Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022
Þriðjudagur, 31. maí 2022
Þægileg innivinna
Alls hafa 46 einstaklingar verið skipaðir af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í fjóra starfshópa, eina verkefnisstjórn og eina samráðsnefnd og er þeim ætlað að rýna í sjávarútveginn.
Hljómar eins og þægileg innivinna fyrir vini og vandamenn. Það er ekkert mál að skrifa skýrslur út frá fyrirfram pöntuðum niðurstöðukafla (að það þurfi einhvern veginn að krækja í fjármuni sjávarútvegsins og koma í ríkissjóð og ekki má gleyma kjördæmapoti).
46 manna hópur er auðvitað alltof fjölmennur og mun ekki komast að neinni niðurstöðu. Þess vegna er sniðugt að skipta honum í allskyns undirhópa og síðan má skrifa tíu blaðsíðna skýrslu og gera vinnu allra hópanna að viðhengjum sem enginn les.
Loðið orðalag er hérna lykilatriði. Ráðherra þarf að geta túlkað vinnuna og taka tillit til strauma og stefnu stjórnmálanna hverju sinni þegar túlkun er valin.
Þegar kemur að því að brenna fé á báli eru fáir betri en ráðuneytin. Og hérna eru fáir ráðherrar betri en veiru- og liðskiptamálaráðherrann fyrrverandi sem hefur aldrei leyst vandamál en búið til þeim mun fleiri.
Svandís skipar 46 til að rýna í sjávarútveginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Sunnudagur, 29. maí 2022
Skvaldrið í fílabeinsturninum
Nú þegar fólk er smátt og smátt að ranka við sér úr því roti sem það var slegið í með veirutali og hræðsluáróðri þurfa leiðtogar heimsins enn á ný að finna upp verkefni fyrir sjálfa sig. Á þessari síðu (weforum.org) má fá svolitla innsýn í hvaða áætlanir er verið að kokka upp fyrir okkur - hvaða ótta og hræðslu við eigum helst að halda í og hvaða lausnir okkur verður boðið upp á.
Það þarf auðvitað að sprauta meira gegn kóvít, auðvitað. Líka þá fátækustu. Veiran er að gerast landlæg en það er víst ekkert gleðiefni - malaría er jú líka landlæg og hún er ekkert grín, bendir einn á.
Það þarf auðvitað að hliðra til peningum almennings svo sumir fái meira og aðrir minna. Nema þú sért milljarðamæringur.
Það þarf einhvern veginn að stokka upp hagkerfi heimsins. Byggja það upp á nýtt, einhvern veginn betur, með meiri endurvinnslu og minni losun á koltvísýringi. Mörg spennandi verkefni þar til að dæla skattfé í, að sjálfsögðu.
Svo vantar okkur meira traust. Já, þetta segir manneskja sem tilheyrir klúbbi sem hefur logið að okkur stanslaust og notað til þess gríðarlega fjármuni. Tilraun til heilaþvottar sem tókst ágætlega.
Það tók stofnanda klúbbsins ekki nema nokkrar vikur vorið 2020 að hrista saman heilli bók um hvernig veiran er tækifæri til að stokka upp á nýtt. Á þeim tíma var ennþá verið að segja okkur að fletja út kúrvu og fara varlega í kringum ömmu gömlu í nokkrar vikur en höfundur sá eitthvað annað og meira. Vorið 2020 voru samtök veruleikafirrtra leiðtoga að vara við miklum röskunum í 18 mánuði á meðan Þórólfur var að tala um að allt væri á réttri leið. Eitthvað passar þarna illa saman.
En þótt traust mitt á þessum strengjabrúðum sé ekki neitt þá er athyglisvert að sjá hvað er verið að skipuleggja fyrir okkar hönd og kannski reyna að finna leiðir til að lágmarka skaðann af slíku.
Ósprautaður ætla ég,
ekki að losun minnka.
Kjöt að diski mínum dreg,
í Dísel-tank ég grynnka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Föstudagur, 27. maí 2022
Stórfrétt! Hið opinbera að hugsa í lausnum!
Háskóli Íslands hefur fallist á ósk heilbrigðisráðuneytisins um að flýta útgáfu brautskráningarskírteina þeirra nemenda í læknis-, hjúkrunar- og lyfjafræði sem útskrifast í vor. Útgáfa starfsleyfis frá embætti landlæknis tekur að jafnaði eina til tvær vikur frá því að umsókn með prófskírteini hefur borist. Breytingin mun flýta því fyrir um tæpan mánuð að hlutaðeigandi geti ráðið sig til starfa með fullgild réttindi á heilbrigðisstofnunum.
Þetta heitir að hugsa í lausnum og ég er satt að segja mjög undrandi á að það sé gert innan hins opinbera.
Mætti hugsa sér að heimagerð og auðleysanleg vandamál leynist annars staðar? Að svifaseint og þunglamalegt opinbert batterí standi víðar í vegi fyrir lausn vandamála eða því að rekstur geti hafist?
Já, auðvitað. Dæmin eru endalaus. Hið almenna viðhorf hins opinbera er að fyrst þurfi að biðja það um leyfi og síðan má hefjast handa. Þetta er breyting frá fyrri tímum, eða svo ég vitni í Helga í Góu sem sagði fyrir nokkrum árum:
"Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin."
Og þarna vildi reyndur veitingamaður einfaldlega fá að djúpsteikja kjúkling.
Ég sá lítið dæmi um daginn. Ef þú keyrir ferðamenn um og vísar þeim á veitingastað þá ertu bílstjóri. Ef þú hjálpar sama hóp við að finna sér gistingu þá ertu allt í einu orðinn ferðaþjónustuaðili og þarft að sækja um einhver leyfi. Til hvers? Hótelið er væntanlega með sín leyfi. Fólk bókar sér gistingu þar í gegnum leitarsíður og bókunarvélar. En segi bílstjórinn þinn þér hvar er gott að gista þá tekur við einhver annar veruleiki - eitthvað annað lagaumhverfi hreinlega. Einhver blýantsnagarinn fær vinnu út á þetta hringleikahús en allir aðrir tapa.
Annað dæmi sem mér barst til eyrna er að ef manneskja útskrifast með kandídatsgráðu í sálfræði frá dönskum háskóla þá þarf í starfsleyfisumsókn á Íslandi að koma fram einhver yfirlýsing frá dönsku fagráði um að sama nám uppfylli einhverja löggjöf Evrópusambandsins - nokkuð sem þetta fagráð telur skólann eiga að tjá sig um en hið íslenska ríkisvald því ósammála, og pattstaða komin upp. Og ég sem hélt að það væri skortur á sálfræðingum á Íslandi? Greinilega ekki ef menn telja sig geta verið án fólks með danskar gráður.
Ég legg til að hið opinbera á Íslandi boði á sinn fund reynda íslenska fagmenn í einkageiranum sem hafa rekið fyrirtæki í fjölbreyttum greinum og fái þá til að kveikja í ónauðsynlegum lögum og reglum og liðka aðeins fyrir atvinnulífinu. Einhverjir munu sjálfsagt gagnrýna slíkt og telja að verið sé að innleiða villta vestrið en það er bara kerfið að verja sjálft sig og er óhætt að hunsa.
Kunna fleiri ráðherrar en sá í heilbrigðisráðuneytinu að hugsa í lausnum? Vonum það!
Fá starfsleyfi fyrr til að mæta manneklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 26. maí 2022
Beðið eftir uppgjörinu
Hún fer alveg að detta inn, er það ekki? Verk í smíðum, gögnum safnað saman og þau greind, texti skrifaður, umbrotsvinna hafin. Já, hún fer alveg að detta inn, það hlýtur að vera: Skýrslan sem heilbrigðisyfirvöld eru að útbúa sem fjallar um, í ljósi reynslu, gagna og yfirferða, hvort mannslífum hafi í raun verið bjargað með sóttvarnaraðgerðum seinustu tveggja ára.
Slík skýrsla mun að sjálfsögðu ekki bara taka með í reikninginn andlát sem eru skrifuð á eina tiltekna veiru. Nei, hún mun auðvitað líka fara yfir hvað allar veirur taka mörg líf á venjulegu ári. Hún mun fara yfir afleiðingar þess að ýmsum skimunum og aðgerðum var frestað - hvað margir eru í dag þunglyndir öryrkjar með ónýta liði sem hefðu annars verið vinnandi og hamingjusamir einstaklingar. Hún mun fjalla um töpuð námsár, skertan félagsþroska og neikvæðar afleiðingar einangrunar. Hún mun fjalla um afleiðingar aðgerða og lokana á efnahag samfélags og einstaklinga. Heildarmyndin verður dregin fram og að því loknu ályktað hvort þetta hringleikahús hafi á einhvern hátt borgað sig og vera orðinn vænlegur valkostur fyrir veirur framtíðar eða hvort lækningin hafi mögulega verið verri en sjúkdómurinn.
Nú er ekki víst að lítið opinbert embætti á Íslandi hafa getuna til að taka að sér svona umfangsmikla greiningarvinnu en ég læt þá duga að eitthvert heilbrigðisyfirvaldið í einhverju þróuðu ríki fari í slíka naflaskoðun sem má svo mögulega heimfæra á önnur ríki.
Bara eitthvert heilbrigðisyfirvald, einhvers staðar.
Er sú skýrsla til? Eða þarf hér að treysta á vinnu aðila utan innvígðra til að kryfja það sem þarf að kryfja?
Eins og Jonas Herby, Lars Jonung og Steve H. Hanke?
Kannski, en sjáum til.
Miðvikudagur, 25. maí 2022
Á Evrópa að sameinast um það eitt að fara í stríð við Rússland?
Evrópa er sundruð hjörð. Innan Evrópu ríkja óteljandi skoðanir á öllu. Evrópuríki ræða og reikna, ná samkomulagi, gefa eftir, miðla málum. En þau fara ekki í stríð, og það er mikilvægt.
Núna hefur Rússland brotið þennan óformlega samning um að verða sammála um að vera ósammála. Rússnesk yfirvöld sjá eitthvað athugavert við stjórnarfarið í Úkraínu - að þar séu einhverjar hreyfingar á ferð, einhver þjóðarmorð, einhver svik á samningum - en hið þögula samkomulag var brotið. Hermenn voru sendir yfir landamæri, borgir sprengdar í loft upp og óbreyttir borgarar sendir á flótta.
Hvernig á að svara slíku? Með því að brjóta hið þögula samkomulag aftur? Auðvitað ekki.
Að loka á öll viðskipti við innrásaraðilann? Auðvitað ekki. Hvers vegna ekki? Því þá frýs fólk og sveltur í þeim ríkjum sem þykjast vera standa í hárinu á innrásaraðila. Og raunar þjást óbreyttir borgarar hvar sem er.
Að hlusta á báða aðila, greina ósættið í ljósi sögunnar og núverandi aðstæðna, og koma á viðræðum með þann útgangspunkt? Mögulega, en ekki sú leið sem er farin. Okkur hérna megin átakalínanna er sagt að innrás Rússlands í Úkraínu sé óskiljanlegt áróðursbragð og að í Úkraínu séu englar við völd sem hafa ekki einn blett á ferilskrá sinni.
En ég vona svo sannarlega ekki að það eigi að taka frekari skref í áttina að því að lýsa yfir stríði við Rússa, beint eða óbeint. Rússar eru að styrkja tengsl sín við Asíu og Miðausturlönd og heimurinn að klofna í tvennt, sem er slæmt. Við tökum kannski ekki eftir því fyrr en Kínverjar hætta allt í einu að framleiða iPhona-tækin okkar og það verður ómögulegt að kaupa hráefni í byggingar, en afleiðingalaus verður slík skipting á heiminum ekki.
Kannski Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafi nokkuð til síns máls: Að leyfa Rússum að vera í Rússlandi og Úkraínumönnum að vera í Úkraínu. Annað eins hefur nú gerst. Það er ekkert heilagt við landamæri annað en að einhver lagði á sig að teikna þau í kortabækur.
Vesturlönd skorti styrk og samstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 25. maí 2022
Það sem íslenskur fjölmiðill segir að norskur fjölmiðill segi um sænsk meðmæli
Stjórnvöld í Svíþjóð hafa mælt með að fólk í áhættuhópum og eldriborgarar hljóti fimmta bóluefnaskammtinn gegn Covid-19. Þetta segir á vef norsku sjónvarpsstöðvarinnar tv2 og blaðamaður Morgunblaðsins endurvarpar.
Samkvæmt íslenskum fjölmiðli segir norskur fjölmiðill um sænskar leiðbeiningar einnig að sænsk heilbrigðisyfirvöld mæli með því að börn á aldrinum 12 til 17 ára séu bólusett með tveimur skömmtum og börn með skert ónæmiskerfi séu bólusett frá 5 ára aldri.
En hvað segja Svíarnir sjálfir, beint og milliliðalaust? Um það má lesa hér.
Vuxna 1864 år rekommenderas vaccination med tre doser, enligt nuvarande rekommendation. I höst kan dessa personer från 18 år få ytterligare en påfyllnadsdos, dos 4, om de önskar.
Regionerna kommer att erbjuda vaccin för alla vuxna som vill ha en fjärde dos, och vaccin till dos 13 för den som inte tagit dessa doser ännu.
Risken för allvarlig sjukdom bedöms vara låg för friska personer under 65 år som har vaccinerats med tre doser, men risken stiger med åldern. Risken varierar också inom gruppen.
Einnig:
Folkhälsomyndigheten rekommenderar att vissa grupper ska erbjudas en andra påfyllnadsdos (dos 4) av vaccin mot covid-19. Det gäller de som riskerar att ha ett svagare skydd av dos 1 och 2 och första påfyllnadsdosen (dos 3) än andra personer, och som dessutom har en ökad risk för att bli allvarligt sjuk i covid-19 på grund av sin ålder.
Eru þetta sömu meðmæli og íslenskur fjölmiðill segir að norskur fjölmiðill segi um sænsk meðmæli? Kannski fór það framhjá mér en ég sé ekkert um fimmta skammtinn.
Nema það eigi bara eftir að uppfæra heimasíðuna í kjölfar blaðamannafundar í gær. Já, ætli það ekki. En það hefði verið til fyrirmyndar ef blaðamaður hefði eytt 5 mínútum í að finna frumheimildirnar og vísa í þær en ekki apa bara upp eftir norskum fjölmiðli.
Annars skil ég ekki af hverju er ennþá verið að halda uppi hlutabréfaverði lyfjafyrirtækjanna sem framleiða þessi stórhættulegu og nánast gagnslausu efni og hvað þá með því að dæla þeim í óléttar konur og unga krakka. COVID-19 er, með orðum Bill Gates, "disease mainly of the elderly, like flu".
Og eru það ekki aðallega Bandaríkjamenn sem sprauta krakkana sína árlega gegn flensu? Slæmur siður sem við í Evrópu virðumst ætla að taka upp núna, því miður.
Mæla með fimmta skammtinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 23. maí 2022
Ferðasaga
Ég er staddur í Þýskalandi núna í stuttri vinnuferð og þurfti að eyða svolitlum tíma í að kynna mér COVID-reglur landsins eða landshlutans en með þökk flugvallarstarfsfólks og ýmissa heimasíða komst ég til botns í málinu og ferðin gekk snurðulaust fyrir sig.
Ég, sem ekki "fully vaccinated" (þrjár sprautur), þurfti að taka veirupróf sem þurfti vitaskuld að vera neikvætt og að hámarki 48 klst gamalt fyrir brottfarartíma. Gott og vel, gerði það.
