Raunsæi og orka

Orkuskortur hrjáir marga Jarðarbúa. Sumir Jarðarbúar hafa átt við hann alla tíð með því að hafa ekki aðgang að neinni orku. Þeir brenna prik og gras og elda mat sinn innandyra í reykmettuðum húsum sem skaða heilsu allra og draga jafnvel til dauða. Aðrir hafa losnað við orkuskortinn á seinustu árum en upplifa hann nú aftur, ýmist með því að hafa enga orku eða að hún sé svo dýr að ekki er hægt að kaupa hana. Og svo eru það þeir sem hafa orku en þurfa að borga miklu meira fyrir hana en áður.

Þetta ástand má skrifa á nokkur atriði. Staðbundin átök í austurhluta Úkraínu hafa til dæmis haft einhver áhrif, ýmist vegna stjórnmála, viðgerða eða viðskiptahindrana. En aðalvandamálið er heimatilbúið og einfalt að skilgreina: Vanræksla á að sækja hagkvæmt jarðefnaeldsneyti í jörðu.

Á örlitlu frímerki á Jarðarkringlunni sem yfirleitt er kallað "Vestur-Evrópa" hafa menn í nokkur ár talið sér trú um að hagkvæma orku sé hægt að framleiða með vindmyllum. Þessi trú hefur ekki bara haft staðbundin áhrif. Nei, fé sem annars hefði runnið í fjárfestingar í til dæmis Afríku hefur ekki fengið að fjármagna borun eftir olíu og gasi í til dæmis Afríku. Afríku hefur verið sagt að hún geti byggt vindmyllur og fangað sólarorku. Það er hin rétta leið. Það er vistvænt og sjálfbært. Annað fær ekki fjármagn.

Á Íslandi hafa menn lokað á byggingu nýrra virkjana þótt áhrif þeirra á umhverfið séu nálægt því engin. Myndir af áætlaðri Hvammsvirkjun segja sína sögu. Menn þurfa að beita stækkunargleri til að sjá breytingar á vatnshæð og landslagi fyrir og eftir virkjunarframkvæmdir ef undan er skilið svolítið lón. Annað dæmi er Hvalárvirkjun sem myndi veita afskekktri byggð töluvert aukið orkuöryggi á kostnað Dísil-rafstöðva. Við þurfum orku og getum sótt hana með hagkvæmum hætti en gerum það ekki.

En í raunveruleikanum, fjarri skýrslum samtaka og stofnana sem lifa á verðmætasköpun annarra, er að votta fyrir breytingum í hugarfari. Þjóðverjar og Hollendingar ákváðu nýlega að bora eftir gasi í Norðursjó þvert á fyrri áætlanir, og Bretar eru einnig að opna á slíkt. Skip sem kanna hafsbotninn og bora í hann holur til að leita að olíu og gasi eru að verða uppseldAfríkuríki vilja sækja miklu meira af jarðefnaeldsneyti sínu en áður jafnvel þótt skýrsluhöfundar í Evrópu og Bandaríkjunum séu á móti því. Rússar leggja bráðum nýja gasleiðslu til Kína sem dregur úr sömu lindum og sjá Evrópu fyrir gasi í dag, og búast við mjög ört vaxandi gasneyslu í Kína á næstu áratugum. Í Brasilíu sækja menn olíu og gas á sífellt meira dýpi og gengur vel að auka framleiðslu sína.

Kannski er of seint í rassinn gripið núna að spýta í lófana til að afstýra fjölda dauðsfalla þegar vetrarkuldinn leggst yfir Evrópu í haust en menn eru nú samt, sem betur fer, að vakna aðeins. Skýrslur má nota sem eldsneyti á meðan jafnvægi næst á ný. Olían og gasið bíður eftir okkur, jafnvel upp við strendur Íslands. Sækjum þessi verðmæti og njótum samhliða því sem við könnum nýja orkugjafa fyrir mannkynið og staðbundnar lausnir þar sem við á. 

Ekki seinna en núna strax.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

VIÐ-ÞÚ OG - EG- ÖLL UTAN EMBÆTTA OG RIKISSTOFNANA.Verðum við ekki að koma þeim frá sem eru ekki á þeim buxunum,að gefa frá sér völdin og geta aftrað því að landinn byggi nýjar virkjanir sem hafa nær engin áhrif á umhverfið.Spyrjum ekki hversvegna? En stofnum "Verðmætasköpunarflokk" .......
  

Helga Kristjánsdóttir, 9.8.2022 kl. 14:59

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Verðmætasköpunarflokkurinn, VF, hljómar alls ekki illa! Fínt mótvægi við VG þegar þeir þora að tjá sig án ótta við að missa völdin. Planta þessu fræi víðar.

Geir Ágústsson, 9.8.2022 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband