Tvær tegundir Íslendinga

Nú bý ég erlendis og þarf að styðjast við símtöl, skrifleg samskipti og ýmsa miðla til að vita hvað er í gangi á Íslandi og hvað er á milli tannanna á fólki. Það gefur ekki alltaf rétta mynd, og eftir að hafa verið 3 vikur á Íslandi hef ég myndað kenningu um Íslendinga (sem á sennilega við um fleiri þjóðir): Að það séu tvær tegundir Íslendinga.

Stundum blunda þessar tvær tegundir í sömu manneskju. Aðstæður ráða því hvor er ríkjandi. En stundum er fólk bundið við aðra tegundina.

Þessar tvær tegundir má til einföldunar kalla Landsbyggðaíslendinginn (LÍ) og Borgaríslendinginn (BÍ). 

BÍ er mjög upptekinn af reglum og því hvað yfirvöld segja. Hann gekk með grímu í tvö ár, ferðaðist helst ekki neitt, heilsaði með olnboganum og lét sprauta sig ítrekað, og bíður nú spenntur eftir enn einni sprautunni. Hann sigar lögreglunni á nágranna sína og verslar ekki óvottaðan þorramat

LÍ lifir meira eftir eigin reglum. Hann sprengir flugelda í júlí til að skemmta börnum, hendir í bálköst til að losna við ónýtt timbur og bruggar landa í hlöðunni sinni. Börnin hans leika sér úti í náttúrunni jafnvel þótt þar séu hættur á ferð og hann geymir matarafganga við stofuhita þótt örverur geti farið á stjá.

Ég ræddi við mann sem vissulega hegðar sér eins og BÍ en er í raun LÍ, innst inni. Hann sagði mér frá svolitlu vandamáli sem hann þurfti að leysa. Gamalt fjárhús hafði verið rifið og eitthvað þurfti að gera við timbrið, og nærtækast að kveikja í því. Maðurinn kynnir sér allar reglur, að hætti BÍ, og byrjar að hringja. Hann hringir í sveitarfélagið, slökkviliðið og aðra aðila og þar benda menn hver á annan. Enginn vissi hver ætti að gefa leyfi, samþykkja eða vera upplýstur. Á endanum er honum hálfpartinn sagt að kveikja bara í, sem hann gerði, afleiðingalaust.

Hvað hefði hreinræktaður BÍ gert? Hann hefði sennilega setið uppi með timbrið eða látið keyra það á milli landshluta með tilheyrandi kostnaði og sóun á auðlindum.

BÍ og LÍ takast víða á. LÍ er núna á leiðinni að skoða eldgos á meðan BÍ bíður eftir grænu ljósi frá forsetanum. LÍ er að kæsa skötu í óvottuðum skúr við einhvern fjörðinn á meðan BÍ er að leita að stimpli einhvers eftirlitsins. Stundum breytist BÍ í LÍ, t.d. þegar hann er á tjaldferðalagi, en stundum breytist LÍ í BÍ, til dæmis þegar sprautuhallir eru opnar og textaskilaboðin flæða inn frá hræðusmálastofnunum ríkisins.

Ég held með LÍ, svo því sé haldið til haga, og reyni að vera sú tegund Íslendings jafnvel þótt frétta- og samfélagsmiðlar séu að segja öllum að vera BÍ. Þau skilaboð eru ekki rétt lýsing á íslenskum aðstæðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Minnir á muninn á Mannveru og Manneskju.

Guðjón E. Hreinberg, 5.8.2022 kl. 12:21

2 identicon

Þrjár, ef Íslenski flóttamaðurinn er talin með. En meðal einkenna hans er að vera mikill andstæðingur Evrópusambandsins en helga samt starfskrafta sína Evrópusambandslandi þó skortur sé á vinnandi höndum í föðurlandinu, sem kostaði alla hans menntun. Hans helsta umkvörtunarefni meðan fólk var að smitast og drepast í kringum hann var að pöbbar og skólar voru lokaðir og hann þurfti að eyða tíma með börnunum sínum. Frelsi í hans augum er að mega skaða aðra eins og honum listir og að þeir sem eru í valdastöðu gagnvart öðrum fái að nýta sér það, smitberar séu frjálsir til að smita og atvinnurekendur semji beint við starfsfólk án aðkomu verkalýðsfélaga. Og hann treystir aðeins þeim fjölmiðlum sem eru með mjög sterka pólitíska slagsíðu lengst til hægri og hvað oftast reynast fara með rangfærslur og hreinan skáldskap. Hann kýs frekar að uppnefna, formæla og gagnrýna stjórnvöld í Úkraínu, forseta Bandaríkjanna og son hans frekar en að segja eitthvað sem hægt væri að túlka sem neikvætt um Putin. Þó flóttamaðurinn búi í Kaupmannahöfn þá eru borgarstjórnarmálefni Reykjavíkur honum ofar í huga en Kaupmannahafnar. Og flugeldar og stórar brennur, þegar mikil hætta er á gróðureldum og miklu tjóni hjá öðrum, er bara hin besta skemmtun í hans augum.

Vagn (IP-tala skráð) 5.8.2022 kl. 13:08

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Svona, svona Vagn. Er ég ekki að viða að mér þekkingu og reynslu sem má svo nýta á Íslandi við tækifæri? Styrkja flugsamgöngur til landsins? Og efnahag íslenskra tjaldstæða? Var svo að blogga um danskt samfélag, alveg sérstaklega fyrir áhugamenn um það, eins og þig. Og vísa í danska ríkisútvarpið svona til að hafa fjölbreytt efnistök.

Geir Ágústsson, 5.8.2022 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband