Bola í búðir

Þá sjaldan að forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja opna á sér kjaftinn í opinberri umræðu þá er það oftast til að berja á einhverja trommu sem er nú þegar verið að berja á og má ætla að afli viðkomandi vinsælda.

Sjaldgæf en ánægjuleg undantekning frá þeirri reglu birtist nýlega í ummælum forstjóra Ölgerðarinnar sem sér fyrir sér að áfengi fái hillupláss í venjulegum verslunum og að það megi jafnvel auglýsa þann löglega neysluvarning. Jahérna!

Fyrirkomulag ÁTVR er deyjandi. Vinsældir þess eru e.t.v. sæmilegar en með því að versla í ÁTVR er aðallega verið að halda úti stórum starfsmannahópi og mikilli yfirbyggingu einskonar ríkis í ríkinu sem telur sig hafa ákæruvald og myndar sér skoðanir á því hvað er löglegt og hvað ekki.

Einokunarrisi í dauðateygjunum.

Auðvitað tekst Alþingi samt aldrei að svæfa þennan gamla hund að fullu. Þar á bæ er jafnvel enn meiri flótti frá einlægum skoðunum í opinberri umræðu en í atvinnulífinu.

En sjáum hvað setur. Vefverslun Sante hefur í framkvæmd tekið einokunarrekstur ÁTVR úr sambandi með löglegum aðferðum og leysir þar með af hólmi ólöglegar atlögur að ÁTVR-fyrirkomulaginu. Stíflan er í raun brostin. Kannski styttist í að almenningur þurfi ekki lengur að keyra hverfin sín á enda eða í næsta bæjarhluta til að komast í rauðvín með matnum og geti þess í stað skottast í næsta kjarna. Og auðvitað mun kaupmaðurinn á horninu upplifa endurnýjun lífdaga þegar hann fær að selja kippur með kjötinu. Sjálfbær hverfi - var það ekki markmið einhvers staðar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reyndar er ekkert sem segir að Sante sé að beita löglegum aðferðum. Öllum er frjálst, hafi þeir aldur til, að flytja inn áfengi til egin neyslu og greiða þá sjálfir álögð gjöld til ríkisins, sama hvar seljandi er skráður. Það hvort verslun er skráð erlendis eða hér skiptir engu máli, hvort tveggja er löglegt. Það sem er ólöglegt er að flytja inn og selja áfengið hér á landi með öllum tollum og gjöldum þegar greiddum. Það er aðeins neitandinn sem lögin heimila að sé sé innflytjandi og sá sem ber ábyrgð og gjaldskyldu gagnvart tollinum og skattstjóra. Sante, eins og allar aðrar netverslanir, má ekki selja tollafgreitt áfengi hér á landi. Smásala á tollafgreiddu áfengi, sama hvort það er úr vörugeymslu með pósti eða uppúr skotti á leigubíl, er bönnuð. Segja mætti að áhugaleysi stjórnvalda og tregða ákæruvalds og lögreglu við að stöðva þetta lögbrot sé það sem svona starfsemi þrífist á.

Sé ekki ætlunin að passa það að farið sé að lögum ættu menn að breyta þeim frekar en að láta eins og þau séu ekki til. Það er ekki gott þegar geðþóttaákvarðanir stjórnvalda stýra því hvaða lögum er farið eftir og hvaða lög má hundsa. Þegar úrslit Alþingiskosninga geta ráðið því hvort verslunareigandi fari í allt að 6 ára fangelsi.

Vagn (IP-tala skráð) 22.5.2022 kl. 00:30

2 Smámynd: Geir Ágústsson

„Lagðar hafa verið fram kærur til lögreglum, verslunin vænd um skattsvik og sendar tilkynningar til þeirra aðila sem fara með eftirlit með áfengislögum. Því til viðbótar hefur ÁTVR sent erindi til þess ráðuneytis sem fer með yfirstjórn málaflokksins. Þessir aðilar hafa ekki séð neina ástæðu til þess að grípa til neinna aðgerða gagnvart netversluninni.“ 

https://www.vb.is/frettir/krofum-atvr-gegn-sante-visad-fra/

En það má vel vera að þú sért með þekkingu innan úr stjórnkerfinu og vitir að eftir að yfirvöld hafi látið mata sig af gögnum, ábendingum, ályktunum og skoðanapistlum að þá séu þau að hugleiða einhverjar aðgerðir. 

Á meðan njóta margir þess að kaupa fjórar kippur hjá Sante á verði þriggja í ÁTVR.

Geir Ágústsson, 22.5.2022 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband