skúr við einhvern fjörðinn á meðan BÍ er að leita að stimpli einhvers eftirlitsins. Stundum breytist BÍ í LÍ, t.d. þegar hann er á tjaldferðalagi, en stundum breytist LÍ í BÍ, til dæmis þegar sprautuhallir eru opnar og textaskilaboðin flæða inn frá hræðusmálastofnunum ríkisins.
Ég held með LÍ, svo því sé haldið til haga, og reyni að vera sú tegund Íslendings jafnvel þótt frétta- og samfélagsmiðlar séu að segja öllum að vera BÍ. Þau skilaboð eru ekki rétt lýsing á íslenskum aðstæðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 4. ágúst 2022
Flatur flokkur
Hér sést fylgi flestra stjórnmálaflokka frá árinu 2004 samkvæmt Þjóðarpúls Gallup:
Fjármálaskellurinn sést þarna vel á fylgi Sjálfstæðisflokksins (blá lína). Flokkurinn fór úr því að vera 35%-40% flokkur í rúmlega 20%. Bjarni Benediktsson tók við formannsstól flokksins árið 2009. Fylgið hefur verið nokkuð stöðugt allan þann tíma.
Ef Bjarni verður áfram formaður heldur fylgið áfram að vera rétt yfir 20%. Það er kannski vert að hafa í huga. Hann hefur boðað að flokkurinn sé enginn frjálshyggjuflokkur og svo sannarlega staðið við það. Flokkurinn hefur raunar aldrei verið neitt slíkt og ekki einu sinni nálægt því en stundum hafa ungliðahreyfingarnar teygt sig í þá áttina og mótað stefnu seinni tíma, svo sem að vilja afnema ríkiseinokun á hinu og þessu. Í stjórnmálum gerast hlutir oft hægt.
En af hverju er mér ekki alveg drullusama? Jú, því ég hef taugar til Sjálfstæðisflokksins. Ég var í nokkur ár skráður meðlimur í honum þar til ég gat það ekki lengur. Sjálfstæðisflokkurinn er sá eini sem vill að ríkisreksturinn sé í lagi og þegar hann hefur fengið að ráða hefur hann jafnvel lækkað skatta og afnumið. Enginn annar flokkur hefur slíkt á ferilskrá sinni nema hafa verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Flokkurinn mun samt ekki hafa nein raunveruleg áhrif ef hann hangir í 20% fylgi og þarf að reiða sig á blessun tveggja samstarfsflokka og jafnvel fleiri í stjórnarsamstarfi.
En hann mun heldur ekki stækka neitt ef ekkert breytist.
Og kannski þýðir það nýjan formann, en til vara formann sem hættir að skoða skoðanakannanir og fer í staðinn að lesa grunnstef flokks síns, þar sem meðal annars stendur:
Afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu eiga umfram allt að vera takmörkuð og heyra til undantekninga. Ríkið lifir ekki sjálfstæðu lífi, það er til fyrir fólkið og vegna fólksins, ekki öfugt. ...
Frelsi verður aldrei tryggt í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna eru önnur kjörorð Sjálfstæðisflokksins Báknið burt.
Kannast einhver við þessi orð með því að skoða verk flokksins í ýmsum málum? Það þætti mér hæpið.
Ef báknið væri í raun og veru á leiðinni burt eftir samfellda stjórnarsetu flokksins frá 2013 hefði athafnamaður nokkur ekki sagt eftirfarandi orð árið 2011 sem eiga enn betur við í dag en þá:
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Ef báknið væri eitthvað að minnka þá væri skattbyrði á Íslandi ekki með því hæsta sem þekkist meðal þróaðra ríkja.
Ef báknið væri að einbeita sér að almenningi þá væri ekki til sérstakt loftslagsráð sem vantar enn einn opinbera framkvæmdastjórann.
En gott og vel, skráðir meðlimir Sjálfstæðisflokksins sem mæta á landsfund hljóta auðvitað að ráða þessu. Gangi þeim vel!
Bjarni vill halda formannsstólnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 4. ágúst 2022
Spár hinna viðurkenndu fræðimanna
Í skemmtilegri grein í Morgunblaðinu eftir Hauk Ágústsson er farið yfir nokkrar af dómsdagsspám spekinga og fræðimanna undanfarna áratugi. Þeir spáðu ísöld, hungursneyðum, hráefnaskorti og olíuþurrð. Ekkert hefur ræst.
Í dag spá þeir farsóttum, hamfarahlýnun og eyðingu náttúrunnar.
Ætli þær spár séu eitthvað betri? Eru tölvurnar orðnar nógu fullkomnar til að spá fyrir um framtíðina?
Auðvitað er mögulegt að allar hamfaraspár rætist. Við getum haldið áfram að eyðileggja kapítalismann og þá auðsköpun sem hann færir mannkyninu. Ríkt fólk notar olíu og gas, ræktar skóga og heimtar hreint vatn og loft. Fátækt fólk heggur skóga og losar skólpi og rusli í náttúruna. Ef baráttan gegn fátækt missir máttinn, eins og hún gerði á veirutímum vegna takmarkana, þá geta hræðilegustu framtíðarspár vissulega ræst.
En annars ekki, eins og sagan sýnir okkur.
Lokaorð Hauks eru ágæt áminning:
Er ekki tími til kominn að við hættum að láta hræða okkur með ógnarspám? Heimurinn átti að farast fyrir áratugum, en hann gerði það ekki. Spár samtímamanna okkar, eins og spár fortíðarinnar, eru tímasettar, sem hinar fyrri. En er ekki langlíklegast og reyndar sem næst víst að þær séu jafn haldlitlar og spár viðurkenndra fræðimanna fyrri tíðar reyndust vera?
Sammála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)