Hefði ég haft þrjár sprautur í mér eða að hámarki 90 daga en lágmarki 28 daga gamalt neikvætt próf hefði ég sloppið við það, sem er einkennilegt því er það ekki fjölsprautaða fólkið sem heldur þessum faraldri í gangi? Jafnvel byrjað að þróa með sér aðrar sjúkdóma?
Á flugvellinum í Kaupmannahöfn beið mín ekkert sérstakt nema að setja á mig grímu áður en ég færi inn í flugvélina. Gildir fyrir alla yfir ákveðnum aldri óháð sprautufjölda. Gott og vel, gerði það. Mátti taka grímuna niður við neyslu á mat og drykk og vel undirbúinn með hnetupoka sem var étinn á hraða snigilsins. Var með grímu í kannski 10 mínútur samanlagt í 90 mínútna flugi og enginn að atast í mér. Mjög gott. Setti grímuna samt upp þegar ég pantaði kaffi svona til að flugþjónarnir þyrftu ekki að framfylgja kjánalegum fyrirmælum gegn eigin sannfæringu.
Grímuskylda á flugvellinum í Þýskalandi en mjög fáir með grímu. Gott. Þjóðverjar að slaka aðeins á.
Fyrir utan það er lífið hérna bara nokkuð venjulegt. Ég sá einskonar húsbíl sem var merktur sem prófunarstaður en ekkert fólk nálægt honum.
Mesta hættan á smiti hlýtur að hafa verið frá einhverjum þrísprautuðum og óprófuðum í flugvélinni. En sem betur fer er loftið í svona flugvélum hreinsað margfalt oftar en í öðrum lokuðum rýmum og kannski góð leið að smala smituðu fólki í þær til að lágmarka smithættu. Ekki er loftið í biðsölum flugvalla mjög þægilegt. Kannski grímuskyldan ætti að vera þar og hætta svo þegar stigið er um borð?
Eða að grímuskyldan gildi bara um óprófað margsprautað fólk en ekki hina með hreint heilbrigðisvottorð.
Á morgun held ég aftur til Danmerkur. Ekkert próf en sennilega gríma í flugvélinni (lesist: annar hnetupoki tilbúinn).
Framhald síðar (eða ekki).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 22. maí 2022
Erum við búin að finna upp hið fullkomna samfélag?
Í svolítilli umfjöllun um kvikmyndina Top Gun er mikið fjallað um hvað myndin sé afsprengi tíðaranda síns sem sé ekki sá sami og í dag. Nokkrar setningar úr sömu umfjöllun:
Hún er svo uppfull af testósteróni að ekki verður komist hjá því að flissa. Það ansi margt í henni sem eldist ekki vel ...
Það er áhugavert að horfa á þetta með kynjagleraugunum og held ég að flestar konur myndu álíta Maverick lúða og hefðu enga þolinmæði fyrir svona náunga. En hann flýgur þotu sem fer rosa hratt, á mótorhjól sem segir vrúmm, er óheflaður, gefur yfirvaldinu puttann og klæðir sig í hvítan viðhafnarbúning flughersins á barnum. Top Gun skapar heim þar sem konur falla fyrir slíku, sérstaklega séu þær vel menntaðar og skynsamar. Eða er það ekki? ...
Höfundarnir gengu of langt með persónu Mavericks, hann er alltaf einum of mikið. ...
Það er áhugaverður leikur að skoða barsenuna og kynni Mavericks og Charlie við mökunarferli hænsfugla. ... Ég er ekki frá því að svona framsetning á tilhugalífi hafi gefið ungu fólki einhverskonar brenglaða hugmynd um hvernig karlmenn eigi að nálgast konur og fékk sennilega margan manninn til að halda að slíkar aðfarir virkuðu raunverulega á kvenfólk. ...
Því er það a.m.k. mín tilgáta að Top Gun sé í raun mjög toxic kvikmynd, sem gaf ungu fólki mjög furðulegar hugmyndir um karlmennsku og samskipti kynjanna. ... kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa gífurleg áhrif á tíðarandann og geta jafnvel haft áhrif á siðferðisvitund fólks. ...
Annað vafasamt við Top Gun er hvernig hún upphefur áhættusækni; förum hratt og skeytum ekki um annað fólk. ...
Það er auðvitað mjög auðvelt að gantast með eldri kvikmyndir sem eru skrifaðar inn einhvern tíðaranda sem er úr sér genginn. ...
Top Gun eldist ekki vel á menningarlegu stigi, hún upphefur eitraða hegðun á máta sem aðeins 100 milljón dollara 80´s Hollywood kvikmynd getur. ...
Nú horfði ég á Top Gun um daginn í fyrsta skipti í heilu lagi til að undirbúa mig undir framhaldsmyndina sem er að detta í kvikmyndahús og ég verð að viðurkenna: Þessi kynjagleraugu pistlahöfundar komu mér aldrei til hugar. Mér datt ekki í hug að setjast í hraðskreiðan bíl til að ganga í augun á einhverjum kvenmanni eða ryðjast inn á kvennaklósett. Þegar ég horfði ítrekað á Die Hard myndirnar á sínum tíma leit ég ekki á það sem leiðbeiningar um fataval eða tóbaksnotkun. Þegar ég horfði á Pulp Fiction aftur og aftur sem unglingur var ég ekki að taka niður glósur um hvernig ætti að krækja í kvenmann eins og Umu Thurman.
Auðvitað er allt framleitt í ákveðnum tíðaranda sem á að endurspegla óskir áhorfenda hverju sinni en fyrr má nú vera. Eitruð karlmennska í Top Gun? Ég er viss um að það finnist fjöldi kvenmanna sem sækir í tegundir eins og Maverick: Extróvert einstaklingar sem taka áhættu og láta vaða. Raunar telja ýmsir sálfræðingar að þess slags tegundir einstaklinga séu einmitt taldar eftirsóknarverðar af mörgum ástæðum (en síður að öðrum) og eigi auðvelt með að ná sér í maka.
Og hver erum við að dæma tíðaranda fyrri tíma? Hefur samfélag okkar þróast í stanslausum skrefum upp á við, nær og nær hinum heilaga sannleika? Samfélag sem í dag spýtir strákum ólæsum út úr skólakerfinu? Samfélag þar sem yfirgnæfandi fjöldi fanga og sjálfsmorða tilheyra karlkyninu? Samfélag þar sem karlmenn í forstjórastólum eru öfundaðir af laununum en ekki 70 tíma vinnuvikunum?
Ég veit ekki svarið. Ég kann vel við margt af því sem ég ólst upp við og upplifi sem betur fer töluvert af í kringum mig. Ég er að vinna með Maverick-tegund manneskju: Ungur og frakkur maður sem stundar allskyns áhættusamar íþróttir en er um leið opinn og hress og auðvelt að spjalla við og var kominn með nýja kærustu á nokkrum vikum eftir að sú gamla sagði bless. Ég held að pistlahöfundur hafi rangt fyrir sér - að Maverick sé einhvern veginn úreldur. Ég held að hann hafi aldrei verið vinsælli í raun þótt hann sé óvinsæll í umræðunni. Gefið, auðvitað, að hann haldi höndunum út af fyrir sig og ryðjist ekki inn í kvennaklefann - um það sjá víst aðrir á okkar upplýstu tímum hins nútímalega tíðaranda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 21. maí 2022
Bola í búðir
Þá sjaldan að forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja opna á sér kjaftinn í opinberri umræðu þá er það oftast til að berja á einhverja trommu sem er nú þegar verið að berja á og má ætla að afli viðkomandi vinsælda.
Sjaldgæf en ánægjuleg undantekning frá þeirri reglu birtist nýlega í ummælum forstjóra Ölgerðarinnar sem sér fyrir sér að áfengi fái hillupláss í venjulegum verslunum og að það megi jafnvel auglýsa þann löglega neysluvarning. Jahérna!
Fyrirkomulag ÁTVR er deyjandi. Vinsældir þess eru e.t.v. sæmilegar en með því að versla í ÁTVR er aðallega verið að halda úti stórum starfsmannahópi og mikilli yfirbyggingu einskonar ríkis í ríkinu sem telur sig hafa ákæruvald og myndar sér skoðanir á því hvað er löglegt og hvað ekki.
Einokunarrisi í dauðateygjunum.
Auðvitað tekst Alþingi samt aldrei að svæfa þennan gamla hund að fullu. Þar á bæ er jafnvel enn meiri flótti frá einlægum skoðunum í opinberri umræðu en í atvinnulífinu.
En sjáum hvað setur. Vefverslun Sante hefur í framkvæmd tekið einokunarrekstur ÁTVR úr sambandi með löglegum aðferðum og leysir þar með af hólmi ólöglegar atlögur að ÁTVR-fyrirkomulaginu. Stíflan er í raun brostin. Kannski styttist í að almenningur þurfi ekki lengur að keyra hverfin sín á enda eða í næsta bæjarhluta til að komast í rauðvín með matnum og geti þess í stað skottast í næsta kjarna. Og auðvitað mun kaupmaðurinn á horninu upplifa endurnýjun lífdaga þegar hann fær að selja kippur með kjötinu. Sjálfbær hverfi - var það ekki markmið einhvers staðar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 21. maí 2022
Kínverska uppskriftin gerð alþjóðleg
Nú er fundað á alþjóðlegum vettvangi með það að markmiði að gera kínversku uppskriftina að veiruvörnum að alþjóðlega samhæfðri áætlun. Gaman, ekki satt?
The theme of this years Health Assembly is: Health for peace, peace for health.
The COVID-19 pandemic and other health emergencies with international reach have highlighted the leadership and coordinating role of WHO in responding to such events. Strengthening preparedness for and response to health emergencies are a key theme of the Health Assembly.
Hérna hafa skriffinnarnir eitthvað misskilið undanfarin tvö ár. Engin samræming eða leiðsögn kom frá WHO. Þess í stað fundu einstaka ríki upp sín eigin vísindi, sem betur fer í sumum tilvikum en því miður í öðrum. Fjarlægðatakmarkanir og lokanir voru mismiklar, fyrirmæli um grímunotkun innan- og utandyra gjörólík, skerðingar á borgaralegum réttindum eftir vali á lyfjagjöf mismiklar, áherslur á fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmmeðferðir af öllu tagi og stundum engar, mat á dánarorsökum mjög fjölbreytt og sá hraði sem ríkissjóðir steyptu sér í ósjálfbær skuldafen mismikill.
Hvað er þá til ráða? Að stilla saman strengi á alþjóðlegum vettvangi? Afnema ríkjavísindin og reyna innleiða alþjóðlega viðurkennd vísindi á ný?
Varla þá að snúa aftur til leiðbeininga ársins 2019 sem var sennilega ágæt sátt um, er það?
Nei. Þrýstingurinn er í þá áttina að allir verði sammála um hina kínversku uppskrift að veiruvörnum: Að loka fólk inni, frysta hagkerfið og leyfa fólki í sem minnstum mæli að taka eigin ákvarðanir er varða smitvarnir.
Þetta verður ekki lagalega bindandi. Enn er svigrúm fyrir yfirvegaða nálgun. En þrýstingurinn er til staðar. Fylgja vísindunum! Já, gott og vel, en hvaða vísindum? Þessum kínversku sem á nú að gera alþjóðleg?
Nei takk.
Vonandi hefur nógu mörgum tekist að sjá í gegnum þokuna til að andspyrnan við næstu umferð takmarkana - hvenær svo sem hún kemur en kemur óumflýjanlega - dugi til að verjast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)